Að mínum dómi bar enga nauðsyn til að drepa marga þeirra sem danska andspyrnuhreyfingin drap og Guðmundur Kamban er án efa einn þeirra,“ segir Daninn Ditlev Tamm, sérfræðingur í réttarsögu og prófessor emeritus hjá Kaupmannahafnarháskóla, í samtali við Morgunblaðið.
Rithöfundurinn Guðmundur Kamban var skotinn til bana í Danmörku 5. maí 1945 af dönsku andspyrnuhreyfingunni. Guðmundur Magnússon greindi frá nafni banamannsins í Morgunblaðinu 21. september, en sá hét Egon Alfred Højland.
„Það fór líklega illa í Kamban að menn væru komnir til að taka hann höndum og honum hefur væntanlega mislíkað þær sakir sem á hann voru bornar. Hann gæti hafa misst stjórn á skapi sínu en að hann hafi verið skotinn til bana held ég að megi skrifa á hversu lítt reyndir þessir menn voru sem fóru til hans. Ég held að margir séu sammála um að þessir menn hafi ekki haft næga reynslu til að fara í jafn mikilvæg verkefni og handtöku manna sem þeir höfðu grunaða um að starfa með Þjóðverjum. Þeir höfðu ekki stjórn á sér í þessum aðstæðum og allt fór á versta veg,“ segir Tamm sem þekkir stríðsárin í Danmörku vel og hefur ritað bækur um efnið.
„Ég vissi hver skaut Kamban frá því að ég vann að bók [Retsopgøret efter besættelsen] sem kom út árið 1984. Ég sá nafnið og las um atburðarásina í gögnum danska dómsmálaráðuneytisins en var ekki heimilt að nefna nöfn,“ segir Tamm. Rímar það við frásagnir Ásgeirs Guðmundssonar og Sveins Einarssonar af samskiptum þeirra við ráðuneytið varðandi gögnin þegar þeir unnu að bókaskrifum.
Vafasöm loforð gefin?
Fólk þarf líklega að upplifa stríðsástand á eigin skinni til að geta skilið ástandið sem skapast með tilheyrandi tilfinningum og geðshræringu. Viss rómantík hefur fylgt andspyrnuhreyfingunni dönsku fyrir að gera tilraunir til að standa uppi í hárinu á nasistum sem slátruðu milljónum manna þegar upp var staðið. Þegar grunsemdir vöknuðu um að andspyrnuhreyfingin hefði farið fram úr sér í hefndaraðgerðum varð málið pólitískt viðkvæmt í Danmörku, segir Tamm.
„Meðlimir andspyrnuhreyfingarinnar drápu á milli 400 og 500 manns. Talsmaður hreyfingarinnar var herra [Frode] Jakobsen og öll mál voru borin undir hann. Ef hann staðfesti að meðlimir andspyrnuhreyfingarinnar hefðu verið að verki hélt lögreglan að sér höndum. Jakobsen hélt því fram að þeim, sem tóku að sér að drepa fólk sem andspyrnuhreyfingin taldi vera hættulega Dönum, hefði verið lofað að þeir yrðu ekki sóttir til saka að stríðinu loknu. Samkomulag virtist ríkja um að dráp andspyrnuhreyfingarinnar væru hluti af stríði og ættu þar af leiðandi ekki heima hjá lögreglunni. Þannig virðist að minnsta kosti hafa verið litið á þessi mál fyrsta hálfa árið eftir stríð.“
Tamm segir að í framhaldinu hafi afstaða stjórnmálamanna breyst að einhverju leyti. „Síðar árið 1945 var um það rætt í þinginu hvort lögreglan ætti að rannsaka mál sem tengdust pólitískum drápum. Lögreglan gæti þá skrifað skýrslur þótt ekki yrði lengra gengið. Einhverjum árum síðar var orðið ljóst að nokkur andstaða var við þessar rannsóknir. Einnig á meðal ættingja þeirra sem grunaðir höfðu verið um landráð. Komið var á fót rannsóknarlögregluteymi sem andspyrnuhreyfingin samþykkti. Ættingjar hinna látnu fengu einhver svör í framhaldinu um ástæður þess að hinn látni var eltur uppi. Í einhverjum tilfellum gætu ættingjar hafa fengið yfirlýsingu um að viðkomandi hefði ekki verið hættulegur Dönum en í mörgum tilfellum fengu ættingjar þau svör að hinn látni væri einfaldlega fórnarlamb stríðsátaka. Út frá hefðbundnum sjónarmiðum um lög og rétt telst þetta ekki vera viðunandi.“
Hefði mátt aflétta fyrr
Í dag furða margir sig á þeirri leynd sem hvílt hefur yfir þessum atburðum fyrir átta áratugum. „Leyndinni hefði mátt aflétta fyrr en þessi mál voru afar viðkvæm í Danmörku. Herra Jakobsen var þeirrar skoðunar að leynd þyrfti að hvíla yfir þessum gögnum vegna þess að andspyrnuhreyfingin myndi sæta mikilli gagnrýni ef þau kæmu fyrir sjónir almennings. Margir litu á menn í andspyrnuhreyfingunni sem hetjur þótt fólk geri sér einnig grein fyrir að þar hafi verið gerð mörg mistök. Þegar ég gaf út bókina árið 1984 fékk ég skammir fyrir að fjalla um andspyrnuhreyfinguna og stríðsárin. Síðar hafa fleiri skrifað um þessi mál og sloppið betur við slíka gagnrýni. Þetta var því viðkvæmara hjá minni kynslóð,“ segir Ditlev Tamm sem er fæddur árið 1946.
Guðmundur Kamban hvílir í Fossvogskirkjugarði í Reykjavík.
Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Fáðu þér áskrift til að lesa áfram
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu,
rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki
á mbl.is.