Kafarar í tímapressu leita strokulaxa

Kafari í Silungabakka í Víðidalsá. Þeir sáu þar einn eldislax …
Kafari í Silungabakka í Víðidalsá. Þeir sáu þar einn eldislax en það kom á óvart hversu lítið var af strokulaxi í ánni. Samtals sáu þeir fjóra eða fimm laxa og náðu að skutla einn. Ljósmynd/Eggert Skúlason

Nýtt teymi norskra kafara sem sér­hæfa sig í að snorkla eða rekkafa í ám í leit að stroku­fiski er nú við köf­un í laxveiðiám í Húna­vatns­sýsl­um. Þeir byrjuðu í gær­morg­un með því að kafa í Víðidalsá. Óhætt er að segja að byrj­un­in hafi ekki lofað góðu. Einn af fjór­um köf­ur­um byrjaði á því að kanna skyggni í ánni. Um leið og hann stakk höfðinu ofan í ána blasti við hon­um eld­islax. Viðstadd­ir tóku þetta sem merki um að áin væri full af strokulaxi.

Svo reynd­ist ekki vera og var þarna um mikla til­vilj­un að ræða. Kafar­arn­ir fjór­ir sem mynda teymið hafa mikla reynslu af því að skutla stroku­fiska og einnig af öðrum verk­efn­um í ám þar sem köf­un nýt­ist. Þeir hugsa um sam­tals sjö­tíu ár í Nor­egi.

Kafar­arn­ir sáu á bil­inu fjóra til fimm laxa sem þeir staðfestu að væru eld­islax­ar. Þeir náðu að skutla einn þeirra og og ann­ar var veidd­ur á stöng síðar um dag­inn.

Norska teymið hefur mikla reynslu og eru nú farnir til …
Norska teymið hef­ur mikla reynslu og eru nú farn­ir til starfa í Miðfjarðará og fleiri ár bíða en þeir hafa aðeins ör­fáa daga í verk­efnið. Ljós­mynd/​Eggert Skúla­son

Víðidalsá „hreinni“ en bú­ist var við

Miðað við yf­ir­ferð kafar­anna má segja að Víðidalsá sé nokkuð „hrein“ þegar kem­ur að eld­islaxi. Kem­ur það nokkuð á óvart þar sem mun meira hef­ur sést af þess­um fisk­um í Vatns­dalsá og Miðfjarðará sem liggja sitt hvoru meg­in við Víðidalsá. Kann að vera að Hópið sem Víðidalsá renn­ur í áður en hún nær til sjáv­ar geri þarna gæfumun. Hópið er að hluta til salt og gæt­ir þar sjáv­ar­falla að nokkru leiti. Þegar að eld­islax­inn hef­ur ekki villta ís­lenska frænd­ur sína til að elta get­ur verið að hann ein­fald­lega stöðvist í Hóp­inu eða leiti annað. Aft­ur á móti eiga hinar árn­ar og Blanda, ós sem fell­ur beint til sjáv­ar. Hvort þetta ger­ir gæfumun­inn er þó ekki hægt að staðfesta.

Kafað í Faxabakka. Þar sáu þeir tvo eða þrjá eldsilaxa. …
Kafað í Faxa­bakka. Þar sáu þeir tvo eða þrjá eldsilaxa. Ýmsir hafa gert grín að þess­ari aðferð. Eft­ir að hafa fylgst með vinnu­brögðum norsku kafar­anna er ljóst að þetta er áhrifa­rík­asta aðferðin til að ná stroku­löx­un­um. Ljós­mynd/​Eggert Skúla­son

Næstu verk­efni kafar­anna eru Miðfjarðará, Vatns­dalsá, Hrúta­fjarðará, Laxá í Döl­um, Laxá á Ásum og Fnjóská. Afar ólík­legt verður að telj­ast að þeir nái að kafa í all­ar þess­ar ár þar sem þeir hafa aðeins ör­fáa daga til stefnu. Verk­efni heima fyr­ir kalla.

Eld­islax­inn enn að mæta

Áfram veiðast eld­islax­ar í laxa­stig­an­um í Blöndu og voru háfaðir þar fjór­ir lax­ar í gær. Sam­tals hafa náðst þar 53 lax­ar frá því að laxa­stig­an­um var lokað í kjöl­far upp­lýs­inga um strokið úr kví­um Arctic Fish.

Þá hafa verið að veiðast eld­islax­ar í Hrúta­fjarðará, Miðfjarðará og Vatns­dalsá síðustu daga. At­hygli vek­ur í Miðfjarðará að tveir eld­islax­ar veidd­ust í veiðistaðnum Kerl­ingu í Austurá og hef­ur fisk­ur­inn þá lagt að baki erfiðar hindr­an­ir. 

Af­skap­lega illa út­lít­andi eld­islax veidd­ist ný­verið í Hrúta­fjarðá og verður fróðlegt að sjá hvað kafarat­eymið finn­ur í þess­um ám. 

Árnar þurfa að vera afskaplega tærar svo að köfunin komi …
Árnar þurfa að vera af­skap­lega tær­ar svo að köf­un­in komi að gagni. Slýrek og vatna­vext­ir draga mjög úr mögu­leik­um kafar­anna. Ljós­mynd/​Eggert Skúla­son

Sporðaköst hafa fylgst með köf­un í bæði Víðidalsá og þegar fyrra kafarat­eymið fór í Miðfjarðará. Það er ljóst eft­ir að hafa fylgst með þessu að ör­fá­ir dag­ar duga ekki í þetta verk­efni. Eld­islax­inn stygg­ist með allt öðrum hætti en villti lax­inn þegar kafar­arn­ir nálg­ast hann. Á meðan að villti lax­inn reyn­ir að fela sig og held­ur sig í hyln­um get­ur strokulax­inn vaðið á milli hylja og er hann erfiðari viðfangs.

Byssa eða veiðistöng? 

Skutl­ar norsku kafar­anna komu ekki með þeim þegar þeir komu til lands­ins í fyrra­dag. Það tafði þá mikið en þar var ís­lensk stjórn­sýsla að láta til sín taka. Í Nor­egi fell­ur skut­ul­byssa eins og þeir norsku vinna með und­ir sam­bæri­lega skil­grein­ingu og bogi eða jafn­vel veiðistöng. Hér á landi eru þess­ar skutl­ar hins veg­ar skil­greind­ir sem skot­vopn og þurfti því sér­staka und­anþágu til koma þeim til lands­ins.

En næstu dag­ar munu veita mikl­ar og nauðsyn­leg­ar upp­lýs­ing­ar um stöðuna í þess­um veiðiperl­um sem norsku kafar­arn­ir eru að fara að vinna í. Þar má bú­ast við stærri töl­um en í Víðidal. 

mbl.is