Það var sagt frá því á dögunum að því hefði verið lekið að breski forsætisráðherrann, Rishi Sunak, ætlaði sér á næstu vikum að kynna ákörðun sína um að fresta ákvörðunum eða loforðum eða yfirlýstum ákvörðunarefnum sem heyrðu til loftslagsógnana sem hafa hangið eins og leiktjöld hryllingsleiks á sviði síðustu 30 árin og nú síðustu misserin mætti ekki lengur bíða ef ekki ætti illa að fara. (Þeir sem eru ónýtir í að gæta orða sinna myndu segja að enginn tími væri á milli þess sem er og hins sem endaði hjá andskotanum sjálfum.) Þegar lekið var, þá hafði forsætisráðherranum ekki enn tekist að fara yfir sitt mikla leyndarmál nema með þeim fáu ráðherrum sem hann gat af öryggi sýnt mestan trúnað. Lekans menn vildu sjá hvort hótanir sanntrúaðra um heimsendafárið gætu ekki náð að fipa stuðningsmenn forsætisráðherrans í ríkisstjórninni og í þingflokki hans. Og það gekk eftir. En þar með átti forsætisráðherrann ekki annan lífvænlegan veg en að standa við hugmynd sína en verða feigur ella.
Einn af eldri þingmönnum flokksins sagðist ekki geta unað þessum sinnaskiptum í svo miklu máli. Hann hefði því tekið yfirvegaða ákvörðun fyrir sitt leyti um að hverfa úr þingflokknum við næstu kosningar. Almennir flokksmenn muna ekki hver var þar á ferð, þótt hann hafi sjálfsagt verið eftirminnilegur. Fram til þessa hefur verið mun meiri ró í ríkisstjórninni en lekans menn bundu vonir við og engar hótanir eða gagnrýni enn sést úr þeirri átt. En það komu hins vegar ótvíræð merki sem vega mjög þungt úr annarri og mjög óvæntri átt.
Sögulegur sigur Borisar
Eins og menn muna þá vann Íhaldsflokkurinn glæsilegan sigur í kosningunum í desember 2019. Bréfritari brá sér til Lundúna fáeinum dögum fyrir þær kosningar til að fylgjast með því sem hann, eins og fleiri, hafði sterklega á tilfinningunni að gætu orðið fjörleg úrslit og að auki söguleg í meira lagi, og þurfti raunar ekki spekinga til að grilla í það. En hvorki hann né önnur bjartsýniströll höfðu þó teygt sig nægilega langt til að giska rétt á hversu öflug úrslitin urðu. Og það var ekki aðeins hin mikla sveifla sem varð undrunarefni, heldur ekki síður hvar sú sveifla bar niður, sem kom rækilega á óvart. Flokkur Borisar Johnsons hafði vissulega lent í margvíslegum erfiðleikum og þurfti að sitja af sér svik sinna nánustu manna. Auðvitað voru þingmenn úr hans liði sem höfðu orðið undir í „brexit“-sigri forsætisráðherrans, og vitað var að það þyrfti nokkrar kosningar til að hreinsa þær dreggjar úr flokknum. En á kosninganótt virtust allir í þingflokki Borisar vera með gleðibrag og í sáttarhug og virtust telja að hinn mikli og óvænti sigur flokksformannsins hefði slegið striki yfir þau skammarstrik sem sumir þar höfðu löngum ásakað hann um. Það hjálpaði í þeim efnum að þessum sigri fylgdu ekki aðeins miklu fleiri þingsæti en spár höfðu sagt til um. Við það bættist undrið hvar sum þessara sigurkjördæma voru. Flokkurinn hafði þessa kosninganótt unnið þingsæti úr kjördæmum sem engir kosningaspekingar höfðu séð fyrir sólarhring áður. Á meðal þessara kjördæma voru allmörg sem höfðu ekki snúist á sveif með Íhaldsflokknum í áratugi og sum þessara kjördæma höfðu aldrei í sögu sinni sent þingmann á sínum vegum til að stækka þingflokk Íhaldsins í London. Hafa menn síðan rætt þetta af sífelldri undrun og gleði í Íhaldsflokknum, en með samsvarandi ólund í Verkamannaflokknum sem mátti bíta svo marga og ónotalega bita þessa kosninganótt. Og ekki má gleyma stjórnmálaspekingunum sem höfðu í kosningaaðdraganda sagt að slíkt og þvílíkt gæti ekki gerst í Bretlandi og hefðu menn kosningar í áratugi því til staðfestingar. Milli- og Norður-England sem bar ekki að ástæðulausu nafnið „Rauða virkið“ myndi ekki haggast í þessum kosningum frekar en fyrri daginn. En nú flykktust þau óvænt til Borisar. Menn vita hvernig flokksformanninum var þakkað það pólitíska kraftaverk.
