227 af 3.500 strokulöxum hafa náðst

Norskir kafarar með skutla sína á lofti í Miðfjarðará í …
Norskir kafarar með skutla sína á lofti í Miðfjarðará í síðustu viku til að hremma eldislaxa sem sluppu úr sjókvíum í Patreksfirði nýverið. Morgunblaðið/Eggert Skúlason

Norsk­ir kafar­ar sem rekköfuðu um helstu laxveiðiár lands­ins vopnaðir skut­ul­byss­um eru farn­ir heim. Þeir náðu 31 eld­islaxi á þrem­ur og hálf­um degi. Í næstu viku kem­ur nýr hóp­ur kafara til að halda hreins­un ánna áfram.

Fiski­stofa fjár­magn­ar komu kafar­anna til lands­ins en samið var við tvö norsk fyr­ir­tæki, Skand Nat og Nor­se. Kostnaður er áætlaður á ann­an tug millj­óna. Guðni Magnús Ei­ríks­son, sviðsstjóri sil­ungsveiðisviðs Fiski­stofu, seg­ir verk­efnið hafa gengið vel en aðstæður til þeirra eru mis­jafn­ar milli ár­svæða og ekki er hægt að kafa alls staðar eft­ir laxi. „Það verður ekki farið með kafara í Blöndu.“

Kafar­arn­ir minna helst á víga­lega sér­sveit­ar­menn og aðfar­irn­ar við veiðarn­ar eru nokkuð harka­leg­ar. Skand Nat sér­hæf­ir sig m.a. í mynda­töku und­ir vatns­yf­ir­borði og hafa veiðarn­ar og upp­tök­ur af þeim verið sýnd­ar í fjöl­miðlum á und­an­förn­um dög­um.

Neyðarástand í stang­veiðinni

Heild­artala eld­islaxa sem hafa náðst með ýms­um aðferðum í sum­ar er 227, aðeins brot af þeim 3.500 stroku­löx­um sem sluppu úr kví Arctic Sea Farm í Pat­reks­firði eft­ir að hún rofnaði. „Við átt­um okk­ur á að það er al­gjör­lega óger­legt að ná öll­um þess­um fisk­um. En ef við náum heild­ar­töl­unni í 3-400 þá er það svaka­legt,“ seg­ir Gunn­ar Örn Peter­sen, fram­kvæmda­stjóri Lands­sam­bands veiðifé­laga. Hann seg­ir þetta vera neyðarástand. Í Húna­vatns­sýslu hafa veiðst 111 eld­islax­ar, 29 í Döl­un­um, sjö í Skagaf­irði og fjór­ir í Eyjaf­irði.

Gunn­ar seg­ir eina ráðið að ala fisk­inn í lokuðum kerf­um. Það hafi t.d. kanadísk stjórn­völd ákveðið að gera.

„Þetta er eins og með ís­lenska efna­hagsundrið, það er sér­ís­lenskt að halda að við mun­um ná að höndla þetta á tveim­ur árum og að eng­inn lax sleppi. Það er ekki mögu­leiki, Norðmenn hafa ekki náð því ára­tug­um sam­an. Stjórn­mála­menn og fisk­eld­is­fyr­ir­tæki virðast halda að tal um erfðablönd­un sé eins kon­ar sam­særis­kenn­ing. Það er alls ekki þannig. Það er ein­hver stór­kost­leg­ur mis­skiln­ing­ur í þessu öllu. Það er staðreynd að ef erfðablönd­un­in held­ur áfram þá hverf­ur villti ís­lenski lax­inn.“

Ham­fara­saga í Nor­egi

Ára­tug­um sam­an hafa Norðmenn beitt rekköf­un í bar­átt­unni við eld­islax­inn og er hún stunduð í 100 ám, tæp­lega fjórðungi ánna. Hver fisk­ur sem næst er dýr­mæt­ur en ár­ang­ur­inn er tak­markaður með sí­auk­inni fram­leiðslu á eld­islaxi í sjókví­um og slepp­ing­um.

„Þetta er eins og að leita að nál í hey­stakki,“ seg­ir Si­men Sa­etre norsk­ur rann­sókn­ar­blaðamaður í sam­tali við Morg­un­blaðið en hann hef­ur rann­sakað lax­eldi í fjölda ára og áhrif þess á bæði sam­fé­lög og nátt­úru.

„Þeir segj­ast ætla að ná öll­um stroku­fisk­in­um í ánum en það er mjög erfitt,“ seg­ir hann. Norski villti lax­inn var sett­ur á vál­ista 2021 og er tal­inn vera í út­rým­ing­ar­hættu. Þrír af hverj­um fjór­um villt­um löx­um hafa orðið fyr­ir erfðablönd­un. Tal eld­is­fyr­ir­tækja í gegn­um ára­tug­ina um að tækni­fram­far­ir komi í veg fyr­ir strok er inn­an­tómt, að mati blaðamanns­ins.

Bjart­sýni í upp­hafi

Lax­eldi í Nor­egi hófst um 1970 með því að erfðabreyta villt­um laxi til að mæta vax­andi eft­ir­spurn eft­ir mat vegna fólks­fjölg­un­ar. Vís­inda­menn blönduðu sam­an genum úr 41 laxveiðiá í Svíþjóð og Nor­egi og bjuggu til fisk sem var bæði stærri, feit­ari og fljót­ari að vaxa en villti lax­inn. Mik­il bjart­sýni var í fyrstu en svo tók að síga á ógæfu­hliðina með al­var­leg­um af­leiðing­um fyr­ir líf­ríkið. Sa­etre nefn­ir til dæm­is skaðsemi eit­urs sem er beitt gegn laxal­ús, það sé mik­il plága í eld­inu.

„Í Nor­egi hafa menn notað mjög skaðlegt eit­ur til að kljást við lýsn­ar en þær eru í aukn­um mæli farn­ar að verða ónæm­ar fyr­ir því. Þetta er teg­und með mjög mikla aðlög­un­ar­hæfni.“

Eld­islax­arn­ir fá sár á hliðarn­ar og verða viðkvæm­ir fyr­ir veir­um, bakt­erí­um og sníkju­dýr­um. „Í sum­um stöðvum eru eld­islax­ar þar sem fjórðung­ur fisk­anna deyr vegna þessa. Þetta er stórt vanda­mál og vek­ur siðferðis­leg­ar spurn­ing­ar og um hvort lög um vel­ferð dýra hafi verið brot­in. Árum sam­an var rætt um það í Nor­egi að lax­eldið myndi ekki hafa nein áhrif en annað hef­ur komið á dag­inn.“

Sa­etre seg­ir eitrið, sem sett er í laxa­kví­arn­ar til að losa lax­ana við lús­ina, ber­ast mun víðar með haf­straum­um en áður var talið.

„Það drep­ur bæði rækj­ur og hum­ar í haf­inu og lúsa­fárið veld­ur lax­in­um einnig vand­ræðum. Norsk­ir laxa­barón­ar, eins og þeir eru kallaðir í Nor­egi, hafa þó hagn­ast vel á eld­inu og eru jafn­vel orðnir millj­arðamær­ing­ar eft­ir að eld­is­fyr­ir­tæk­in voru skráð á markað,“ seg­ir Sa­etre.

mbl.is