Þegar dæmið er reiknað til enda

Sunak uppskar mikla gremju hjá bæði loftslagsfrömuðum og fulltrúum atvinnulífsins …
Sunak uppskar mikla gremju hjá bæði loftslagsfrömuðum og fulltrúum atvinnulífsins með ákvörðun sinni, sem felur í sér smávægilega tilslökun. AFP/Alastair Grant

Fyr­ir langa­löngu var ég ör­lítið skot­inn í frek­ar lag­leg­um en ögn vit­laus­um pilti. Ég man ekki al­veg hvað ég var gam­all, en ég var samt til­tölu­lega ný­kom­inn með bíl­próf og til að koma mér í mjúk­inn hjá gutt­an­um bauðst ég til að skutla hon­um og vin­konu hans á milli bæj­ar­hluta.

Það er liðinn nærri ald­ar­fjórðung­ur síðan, en ég man samt að bíltúr­inn gekk ágæt­lega og virt­ist ætla að þjóna sín­um til­gangi. Nema hvað: þar sem við ókum eft­ir Reykja­nes­braut­inni, fram hjá Mjódd og í átt að Smára­torgi, gerði snotri pilt­ur­inn sér lítið fyr­ir, opnaði glugg­ann farþega­meg­in og henti rusli út í veg­arkant­inn, eins og ekk­ert væri sjálf­sagðara. Senni­lega var það gos­dós eða umbúðir utan af skyndi­bita.

Á einu auga­bragði missti ég all­an áhuga. Fólk sem hend­ir rusli á víðavangi er ein­fald­lega af allra lé­leg­ustu sort, og bæði til­lits­laust og til­ætl­un­ar­samt. Þó að pilt­ur­inn hafi verið aga­legt krútt þá var hann mér ekki leng­ur sam­boðinn. Frek­ara skutl var ekki í boði fyr­ir um­hverf­is­sóðann.

Græn­asta lausn­in blas­ir ekki alltaf við

Mér þykir sjálfsagt og eðli­legt að um­gang­ast nátt­úr­una af virðingu og fara skyn­sam­lega með auðlind­ir jarðar, en mér sýn­ist allt of marg­ir nálg­ast um­hverf­is­mál­in eins og trú­ar­brögð eða dyggðaskreyt­ing­ar­keppni, frek­ar en eins verk­efni sem má tækla af skyn­semi og skil­virkni. Oft er eins og gleym­ist að skoða heild­ar­mynd­ina, vega og meta ólíka val­kosti, og leggja áherslu á þær lausn­ir sem skila mest­um ár­angri með minnst­um til­kostnaði. Stund­um verður kappið svo mikið, og for­sjá­in svo lít­il, að betra hefði verið heima setið en af stað farið.

Banda­ríski blaðamaður­inn John Tier­ney gerði þessu fyr­ir­bæri ágæt­is skil í frægri grein sem birt­ist í New York Times árið 1996. Á þeim tíma höfðu Banda­ríkja­menn mikl­ar áhyggj­ur af sorpi og héldu hrein­lega að all­ir ruslahaug­ar lands­ins væru við það að fyll­ast. Vítt og breitt um landið keppt­ust yf­ir­völd við að láta fólk flokka og end­ur­vinna, til að reyna að draga úr sorp-flóðinu, en svo virt­ist sem eng­inn hefði haft fyr­ir því að rýna vand­lega í kostnaðinn eða reynt að áætla ávinn­ing­inn.

Tier­ney komst m.a. að því að ef öllu sorpi Banda­ríkja­manna næstu þúsund árin væri safnað í einn haug, þá myndi hann þekja skika sem væri á við 0,03% af flat­ar­máli lands­ins alls. Vita­skuld myndi haug­ur­inn ekki standa op­inn og ang­andi kyn­slóð fram af kyn­slóð, held­ur mætti ein­fald­lega tyrfa yfir sorpið og breyta í golf­velli og vist­leg úti­vist­ar­svæði.

Ekki nóg með það held­ur afréð Tier­ney að reikna út hvað nýj­ar end­ur­vinnslu­regl­ur New York-borg­ar kostuðu í raun, þegar allt væri talið með: Var ekki nóg með að yf­ir­völd þyrftu að borga meira fyr­ir að losna við hvert tonn af end­ur­vinn­an­legu sorpi, og bæta við nýj­um flota ruslabíla til að sjá um sorp­hirðuna, held­ur glötuðu borg­ar­bú­ar líka ómæld­um vinnu­stund­um við að skola og flokka umbúðir, og þurftu að taka frá dýrt pláss í íbúðum sín­um und­ir alls kon­ar sorpílát. Borið sam­an við venju­lega urðun fékk Tier­ney það út að flokk­un­in og end­ur­vinnsl­an kostaði sam­fé­lagið auka­lega 3.000 dali á hvert tonn af gleri, plasti og málm­um, sem ger­ir nærri 6.000 dali um­reiknað á verðlag dags­ins í dag.

