Gæti annað allri orkuþörf heimila

Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir vill láta reyna á hvort íslenskar fjölskyldur …
Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir vill láta reyna á hvort íslenskar fjölskyldur geti gerst orkuframleiðendur og orkusalar. mbl.is/Arnþór Birkisson

„Þetta er rétti tíminn þar sem við erum alveg að verða búin að innleiða snjallmæla á öll heimili svo það er ekkert því til fyrirstöðu að hvert heimili gerist sín eigin orkuveita,“ segir Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, í samtali við mbl.is.

Talið snýst um fýsileikakönnun á stuðningi við uppbyggingu sólarsella á reykvískum heimilum en Ragnhildur mun leggja tillögu fram á morgun þess efnis að borgarstjórn beini því til stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur að skoða fýsileika þess að styðja við uppsetningu sólarsella á heimilum.

„Kveikjan að þessari hugmynd var að maður tekur mikið eftir því erlendis hve mikið þetta er að færast í aukana, til dæmis hve mikið Norðmenn eru að gefa í í þessum efnum, þeir áttuðu sig á því að eftirspurnin eftir orku og þörfin vex á stigveldishraða og til þess að anna þessari þörf og ná orkuskiptunum þurfa þeir bara allar hendur á plóg. Það var eiginlega kjarninn í þessari tillögu,“ segir borgarfulltrúinn.

Kröftugri, hagkvæmari og harðgerðari

Eftir því sem fram kemur í greinargerð með tillögunni þyrfti samkvæmt útreikningum Samorku að byggja því sem nemur þremur Kárahnjúkavirkjunum til að ná fullum orkuskiptum á landi, sjó og í lofti og sé þá ekki meðtalin áætluð orkuþörf hins almenna markaðar og stórnotenda í framtíðinni. Segir svo:

„Til lengri tíma litið er nauðsynlegt að huga að fjölgun virkjana sem og byggingu vindmyllugarða. Slíkum fjárfestingum fylgir þó hár stofnkostnaður og uppbygging þeirra getur tekið langan tíma. Aftur á móti hafa örar tækniframfarir í gerð sólarsella gert þær mun kröftugri, harðgerðari og hagkvæmari en áður og í krafti fjölda húsþaka má koma uppi öflugu neti sólarsella með mikla framleiðslugetu á tiltölulega stuttum tíma. Því er það orðið sífellt útbreiddara erlendis að yfirvöld séu með eitthvers konar niðurgreiðslukerfi til að styðja við kaup íbúa á sólarsellum bæði til einkanota og til að selja framleidda umframorku aftur inn á almenn dreifikerfi.“

Ragnhildur borgarfulltrúi segir þennan möguleika, sólarsellur á húsþökum, geta nýst vel í allri flórunni af orkuframleiðslumöguleikum. Fjölskyldur, eða stakir íbúar eftir atvikum, geti þar með orðið ekki eingöngu orkunotendur heldur einnig orkusalar.

Norðmenn gætu framleitt 3,3 teravött

„Þetta er svolítið spennandi, auðvitað eru sveiflur í þessu eins og öðru en það eru allir að hjálpast að við að koma orkuskiptunum í framkvæmd og það er þannig sem þú nærð bestu lausninni, þegar allir eru með,“ segir Ragnhildur og bendir á að ekki þyrfti nema fáeinar sólarselluþynnur á þak til að anna allri orkuþörf meðalheimilis að jólum meðtöldum.

„Norðmenn reiknuðu út um það bil hvert flatarmál húsþaka landsins er og komust að því að með sólarsellum á þökunum gæti þjóðin í raun framleitt 3,3 tervött á klukkustund og sparað sér einn og hálfan billjarð koltvísýringsgilda í losun á ári. Og þetta er bara í norskum þökum svo hvað eigum við inni í íslenskum þökum?“ spyr Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir borgarfulltrúi að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina