227 af 3.500 strokulöxum hafa náðst

Norskir kafarar með skutla sína á lofti í Miðfjarðará í …
Norskir kafarar með skutla sína á lofti í Miðfjarðará í síðustu viku til að hremma eldislaxa sem sluppu úr sjókvíum í Patreksfirði nýverið. Morgunblaðið/Eggert Skúlason

Norskir kafarar sem rekköfuðu um helstu laxveiðiár landsins vopnaðir skutulbyssum eru farnir heim. Þeir náðu 31 eldislaxi á þremur og hálfum degi. Í næstu viku kemur nýr hópur kafara til að halda hreinsun ánna áfram.

Fiskistofa fjármagnar komu kafaranna til landsins en samið var við tvö norsk fyrirtæki, Skand Nat og Norse. Kostnaður er áætlaður á annan tug milljóna. Guðni Magnús Eiríksson, sviðsstjóri silungsveiðisviðs Fiskistofu, segir verkefnið hafa gengið vel en aðstæður til þeirra eru misjafnar milli ársvæða og ekki er hægt að kafa alls staðar eftir laxi. „Það verður ekki farið með kafara í Blöndu.“

Kafararnir minna helst á vígalega sérsveitarmenn og aðfarirnar við veiðarnar eru nokkuð harkalegar. Skand Nat sérhæfir sig m.a. í myndatöku undir vatnsyfirborði og hafa veiðarnar og upptökur af þeim verið sýndar í fjölmiðlum á undanförnum dögum.

Neyðarástand í stangveiðinni

Heildartala eldislaxa sem hafa náðst með ýmsum aðferðum í sumar er 227, aðeins brot af þeim 3.500 strokulöxum sem sluppu úr kví Arctic Sea Farm í Patreksfirði eftir að hún rofnaði. „Við áttum okkur á að það er algjörlega ógerlegt að ná öllum þessum fiskum. En ef við náum heildartölunni í 3-400 þá er það svakalegt,“ segir Gunnar Örn Petersen, framkvæmdastjóri Landssambands veiðifélaga. Hann segir þetta vera neyðarástand. Í Húnavatnssýslu hafa veiðst 111 eldislaxar, 29 í Dölunum, sjö í Skagafirði og fjórir í Eyjafirði.

Gunnar segir eina ráðið að ala fiskinn í lokuðum kerfum. Það hafi t.d. kanadísk stjórnvöld ákveðið að gera.

„Þetta er eins og með íslenska efnahagsundrið, það er séríslenskt að halda að við munum ná að höndla þetta á tveimur árum og að enginn lax sleppi. Það er ekki möguleiki, Norðmenn hafa ekki náð því áratugum saman. Stjórnmálamenn og fiskeldisfyrirtæki virðast halda að tal um erfðablöndun sé eins konar samsæriskenning. Það er alls ekki þannig. Það er einhver stórkostlegur misskilningur í þessu öllu. Það er staðreynd að ef erfðablöndunin heldur áfram þá hverfur villti íslenski laxinn.“

Hamfarasaga í Noregi

Áratugum saman hafa Norðmenn beitt rekköfun í baráttunni við eldislaxinn og er hún stunduð í 100 ám, tæplega fjórðungi ánna. Hver fiskur sem næst er dýrmætur en árangurinn er takmarkaður með síaukinni framleiðslu á eldislaxi í sjókvíum og sleppingum.

„Þetta er eins og að leita að nál í heystakki,“ segir Simen Saetre norskur rannsóknarblaðamaður í samtali við Morgunblaðið en hann hefur rannsakað laxeldi í fjölda ára og áhrif þess á bæði samfélög og náttúru.

„Þeir segjast ætla að ná öllum strokufiskinum í ánum en það er mjög erfitt,“ segir hann. Norski villti laxinn var settur á válista 2021 og er talinn vera í útrýmingarhættu. Þrír af hverjum fjórum villtum löxum hafa orðið fyrir erfðablöndun. Tal eldisfyrirtækja í gegnum áratugina um að tækniframfarir komi í veg fyrir strok er innantómt, að mati blaðamannsins.

Bjartsýni í upphafi

Laxeldi í Noregi hófst um 1970 með því að erfðabreyta villtum laxi til að mæta vaxandi eftirspurn eftir mat vegna fólksfjölgunar. Vísindamenn blönduðu saman genum úr 41 laxveiðiá í Svíþjóð og Noregi og bjuggu til fisk sem var bæði stærri, feitari og fljótari að vaxa en villti laxinn. Mikil bjartsýni var í fyrstu en svo tók að síga á ógæfuhliðina með alvarlegum afleiðingum fyrir lífríkið. Saetre nefnir til dæmis skaðsemi eiturs sem er beitt gegn laxalús, það sé mikil plága í eldinu.

„Í Noregi hafa menn notað mjög skaðlegt eitur til að kljást við lýsnar en þær eru í auknum mæli farnar að verða ónæmar fyrir því. Þetta er tegund með mjög mikla aðlögunarhæfni.“

Eldislaxarnir fá sár á hliðarnar og verða viðkvæmir fyrir veirum, bakteríum og sníkjudýrum. „Í sumum stöðvum eru eldislaxar þar sem fjórðungur fiskanna deyr vegna þessa. Þetta er stórt vandamál og vekur siðferðislegar spurningar og um hvort lög um velferð dýra hafi verið brotin. Árum saman var rætt um það í Noregi að laxeldið myndi ekki hafa nein áhrif en annað hefur komið á daginn.“

Saetre segir eitrið, sem sett er í laxakvíarnar til að losa laxana við lúsina, berast mun víðar með hafstraumum en áður var talið.

„Það drepur bæði rækjur og humar í hafinu og lúsafárið veldur laxinum einnig vandræðum. Norskir laxabarónar, eins og þeir eru kallaðir í Noregi, hafa þó hagnast vel á eldinu og eru jafnvel orðnir milljarðamæringar eftir að eldisfyrirtækin voru skráð á markað,“ segir Saetre.

mbl.is