Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokks, segir að Bjarni Benediktsson hafi tilkynnt samflokksmönnum á fundi í morgun um álit umboðsmanns Alþingis um vanhæfi hans vegna hlutabréfaútboðs Íslandsbanka. Hann tilkynnti ekki um afsögn sína á fundinum en sagði að hann þyrfti að íhuga ákvarðanir í tengslum við niðurstöðuna.
„Við horfðum á blaðamannafund eins og allir aðrir þar sem hann tilkynnti ákvörðun sína,“ segir Hildur.
Hún segir að á fundinum hafi verið eindreginn og samhljóma stuðningur við Bjarna.
„Hann gaf í skyn að hann liti svo á að hér þyrfti hann að bregðast við með einhverjum hætti,“ segir Hildur.
Hún segir að álitið staðfesti að Bjarni hafi ekki haft upplýsingar um kaupendur í útboðinu þar sem ferlið var í höndum Bankasýslunnar.
„Öll þessi vinna var unninn í góðri trú og eftir bestu vitneskju um það hvernig best er að halda utan um þetta vandmeðfarna hlutverk sem stangast á. Að bera ábyrgð á hlutum sem þú getur eðli málsins samkvæmt ekki haft allar upplýsingar um,“ segir Hildur.
Segir hún Bjarna hafa verið heiðarlegan og gegnsæjan um allt í þessu ferli. „Ákvörðunin er í takti við Bjarna. Hann er heiðursmaður í stjórnmálum. Þó hann sé ósammála niðurstöðu umboðsmanns virðir hann þessa niðurstöðu og það kemur ekki á óvart á að hann vilji bera ábyrgð á henni,“ segir Hildur.
Hún segist ekkert geta spáð fyrir um ríkisstjórnarsamstarfið í framhaldinu.