Þrálátir bakþankar

Það var sagt frá því á dög­un­um að því hefði verið lekið að breski for­sæt­is­ráðherr­ann, Ris­hi Sunak, ætlaði sér á næstu vik­um að kynna ákörðun sína um að fresta ákvörðunum eða lof­orðum eða yf­ir­lýst­um ákvörðun­ar­efn­um sem heyrðu til lofts­lag­sógn­ana sem hafa hangið eins og leiktjöld hryll­ings­leiks á sviði síðustu 30 árin og nú síðustu miss­er­in mætti ekki leng­ur bíða ef ekki ætti illa að fara. (Þeir sem eru ónýt­ir í að gæta orða sinna myndu segja að eng­inn tími væri á milli þess sem er og hins sem endaði hjá and­skot­an­um sjálf­um.) Þegar lekið var, þá hafði for­sæt­is­ráðherr­an­um ekki enn tek­ist að fara yfir sitt mikla leynd­ar­mál nema með þeim fáu ráðherr­um sem hann gat af ör­yggi sýnt mest­an trúnað. Lek­ans menn vildu sjá hvort hót­an­ir sann­trúaðra um heimsenda­fárið gætu ekki náð að fipa stuðnings­menn for­sæt­is­ráðherr­ans í rík­is­stjórn­inni og í þing­flokki hans. Og það gekk eft­ir. En þar með átti for­sæt­is­ráðherr­ann ekki ann­an líf­væn­leg­an veg en að standa við hug­mynd sína en verða feig­ur ella.

Einn af eldri þing­mönn­um flokks­ins sagðist ekki geta unað þess­um sinna­skipt­um í svo miklu máli. Hann hefði því tekið yf­ir­vegaða ákvörðun fyr­ir sitt leyti um að hverfa úr þing­flokkn­um við næstu kosn­ing­ar. Al­menn­ir flokks­menn muna ekki hver var þar á ferð, þótt hann hafi sjálfsagt verið eft­ir­minni­leg­ur. Fram til þessa hef­ur verið mun meiri ró í rík­is­stjórn­inni en lek­ans menn bundu von­ir við og eng­ar hót­an­ir eða gagn­rýni enn sést úr þeirri átt. En það komu hins veg­ar ótví­ræð merki sem vega mjög þungt úr ann­arri og mjög óvæntri átt.

