Aldrei hafa verið fleiri eldisfiskar í sjókvíum við Íslandsstrendur en í ágúst þegar þeir voru tæplega 24,4 milljónir talsins. Það er 18% fleiri skráðir fiskar en á hápunkti síðasta árs í október þegar voru tæplega 20,7 milljónir fiska í sjókvíum hér á landi. Árið 2021 náði fjöldi fiska einnig hápunkti í október þegar þeir voru 20,3 milljónir.
Þetta má lesa úr tölum mælaborðs fiskeldis á vef Matvælastofnunar, en gögnin byggja á skýrslum eldisfyrirtækjanna.
Af þessum 24,4 milljónum fiska í kvíum í ágúst voru rúmlega 15 milljónir á Vestfjörðum og 9,3 milljónir á Austfjörðum. Hefur hlutdeild Austfjarða ekki verið hærri en í ágúst þegar hún var 38%.
Heildarlífmassi í sjó var 36.750 tonn í ágúst sem er aðeins 14,8% meiri í ágúst en í október á síðasta ári og hefur því fjöldi fiska aukist meira en lífmassi. Í október á síðasta ári nam lífmassinn 32.023 tonnum sem var rétt rúmlega 15% minna en í október árið 2021 þegar hann var 37.707 tonn.