Hvalveiðivertíðinni er lokið. Hvalveiðiskipin Hvalur 8 og Hvalur 9 eru nú komin í land með þrjár langreyðar. Alls hafa þá 24 langreyðar verið veiddar á vertíðinni.
Þetta segir Kristján Loftsson, framkvæmdastjóri Hvals hf., við mbl.is.
Í gær var talið hugsanlegt að hvalbátarnir héldu til veiða á morgun, en nú er ljóst að ekki verður af þeirri ferð.
Eins og margir muna þá ákvað Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra að setja á tímabundið hvalveiðibann í sumar. Hins vegar ákvað hún í ágúst að heimila hvalveiðar að nýju með ýmsum takmörkunum.
Því hefur þessi vertíð verið styttri en vanalega og stóðu veiðar aðeins yfir í 24 daga. Alls veiddust 148 hvalir á vertíðinni í fyrra en 38 hvalir veiddust aðeins í september í fyrra.
Veður hefur verið umhleypingasamt í mánuðinum og segir Kristján að það hafi gert það að verkum að ekki hafi náðst að sækja eins oft á miðin og seinast.