Sögu­leg­ur sig­ur Boris­ar

Eins og menn muna þá vann Íhalds­flokk­ur­inn glæsi­leg­an sig­ur í kosn­ing­un­um í des­em­ber 2019. Bréf­rit­ari brá sér til Lund­úna fá­ein­um dög­um fyr­ir þær kosn­ing­ar til að fylgj­ast með því sem hann, eins og fleiri, hafði sterk­lega á til­finn­ing­unni að gætu orðið fjör­leg úr­slit og að auki sögu­leg í meira lagi, og þurfti raun­ar ekki spek­inga til að grilla í það. En hvorki hann né önn­ur bjart­sýn­iströll höfðu þó teygt sig nægi­lega langt til að giska rétt á hversu öfl­ug úr­slit­in urðu. Og það var ekki aðeins hin mikla sveifla sem varð undr­un­ar­efni, held­ur ekki síður hvar sú sveifla bar niður, sem kom ræki­lega á óvart. Flokk­ur Boris­ar John­sons hafði vissu­lega lent í marg­vís­leg­um erfiðleik­um og þurfti að sitja af sér svik sinna nán­ustu manna. Auðvitað voru þing­menn úr hans liði sem höfðu orðið und­ir í „brex­it“-sigri for­sæt­is­ráðherr­ans, og vitað var að það þyrfti nokkr­ar kosn­ing­ar til að hreinsa þær dreggj­ar úr flokkn­um. En á kosn­ing­anótt virt­ust all­ir í þing­flokki Boris­ar vera með gleðibrag og í sátt­ar­hug og virt­ust telja að hinn mikli og óvænti sig­ur flokks­for­manns­ins hefði slegið striki yfir þau skamm­arstrik sem sum­ir þar höfðu löng­um ásakað hann um. Það hjálpaði í þeim efn­um að þess­um sigri fylgdu ekki aðeins miklu fleiri þing­sæti en spár höfðu sagt til um. Við það bætt­ist undrið hvar sum þess­ara sig­ur­kjör­dæma voru. Flokk­ur­inn hafði þessa kosn­ing­anótt unnið þing­sæti úr kjör­dæm­um sem eng­ir kosn­inga­spek­ing­ar höfðu séð fyr­ir sól­ar­hring áður. Á meðal þess­ara kjör­dæma voru all­mörg sem höfðu ekki snú­ist á sveif með Íhalds­flokkn­um í ára­tugi og sum þess­ara kjör­dæma höfðu aldrei í sögu sinni sent þing­mann á sín­um veg­um til að stækka þing­flokk Íhalds­ins í London. Hafa menn síðan rætt þetta af sí­felldri undr­un og gleði í Íhalds­flokkn­um, en með sam­svar­andi ólund í Verka­manna­flokkn­um sem mátti bíta svo marga og ónota­lega bita þessa kosn­ing­anótt. Og ekki má gleyma stjórn­mála­spek­ing­un­um sem höfðu í kosn­ingaaðdrag­anda sagt að slíkt og því­líkt gæti ekki gerst í Bretlandi og hefðu menn kosn­ing­ar í ára­tugi því til staðfest­ing­ar. Milli- og Norður-Eng­land sem bar ekki að ástæðulausu nafnið „Rauða virkið“ myndi ekki hagg­ast í þess­um kosn­ing­um frek­ar en fyrri dag­inn. En nú flykkt­ust þau óvænt til Boris­ar. Menn vita hvernig flokks­for­mann­in­um var þakkað það póli­tíska krafta­verk.

Illa farið með þakk­ar­efni

En á þess­um fáu árum sem liðin eru frá hinum miklu og glæstu og óvæntu sigr­um, þá hef­ur gengið á ýmsu og sumt verið held­ur bet­ur ónota­legt fyr­ir Íhalds­flokk­inn og óþarft upp að telja. Bor­is var bolað út, þrátt fyr­ir að hafa gert krafta­verk fyr­ir flokk­inn, ekki bara með því að gera hann starf­hæf­an á þingi, held­ur var hann bæði með tögl og hagld­ir, sem var til­vera sem flokk­ur­inn hafði ekki haft síðan á dög­um frú­ar­inn­ar einu. En Bor­is hafði einn veik­an punkt. Hans góði part­ur er 25 árum yngri en Bor­is og hún hef­ur áhuga á póli­tík, sem get­ur verið, eins og menn þekkja, bæði kost­ur og galli. Hún lif­ir sig þannig inn í til­von­andi heimsendi vegna lofts­lag­sónátt­úr­unn­ar. Og Bor­is hef­ur meðtekið þá rullu ekta­kvinn­unn­ar til fulls og átt­ar sig á að hún gæti lifað heimsend­inn, þótt hann, kom­inn hátt á sjö­tugs­ald­ur, eygi litla von um að verða vitni að því mikla sjón­arspili og skrifaði því grein í Daily Mail þar sem hann for­dæmdi ákvörðun Sunaks for­sæt­is­ráðherra í þeim efn­um. Það gerðu ekki marg­ir aðrir. „Rauði vegg­ur­inn,“ krafta­verk Boris­ar frá 2019, horfði undr­andi á hetj­una sína. Hinar raun­veru­legu „vinn­andi stétt­ir“ eru nefni­lega ekki veik­ar fyr­ir rugli ung­linga og dek­ur­barna sem líma sig niður á ak­rein­ar gatna til að koma í veg fyr­ir að fólk, sem ekk­ert hef­ur gert þeim, kom­ist í vinn­una sína og henda lit­um á mál­verk Vincents van Gogh á söfn­um, en hann hafði löngu áður skorið af sér hluta af eyr­anu, sem er stór­brot­in aðferð til að mót­mæla, þótt óvíst sé hvaða heimsend­ir það var sem van Gogh varð hugsað til þá, sem gild­ir raun­ar að mestu um ung­linga og dek­ur­börn, þótt þau hafi sjálfsagt mót­mælt skrif­lega líka á „spjöld­um sög­unn­ar“.