Svona gat Tier­ney haldið lengi áfram, um stórt og smátt: einnota ílát eru t.d. ekki endi­lega svo slæm fyr­ir um­hverfið. Ork­an sem fer í að fram­leiða og þvo postu­líns­bolla er svo mik­il að það þarf að nota hann 1.000 sinn­um til að hann geti tal­ist betri kost­ur en einnota frauðplasts­boll­ar; og að end­ur­vinna tonn af papp­ír býr til nærri 19.000 lítra af úr­gangi. Það sem virðist vera grænt og gott er ekki alltaf besta lausn­in.

Í allri sögu New York Times hef­ur eng­in grein upp­skorið ann­an eins fjölda bréfa frá reiðum les­end­um. Hvað þótt­ist hann eig­in­lega vera, þessi blaðamaður, að skoða hvað hlut­irn­ir kostuðu og hvort þeir gerðu nokk­urt gagn?

Árið 2015 rifjaði Tier­ney upp skrif­in og renndi aft­ur yfir töl­urn­ar. Í þetta skiptið fékk hann út að til að jafna kol­efn­is­sporið fyr­ir það að fljúga á al­mennu far­rými frá New York til London þyrfti að end­ur­vinna 40.000 plast­flösk­ur, sem fyr­ir flesta er ævi­skammt­ur af flösk­um. Ef fólk er síðan skikkað til að skola flösk­urn­ar áður en þeim er skilað til end­ur­vinnslu, og not­ar til þess krana­vatn sem hef­ur verið hitað með raf­magni frá kola­orku­ver­um, þá er orðið um­hverf­i­s­vænna að urða flösk­una með al­mennu rusli frek­ar en að end­ur­vinna hana.

Ritaði Tier­ney að þessu sinni, að það gæti mögu­lega verið rétt­læt­an­legt að end­ur­vinna papp­ír og málma, en hins veg­ar skilaði það sama sem eng­um ár­angri fyr­ir um­hverfið að ham­ast við að flokka og end­ur­vinna plast, mat­araf­ganga og ann­an líf­ræn­an úr­gang.

Skriðþungi græna hag­kerf­is­ins

Það rann upp fyr­ir mér í síðustu viku að ég var ekki al­veg bú­inn að meðtaka það að Ris­hi Sunak væri orðinn for­sæt­is­ráðherra Bret­lands. Það er eins og hafi farið frek­ar lítið fyr­ir „Dis­hy Ris­hi“ en í októ­ber verður liðið ár síðan hann tók við embætt­inu og hef­ur árið verið til­tölu­lega laust við meiri hátt­ar hneykslis­mál og átök – allt þar til í síðustu viku.

Viðbrögðin voru slík að það var eins og himn­arn­ir væru að hrynja: Lét Sunak boð út ganga um að lands­menn myndu fá ögn meira svig­rúm til að ná mark­miðum stjórn­valda um út­blást­ur kolt­ví­sýr­ings, því rík­is­stjórn­in ótt­ast að fyr­ir­hugaðar kvaðir og breyt­ing­ar geti reynst heim­il­un­um í land­inu aðeins of kostnaðarsam­ar ein­mitt núna. Það hef­ur þrengt að breska hag­kerf­inu, og met­ur rík­is­stjórn­in stöðuna þannig að fyrst að gengið hafi nokkuð vel að fikrast nær sett­um um­hverf­is- og lofts­lags­mark­miðum sé óhætt að hægja ferðina ör­lítið og leggja ekki of mikl­ar byrðar á al­menn­ing al­veg strax.

Fyr­ir­hugað bann á sölu bens­ín­bíla fær­ist því frá ár­inu 2030 til 2035, og ekki stend­ur leng­ur til að skikka hús­eig­end­ur til að fjár­festa í rán­dýr­um varma­dæl­um til að draga úr hús­hit­un með gasi.

Sunak lofaði líka að rík­is­stjórn­in taki ekki í mál að inn­leiða öfga­full­ar lausn­ir af nokkru tagi, sem um­hverf­is­vernd­arsinn­ar hafa reynt að halda að stjórn­völd­um, s.s. að leggja á nýja skatta til að letja fólk til að borða kjöt eða ferðast með flug­vél­um, eða fylla bresk heim­ili af ótal flokk­un­ar­tunn­um. Á blaðamanna­fundi tók Sunak sér­stak­lega fram að það væri af og frá að setja skorður á olíu- og gas­vinnslu í Norður­sjó, enda myndi það bara gera landið háð inn­fluttu eldsneyti, sem kaupa þyrfti dýr­um dóm­um, oft frá mis­vönduðum selj­end­um.

