Það hefur verið sagt um skrif Austen að þau séu ef til vill ekki alveg nógu raunsæ, að minnsta kosti ef sögur hennar eru skoðaðar í gegnum linsu hagfræðinnar, því hlutfallið á milli heldri borgara og alls kyns þjónustufólks virðist óralangt frá því að geta talist í eðlilegu jafnvægi. Söguhetjurnar eiga alltaf nóg af peningum en vinna ekki stakt handtak, og fátt sem útskýrir hvaðan allur auðurinn var fenginn.
Kannski var það einmitt upplifun Englendinga á þessum tíma að peningarnir virtust nánast verða til af sjálfu sér. Iðnbyltingin hófst upp úr 1760 og næstu hundrað árin þar á eftir margfaldaðist landsframleiðslan.
En það vill stundum gleymast í umfjöllun um bresku iðnbyltinguna að hún byggðist ekki aðeins á tækniframförum, heldur grundvallaðist hún líka á mikilli fjárfestingu í bættum innviðum – þ.e. vegum og skipaskurðum – sem auðvelduðu samgöngur og vöruflutninga.
Var kappsemin við innviðagerðina svo mikil að undir lok 18. aldar myndaðist meira að segja skipaskurða-fjárfestingarbóla: endalok átakanna við nýlendurnar í Bandaríkjunum léttu miklum byrðum af breska hagkerfinu og uppskeran var með besta móti nokkur ár í röð svo að mikið fé komst í umferð, sem spákaupmenn notuðu til að fjárfesta í nýjum skipaskurðum. Allur gangur var á því hvort skurðirnir skiluðu hagnaði en þar sem um einkaframtak var að ræða voru það ekki skattgreiðendur, heldur fjárfestarnir sjálfir, sem sátu uppi með tapið.
Þessir nýju innviðir gerðu hagkerfið mun skilvirkara, enda varð auðveldara og ódýrara að koma landbúnaðarvörum, kolum og iðnaðarframleiðslu í hendur kaupenda. Verðmætaframleiðsla jókst og kaupmátturinn með, öllum til hagsbóta. Svona geta góðir innviðir leyst ótrúlega krafta úr læðingi.
Orka, skólar, vegir, íbúðir og háhraðanet
Tvær aldir eru liðnar frá iðnbyltingunni og mætti halda að hagkerfi heimsins störfuðu núna eftir allt öðrum lögmálum – en samt hefur ekkert dregið úr mikilvægi góðra innviða. Nútímahagkerfi þurfa ekki á skipaskurðum að halda en hins vegar þurfa þau eftirfarandi: gott menntakerfi, viðunandi framboð af hagkvæmu húsnæði, greiðar samgöngur fyrir fólks- og vöruflutninga, nægt framboð af raforku á góðu verði, og nú síðast hraða nettengingu við umheiminn sem er orðin ómissandi.
Ísland er í afar góðri stöðu hvað marga af þessum grunnþáttum varðar og boðar það gott fyrir hagvöxt komandi áratuga. Ekki eru þó allir þessir innviðir og undirstöður í góðu lagi og á sumum sviðum þarf heldur betur að bretta upp ermarnar.
Staðan í samgöngumálum er bærileg: það veitir ekki af að bæta vegakerfið til að laga umferðarteppuna á höfuðborgarsvæðinu og til að ráða við allan ferðamannaflauminn á landsbyggðinni, en á móti kemur að flugsamgöngur til og frá landinu eru miklu betri en búast mætti við hjá svona fámennri þjóð og skipaflutningar ágætir þó að samkeppnin mætti eflaust vera harðari.
Framboðið af raforku er líka mjög gott í samanburði við flest önnur lönd en hagfræðingar hafa fyrir löngu sýnt fram á að það er þráðbeint samband á milli orkuframleiðslu og hagsældar. Skiptar skoðanir eru um hvort kemur á undan; orkan eða hagsældin, og er sennilega um samverkandi ferli að ræða: með orku má skapa ný verðmæti og ný störf sem síðan ýta undir orkueftirspurn, og þannig koll af kolli. Alltént á það við um öll fátæk ríki að þau framleiða og nota lítið af raforku.
