Ómögulegt er að bæta fyrir það tjón sem fólk hefur hlotið af völdum vistar á þessum stofnunum og heimilum, og hafa fjölmargir látið lífið langt fyrir aldur fram. Stjórnvöld hafa þó brugðist við m.a. með úttektum á heimilunum og greiðslu sanngirnisbóta í kjölfarið.
Vilja hverfa frá rannsóknum
Samkvæmt gildandi forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna fer dómsmálaráðuneytið með málefni sanngirnisbóta. Það gæti þó breyst á þessu kjörtímabili þar sem forsætisráðuneytið er með í smíðum frumvarp til almennra laga um sanngirnisbætur og hefur sett framlagningu þess á þingmálaskrá en málið var afgreitt úr ríkisstjórn föstudaginn 29. september.
Samkvæmt skriflegu svari forsætisráðuneytisins við fyrirspurn Morgunblaðsins er hugsunin að baki þeirri lagasetningu að hverfa sem mest frá einstökum rannsóknum á tilteknum vistheimilum og útgreiðslu bóta vegna slíkra rannsókna í framhaldinu, og setja þess í stað almenna löggjöf þar sem þeir sem telja að á sér hafi verið brotið af hálfu opinberra aðila geta hver og einn sótt um, fengið mat á umkvörtunarefni sínu og loks greiddar sanngirnisbætur eftir atvikum.
Þau sem dvöldu sem börn á vistheimili og hafa ekki átt rétt á sanngirnisbótum, m.a. þar sem ekki er búið að rannsaka eða gera úttekt á heimilum sem þau voru á, fagna því eflaust að geta mögulega brátt átt möguleika á bótum.
Eftir situr þó spurningin: Verður erfiðara að knýja á um frekari heildstæðar úttektir á vistheimilum með samþykkt frumvarpsins?
Rannsóknir og úttektir á vistheimilum eru bæði tímafrekar og kostnaðasamar, svo ekki sé minnst á þann sársauka sem fylgir því fyrir þá sem þar dvöldu að rifja upp andlegt, líkamlegt og jafnvel kynferðisofbeldi sem þau urðu fyrir í æsku. Engu að síður þykja mörgum þær nauðsynlegar til að gera upp sársaukafulla fortíð og fá viðurkenningu á því ofbeldi sem þau urðu fyrir með opinberum hætti.
Eitt þeirra heimila sem fyrrverandi vistbörn og fleiri hafa kallað eftir að verði gerð úttekt á er vistheimilið á Hjalteyri í Hörgársveit, áður Arnarneshreppi, sem hjónin Einar og Beverly Gíslason starfræktu árin 1972 til 1979.
Hjalteyri til skoðunar?
Haustið 2021 stigu fram einstaklingar sem höfðu dvalið á Hjalteyri og lýstu miklu harðræði af hálfu hjónanna og grófu ofbeldi sem þau höfðu orðið fyrir, m.a. líkamlegu ofbeldi og kynferðisofbeldi.
Hátt ákall var eftir frekari rannsókn á vistheimilinu, m.a. frá sveitarfélaginu Hörgársveit.
Jón Gunnarsson, þáverandi dómsmálaráðherra, skipaði að lokum starfshóp í desember 2021 um Hjalteyri sem hafði það hlutverk að afla nauðsynlegra gagna og upplýsinga um starfsemi heimilisins svo unnt væri að taka ákvarðanir um hvort og með hvaða hætti starfsemin yrði tekin til frekari rannsóknar og þá hver aðkoma viðkomandi sveitarfélaga skyldi vera.
Hópurinn skilaði niðurstöðum til ráðherra í mars 2022. Í skýrslu hópsins, sem hefur ekki verið gerð opinber en Morgunblaðið hefur undir höndum, voru lagðar fram tvær tillögur. Sú fyrsta var að ráðherra leggi fram drög að frumvarpi sem innifelur tillögur um nauðsynleg lagafyrirmæli svo unnt sé að hefja formlega könnun á því hvernig rekstri heimilisins var háttað og afla nýrra gagna frá stofnunum og einstaklingum sem dvöldu eða störfuðu á heimilinu.
Önnur tillagan kvað á um að að lokinni formlegri könnun og viðtölum við þá einstaklinga sem dvöldu eða störfuðu á Hjalteyri mæli ráðherra fyrir frekari úttvíkkun á lögum nr. 47/2010 um sanngirnisbætur fyrir misgjörðir á stofnunum eða heimilum til að skapa vettvang til frásagnar fyrir þá einstaklinga sem sæta þurftu dvöl á slíkum heimilum sem féllu undir eftirlit barnaverndaryfirvalda.
Í desember á síðasta ári lagði ráðherra fram drög að frumvarpi í samráðsgátt um sanngirnisbætur fyrir misgjörðir á vistheimilinu á Hjalteyri. Í drögunum að frumvarpinu er stjórnvöldum heimilað að greiða sanngirnisbætur til þeirra sem urðu fyrir misgjörðum á heimilinu. Tekið er fram að skýrsla starfshópsins og fyrri umfjöllun vistheimilanefndar styðji við þær frásagnir sem komið hafi upp, þ.e. að einstaklingar hafi sætt illri meðferð og ofbeldi á heimilinu. Í samráðsgáttinni segir þó að ekki sé talin ástæða til að leggja í jafn ítarlegar og tímafrekar úttektir á heimilinu og gerðar voru á tíma vistheimilanefndar.
Þess ber að geta að frumvarpið náði ekki fram að ganga en þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir Morgunblaðsins, til bæði dómsmála- og forsætisráðuneytisins, liggur ekki fyrir hvort endanleg ákvörðun hafi verið tekin um frekari úttekt á vistheimilinu.