Í Frakklandi geta allir keypt vínekru

Írönsk athafnakona, Marjane Jangoo, safnar vínberjauppskerunni af skika sínum í …
Írönsk athafnakona, Marjane Jangoo, safnar vínberjauppskerunni af skika sínum í Suðvestur-Frakklandi. Hún býr svo til úr þeim rauðvín eftir fornri aðferð frá Persíu. Engar hömlur eru á kaupum útlendinga á jörðum í Frakklandi, og enginn veit hvaða sniðuga nýsköpun og verðmætasköpun kann að spretta upp úr því. AFP/Christophe Archambault

Það gildir meira að segja um okkar snjallasta og vandaðasta fólk að það er hægara sagt en gert að hafa vit fyrir öðrum og erfiðast af öllu að reyna að hafa vit fyrir markaðinum.

Murray Rothbard gerði þessu skil í framhjáhlaupi í stuttri ritgerð frá árinu 1992. Ritgerðin fjallaði um hvaða leið þjóðir Austur-Evrópu og íbúar fyrrverandi Sovétríkjanna ættu að fara til að segja skilið við sósíalismann og ríkisafskiptin og koma í staðinn á starfhæfum kapítalisma og frjálsum markaði.

Rothbard var frjálshyggjumaður af róttækustu sort og ráðleggingar hans eftir því, svo engan ætti að furða að ekkert ríki skyldi fylgja ráðleggingum hans upp á hár. Hitt blasir samt við þegar við skoðum síðustu þrjá áratugi í baksýnisspeglinum að Eystrasaltsríkin, sem gengu lengst í því að frelsa hagkerfi sín og samfélög, bera í dag höfuð og herðar yfir hin gömlu sovétlöndin.

Ekki var nóg með að Rothbard væri leiftursnjall hagfræðingur og flinkur penni, heldur var hann líka mikill húmoristi. Hann benti á að enginn virtist hafa reynt af neinni alvöru að rannsaka hvaða leiðir gætu verið í boði fyrir sósíalísk lönd að kasta sósíalismanum fyrir róða: „Enda höfðu hagfræðingar á Vesturlöndum, allt síðan um miðjan 4. áratuginn, gengið að því vísu að það væri enginn mælingarvandi (e. calculation problem) í hinu sósíalíska kerfi, og samhljómur í stéttinni um að hið sovéska hagkerfi stæði í blóma og myndi von bráðar taka fram úr Bandaríkjunum,“ ritaði hann glettinn. Berlínarmúrinn var þá nýfallinn og skipbrot sósíalískrar hagstjórnar blasti við heiminum.

Rothbard gerði sér grein fyrir að umskiptin yrðu ekki auðveld, og skyldi engan furða að fólk sem í sextíu ár hafði ekki þekkt annað en miðstýringu á öllum sviðum tilverunnar gæti átt erfitt með að fóta sig. Rothbard endursagði skemmtilega sögu til að undirstrika hvernig grunnatriði frelsisins og miðstýringarinnar stangast á:

„Góðvinur minn sagði mér af sovéskum kollega okkar sem hafði gert sér ferð til Bandaríkjanna gagngert til að rannsaka hvernig mætti fara að því að búa til markað fyrir afleiður í Sovétríkjunum. Hann stóð á gati því hann gat ekki með nokkru móti áttað sig á hvaða lög og fyrirmæli sovéskt stjórnvald gæti samið til að búa til sams konar afleiðumarkað og hafði myndast í Bandaríkjunum. Í stuttu máli sagt, þá gat hann ómögulega fundið nokkra leið til að miðstýra viðskiptum með framvirka samninga. Þetta er mergur málsins: það er ekki hægt að handstýra mörkuðum. Það er eðli markaðarins að það eina sem hægt er að gera er að leyfa fólki að athafna sig afskiptalaust svo það geti keypt og selt og þannig búið markaðinn til sín á milli, á eigin spýtur.“

Áhyggjur og inngrip

Frjálsum þjóðum vegnar best, en almáttugur hvað það er samt auðvelt að falla í þá gildru að vilja stýra stóru eða smáu í samfélaginu; beina samborgurunum blíðlega á örlítið betri braut og forða þeim frá að gera augljós mistök; hafa vit fyrir blessuðu fólkinu, af mestu vinsemd, svo það taki ekki rangar ákvarðanir í lífinu.