Það væri seint hægt að kalla þetta U-beygju hjá Sunak, en skyndi­lega beind­ust öll spjót að hon­um.

Skipta má gagn­rýn­is­rödd­un­um í tvo hópa: ann­ars veg­ar eru þeir sem hafa brenn­andi áhyggj­ur af lofts­lag­inu. Þessi hóp­ur ótt­ast að lít­ils hátt­ar til­slök­un nú leiði til meiri til­slök­un­ar síðar, og að aðrar þjóðir kunni að fylgja for­dæmi Breta. Hins veg­ar eru þeir sem hafa brenn­andi áhyggj­ur af pen­inga­hliðinni og telja ákvörðun Sunaks setja græna hag­kerfið í upp­nám: að dýr­mæt fjár­fest­ing í grænni ný­sköp­un sé í húfi, með til­heyr­andi ara­grúa af nýj­um störf­um. (Þannig út­reikn­ing­ar eru reynd­ar ekk­ert sér­stak­lega mark­tæk­ir, og falla í þá gildru að horfa aðeins á það séða en ekki hið óséða.) Síðar­nefndi hóp­ur­inn barm­ar sér yfir því að fyr­ir­tæki, stór og smá, hafi nú þegar sett sig í stell­ing­ar fyr­ir þau um­skipti sem áttu að koma 2030, en ger­ast núna ögn síðar. Er tónn­inn í hópn­um á þá leið að skriðþung­inn sé orðinn slík­ur að það sé af og frá að hægja ferðina – al­veg óháð því hvort Sunak hafi eitt­hvað til síns máls.

Auðvelt að lofa en erfitt að efna

Ég hef ekki enn myndað mér sér­stak­lega sterk­ar skoðanir á Sunak, fyr­ir utan hvað mér þykir hann taka sig vel út í Bar­bour-jakka. Þess vegna treysti ég mér ekki til að lesa í ásetn­ing­inn hjá hon­um: Snýst stefnu­breyt­ing­in bara um að „gera það sem er Bretlandi fyr­ir bestu“ eins og hann orðaði það sjálf­ur, eða hef­ur hann veðjað á að þetta út­spil falli í kramið hjá kjós­end­um, og dugi kannski til að bjarga íhalds­flokkkn­um fyr­ir horn? Þing­kosn­ing­ar eiga að fara fram í sein­asta lagi í janú­ar­lok 2025 og sýna nýj­ustu skoðanakann­an­ir að það stefn­ir í stór­sig­ur verka­manna­flokks­ins, að öllu óbreyttu.

Læt­in í kring­um stefnu­breyt­ing­una sýna samt af­skap­lega vel að það er eitt að marka metnaðarfulla stefnu langt fram í tím­ann, og annað að standa við lof­orðin þegar stóri dag­ur­inn renn­ur upp. Stjórn­mála­menn eru full­kom­lega meðvitaðir um að lífs­lík­ur þeirra í póli­tík mæl­ast í hunda­ár­um, og að hægt er að tryggja sér at­kvæði í dag með tékka sem ekki verður inn­leyst­ur fyrr en næsti eða þarnæsti maður hef­ur tekið við völd­um.

Læt­in sýna það líka hvernig póli­tísk stefnu­mál geta öðlast sjálf­stætt líf. Ef nógu marg­ir eiga sér­hags­muna að gæta munu þeir berj­ast með kjafti og klóm fyr­ir sínu, og skeyta litlu um rök, al­menna skyn­semi og heild­ar­hags­muni sam­fé­lags­ins.

Loks sýna læt­in í Bretlandi að stjórn­mála­menn mættu oft hafa ögn betra jarðsam­band. Það hefði ekki átt að koma nein­um á óvart að lofts­lagsaðgerðir breskra stjórn­valda yrðu aðeins of stór biti til að kyngja, og má reikna með að á kom­andi miss­er­um muni fleiri leiðtog­ar þurfa að stíga fram eins og Sunak og til­kynna frest­un á lof­orðunum: það sé ekki al­veg raun­hæft á þess­um tíma­punkti að gera allt það sem að var stefnt inn­an þess tím­aramma sem búið var að ákveða.

Eft­ir því sem veru­leik­inn fær­ist nær neyðast stjórn­völd til að gera eins og John Tier­ney, og reikna dæmið af meira raun­sæi. Hefði ef­laust verið betra að gera það strax í byrj­un.

mbl.is