Þverrandi metnaður ríkisstjórna og æ styrkari trú á að vísindin séu pólitískum duttlungum undirorpin veldur belgíska stjórnmálafræðingnum Francois Gemenne áhyggjum á tímum válegra loftslagsbreytinga eftir því sem hann greinir AFP-fréttastofunni frá.
„Ég hef þungar áhyggjur af þeim fjölda sem snýr baki við stefnumálum sínum á pólitískum og efnahagslegum vettvangi,“ segir Gemenne, sem er einn aðalhöfunda skýrsluraðar loftslagsráðs Sameinuðu þjóðanna, og bendir á veðuröfgar yfirstandandi árs sem allt bendir nú til að verði það hlýjasta í sögu mannkynsins.
Þykir honum sem sú ákefð hafi nú dvínað er áður var ríkjandi um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda til að forðast alvarlegustu afleiðingar hnattrænnar hlýnunar. Þó hafi nokkur ríki sætt gagnrýni fyrir að mýkja stefnu sína í loftslagsmálum, þar á meðal Svíþjóð og Bretland en hið síðarnefnda hefur nú hleypt nýju olíuvinnsluverkefni af stokkunum.
„Sú staðreynd veldur mér hugarangri að vísindin eru að verða spurning um trú, skoðun eða hugmyndafræði hjá sístækkandi hópi,“ segir Gemenne og varar við því að loftslagsbreytingarnar gætu auðveldlega farið fram úr því sem sum líkön sýni, þær séu einfaldlega það sem hann kallar „vél án miskunnar“ og sýni að mannkynið hafi ekki áttað sig fyllilega á alvöru málsins.
„Þar til við komum á kolefnisjafnvægi munu hitamet riða til falls viku eftir viku, mánuð eftir mánuð og ár eftir ár. Raunveruleikinn gæti farið langt umfram líkönin,“ segir stjórnmálafræðingurinn.
Hann telur það útbreiddan misskilning að aðgerðir gegn loftslagsbreytingum hafi í för með sér að ýmsum munaði þurfi að fórna í auðugri ríkjum heimsins, svo sem háu neyslustigi, flugsamgöngum og kjötáti.
Því þurfi að leiða fólki það fyrir sjónir með óyggjandi hætti að barátta við loftslagsbreytingar sé í þess þágu. „Við lítum alltaf á þetta sem lista af aðgerðum sem þurfi að fara í, fórnum sem þurfi að færa og einhverju sem við þurfum að hætta að gera [...] Við verðum að sýna fram á hvernig þetta gagnast okkur og lífið geti þar með tekið breytingu til hins betra,“ segir Gemenne að lokum.