Rétt eins og stúlk­urn­ar tvær, sem komu um lang­an veg til að mót­mæla Kristjáni í Hvaln­um og Rík­is­út­varpið tók eins og þar væri frétt ald­ar­inn­ar, og hugsaði um hana upp­hátt dög­um sam­an. Og við hugs­um af þakk­læti til Rík­is­út­varps­ins, með sína sjö millj­arða meðgjöf frá al­menn­ingi, sem aldrei er spurður, og velt­um fyr­ir okk­ur, hvernig farið hefði ef „RÚV“ hefði ekki staðið vakt­ina af ein­urð og festu og margtuggna frétt­in um „við erum tvær í tunn­un­um“ hefði þar með farið fram hjá þjóðinni. Hvar væri Ísland þá?

Sami vandi nú, en ólík­ur þó

Við hend­um stund­um gam­an að því, hversu upp­tekn­ir Banda­ríkja­menn eru af kosn­ing­um sín­um og það þótt meira en ár sé til kosn­inga. Íslensk­ir flokk­ar fara sér hægt þar til ör­fá­ar vik­ur eru til stefnu. En viður­kenna verður að Banda­rík­in eru allt önn­ur Ella. Þegar for­seti hef­ur þar aðeins lokið sínu fyrsta kjör­tíma­bili er nán­ast út frá því gengið að hann leiti end­ur­kjörs til fjög­urra ára og flokk­ur­inn „tryggi“ að eng­inn fari gegn for­set­an­um. Reynsl­an sýn­ir að for­set­inn hef­ur oft­ast veru­legt for­skot sæk­ist hann eft­ir end­ur­kjöri. En ekk­ert er þó ör­uggt. Þannig tapaði Cart­er for­seti kosn­ing­um gegn leik­ar­an­um Reag­an. Fjór­um árum síðar vann Reag­an með mikl­um yf­ir­burðum í öll­um 50 ríkj­um lands­ins nema einu, sem var heimaríki Mondale mót­fram­bjó­anda hans og munaði þar þó aðeins nokkr­um hundruðum at­kvæða að Reag­an hefði það líka. Eft­ir­maður­inn, Geor­ge W.H. Bush, hafði gegnt embætti í eitt kjör­tíma­bil þegar hann tapaði fyr­ir Bill Cl­int­on. Þær kosn­ing­ar voru óvenju­leg­ar, því að þrír (al­vöru fram­bjóðend­ur) buðu sig fram og var sá þriðji millj­arðamær­ing­ur­inn Ross Perot, sem var flokks­bróðir Bush for­seta og fékk hann 18,9% at­kvæða. Cl­int­on fékk 43% og Bush 37,5% at­kvæða og þótti aug­ljóst að Perot hefði tryggt Cl­int­on embættið. Nú eru vanga­velt­ur uppi um að Joe Biden hafi varla styrk til þess leng­ur, inn­an síns flokks, að ráða því sjálf­ur hvort hann bjóði sig fram til end­ur­kjörs, af ástæðum sem liggja fyr­ir og óþarft er upp að telja.

