Þegar dæmið er reiknað til enda

Sunak uppskar mikla gremju hjá bæði loftslagsfrömuðum og fulltrúum atvinnulífsins …
Sunak uppskar mikla gremju hjá bæði loftslagsfrömuðum og fulltrúum atvinnulífsins með ákvörðun sinni, sem felur í sér smávægilega tilslökun. AFP/Alastair Grant

Fyrir langalöngu var ég örlítið skotinn í frekar laglegum en ögn vitlausum pilti. Ég man ekki alveg hvað ég var gamall, en ég var samt tiltölulega nýkominn með bílpróf og til að koma mér í mjúkinn hjá guttanum bauðst ég til að skutla honum og vinkonu hans á milli bæjarhluta.

Það er liðinn nærri aldarfjórðungur síðan, en ég man samt að bíltúrinn gekk ágætlega og virtist ætla að þjóna sínum tilgangi. Nema hvað: þar sem við ókum eftir Reykjanesbrautinni, fram hjá Mjódd og í átt að Smáratorgi, gerði snotri pilturinn sér lítið fyrir, opnaði gluggann farþegamegin og henti rusli út í vegarkantinn, eins og ekkert væri sjálfsagðara. Sennilega var það gosdós eða umbúðir utan af skyndibita.

Á einu augabragði missti ég allan áhuga. Fólk sem hendir rusli á víðavangi er einfaldlega af allra lélegustu sort, og bæði tillitslaust og tilætlunarsamt. Þó að pilturinn hafi verið agalegt krútt þá var hann mér ekki lengur samboðinn. Frekara skutl var ekki í boði fyrir umhverfissóðann.

Grænasta lausnin blasir ekki alltaf við

Mér þykir sjálfsagt og eðlilegt að umgangast náttúruna af virðingu og fara skynsamlega með auðlindir jarðar, en mér sýnist allt of margir nálgast umhverfismálin eins og trúarbrögð eða dyggðaskreytingarkeppni, frekar en eins verkefni sem má tækla af skynsemi og skilvirkni. Oft er eins og gleymist að skoða heildarmyndina, vega og meta ólíka valkosti, og leggja áherslu á þær lausnir sem skila mestum árangri með minnstum tilkostnaði. Stundum verður kappið svo mikið, og forsjáin svo lítil, að betra hefði verið heima setið en af stað farið.

Bandaríski blaðamaðurinn John Tierney gerði þessu fyrirbæri ágætis skil í frægri grein sem birtist í New York Times árið 1996. Á þeim tíma höfðu Bandaríkjamenn miklar áhyggjur af sorpi og héldu hreinlega að allir ruslahaugar landsins væru við það að fyllast. Vítt og breitt um landið kepptust yfirvöld við að láta fólk flokka og endurvinna, til að reyna að draga úr sorp-flóðinu, en svo virtist sem enginn hefði haft fyrir því að rýna vandlega í kostnaðinn eða reynt að áætla ávinninginn.

Tierney komst m.a. að því að ef öllu sorpi Bandaríkjamanna næstu þúsund árin væri safnað í einn haug, þá myndi hann þekja skika sem væri á við 0,03% af flatarmáli landsins alls. Vitaskuld myndi haugurinn ekki standa opinn og angandi kynslóð fram af kynslóð, heldur mætti einfaldlega tyrfa yfir sorpið og breyta í golfvelli og vistleg útivistarsvæði.

Ekki nóg með það heldur afréð Tierney að reikna út hvað nýjar endurvinnslureglur New York-borgar kostuðu í raun, þegar allt væri talið með: Var ekki nóg með að yfirvöld þyrftu að borga meira fyrir að losna við hvert tonn af endurvinnanlegu sorpi, og bæta við nýjum flota ruslabíla til að sjá um sorphirðuna, heldur glötuðu borgarbúar líka ómældum vinnustundum við að skola og flokka umbúðir, og þurftu að taka frá dýrt pláss í íbúðum sínum undir alls konar sorpílát. Borið saman við venjulega urðun fékk Tierney það út að flokkunin og endurvinnslan kostaði samfélagið aukalega 3.000 dali á hvert tonn af gleri, plasti og málmum, sem gerir nærri 6.000 dali umreiknað á verðlag dagsins í dag.

