Alls hafa 1,9 milljarðar króna verið greiddir út vegna endurgreiðslukerfis kvikmynda það sem af er ári. Stærstur hluti er vegna innlendra verkefna, 45 talsins á móti 11 erlendum verkefnum. Velta framleiðslu hérlendis vegna allra verkefnanna 57 nam 7,7 milljörðum króna og erlend fjármögnun þremur milljörðum, að því er fram kemur á vef Kvikmyndamiðstöðvar Íslands. Árið 2022 var metár þegar endurgreiðslur vegna kvikmyndaverkefna námu tæpum 3,4 milljörðum króna. Búast má við að það met verði brátt slegið því fram undan er endurgreiðsla vegna framleiðslu á fjórðu seríu sjónvarpsþáttanna True Detective. Komið hefur fram að framleiðslukostnaður hér á landi nemur að minnsta kosti tíu milljörðum króna þannig að endurgreiðslur verða minnst 3,5 milljarðar fyrir það verkefni eitt og sér. Óvíst er þó hvort til endurgreiðslu vegna True Detective kemur í ár eða á næsta ári en áætlað er að þættirnir verði frumsýndir 14. janúar næstkomandi.
Lög um endurgreiðslur til kvikmyndagerðar hafa verið við lýði hér í tæpan aldarfjórðung. Þau tóku fyrst gildi árið 1999 en þá var endurgreiðsluhlutfallið 12%. Fyrsta endurgreiðslan fór fram árið 2001. Hlutfallið var hækkað í 14% árið 2006 og í 20% árið 2009. Árið 2016 var hlutfallið hækkað í 25% og í fyrra í 35%, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum um stærð verkefna.
Gagnrýnisraddir hafa heyrst um ágæti þessa endurgreiðslukerfis og margir spyrja sig af hverju umrædd skilyrði gildi ekki um fleiri atvinnugreinar. Fylgjendur þess hafa haldið á loft sjónarmiðum um verðmætasköpun og að þessi ráðstöfun styðji við aðrar atvinnugreinar. „Kvikmyndir og sjónvarpsseríur sem framleiddar eru hér á landi eru einhver besta landkynning sem við fáum,“ sagði til að mynda Sigríður Mogensen, sviðsstjóri hjá Samtökum iðnaðarins, við Morgunblaðið árið 2021.
Leifur B. Dagfinnsson, framleiðandi hjá Truenorth sem sá um framleiðslu á True Detective á Íslandi, tekur undir þetta og segir að þriðjungur af þeim peningum sem komi inn vegna kvikmyndaverkefna fari beint til ferðaþjónustunnar. „Endurgreiðslan er fyrst og fremst markaðstól, ekki bara fyrir kvikmyndageirann heldur líka fyrir okkar stærsta útflutningsgeira, ferðamannaiðnaðinn.“
Hann segir að hátt í 500 heilsársstörf hafi orðið til í kringum framleiðslu á True Detective á Íslandi. „Þetta er 80 eða 90% íslenskt vinnuafl sem greiðir allt skatta á Íslandi. Erlend stúdíó og streymisveitur eru nú að fjárfesta í íslensku vinnuafli. Öll þessi starfsemi er virðisaukandi fyrir okkar hagkerfi.“
Leifur segir að stundum gæti misskilnings á því hvernig endurgreiðsla vegna framleiðslukostnaðar virki. Margir virðist sjá þetta sem kostnað fyrir ríkið en svo sé ekki. „Þessi erlenda fjárfesting væri ekki að koma inn í landið nema af því að hér býðst 35% endurgreiðsla. Hér eru að koma ríflega tíu milljarðar króna í bandaríkjadölum inn í okkar hagkerfi vegna True Detective. Þeir hafa verið að mjatlast inn á einu og hálfu ári frá því að undirbúningur hófst og þar til eftirvinnslu lýkur endanlega. Þessi peningur er inni í hagkerfinu og hann kemur með olíu á hagkerfisvélina. Fyrir hvert starf sem þessi peningur skapar á kvikmyndasetti skapar hann tvö önnur úti í samfélaginu. Svona verkefni skilar því ekki bara launaskatti af starfsfólki, í rauninni geturðu sett margföldunarstuðulinn tvo á allar skatttekjur við myndina.“
Mikið af tökum við stór kvikmyndaverkefni eru úti á landi og starfsfólk fær þá dagpeninga. Leifur segist hafa heyrt nokkrar sögur um þá lyftistöng sem slíkar heimsóknir hafi verið fyrir ferðaþjónustufyrirtæki og veitingahús. „Það voru til að mynda tveir rekstraraðilar á Akureyri, eitt kaffihús og einn veitingastaður og bar, sem voru að velta fyrir sér að hætta rekstri. Þau plön gjörbreyttust við að True Detective-serían fór í tökur á Akureyri í 4-5 vikur. Þetta fólk sagði að það hefði hreinlega bjargað rekstrinum. Hinn þátturinn er svo að geta skapað svona mörg heilsársstörf og öryggi fyrir íslenskt tæknifólk auk þess að við getum fjárfest í þróun og uppbyggingu á aðstöðu og tækjabúnaði sem einnig nýtist fyrir innlenda kvikmyndaframleiðslu og ekki má gleyma að þetta er grundvöllur uppbyggingar kvikmyndavera á Íslandi.“
Hann segir að erlendar rannsóknir sýni að arðsemisáhrif af kvikmyndaverkefnum sem þessum séu mjög sterk. Á Írlandi sé til að mynda gengið út frá því að arðsemisstuðullinn sé fjórir. Hver evra sem kemur inn verði að fjórum í hagkerfinu. „Ef við notumst við þá formúlu þá verða þessir tíu milljarðar sem hingað koma að 40 milljörðum í hagkerfinu. Endurgreiðslan eftir að framleiðslu lýkur er hins vegar bara af höfuðstólnum, því sem kom upphaflega inn, þessum tíu milljörðum. Ríkið borgar þá 3,5 milljarða til baka en það er búið að búa þann pening til af þessum 40 með afleiddum störfum í hagkerfinu. Þessi peningur er því mjög arðbær.“
Hann segir að það sé ástæða fyrir því að kerfi sem þetta sé við lýði í mörgum löndum og ríkjum Bandaríkjanna. „Fyrir mér er þetta „no brainer“ og hentar Íslandi sérstaklega vel. Þetta er umhverfisvæn starfsemi og styður við ferðamannaiðnaðinn sem við erum að byggja á.“
Fáðu þér áskrift til að lesa áfram
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu,
rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki
á mbl.is.