Menn hafa gert því skóna að Biden geti ekki dregið leng­ur en til loka nóv­em­ber að til­kynna ákvörðun sína. Til­tölu­lega ný­legt dæmi er til um að ekki lá ræki­lega fyr­ir að for­set­inn væri ákveðinn í að sækj­ast eft­ir end­ur­kjöri. Þá átti Lyndon B. John­son for­seti í hlut. Hann tók óvænt við for­seta­embætt­inu þegar Kenn­e­dy for­seti var myrt­ur í Dallas, en Lyndon var vara­for­seti hans. Þegar hann sótt­ist eft­ir embætti form­lega í fyrsta sinn, árið 1964, hafði hann þegar gegnt embætt­inu í eitt ár. Fjór­um árum síðar braut hann heil­ann mjög um það hvort hann vildi sækj­ast eft­ir end­ur­kjöri eft­ir fimm ára setu í Hvíta hús­inu. Hann hlaut glæsi­lega kosn­ingu 1964 og naut þá fyr­ir­renn­ara síns, Johns Kenn­e­dys, og samúðar vegna frá­falls hans. Þegar liðin voru þrjú ár til viðbót­ar var staðan orðin önn­ur. For­set­an­um hafði ekki tek­ist að binda enda á Víet­nam­stríðið og var stríðsrekst­ur­inn mjög óvin­sæll í land­inu enda féllu fjöl­marg­ir ung­ir Banda­ríkja­menn og ekki sást til neinn­ar lausn­ar. Í mik­illi bók um ævi John­sons, sem ber heitið Flawed Gi­ant, er kafli helgaður innri átök­um for­set­ans um það hvort hann ætti að sækj­ast eft­ir end­ur­kjöri eða ekki. Í bók­inni seg­ir: Jafn­vel þótt fjöl­marg­ar ástæður mæltu með því að hann sækt­ist ekki eft­ir end­ur­kjöri, þá hélt hann enn í þær hug­mynd­ir að gera það. Það var ekki fyrr en síðdeg­is 31. mars að hann sann­færði sjálf­an sig um það, að hann ætti að hætta sem for­seti. En jafn­vel þá fékk hann bakþanka. Um morg­un­inn sýndi hann Hubert Hump­hrey vara­for­seta sín­um ræðuna sem hann ætlaði sér að flytja sem ávarp til þjóðar sinn­ar um Víet­nam­stríðið. Ræðan var með tvenns kon­ar ólíka endakafla! Ann­ar boðaði að hann myndi hætta sem for­seti í lok kjör­tíma­bils en hinn það gagn­stæða. Síðdeg­is þann sama dag sagði hann nokkr­um helstu trúnaðarmönn­um sín­um að hann vildi að þeir settu sig í sam­band við ráðherra rík­is­stjórn­ar sinn­ar og leiðtoga þings­ins og til­kynntu þeim þá ákvörðun sína að hann myndi ekki sækj­ast eft­ir end­ur­kjöri. En þeir mættu þó alls ekki byrja á slík­um til­kynn­ing­um fyrr en hann hefði hafið ræðu sína. Hann vildi halda því opnu að hann gæti end­ur­skoðað af­stöðu sína til síðustu stund­ar! For­set­inn hafði hafið ræðu sína þegar helstu trúnaðar­menn hans mátu það svo, að hann myndi lýsa yfir að hann sækt­ist ekki eft­ir end­ur­kjöri. Þá var loks hringt í Hubert Hump­hrey vara­for­seta Banda­ríkj­anna, sem stadd­ur var á fundi í Mexí­kó, og hon­um sagt, að for­set­inn myndi eft­ir nokkr­ar mín­út­ur til­kynna að hann myndi ekki sækj­ast eft­ir end­ur­kjöri.

Vandi demó­krata nú er enn erfiðari en þarna er lýst, því að þeir treysta alls ekki vara­for­set­an­um, Kamala Harris, fyr­ir for­seta­embætt­inu! Geta má þess að Hubert Hump­hrey vara­for­seti tapaði slagn­um fyr­ir Rich­ard Nixon í nóv­em­ber þetta sama ár.

mbl.is