Illa farið með þakkarefni
En á þessum fáu árum sem liðin eru frá hinum miklu og glæstu og óvæntu sigrum, þá hefur gengið á ýmsu og sumt verið heldur betur ónotalegt fyrir Íhaldsflokkinn og óþarft upp að telja. Boris var bolað út, þrátt fyrir að hafa gert kraftaverk fyrir flokkinn, ekki bara með því að gera hann starfhæfan á þingi, heldur var hann bæði með tögl og hagldir, sem var tilvera sem flokkurinn hafði ekki haft síðan á dögum frúarinnar einu. En Boris hafði einn veikan punkt. Hans góði partur er 25 árum yngri en Boris og hún hefur áhuga á pólitík, sem getur verið, eins og menn þekkja, bæði kostur og galli. Hún lifir sig þannig inn í tilvonandi heimsendi vegna loftslagsónáttúrunnar. Og Boris hefur meðtekið þá rullu ektakvinnunnar til fulls og áttar sig á að hún gæti lifað heimsendinn, þótt hann, kominn hátt á sjötugsaldur, eygi litla von um að verða vitni að því mikla sjónarspili og skrifaði því grein í Daily Mail þar sem hann fordæmdi ákvörðun Sunaks forsætisráðherra í þeim efnum. Það gerðu ekki margir aðrir. „Rauði veggurinn,“ kraftaverk Borisar frá 2019, horfði undrandi á hetjuna sína. Hinar raunverulegu „vinnandi stéttir“ eru nefnilega ekki veikar fyrir rugli unglinga og dekurbarna sem líma sig niður á akreinar gatna til að koma í veg fyrir að fólk, sem ekkert hefur gert þeim, komist í vinnuna sína og henda litum á málverk Vincents van Gogh á söfnum, en hann hafði löngu áður skorið af sér hluta af eyranu, sem er stórbrotin aðferð til að mótmæla, þótt óvíst sé hvaða heimsendir það var sem van Gogh varð hugsað til þá, sem gildir raunar að mestu um unglinga og dekurbörn, þótt þau hafi sjálfsagt mótmælt skriflega líka á „spjöldum sögunnar“.
Rétt eins og stúlkurnar tvær, sem komu um langan veg til að mótmæla Kristjáni í Hvalnum og Ríkisútvarpið tók eins og þar væri frétt aldarinnar, og hugsaði um hana upphátt dögum saman. Og við hugsum af þakklæti til Ríkisútvarpsins, með sína sjö milljarða meðgjöf frá almenningi, sem aldrei er spurður, og veltum fyrir okkur, hvernig farið hefði ef „RÚV“ hefði ekki staðið vaktina af einurð og festu og margtuggna fréttin um „við erum tvær í tunnunum“ hefði þar með farið fram hjá þjóðinni. Hvar væri Ísland þá?
Sami vandi nú, en ólíkur þó
Við hendum stundum gaman að því, hversu uppteknir Bandaríkjamenn eru af kosningum sínum og það þótt meira en ár sé til kosninga. Íslenskir flokkar fara sér hægt þar til örfáar vikur eru til stefnu. En viðurkenna verður að Bandaríkin eru allt önnur Ella. Þegar forseti hefur þar aðeins lokið sínu fyrsta kjörtímabili er nánast út frá því gengið að hann leiti endurkjörs til fjögurra ára og flokkurinn „tryggi“ að enginn fari gegn forsetanum. Reynslan sýnir að forsetinn hefur oftast verulegt forskot sækist hann eftir endurkjöri. En ekkert er þó öruggt. Þannig tapaði Carter forseti kosningum gegn leikaranum Reagan. Fjórum árum síðar vann Reagan með miklum yfirburðum í öllum 50 ríkjum landsins nema einu, sem var heimaríki Mondale mótframbjóanda hans og munaði þar þó aðeins nokkrum hundruðum atkvæða að Reagan hefði það líka. Eftirmaðurinn, George W.H. Bush, hafði gegnt embætti í eitt kjörtímabil þegar hann tapaði fyrir Bill Clinton. Þær kosningar voru óvenjulegar, því að þrír (alvöru frambjóðendur) buðu sig fram og var sá þriðji milljarðamæringurinn Ross Perot, sem var flokksbróðir Bush forseta og fékk hann 18,9% atkvæða. Clinton fékk 43% og Bush 37,5% atkvæða og þótti augljóst að Perot hefði tryggt Clinton embættið. Nú eru vangaveltur uppi um að Joe Biden hafi varla styrk til þess lengur, innan síns flokks, að ráða því sjálfur hvort hann bjóði sig fram til endurkjörs, af ástæðum sem liggja fyrir og óþarft er upp að telja.
