Fljótt skipast veður í lofti

Við Íslend­ing­ar lít­um gjarn­an um öxl, og „til aust­urs“, til annarra Norður­landa, og telj­um okk­ur óhætt að eiga þjóðirn­ar þar sem fyr­ir­mynd­ir um margt og jafn­vel flest, enda mæl­ast þær einatt hæst­ar meðal þjóða, á þá mörgu mæli­kv­arða sem eft­ir­sótt­ir þykja. En þegar liðin tíð er skoðuð, þá er það svo, að í raun hafa þess­ar frændþjóðir fikrað sig eft­ir eig­in stíg­um í veiga­mikl­um efn­um, einkum forðum tíð, og iðulega nálg­ast til­veru nú­tím­ans einnig um margt úr ólík­um átt­um. Og þegar við Íslend­ing­ar skoðuðum okk­ar mál bet­ur var ekki endi­lega feng­ur að apa eft­ir frændþjóðunum í stóru sem smáu. Í mörg­um grein­um urðu því efnis­tök­in ólík þeim sem „frænd­ur okk­ar“ til­einkuðu sér í ein­stök­um efn­um, þótt vissu­lega hafi mörgu svipað sam­an og all­ir hafi haft hag af að horfa til og meta fyr­ir sig, hvort vel hafi tek­ist til eða verr. Er ekki frá­leitt að ætla að stund­um höf­um við „grætt“ á því að flýta okk­ur hægt frem­ur en að fara of fljótt í kjöl­far nor­rænna frænda. Og þau til­vik eru nokk­ur sem sýna að okk­ur hef­ur best gengið þegar ólíkt var farið að. Þannig voru þrjár nor­rænu þjóðirn­ar und­ir stjórn sósíal­krata ára­tug­um sam­an en við slupp­um bless­un­ar­lega við það.

Dæm­in eru mörg um tölu­vert ólíka veg­ferð sem ein­stök ríki á Norður­lönd­um hafa fetað, og segja má að það sýni í senn sjálf­stæði og eft­ir­sókn­ar­verðan skort á eftir­öp­un, sem sum­ir hafa þó talið sjálf­sagða. Svíþjóð var löng­um í hópi friðsöm­ustu þjóða inn á við sem út á við, og haft var til gam­ans að al­menn­ing­ur þar hreyfði sig ekki spönn frá rassi nema fyr­ir lægju skrif­leg­ar leiðbein­ing­ar rík­is­valds­ins niður í smæstu atriði. Sjálfsagt hafa þetta verið ýkj­ur, þótt sænsk­ir sósí­al­demó­krat­ar hafi á tím­um leiðtoga eins og Olofs Pal­mes haft nokkra þörf fyr­ir að hafa vit, ekki bara fyr­ir lönd­um sín­um held­ur fyr­ir öðrum þjóðum jafn­framt.

Öðru­vísi haldið á

En ef við horf­um fyrst til þess sem ólíkt var farið að, þá má nefna Atlants­hafs­banda­lagið til að sjá slíkt dæmi. Þá var Ísland með nokkra sér­stöðu enda í hópi stofnþjóða þess banda­lags og að auki löng­um með banda­rísk­ar varn­ar­stöðvar á Íslandi. Á þeim tíma áttu Nor­eg­ur og Dan­mörk sam­leið með okk­ur um ver­una í Nató. Hlut­leysið var hins veg­ar ær og kýr Svía og horn­steinn þeirra ut­an­rík­is­stefnu og fast að því heil­ög ritn­ing í rúm 70 ár, en sú heil­aga stefna varð svo að engu á aðeins ör­fá­um vik­um. Þótt það hafi aldrei verið viður­kennt með op­in­ber­um yf­ir­lýs­ing­um í Svíþjóð þá töldu hernaðar­yf­ir­völd í Brus­sel aug­ljóst að til­tölu­lega öfl­ug­ur her þessa litla lands væri þannig teiknaður upp að hann gæti sem lengst var­ist inn­rás að aust­an þannig að herlið Nató gætu brugðist við í tíma kysu þau „sín vegna“ og þá óvilj­andi í þágu Svía að grípa inn í. Þótt þetta væri ekki op­in­ber­lega viður­kennt þá var ekki lík­legt að varn­ar­virki Svía miðuðust við að geta var­ist natór­íkj­un­um Norðmönn­um og Dön­um sem allra lengst.

Margt er sagt um Pútín og fjarri því allt ofsagt. Þó vefst varla fyr­ir nokkr­um að Sov­ét­rík­in gömlu með all­an al­menn­ing í bandi og stór­an hluta í þrælk­un­ar­búðum voru marg­falt hættu­legri ógn­vald­ur um alla tíð en Pútín. Það sást á Jelt­sín og svo á Pútín og Med­vedev. Pútín virti að for­setatíð sinni væru tak­mörk sett og vék fyr­ir for­sæt­is­ráðherra sín­um. „Láta­læti“ kynni ein­hver að segja, en þetta hélt í fjög­ur ár. Við hér heima þekkj­um dæmi sem stóð miklu skem­ur, þegar Sig­urður Ingi hélt um for­sæt­is­ráðherra­embætti Sig­mund­ar Davíðs, sem gerð hafði verið ósvíf­in at­laga að, und­ir stjórn sjálfs ís­lenska rík­is­út­varps­ins(!) en lof­orð hans héldu ekki lengi. Enn sem komið er halda þeir eystra reglu­bundn­ar kosn­ing­ar og virðist vera tölu­vert meira að marka þær en þegar Stalín og fé­lag­ar voru að fá yfir 100% hver í sín­um kosn­ing­um, þótt sjálfsagt sé hin pútínska ver­öld nú­tím­ans ekki galla­laus frek­ar en þing­ræðið í Úkraínu er á þess­um hættu­tím­um. En þá voru millj­ón­ir póli­tískra fanga í þrælk­un­ar­búðum í Síberíu, með bless­un hins mikla „mann­vin­ar“, Stalíns.

Póli­tísk­ar of­sókn­ir vestra og önn­ur und­ar­leg­heit

Að vísu horf­ir heim­ur­inn gapandi undr­andi á banda­ríska sak­sókn­ara úr röðum demó­krata og all­ir und­ir stjórn dóms­málaráðherra, einnig úr þeirra röðum, sem er hat­urs­full­ur og bit­ur yfir því að hafa ekki fengið stöðu dóm­ara í Hæsta­rétti Banda­ríkj­anna í tíð Trumps for­seta, stefna for­seta­efni re­públi­kana fyr­ir dóm­ara hér og hvar um Banda­rík­in, til að binda „hend­ur hans og fæt­ur“ í kosn­inga­bar­áttu, þar sem hann hef­ur lang­mest fylgi í sín­um flokki og mun meira fylgi en nú­ver­andi for­seti Banda­ríkj­anna, sem er fjarri því að þola kast­ljósið. Hlut­leysi Svía og þrúg­andi „til­lits­semi“ Finna við Moskvu­valdið, sem var skilj­an­leg lengi vel, höfðu eng­in áhrif á að Eystra­saltsþjóðirn­ar náðu að brjót­ast und­an járn­hæln­um. Megin­á­stæða þess at­b­urðar var auðvitað að sá hæll splundraðist und­ir fót­um komm­ún­ism­ans. Sov­ét­rík­in réðu ekki við stefnu Reag­ans og afl Banda­ríkj­anna og að ein­hverju leyti vegna form­legr­ar til­veru Nató, þótt þar lægi ekki aflið á þeim tíma, nema að hluta til. Þýska­land var rúm­lega helm­ing­ur­inn af því sem síðar varð og ekki var mjög langt síðan De Gaulle for­seti Frakk­lands rak Nató burt með höfuðstöðvar sín­ar úr Frakklandi! Ekki er víst, hefði Svíþjóð enn lotið póli­tískri leiðsögn Tages Erland­ers og Olofs Pal­mes en ekki hægri­stjórn, að Sví­ar hefðu á ör­skots­stundu sótt um inn­göngu í Nató. Sví­ar þurftu ekki, þegar til kom, nema ör­fá­ar vik­ur, og jafn­vel daga frek­ar en vik­ur, til að átta sig á að landið væri ekki leng­ur ör­uggt, ekki frek­ar en Finn­ar, utan varn­ar­banda­lags­ins, sem við Íslend­ing­ar, vopn­laus­ir, tók­um þátt í að stofna, gegn há­vær­um mót­mæl­um og árás­um á Alþing­is­húsið, sem stóð stór­skemmt eft­ir, með möl­brotna glugga og særða menn, fyr­ir rúm­um 70 árum.

