Þingið verði að bregðast skjótt við

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, segir brýnt að þingið bregðist skjótt …
Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, segir brýnt að þingið bregðist skjótt við. AFP

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, segir brýnt að fulltrúadeild Bandaríkjaþins bregðist skjótt við og kjósi nýjan forseta. Repúblikaninn Kevin McCarthy hrökklaðist úr embætti fyrr í kvöld. 

Fulltrúadeild Bandaríkjaþings samþykkti í kvöld vantrauststillögu á McCarty en hún var samþykkt með 216 atkvæðum gegn 210.

„Vegna þess að hinar brýnu áskoranir sem þjóðin stendur frammi fyrir munu ekki bíða vonar hann að þingið verði fljótt að kjósa sér nýjan forseta,“ sagði Karine Jean-Pierre, fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins, í tilkynningu sem birt var eftir að niðurstaðan lá fyrir í þinginu.

Þingið er svo að segja í lamasessi eftir að niðurstaðan lá fyrir, en hún getur ekki tekið fyrir þingmál nema forseti sé í þinginu. 

Niðurstaðan þykir söguleg en þetta er í fyrsta skipti sem forseti fulltrúadeildarinnar hefur verið felldur úr embætti.

Átta þingmenn Repúblikana greiddu atkvæði með tillögunni auk allra Demókrata sem viðstaddir voru. 

mbl.is