Fljótt skipast veður í lofti

Við Íslendingar lítum gjarnan um öxl, og „til austurs“, til annarra Norðurlanda, og teljum okkur óhætt að eiga þjóðirnar þar sem fyrirmyndir um margt og jafnvel flest, enda mælast þær einatt hæstar meðal þjóða, á þá mörgu mælikvarða sem eftirsóttir þykja. En þegar liðin tíð er skoðuð, þá er það svo, að í raun hafa þessar frændþjóðir fikrað sig eftir eigin stígum í veigamiklum efnum, einkum forðum tíð, og iðulega nálgast tilveru nútímans einnig um margt úr ólíkum áttum. Og þegar við Íslendingar skoðuðum okkar mál betur var ekki endilega fengur að apa eftir frændþjóðunum í stóru sem smáu. Í mörgum greinum urðu því efnistökin ólík þeim sem „frændur okkar“ tileinkuðu sér í einstökum efnum, þótt vissulega hafi mörgu svipað saman og allir hafi haft hag af að horfa til og meta fyrir sig, hvort vel hafi tekist til eða verr. Er ekki fráleitt að ætla að stundum höfum við „grætt“ á því að flýta okkur hægt fremur en að fara of fljótt í kjölfar norrænna frænda. Og þau tilvik eru nokkur sem sýna að okkur hefur best gengið þegar ólíkt var farið að. Þannig voru þrjár norrænu þjóðirnar undir stjórn sósíalkrata áratugum saman en við sluppum blessunarlega við það.

Dæmin eru mörg um töluvert ólíka vegferð sem einstök ríki á Norðurlöndum hafa fetað, og segja má að það sýni í senn sjálfstæði og eftirsóknarverðan skort á eftiröpun, sem sumir hafa þó talið sjálfsagða. Svíþjóð var löngum í hópi friðsömustu þjóða inn á við sem út á við, og haft var til gamans að almenningur þar hreyfði sig ekki spönn frá rassi nema fyrir lægju skriflegar leiðbeiningar ríkisvaldsins niður í smæstu atriði. Sjálfsagt hafa þetta verið ýkjur, þótt sænskir sósíaldemókratar hafi á tímum leiðtoga eins og Olofs Palmes haft nokkra þörf fyrir að hafa vit, ekki bara fyrir löndum sínum heldur fyrir öðrum þjóðum jafnframt.

Öðruvísi haldið á

En ef við horfum fyrst til þess sem ólíkt var farið að, þá má nefna Atlantshafsbandalagið til að sjá slíkt dæmi. Þá var Ísland með nokkra sérstöðu enda í hópi stofnþjóða þess bandalags og að auki löngum með bandarískar varnarstöðvar á Íslandi. Á þeim tíma áttu Noregur og Danmörk samleið með okkur um veruna í Nató. Hlutleysið var hins vegar ær og kýr Svía og hornsteinn þeirra utanríkisstefnu og fast að því heilög ritning í rúm 70 ár, en sú heilaga stefna varð svo að engu á aðeins örfáum vikum. Þótt það hafi aldrei verið viðurkennt með opinberum yfirlýsingum í Svíþjóð þá töldu hernaðaryfirvöld í Brussel augljóst að tiltölulega öflugur her þessa litla lands væri þannig teiknaður upp að hann gæti sem lengst varist innrás að austan þannig að herlið Nató gætu brugðist við í tíma kysu þau „sín vegna“ og þá óviljandi í þágu Svía að grípa inn í. Þótt þetta væri ekki opinberlega viðurkennt þá var ekki líklegt að varnarvirki Svía miðuðust við að geta varist natóríkjunum Norðmönnum og Dönum sem allra lengst.