Menn hafa gert því skóna að Biden geti ekki dregið lengur en til loka nóvember að tilkynna ákvörðun sína. Tiltölulega nýlegt dæmi er til um að ekki lá rækilega fyrir að forsetinn væri ákveðinn í að sækjast eftir endurkjöri. Þá átti Lyndon B. Johnson forseti í hlut. Hann tók óvænt við forsetaembættinu þegar Kennedy forseti var myrtur í Dallas, en Lyndon var varaforseti hans. Þegar hann sóttist eftir embætti formlega í fyrsta sinn, árið 1964, hafði hann þegar gegnt embættinu í eitt ár. Fjórum árum síðar braut hann heilann mjög um það hvort hann vildi sækjast eftir endurkjöri eftir fimm ára setu í Hvíta húsinu. Hann hlaut glæsilega kosningu 1964 og naut þá fyrirrennara síns, Johns Kennedys, og samúðar vegna fráfalls hans. Þegar liðin voru þrjú ár til viðbótar var staðan orðin önnur. Forsetanum hafði ekki tekist að binda enda á Víetnamstríðið og var stríðsreksturinn mjög óvinsæll í landinu enda féllu fjölmargir ungir Bandaríkjamenn og ekki sást til neinnar lausnar. Í mikilli bók um ævi Johnsons, sem ber heitið Flawed Giant, er kafli helgaður innri átökum forsetans um það hvort hann ætti að sækjast eftir endurkjöri eða ekki. Í bókinni segir: Jafnvel þótt fjölmargar ástæður mæltu með því að hann sæktist ekki eftir endurkjöri, þá hélt hann enn í þær hugmyndir að gera það. Það var ekki fyrr en síðdegis 31. mars að hann sannfærði sjálfan sig um það, að hann ætti að hætta sem forseti. En jafnvel þá fékk hann bakþanka. Um morguninn sýndi hann Hubert Humphrey varaforseta sínum ræðuna sem hann ætlaði sér að flytja sem ávarp til þjóðar sinnar um Víetnamstríðið. Ræðan var með tvenns konar ólíka endakafla! Annar boðaði að hann myndi hætta sem forseti í lok kjörtímabils en hinn það gagnstæða. Síðdegis þann sama dag sagði hann nokkrum helstu trúnaðarmönnum sínum að hann vildi að þeir settu sig í samband við ráðherra ríkisstjórnar sinnar og leiðtoga þingsins og tilkynntu þeim þá ákvörðun sína að hann myndi ekki sækjast eftir endurkjöri. En þeir mættu þó alls ekki byrja á slíkum tilkynningum fyrr en hann hefði hafið ræðu sína. Hann vildi halda því opnu að hann gæti endurskoðað afstöðu sína til síðustu stundar! Forsetinn hafði hafið ræðu sína þegar helstu trúnaðarmenn hans mátu það svo, að hann myndi lýsa yfir að hann sæktist ekki eftir endurkjöri. Þá var loks hringt í Hubert Humphrey varaforseta Bandaríkjanna, sem staddur var á fundi í Mexíkó, og honum sagt, að forsetinn myndi eftir nokkrar mínútur tilkynna að hann myndi ekki sækjast eftir endurkjöri.
Vandi demókrata nú er enn erfiðari en þarna er lýst, því að þeir treysta alls ekki varaforsetanum, Kamala Harris, fyrir forsetaembættinu! Geta má þess að Hubert Humphrey varaforseti tapaði slagnum fyrir Richard Nixon í nóvember þetta sama ár.