Svona gat Tierney haldið lengi áfram, um stórt og smátt: einnota ílát eru t.d. ekki endilega svo slæm fyrir umhverfið. Orkan sem fer í að framleiða og þvo postulínsbolla er svo mikil að það þarf að nota hann 1.000 sinnum til að hann geti talist betri kostur en einnota frauðplastsbollar; og að endurvinna tonn af pappír býr til nærri 19.000 lítra af úrgangi. Það sem virðist vera grænt og gott er ekki alltaf besta lausnin.

Í allri sögu New York Times hefur engin grein uppskorið annan eins fjölda bréfa frá reiðum lesendum. Hvað þóttist hann eiginlega vera, þessi blaðamaður, að skoða hvað hlutirnir kostuðu og hvort þeir gerðu nokkurt gagn?

Árið 2015 rifjaði Tierney upp skrifin og renndi aftur yfir tölurnar. Í þetta skiptið fékk hann út að til að jafna kolefnissporið fyrir það að fljúga á almennu farrými frá New York til London þyrfti að endurvinna 40.000 plastflöskur, sem fyrir flesta er æviskammtur af flöskum. Ef fólk er síðan skikkað til að skola flöskurnar áður en þeim er skilað til endurvinnslu, og notar til þess kranavatn sem hefur verið hitað með rafmagni frá kolaorkuverum, þá er orðið umhverfisvænna að urða flöskuna með almennu rusli frekar en að endurvinna hana.

Ritaði Tierney að þessu sinni, að það gæti mögulega verið réttlætanlegt að endurvinna pappír og málma, en hins vegar skilaði það sama sem engum árangri fyrir umhverfið að hamast við að flokka og endurvinna plast, matarafganga og annan lífrænan úrgang.

Skriðþungi græna hagkerfisins

Það rann upp fyrir mér í síðustu viku að ég var ekki alveg búinn að meðtaka það að Rishi Sunak væri orðinn forsætisráðherra Bretlands. Það er eins og hafi farið frekar lítið fyrir „Dishy Rishi“ en í október verður liðið ár síðan hann tók við embættinu og hefur árið verið tiltölulega laust við meiri háttar hneykslismál og átök – allt þar til í síðustu viku.

Viðbrögðin voru slík að það var eins og himnarnir væru að hrynja: Lét Sunak boð út ganga um að landsmenn myndu fá ögn meira svigrúm til að ná markmiðum stjórnvalda um útblástur koltvísýrings, því ríkisstjórnin óttast að fyrirhugaðar kvaðir og breytingar geti reynst heimilunum í landinu aðeins of kostnaðarsamar einmitt núna. Það hefur þrengt að breska hagkerfinu, og metur ríkisstjórnin stöðuna þannig að fyrst að gengið hafi nokkuð vel að fikrast nær settum umhverfis- og loftslagsmarkmiðum sé óhætt að hægja ferðina örlítið og leggja ekki of miklar byrðar á almenning alveg strax.

Fyrirhugað bann á sölu bensínbíla færist því frá árinu 2030 til 2035, og ekki stendur lengur til að skikka húseigendur til að fjárfesta í rándýrum varmadælum til að draga úr húshitun með gasi.

Sunak lofaði líka að ríkisstjórnin taki ekki í mál að innleiða öfgafullar lausnir af nokkru tagi, sem umhverfisverndarsinnar hafa reynt að halda að stjórnvöldum, s.s. að leggja á nýja skatta til að letja fólk til að borða kjöt eða ferðast með flugvélum, eða fylla bresk heimili af ótal flokkunartunnum. Á blaðamannafundi tók Sunak sérstaklega fram að það væri af og frá að setja skorður á olíu- og gasvinnslu í Norðursjó, enda myndi það bara gera landið háð innfluttu eldsneyti, sem kaupa þyrfti dýrum dómum, oft frá misvönduðum seljendum.

Það væri seint hægt að kalla þetta U-beygju hjá Sunak, en skyndilega beindust öll spjót að honum.

Skipta má gagnrýnisröddunum í tvo hópa: annars vegar eru þeir sem hafa brennandi áhyggjur af loftslaginu. Þessi hópur óttast að lítils háttar tilslökun nú leiði til meiri tilslökunar síðar, og að aðrar þjóðir kunni að fylgja fordæmi Breta. Hins vegar eru þeir sem hafa brennandi áhyggjur af peningahliðinni og telja ákvörðun Sunaks setja græna hagkerfið í uppnám: að dýrmæt fjárfesting í grænni nýsköpun sé í húfi, með tilheyrandi aragrúa af nýjum störfum. (Þannig útreikningar eru reyndar ekkert sérstaklega marktækir, og falla í þá gildru að horfa aðeins á það séða en ekki hið óséða.) Síðarnefndi hópurinn barmar sér yfir því að fyrirtæki, stór og smá, hafi nú þegar sett sig í stellingar fyrir þau umskipti sem áttu að koma 2030, en gerast núna ögn síðar. Er tónninn í hópnum á þá leið að skriðþunginn sé orðinn slíkur að það sé af og frá að hægja ferðina – alveg óháð því hvort Sunak hafi eitthvað til síns máls.

Auðvelt að lofa en erfitt að efna

Ég hef ekki enn myndað mér sérstaklega sterkar skoðanir á Sunak, fyrir utan hvað mér þykir hann taka sig vel út í Barbour-jakka. Þess vegna treysti ég mér ekki til að lesa í ásetninginn hjá honum: Snýst stefnubreytingin bara um að „gera það sem er Bretlandi fyrir bestu“ eins og hann orðaði það sjálfur, eða hefur hann veðjað á að þetta útspil falli í kramið hjá kjósendum, og dugi kannski til að bjarga íhaldsflokkknum fyrir horn? Þingkosningar eiga að fara fram í seinasta lagi í janúarlok 2025 og sýna nýjustu skoðanakannanir að það stefnir í stórsigur verkamannaflokksins, að öllu óbreyttu.

Lætin í kringum stefnubreytinguna sýna samt afskaplega vel að það er eitt að marka metnaðarfulla stefnu langt fram í tímann, og annað að standa við loforðin þegar stóri dagurinn rennur upp. Stjórnmálamenn eru fullkomlega meðvitaðir um að lífslíkur þeirra í pólitík mælast í hundaárum, og að hægt er að tryggja sér atkvæði í dag með tékka sem ekki verður innleystur fyrr en næsti eða þarnæsti maður hefur tekið við völdum.

Lætin sýna það líka hvernig pólitísk stefnumál geta öðlast sjálfstætt líf. Ef nógu margir eiga sérhagsmuna að gæta munu þeir berjast með kjafti og klóm fyrir sínu, og skeyta litlu um rök, almenna skynsemi og heildarhagsmuni samfélagsins.

Loks sýna lætin í Bretlandi að stjórnmálamenn mættu oft hafa ögn betra jarðsamband. Það hefði ekki átt að koma neinum á óvart að loftslagsaðgerðir breskra stjórnvalda yrðu aðeins of stór biti til að kyngja, og má reikna með að á komandi misserum muni fleiri leiðtogar þurfa að stíga fram eins og Sunak og tilkynna frestun á loforðunum: það sé ekki alveg raunhæft á þessum tímapunkti að gera allt það sem að var stefnt innan þess tímaramma sem búið var að ákveða.

Eftir því sem veruleikinn færist nær neyðast stjórnvöld til að gera eins og John Tierney, og reikna dæmið af meira raunsæi. Hefði eflaust verið betra að gera það strax í byrjun.

mbl.is