And­óf við inn­göngu Svía

En það skrítna gerðist að það varð nokk­urt and­óf gegn inn­göngu Finn­lands og Svíþjóðar í Nató. Ekki sem neinu nam í Svíþjóð sjálfri, held­ur á meðal tveggja aðild­arþjóða, sem voru þar fyr­ir. Það var þannig nokk­ur andstaða við að „hleypa“ Svíþjóð inn í varn­ar­banda­lag vest­rænna ríkja, sem þeir þar höfðu ekki getað hugsað sér að ganga til liðs við í 70 ár! En svo öllu sé til skila haldið, þá var varla hægt að segja að andstaðan við að „hleypa“ Svíþjóð inn í Nató, og tvær banda­lagsþjóðir stóðu að, hafi verið byggð á full­kom­lega mál­efna­leg­um grund­velli, þótt hver ein­stök þjóð, sem fyr­ir er í banda­lag­inu, hafi, að minnsta kosti í orði kveðnu, sitt neit­un­ar­vald um aðild annarra þjóða að varn­ar­banda­lag­inu. Það er ekki út í blá­inn að sú sé regl­an, þótt við sjá­um varla fyr­ir okk­ur að Ísland myndi nokkru sinni setja sig á slík­an stall ef fyr­ir lægi að þær þjóðir sem legðu mest til sam­eig­in­legra varna banda­lags­ins væru áfram um aðild ein­hverr­ar þjóðar að Nató. Ísland gæti og ætti að leggja sitt af mörk­um við umræður um aðild­ar­beiðni og færa fram sín rök, rétt eins og landið gerði á und­an öðrum þjóðum þegar það mælti með inn­göngu ríkja, þegar aðrar þjóðir hikuðu. Sér­hverri Natóþjóð er rétt og skylt að leggja sitt af mörk­um til slíkr­ar umræðu, því að með hverri nýrri aðild­arþjóð er því lofað af þjóðunum sem fyr­ir eru, að banda­lagið skuld­bindi sig til að líta svo á, og það í dauðans al­vöru, að árás á eina þjóð sé árás á þær all­ar (5. gr.). Vera má að sátt­máli þannig orðaður yrði aldrei við all­ar aðstæður túlkaður þannig að í öll­um til­vik­um hæf­ist stríð þegar í stað ef 5. grein­in fengi skyndi­lega líf. En banda­lagið myndi auðvitað bregðast við og teldi sig þar með eiga ólokið verk og óupp­fyllt­ar skyld­ur, þar til að árás­inni, sem virkjaði 5. grein­ina, væri hrundið.

Þegar póli­tísk­ur ung­dóm­ur á Norður­lönd­um, frá helstu flokk­um, hitt­ist á þing­um forðum tíð og ræddi stjórn­mála­leg áhuga­mál sín, þá báðu finnsk­ir jafn­aldr­ar þeirra kurt­eis­lega um tóm til að víkja af fundi, svo að þeir sem eft­ir sætu úr hópn­um gætu sett upp spek­ings­svip og rætt um helstu þætti „kalda stríðsins“ og varn­ar­mál­efni und­ir hatti Nató, og sænsk­ir fund­ar­menn, ekki síst jafnaðar­menn, fengu sér hress­ingu á meðan. Allt var þetta í góðu gert, en því var haldið fram að tækju til að mynda ungu Finn­arn­ir þátt í því að fjalla um þetta bann­færða efni myndi slíkt styggja „Sov­ét­menn“ að óþörfu og ekki síður finnska ráðamenn á hverj­um tíma. En með inn­rás Rússa í Úkraínu breytt­ist þessi gamli heim­ur á einni nóttu.

Ólík til­brigði

Svo er það aðild­in að Evr­ópu­sam­band­inu. Þrjú ríki, ein­mitt Finn­land og Svíþjóð ásamt Dan­mörku, eru með aðild að því sam­bandi. Svíþjóð er skuld­bundið til að taka upp evru en hef­ur aldrei gert það og Brus­sel-valdið hef­ur ekki viljað heimta inn það lof­orð, því að það ótt­ast að þá myndi Svíþjóð ganga úr ESB. Því að sænsk­ir stjórn­mála­menn lofuðu, án þess að mega það sam­kvæmt samn­ing­um við ESB, að evr­an yrði ekki tek­in upp nema þjóðin samþykkti það í þjóðar­at­kvæði. En það hef­ur hún aldrei viljað gera! Dan­ir eru ekki held­ur með evr­una, en hafa sinn eig­in gjald­miðil, dönsku krón­una, en hafa samið við ESB um sér­staka teng­ingu við þá mynt og hversu miklu megi skakka í þeim efn­um. Samt eru sér­vitr­ing­ar á Íslandi til sem láta eins og Íslend­ing­ar séu ein­ir á báti með sína mynt, sem gagn­ast þeim prýðilega, þótt aðeins ein þjóð Norður­landa hafi látið þrengja evru-ómynd­inni oní sig, Finn­land, en hinar ekki.

mbl.is