Hver króna verði að fjórum í hagkerfinu

Dalvík var breytt í bæ í Alaska við tökur á …
Dalvík var breytt í bæ í Alaska við tökur á True Detective síðasta vetur. Mörg afleidd störf verða til við slíkar tökur, að mati framleiðenda. Ljósmynd/Valgeir Ómar Jónsson

Alls hafa 1,9 millj­arðar króna verið greidd­ir út vegna end­ur­greiðslu­kerf­is kvik­mynda það sem af er ári. Stærst­ur hluti er vegna inn­lendra verk­efna, 45 tals­ins á móti 11 er­lend­um verk­efn­um. Velta fram­leiðslu hér­lend­is vegna allra verk­efn­anna 57 nam 7,7 millj­örðum króna og er­lend fjár­mögn­un þrem­ur millj­örðum, að því er fram kem­ur á vef Kvik­mynda­miðstöðvar Íslands. Árið 2022 var metár þegar end­ur­greiðslur vegna kvik­mynda­verk­efna námu tæp­um 3,4 millj­örðum króna. Bú­ast má við að það met verði brátt slegið því fram und­an er end­ur­greiðsla vegna fram­leiðslu á fjórðu seríu sjón­varpsþátt­anna True Detecti­ve. Komið hef­ur fram að fram­leiðslu­kostnaður hér á landi nem­ur að minnsta kosti tíu millj­örðum króna þannig að end­ur­greiðslur verða minnst 3,5 millj­arðar fyr­ir það verk­efni eitt og sér. Óvíst er þó hvort til end­ur­greiðslu vegna True Detecti­ve kem­ur í ár eða á næsta ári en áætlað er að þætt­irn­ir verði frum­sýnd­ir 14. janú­ar næst­kom­andi.

Lög um end­ur­greiðslur til kvik­mynda­gerðar hafa verið við lýði hér í tæp­an ald­ar­fjórðung. Þau tóku fyrst gildi árið 1999 en þá var end­ur­greiðslu­hlut­fallið 12%. Fyrsta end­ur­greiðslan fór fram árið 2001. Hlut­fallið var hækkað í 14% árið 2006 og í 20% árið 2009. Árið 2016 var hlut­fallið hækkað í 25% og í fyrra í 35%, að upp­fyllt­um ákveðnum skil­yrðum um stærð verk­efna.

Gagn­rýn­isradd­ir hafa heyrst um ágæti þessa end­ur­greiðslu­kerf­is og marg­ir spyrja sig af hverju um­rædd skil­yrði gildi ekki um fleiri at­vinnu­grein­ar. Fylgj­end­ur þess hafa haldið á loft sjón­ar­miðum um verðmæta­sköp­un og að þessi ráðstöf­un styðji við aðrar at­vinnu­grein­ar. „Kvik­mynd­ir og sjón­varps­serí­ur sem fram­leidd­ar eru hér á landi eru ein­hver besta land­kynn­ing sem við fáum,“ sagði til að mynda Sig­ríður Mo­gensen, sviðsstjóri hjá Sam­tök­um iðnaðar­ins, við Morg­un­blaðið árið 2021.

Leif­ur B. Dag­finns­son, fram­leiðandi hjá Tru­en­orth sem sá um fram­leiðslu á True Detecti­ve á Íslandi, tek­ur und­ir þetta og seg­ir að þriðjung­ur af þeim pen­ing­um sem komi inn vegna kvik­mynda­verk­efna fari beint til ferðaþjón­ust­unn­ar. „End­ur­greiðslan er fyrst og fremst markaðstól, ekki bara fyr­ir kvik­mynda­geir­ann held­ur líka fyr­ir okk­ar stærsta út­flutn­ings­geira, ferðamannaiðnaðinn.“

Hann seg­ir að hátt í 500 heils­árs­störf hafi orðið til í kring­um fram­leiðslu á True Detecti­ve á Íslandi. „Þetta er 80 eða 90% ís­lenskt vinnu­afl sem greiðir allt skatta á Íslandi. Er­lend stúd­íó og streym­isveit­ur eru nú að fjár­festa í ís­lensku vinnu­afli. Öll þessi starf­semi er virðis­auk­andi fyr­ir okk­ar hag­kerfi.“

