Er infrarauð sauna betri en hefðbundin sauna?

Fyrsti innfrarauði saunaklefinn eins og við þekkjum hann í dag …
Fyrsti innfrarauði saunaklefinn eins og við þekkjum hann í dag leit dagsins ljós í Japan árið 1967. Ljósmynd/Unsplash

Infrarauð sauna hefur notið mikilla vinsælda hér á landi að undanförnu og hafa margar líkamsræktarstöðvar og sundlaugar bætt slíkri saunu við stöðvar sínar vegna aukinnar eftirspurnar. En hvað er infrarauð sauna og hvernig er hún ólík hinni hefðbundnu saunu?

Læknirinn Casey Kelley segir meginmuninn á infrarauðri og hefðbundinni saunu í raun vera frekar einfaldan. Í hefðbundinni saunu sé loftið í klefanum fyrst hitað sem í kjölfarið hitar líkamann. Hins vegar séu infrarauðar saunur með lægra hitastig en þær hefðbundnu. 

„Infrarauð sauna notar infrarautt ljós til að hita líkamann þinn beint án þess að hita restina af klefanum,“ útskýrði Kelley í samtali við Mind Body Green.

Infrarauða ljósið komist dýpra inn í húðina

Kelley segir að mun fleiri rannsóknir hafi verið gerðar á hefðbundinni saunu, en hingað til hafi rannsóknir á infrarauðri saunu bent til þess að ávinningur þeirra sé svipaður. Hins vegar hafi infrarauða saunan þann ávinning að ljósið komist dýpra inn í húðina. 

„Fylgjendur infrarauðu saununnar halda því fram að infrarauða ljósið geti hjálpað til við afeitrun með því að stuðla að losun eiturefna sem geymd eru í fitufrumum,“ útskýrir Kelley en bendir á að þörf sé á fleiri rannsóknum í þeim efnum. Þá sé annar kostur infrarauðrar saunu lægra hitastig sem gerir saununa þægilegri fyrir þá sem eiga erfitt með að þola hátt hitastig hefðbundinnar saunu.

Segir magn rannsókna mikinn kost

Rannsóknir hafa tengt infrarauða saunu við heilsufarslega ávinninga eins og hraðari endurheimt eftir æfingar, bætt hjarta- og æðakerfi, betra skap, betri svefngæði og möguleika á að létta á langvarandi sársauka.

Magn rannsókna á hefðbundinni saunu er mikill kostur að mati Kelley og gerir það að verkum að hægt sé að fullyrða mun nákvæmari heilsufarslegan ávinning þess. Þá segir hún slíkar saunur aðgengilegri í mörgum tilfellum og auðveldara að finna þær. 

Rannsóknir hafa tengt hefðbundna saunu við heilsufarslegan ávinning eins og minni hættu á að fá vitglöp, bætta húð, lækkun á blóðþrýstingi, bætt ónæmiskerfi og afeitrun á ákveðnum eiturefnum í líkamanum með svita.

Varasamt að dvelja of lengi í klefanum

Kelley bendir þó á að mælt sé gegn því að nota saunu, hvort sem er hefðbundna eða infrarauða, ef þú ert ófrísk, undir áhrifum áfengis eða fíkniefna, með hita eða önnur heilsufarsvandamál. 

Þá segir hún fólk einnig þurfa að passa sig að dvelja ekki of lengi í klefunum því það geti leitt til ofþornunar og ofhitnunar. 

mbl.is