Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, segir ákvörðun Bjarna Benediktssonar að segja af sér embætti fjármála- og efnahagsráðherra veikja veikburða ríkisstjórn.
Segir hún að skiljanlega verði einhverjar tilfærslur á ríkisstjórninni en þegar formaður stærsta flokksins og þungavigtin í ríkisstjórninni sem Bjarni er, sé að fara í annað ráðuneyti úr þessu þungavigtarráðuneyti sem fjármálaráðuneytið er, veiki það óneitanlega stöðu ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur.
„Þetta var rétt ákvörðun hjá Bjarna. Ég virði hana og mér finnst hann maður að meiri. Þetta var afdráttarlaust af hálfu umboðsmanns og algjörlega í takti við það sem við í Viðreisn höfum bent á frá upphafi. Athugasemdir okkar lutu fyrst og fremst að hæfinu og stjórnsýslureglum.“
Þorgerður segist síðast hafa lýst því yfir í þinginu í gær að það ætti að færa forræði á sölu Íslandsbanka yfir til annarra ráðherra og lagði til að það yrði annað hvort fært yfir til viðskiptaráðherra eða forsætisráðherra.
„Af því að verkefnið stendur eftir og það má ekki vera í þessari sjálfheldu sem snertir það að það er vantraust hjá almenningi í garð Sjálfstæðisflokksins að halda utan um þetta söluferli. Núna þegar þessi mynd er komin er Bjarni að bregðast við mjög alvarlegum skilaboðum frá umboðsmanni og hann gerir það vel.“
Þorgerður segir ákvörðun Bjarna rétta og fannst sá tónn sem hann gaf á fundinum skynsamur.
„Mér fannst hann mikilvægur fyrir pólitíkina og fyrir samfélagið. Það á að virða stofnanir þó við séum kannski ekki endilega sammála þeim alltaf, þá á að virða jafn mikilvægar stofnanir og umboðsmaður Alþingis er. Mér fannst þetta þannig gert að við getum vonandi tekið einhvern lærdóm með okkur inn í framtíðina.“
Þorgerður sagðist aðspurð ekki hafa trú á því að slitni upp úr ríkisstjórnarsamstarfinu vegna þessa máls.
„Nú erum við búin að upplifa hverja uppákomuna af fætur annarri allt frá hvalveiðum, útlendingamálum og lögreglumálum. Við erum að sjá núna ræðu ráðherra á þingi SFS. Það eru bara allir alltaf að gagnrýna alla. Við erum að sjá Jódísi Skúla gagnrýna Jóna Gunnarsson og svo framvegis.
Þannig að þau eru ekki með augun á boltanum og boltinn er og viðfangsefnið er verðbólgan og vextirnir og það að styðja við heimilin og fyrirtækin í landinu. Þar hefur ríkisstjórnin að mínu mati verið að skila auðu af því að orkan fer í innanbúðarátök við ríkisstjórnarborðið.“