Leif­ur seg­ir að stund­um gæti mis­skiln­ings á því hvernig end­ur­greiðsla vegna fram­leiðslu­kostnaðar virki. Marg­ir virðist sjá þetta sem kostnað fyr­ir ríkið en svo sé ekki. „Þessi er­lenda fjár­fest­ing væri ekki að koma inn í landið nema af því að hér býðst 35% end­ur­greiðsla. Hér eru að koma ríf­lega tíu millj­arðar króna í banda­ríkja­döl­um inn í okk­ar hag­kerfi vegna True Detecti­ve. Þeir hafa verið að mjatl­ast inn á einu og hálfu ári frá því að und­ir­bún­ing­ur hófst og þar til eft­ir­vinnslu lýk­ur end­an­lega. Þessi pen­ing­ur er inni í hag­kerf­inu og hann kem­ur með olíu á hag­kerf­is­vél­ina. Fyr­ir hvert starf sem þessi pen­ing­ur skap­ar á kvik­mynda­setti skap­ar hann tvö önn­ur úti í sam­fé­lag­inu. Svona verk­efni skil­ar því ekki bara launa­skatti af starfs­fólki, í raun­inni get­urðu sett marg­föld­un­arstuðul­inn tvo á all­ar skatt­tekj­ur við mynd­ina.“

Mikið af tök­um við stór kvik­mynda­verk­efni eru úti á landi og starfs­fólk fær þá dag­pen­inga. Leif­ur seg­ist hafa heyrt nokkr­ar sög­ur um þá lyfti­stöng sem slík­ar heim­sókn­ir hafi verið fyr­ir ferðaþjón­ustu­fyr­ir­tæki og veit­inga­hús. „Það voru til að mynda tveir rekstr­araðilar á Ak­ur­eyri, eitt kaffi­hús og einn veit­ingastaður og bar, sem voru að velta fyr­ir sér að hætta rekstri. Þau plön gjör­breytt­ust við að True Detecti­ve-serí­an fór í tök­ur á Ak­ur­eyri í 4-5 vik­ur. Þetta fólk sagði að það hefði hrein­lega bjargað rekstr­in­um. Hinn þátt­ur­inn er svo að geta skapað svona mörg heils­árs­störf og ör­yggi fyr­ir ís­lenskt tækni­fólk auk þess að við get­um fjár­fest í þróun og upp­bygg­ingu á aðstöðu og tækja­búnaði sem einnig nýt­ist fyr­ir inn­lenda kvik­mynda­fram­leiðslu og ekki má gleyma að þetta er grund­völl­ur upp­bygg­ing­ar kvik­mynda­vera á Íslandi.“

Hann seg­ir að er­lend­ar rann­sókn­ir sýni að arðsem­isáhrif af kvik­mynda­verk­efn­um sem þess­um séu mjög sterk. Á Írlandi sé til að mynda gengið út frá því að arðsem­isstuðull­inn sé fjór­ir. Hver evra sem kem­ur inn verði að fjór­um í hag­kerf­inu. „Ef við not­umst við þá formúlu þá verða þess­ir tíu millj­arðar sem hingað koma að 40 millj­örðum í hag­kerf­inu. End­ur­greiðslan eft­ir að fram­leiðslu lýk­ur er hins veg­ar bara af höfuðstóln­um, því sem kom upp­haf­lega inn, þess­um tíu millj­örðum. Ríkið borg­ar þá 3,5 millj­arða til baka en það er búið að búa þann pen­ing til af þess­um 40 með af­leidd­um störf­um í hag­kerf­inu. Þessi pen­ing­ur er því mjög arðbær.“

Hann seg­ir að það sé ástæða fyr­ir því að kerfi sem þetta sé við lýði í mörg­um lönd­um og ríkj­um Banda­ríkj­anna. „Fyr­ir mér er þetta „no brainer“ og hent­ar Íslandi sér­stak­lega vel. Þetta er um­hverf­i­s­væn starf­semi og styður við ferðamannaiðnaðinn sem við erum að byggja á.“

mbl.is