Margt er sagt um Pútín og fjarri því allt ofsagt. Þó vefst varla fyrir nokkrum að Sovétríkin gömlu með allan almenning í bandi og stóran hluta í þrælkunarbúðum voru margfalt hættulegri ógnvaldur um alla tíð en Pútín. Það sást á Jeltsín og svo á Pútín og Medvedev. Pútín virti að forsetatíð sinni væru takmörk sett og vék fyrir forsætisráðherra sínum. „Látalæti“ kynni einhver að segja, en þetta hélt í fjögur ár. Við hér heima þekkjum dæmi sem stóð miklu skemur, þegar Sigurður Ingi hélt um forsætisráðherraembætti Sigmundar Davíðs, sem gerð hafði verið ósvífin atlaga að, undir stjórn sjálfs íslenska ríkisútvarpsins(!) en loforð hans héldu ekki lengi. Enn sem komið er halda þeir eystra reglubundnar kosningar og virðist vera töluvert meira að marka þær en þegar Stalín og félagar voru að fá yfir 100% hver í sínum kosningum, þótt sjálfsagt sé hin pútínska veröld nútímans ekki gallalaus frekar en þingræðið í Úkraínu er á þessum hættutímum. En þá voru milljónir pólitískra fanga í þrælkunarbúðum í Síberíu, með blessun hins mikla „mannvinar“, Stalíns.

Pólitískar ofsóknir vestra og önnur undarlegheit

Að vísu horfir heimurinn gapandi undrandi á bandaríska saksóknara úr röðum demókrata og allir undir stjórn dómsmálaráðherra, einnig úr þeirra röðum, sem er hatursfullur og bitur yfir því að hafa ekki fengið stöðu dómara í Hæstarétti Bandaríkjanna í tíð Trumps forseta, stefna forsetaefni repúblikana fyrir dómara hér og hvar um Bandaríkin, til að binda „hendur hans og fætur“ í kosningabaráttu, þar sem hann hefur langmest fylgi í sínum flokki og mun meira fylgi en núverandi forseti Bandaríkjanna, sem er fjarri því að þola kastljósið. Hlutleysi Svía og þrúgandi „tillitssemi“ Finna við Moskvuvaldið, sem var skiljanleg lengi vel, höfðu engin áhrif á að Eystrasaltsþjóðirnar náðu að brjótast undan járnhælnum. Meginástæða þess atburðar var auðvitað að sá hæll splundraðist undir fótum kommúnismans. Sovétríkin réðu ekki við stefnu Reagans og afl Bandaríkjanna og að einhverju leyti vegna formlegrar tilveru Nató, þótt þar lægi ekki aflið á þeim tíma, nema að hluta til. Þýskaland var rúmlega helmingurinn af því sem síðar varð og ekki var mjög langt síðan De Gaulle forseti Frakklands rak Nató burt með höfuðstöðvar sínar úr Frakklandi! Ekki er víst, hefði Svíþjóð enn lotið pólitískri leiðsögn Tages Erlanders og Olofs Palmes en ekki hægristjórn, að Svíar hefðu á örskotsstundu sótt um inngöngu í Nató. Svíar þurftu ekki, þegar til kom, nema örfáar vikur, og jafnvel daga frekar en vikur, til að átta sig á að landið væri ekki lengur öruggt, ekki frekar en Finnar, utan varnarbandalagsins, sem við Íslendingar, vopnlausir, tókum þátt í að stofna, gegn háværum mótmælum og árásum á Alþingishúsið, sem stóð stórskemmt eftir, með mölbrotna glugga og særða menn, fyrir rúmum 70 árum.

