Nettengingar eru skipaskurðir nútímans

Piltar í Palestínu gera sig klára fyrir salíbunu í áveituskurði …
Piltar í Palestínu gera sig klára fyrir salíbunu í áveituskurði sem má með smávegis hugvitssemi breyta í vatnsrennibraut í sumarhitanum. Ef innviðirnir eru fyrir hendi getur fólk fundið sköpunargáfu sinni farveg. AFP/Menahem Kahana

Ég stalst um dag­inn til að hlusta á Aðgát og ör­lyndi (e. Sen­se and Sensi­bility) í framúrsk­ar­andi flutn­ingi leik­kon­unn­ar Rosamund Pike. Í nokkra daga fékk ég að fylgj­ast með hvers­dags­drama­tík og stráka­stússi systr­anna El­in­or og Mari­anne í kring­um alda­mót­in 1800, og það er gam­an hvað hegðun ung­linga og full­orðinna hef­ur lítið breyst frá því Jane Austen skrifaði þetta hríf­andi meist­ara­verk sitt. Draum­ar okk­ar, þrár og breysk­leik­ar eru þau sömu tveim­ur öld­um síðar og helsti mun­ur­inn að í dag skipu­legg­ur fólk ráðahagi sína aðallega á Tind­er, Grindr, Face­book og In­sta­gram.

Það hef­ur verið sagt um skrif Austen að þau séu ef til vill ekki al­veg nógu raun­sæ, að minnsta kosti ef sög­ur henn­ar eru skoðaðar í gegn­um linsu hag­fræðinn­ar, því hlut­fallið á milli heldri borg­ara og alls kyns þjón­ustu­fólks virðist óra­langt frá því að geta tal­ist í eðli­legu jafn­vægi. Sögu­hetj­urn­ar eiga alltaf nóg af pen­ing­um en vinna ekki stakt hand­tak, og fátt sem út­skýr­ir hvaðan all­ur auður­inn var feng­inn.

Kannski var það ein­mitt upp­lif­un Eng­lend­inga á þess­um tíma að pen­ing­arn­ir virt­ust nán­ast verða til af sjálfu sér. Iðnbylt­ing­in hófst upp úr 1760 og næstu hundrað árin þar á eft­ir marg­faldaðist lands­fram­leiðslan.

En það vill stund­um gleym­ast í um­fjöll­un um bresku iðnbylt­ing­una að hún byggðist ekki aðeins á tækni­fram­förum, held­ur grund­vallaðist hún líka á mik­illi fjár­fest­ingu í bætt­um innviðum – þ.e. veg­um og skipa­sk­urðum – sem auðvelduðu sam­göng­ur og vöru­flutn­inga.

Var kapp­sem­in við innviðagerðina svo mik­il að und­ir lok 18. ald­ar myndaðist meira að segja skipa­sk­urða-fjár­fest­ing­ar­bóla: enda­lok átak­anna við ný­lend­urn­ar í Banda­ríkj­un­um léttu mikl­um byrðum af breska hag­kerf­inu og upp­sker­an var með besta móti nokk­ur ár í röð svo að mikið fé komst í um­ferð, sem spá­kaup­menn notuðu til að fjár­festa í nýj­um skipa­sk­urðum. All­ur gang­ur var á því hvort skurðirn­ir skiluðu hagnaði en þar sem um einkafram­tak var að ræða voru það ekki skatt­greiðend­ur, held­ur fjár­fest­arn­ir sjálf­ir, sem sátu uppi með tapið.

Þess­ir nýju innviðir gerðu hag­kerfið mun skil­virk­ara, enda varð auðveld­ara og ódýr­ara að koma land­búnaðar­vör­um, kol­um og iðnaðarfram­leiðslu í hend­ur kaup­enda. Verðmætafram­leiðsla jókst og kaup­mátt­ur­inn með, öll­um til hags­bóta. Svona geta góðir innviðir leyst ótrú­lega krafta úr læðingi.

Orka, skól­ar, veg­ir, íbúðir og há­hraðanet

Tvær ald­ir eru liðnar frá iðnbylt­ing­unni og mætti halda að hag­kerfi heims­ins störfuðu núna eft­ir allt öðrum lög­mál­um – en samt hef­ur ekk­ert dregið úr mik­il­vægi góðra innviða. Nú­tíma­hag­kerfi þurfa ekki á skipa­sk­urðum að halda en hins veg­ar þurfa þau eft­ir­far­andi: gott mennta­kerfi, viðun­andi fram­boð af hag­kvæmu hús­næði, greiðar sam­göng­ur fyr­ir fólks- og vöru­flutn­inga, nægt fram­boð af raf­orku á góðu verði, og nú síðast hraða netteng­ingu við um­heim­inn sem er orðin ómiss­andi.

Ísland er í afar góðri stöðu hvað marga af þess­um grunnþátt­um varðar og boðar það gott fyr­ir hag­vöxt kom­andi ára­tuga. Ekki eru þó all­ir þess­ir innviðir og und­ir­stöður í góðu lagi og á sum­um sviðum þarf held­ur bet­ur að bretta upp erm­arn­ar.

Staðan í sam­göngu­mál­um er bæri­leg: það veit­ir ekki af að bæta vega­kerfið til að laga um­ferðartepp­una á höfuðborg­ar­svæðinu og til að ráða við all­an ferðamannaflaum­inn á lands­byggðinni, en á móti kem­ur að flug­sam­göng­ur til og frá land­inu eru miklu betri en bú­ast mætti við hjá svona fá­mennri þjóð og skipa­flutn­ing­ar ágæt­ir þó að sam­keppn­in mætti ef­laust vera harðari.

