Bandaríska varnarmálaráðuneytið Pentagon segist reiðubúið til að senda langdrægar eldflaugar, svonefndar ATACMS, til Úkraínu. Hægt sé að hefja flutning á þeim án tafar, einungis sé nú beðið eftir endanlegri ákvörðun Bandaríkjaforseta. Flaugarnar verða búnar klasasprengjuoddi og munu geta hæft skotmörk í allt að 300 kílómetra fjarlægð, eða djúpt inn á hertekin svæði Úkraínu. En hvað eru eiginlega ATACMS og við hverju má búast eftir afhendingu þeirra?
Vopnakerfið ATACMS, sem er skammstöfun fyrir það sem á ensku nefnist Army Tactical Missile System, var hannað af bandaríska vopnaframleiðandanum Lockheed Martin seint á níunda áratugnum. Í mikilli einföldun má lýsa kerfinu á þá leið að um sé að ræða eina fjögurra metra langa stýriflaug sem hýst er inni í kassalaga skothólki. Stýriflaugina má útbúa með ólíkum sprengihleðslum, s.s. klasasprengjum, og skothólknum má koma fyrir á sömu vögnum og hýsa eldflaugakerfin HIMARS og MLRS. Bæði þessi vopnakerfi eru þegar komin í notkun á vígvöllum Úkraínu. ATACMS-kerfið er margreynt í vopnuðum átökum, þykir afar nákvæmt og er stýrt af bæði GPS og innbyggðri tölvustýringu.
Eftir að ATACMS-flaug hefur verið sleppt rís hún þegar hátt til lofts og tekur stefnuna á skotmark sitt. Á leið sinni þangað getur flaugin breytt flughæð og stefnu skyndilega en slíkt ásamt miklum flughraða flækir mjög vinnu loftvarnasveita. Skömmu áður en ATACMS nær skotmarki sínu stóreykur hún flughraða og tekur skarpa dýfu. Samhliða þessu byrjar stýriflaugin að hringsnúast og opnast í kjölfarið. Og það er þá sem um 300 smásprengjur, svonefndar M74, losna og dreifast yfir skotmarkið með skelfilegum afleiðingum.
Berja þarf á Krímskaga
Vestrænir hernaðarsérfræðingar eru sammála um mikla getu ATACMS-kerfisins til að granda óbrynvörðum skotmörkum með klasasprengjuoddi. Telja þeir miklar líkur á því að Úkraínuher muni nota kerfið til að sprengja upp loftvarnakerfi Rússa, ökutæki, eldsneytisgeymslur og fótgönguliða. Flugvélar og þyrlur á jörðu niðri eru einnig sagðar afar líkleg skotmörk.
Með vel heppnaðri ATACMS-árás á Sakí-herflugvöll á Krímskaga yrði hægt að lama algerlega flugsveitir Svartahafsflota Rússlands. Fyrri loftárásir Úkraínu á völlinn hafa eyðilagt eða ónýtt um helming flugflotans. Hernaðarsérfræðingar benda á að Rússar geymi herflugvélar og -þyrlur sínar á opnum svæðum flugvallarins. Sprengjuheld flugskýli séu ekki til staðar. Öflug ATACMS-árás gæti því auðveldlega gjöreytt þeim loftförum sem standa á vellinum og miklar líkur eru á að eldhaf og sprengingar myndu í kjölfarið stórskemma mikilvæga innviði flugvallarins.
Ben Hodges, fyrrverandi yfirmaður herafla Atlantshafsbandalagsins (NATO) í Evrópu, segir mikilvægt nú að berja linnulaust á Krímskaga. Leggja ætti ofuráherslu á daglegar loftárásir á herskip Svartahafsflotans við Sevastopol og Sakí-flugvöll.
„Takist Úkraínumönnum að endurheimta Krímskaga eða minnst koma í veg fyrir að Rússar geti athafnað sig þar, þá vinna þeir þetta stríð,“ sagði hann í viðtali við Deutsche Welle og benti á að landsókn Úkraínuhers hefði það markmið að skera á landleiðina til Krímskaga.
„Þegar búið er að skera á landleiðina, annaðhvort með sprengjuregni eða hernámi, þá er ekkert eftir nema Kertsj-brúin. Og þá er Krímskagi kominn í klípu. Öll gagnsóknin hefur það að marki að einangra Krímskaga, gera hann ónothæfan og að lokum frelsa. Lykillinn að þessu öllu saman eru langdræg vopnakerfi, til að mynda ATACMS-eldflaugar,“ sagði hann.
Fáðu þér áskrift til að lesa áfram
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu,
rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki
á mbl.is.