Andóf við inngöngu Svía

En það skrítna gerðist að það varð nokkurt andóf gegn inngöngu Finnlands og Svíþjóðar í Nató. Ekki sem neinu nam í Svíþjóð sjálfri, heldur á meðal tveggja aðildarþjóða, sem voru þar fyrir. Það var þannig nokkur andstaða við að „hleypa“ Svíþjóð inn í varnarbandalag vestrænna ríkja, sem þeir þar höfðu ekki getað hugsað sér að ganga til liðs við í 70 ár! En svo öllu sé til skila haldið, þá var varla hægt að segja að andstaðan við að „hleypa“ Svíþjóð inn í Nató, og tvær bandalagsþjóðir stóðu að, hafi verið byggð á fullkomlega málefnalegum grundvelli, þótt hver einstök þjóð, sem fyrir er í bandalaginu, hafi, að minnsta kosti í orði kveðnu, sitt neitunarvald um aðild annarra þjóða að varnarbandalaginu. Það er ekki út í bláinn að sú sé reglan, þótt við sjáum varla fyrir okkur að Ísland myndi nokkru sinni setja sig á slíkan stall ef fyrir lægi að þær þjóðir sem legðu mest til sameiginlegra varna bandalagsins væru áfram um aðild einhverrar þjóðar að Nató. Ísland gæti og ætti að leggja sitt af mörkum við umræður um aðildarbeiðni og færa fram sín rök, rétt eins og landið gerði á undan öðrum þjóðum þegar það mælti með inngöngu ríkja, þegar aðrar þjóðir hikuðu. Sérhverri Natóþjóð er rétt og skylt að leggja sitt af mörkum til slíkrar umræðu, því að með hverri nýrri aðildarþjóð er því lofað af þjóðunum sem fyrir eru, að bandalagið skuldbindi sig til að líta svo á, og það í dauðans alvöru, að árás á eina þjóð sé árás á þær allar (5. gr.). Vera má að sáttmáli þannig orðaður yrði aldrei við allar aðstæður túlkaður þannig að í öllum tilvikum hæfist stríð þegar í stað ef 5. greinin fengi skyndilega líf. En bandalagið myndi auðvitað bregðast við og teldi sig þar með eiga ólokið verk og óuppfylltar skyldur, þar til að árásinni, sem virkjaði 5. greinina, væri hrundið.

Þegar pólitískur ungdómur á Norðurlöndum, frá helstu flokkum, hittist á þingum forðum tíð og ræddi stjórnmálaleg áhugamál sín, þá báðu finnskir jafnaldrar þeirra kurteislega um tóm til að víkja af fundi, svo að þeir sem eftir sætu úr hópnum gætu sett upp spekingssvip og rætt um helstu þætti „kalda stríðsins“ og varnarmálefni undir hatti Nató, og sænskir fundarmenn, ekki síst jafnaðarmenn, fengu sér hressingu á meðan. Allt var þetta í góðu gert, en því var haldið fram að tækju til að mynda ungu Finnarnir þátt í því að fjalla um þetta bannfærða efni myndi slíkt styggja „Sovétmenn“ að óþörfu og ekki síður finnska ráðamenn á hverjum tíma. En með innrás Rússa í Úkraínu breyttist þessi gamli heimur á einni nóttu.

Ólík tilbrigði

Svo er það aðildin að Evrópusambandinu. Þrjú ríki, einmitt Finnland og Svíþjóð ásamt Danmörku, eru með aðild að því sambandi. Svíþjóð er skuldbundið til að taka upp evru en hefur aldrei gert það og Brussel-valdið hefur ekki viljað heimta inn það loforð, því að það óttast að þá myndi Svíþjóð ganga úr ESB. Því að sænskir stjórnmálamenn lofuðu, án þess að mega það samkvæmt samningum við ESB, að evran yrði ekki tekin upp nema þjóðin samþykkti það í þjóðaratkvæði. En það hefur hún aldrei viljað gera! Danir eru ekki heldur með evruna, en hafa sinn eigin gjaldmiðil, dönsku krónuna, en hafa samið við ESB um sérstaka tengingu við þá mynt og hversu miklu megi skakka í þeim efnum. Samt eru sérvitringar á Íslandi til sem láta eins og Íslendingar séu einir á báti með sína mynt, sem gagnast þeim prýðilega, þótt aðeins ein þjóð Norðurlanda hafi látið þrengja evru-ómyndinni oní sig, Finnland, en hinar ekki.

mbl.is