Fram­boðið af raf­orku er líka mjög gott í sam­an­b­urði við flest önn­ur lönd en hag­fræðing­ar hafa fyr­ir löngu sýnt fram á að það er þráðbeint sam­band á milli orku­fram­leiðslu og hag­sæld­ar. Skipt­ar skoðanir eru um hvort kem­ur á und­an; ork­an eða hag­sæld­in, og er senni­lega um sam­verk­andi ferli að ræða: með orku má skapa ný verðmæti og ný störf sem síðan ýta und­ir orku­eft­ir­spurn, og þannig koll af kolli. Alltént á það við um öll fá­tæk ríki að þau fram­leiða og nota lítið af raf­orku.

Stjórn­völd sofnuðu á verðinum svo að stefn­ir í orku­skort á kom­andi árum en næg­ir virkj­un­ar­kost­ir eru í boði og með sam­stilltu átaki er hægt að koma orku­fram­boðinu aft­ur á rétta braut.

Landið býr líka að góðum netteng­ing­um og nú síðast að tveir stærstu ris­arn­ir á markaðinum kynntu til sög­unn­ar 10 gíga­bita ljós­leiðara­sam­band. Það er með netið eins og raf­magnið, að betri teng­ing­ar skapa tæki­færi fyr­ir nýj­ar lausn­ir og nýj­ar vör­ur, sem síðan kalla á enn meiri gagna­flutn­ings­getu. Í rík­ustu hag­kerf­un­um er hag­vöxt­ur nú drif­inn áfram af net- og tæknifyr­ir­tækj­um og ef gagna­flutn­ings­get­una vant­ar stend­ur sta­f­ræna hag­kerfið í stað.

Illa læs og leig­an slig­andi

Ástand mennta­kerf­is­ins er meiri hátt­ar áhyggju­efni enda sýna rann­sókn­ir að stór hluti ís­lenskra nem­enda lýk­ur grunn­skóla án þess að geta lesið sér til gagns eða geta leyst ein­föld reikn­ings­dæmi. Þá lenti Ísland í 26. til 36. sæti af þeim 79 þjóðum sem tóku þátt í síðustu PISA-rann­sókn, og það þrátt fyr­ir all­an þann metnað sem lagður hef­ur verið í kyn­fræðslu hjá yngstu bekkj­un­um. Ef ég ætti barn í ís­lensk­um grunn­skóla væri mér ekki um sel og myndi nota hvert tæki­færi til að þrýsta á stjórn­mála­menn að taka upp ávís­ana­kerfi til að skapa ein­hverja sam­keppni á skóla­markaðinum.

Loks er ástand ís­lenska fast­eigna­markaðar­ins risa­vaxið vanda­mál en eins og ég hef bent á í fyrri pistl­um þá er það engu hag­kerfi til gagns ef hús­næði er dýr­ara en það þarf að vera. Dýrt hús­næði trufl­ar skil­virka dreif­ingu vinnu­afls og sýg­ur til sín fjár­magn sem ann­ars væri varið í kaup á vör­um og þjón­ustu eða notað til að fjár­festa í verðmæta­skap­andi verk­efn­um.

Þeir sem lesið hafa sögu Austen muna að það varð þeim El­in­or, Mari­anne og móður þeirra ein­mitt til happs, þegar fjöl­skyldufaðir­inn féll frá, að þeim skyldi óvænt ber­ast boð frá fjar­skyld­um frænda um að setj­ast að í fal­legu litlu húsi í sveit­inni og greiða aðeins mála­mynda­upp­hæð í leigu. Það varð systr­un­um líka til happs að hafa fengið ágæt­is mennt­un, svo þær gátu heillað ungu menn­ina í hreppn­um með þekk­ingu sinni á list­um og bók­mennt­um og með hríf­andi sendi­bréf­um.

Bú­slóðina sendu mæðgurn­ar auðvitað með pramma, stystu leið eft­ir næsta skipa­sk­urði.

Grunn­atriðin voru í lagi svo þær gátu bjargað sér og á end­an­um fundu syst­urn­ar ham­ingj­una í faðmin­um á aga­lega fín­um og elsku­leg­um körl­um.

Róm­an­tík er best í hófi

Kannski seg­ir það sína sögu að í Aðgát og ör­lyndi er hvergi minnst á stjórn­mál, því það virðist að ef innviðirn­ir eru í lagi muni hag­kerfið blómstra nán­ast sama hvað stjórn­mála­mönn­um dett­ur í hug. Ef und­ir­stöðurn­ar eru eins og þær eiga að vera þá nær fólk að sjá um sig sjálft og hef­ur ekki sömu þörf­ina fyr­ir að velja póli­tík­usa til að vaka yfir stóru og smáu, fálma eft­ir lausn­um, slökkva elda og út­deila gjöf­um í skipt­um fyr­ir at­kvæði.

Að öllu þessu sögðu þá þarf vita­skuld að byggja upp und­ir­stöður og innviði af skyn­semi, reyna að virkja einkafram­takið sem víðast og ekki ráðast í verk­efni sem hæpið er að skili sam­fé­lag­inu ávinn­ingi í réttu hlut­falli við kostnaðinn. Á Íslandi virðast menn oft gleyma því að setja fyrst af öllu nokkr­ar töl­ur í Excel-skjal og sjá hvort hug­mynd­ir þeirra geti með nokkru móti borgað sig.

Í staðinn hætt­ir þeim til að týn­ast í af­skap­lega fal­leg­um og róm­an­tísk­um fant­así­um sem gefa bestu verk­um Jane Austen ekk­ert eft­ir.

mbl.is