Stjórnvöld sofnuðu á verðinum svo að stefnir í orkuskort á komandi árum en nægir virkjunarkostir eru í boði og með samstilltu átaki er hægt að koma orkuframboðinu aftur á rétta braut.
Landið býr líka að góðum nettengingum og nú síðast að tveir stærstu risarnir á markaðinum kynntu til sögunnar 10 gígabita ljósleiðarasamband. Það er með netið eins og rafmagnið, að betri tengingar skapa tækifæri fyrir nýjar lausnir og nýjar vörur, sem síðan kalla á enn meiri gagnaflutningsgetu. Í ríkustu hagkerfunum er hagvöxtur nú drifinn áfram af net- og tæknifyrirtækjum og ef gagnaflutningsgetuna vantar stendur stafræna hagkerfið í stað.
Illa læs og leigan sligandi
Ástand menntakerfisins er meiri háttar áhyggjuefni enda sýna rannsóknir að stór hluti íslenskra nemenda lýkur grunnskóla án þess að geta lesið sér til gagns eða geta leyst einföld reikningsdæmi. Þá lenti Ísland í 26. til 36. sæti af þeim 79 þjóðum sem tóku þátt í síðustu PISA-rannsókn, og það þrátt fyrir allan þann metnað sem lagður hefur verið í kynfræðslu hjá yngstu bekkjunum. Ef ég ætti barn í íslenskum grunnskóla væri mér ekki um sel og myndi nota hvert tækifæri til að þrýsta á stjórnmálamenn að taka upp ávísanakerfi til að skapa einhverja samkeppni á skólamarkaðinum.
Loks er ástand íslenska fasteignamarkaðarins risavaxið vandamál en eins og ég hef bent á í fyrri pistlum þá er það engu hagkerfi til gagns ef húsnæði er dýrara en það þarf að vera. Dýrt húsnæði truflar skilvirka dreifingu vinnuafls og sýgur til sín fjármagn sem annars væri varið í kaup á vörum og þjónustu eða notað til að fjárfesta í verðmætaskapandi verkefnum.
Þeir sem lesið hafa sögu Austen muna að það varð þeim Elinor, Marianne og móður þeirra einmitt til happs, þegar fjölskyldufaðirinn féll frá, að þeim skyldi óvænt berast boð frá fjarskyldum frænda um að setjast að í fallegu litlu húsi í sveitinni og greiða aðeins málamyndaupphæð í leigu. Það varð systrunum líka til happs að hafa fengið ágætis menntun, svo þær gátu heillað ungu mennina í hreppnum með þekkingu sinni á listum og bókmenntum og með hrífandi sendibréfum.
Búslóðina sendu mæðgurnar auðvitað með pramma, stystu leið eftir næsta skipaskurði.
Grunnatriðin voru í lagi svo þær gátu bjargað sér og á endanum fundu systurnar hamingjuna í faðminum á agalega fínum og elskulegum körlum.
Rómantík er best í hófi
Kannski segir það sína sögu að í Aðgát og örlyndi er hvergi minnst á stjórnmál, því það virðist að ef innviðirnir eru í lagi muni hagkerfið blómstra nánast sama hvað stjórnmálamönnum dettur í hug. Ef undirstöðurnar eru eins og þær eiga að vera þá nær fólk að sjá um sig sjálft og hefur ekki sömu þörfina fyrir að velja pólitíkusa til að vaka yfir stóru og smáu, fálma eftir lausnum, slökkva elda og útdeila gjöfum í skiptum fyrir atkvæði.
Að öllu þessu sögðu þá þarf vitaskuld að byggja upp undirstöður og innviði af skynsemi, reyna að virkja einkaframtakið sem víðast og ekki ráðast í verkefni sem hæpið er að skili samfélaginu ávinningi í réttu hlutfalli við kostnaðinn. Á Íslandi virðast menn oft gleyma því að setja fyrst af öllu nokkrar tölur í Excel-skjal og sjá hvort hugmyndir þeirra geti með nokkru móti borgað sig.
Í staðinn hættir þeim til að týnast í afskaplega fallegum og rómantískum fantasíum sem gefa bestu verkum Jane Austen ekkert eftir.