Sjálfur er ég fjarri því laus við þessa mannlegu hvöt, og þegar ég fylgist með umræðunni á samfélagsmiðlum fer jafnvel tilhugsunin um upplýst einræði að höfða nokkuð sterkt til mín – auðvitað með mig í hlutverki vitringsins sem öllu ræður og ber ekkert nema almannahag fyrir brjósti. Forræðishyggjan er agalega freistandi, svo fremi sem maður verður ekki fyrir barðinu á henni sjálfur.

Upp á síðkastið þykir mér íslenskir stjórnmálamenn, pistlahöfundar og álitsgjafar hafa viðrað sjónarmið sem minna á hvernig forræðis- og afskiptahyggjan getur skotið upp kollinum, enda auðvelt að sjá eitthvað í samfélaginu sem manni mislíkar og vilja laga vandann með boðum og bönnum. Gleymist þá oft að skoða heildarmyndina, eða reyna að skilja til fulls hvernig inngripin geta haft neikvæð áhrif rétt eins og jákvæð – og er þetta fjarri því séríslenskt vandamál.

Nýjasta dæmið eru miklar áhyggjur af að erlendir aðilar kunni að eignast aðeins of margar íslenskar jarðir, eða að þeir fjárfesti í fyrirtækjum sem eiga og nýta íslenskar náttúruauðlindir. Er gjarnan dregin upp sú mynd að þjóðin sé að tapa ómældum verðmætum sem seld hafi verið á spottprís, og brýnt sé að setja reglur sem banna útlendingum að eignast of marga hektara, eða of falleg kennileiti, of gjöfular laxveiðiár eða of tærar vatnslindir. Setja verði þessum kaupum skorður, enda séu hektarar lands ekki venjuleg markaðsvara heldur eitthvað allt annað og mikilvægara. Gæti það hreinlega gerst, ef fram heldur sem horfir, að Íslendingar missi smám saman yfirráð yfir eigin landi.

Sumir hafa áhyggjur af að jarðakaupin tæmi sveitirnar af bændum og eyðileggi íslenskan landbúnað, eða skerði aðgengi almennings að óbyggðum, ellegar setji ómetanlegar náttúruperlur í bráða hættu. Gæti landið hreinlega tæmst af þeim takmörkuðu auðlindum sem þó er hægt að nýta að einhverju ráði. Svo virðist það alveg sérstaklega slæmt ef kaupendurnir eiga sand af seðlum.

Eina ráðið virðist að banna öðrum en rétta fólkinu að kaupa íslenskar spildur og sprænur.

Hverjir tapa í raun?

Fólkið sem viðrar þessar áhyggjur hefur ósköp góðan ásetning, og sjálfsagt að hlusta á það. Áhyggjunum væri hægt að svara í mun lengra máli, en aðalatriðin eru sennilega þessi:

Fyrst mætti benda á reynslu landa sem setja viðskiptum með jarðir engar sérstakar skorður. Þeir lesendur sem dreymir um að eignast vínekru í Champagne eða rækta ólífur suður á Sikley ættu að gleðjast yfir því að bæði í Frakklandi og á Ítalíu má hver sem er kaupa hvaða jörð sem er, á hvaða verði sem er. Eru Frakkar og Ítalir samt ekki þekktir fyrir frjálshyggjuöfgar, verða agalega taugaveiklaðir þegar kemur að hagsmunum landbúnaðarins og þykja öllum öðrum ákafari þegar kemur að þjóðrembingi.

Þykist ég vita að á heimsvísu séu fleiri áhugasamir um að eignast skika í Bordeaux eða Piedmont en að sölsa undir sig heilu hektarana af hraunbreiðum uppi við norðurheimskautsbaug – en samt eru erlendir auðmenn ekki búnir að hrekja Frakkana og Ítalana úr eigin sveitahéröðum.

(Það verður að fljóta með að ef lesendur eru að leita að einhverju exótískara, þá er ekkert sem stendur í vegi fyrir því að Íslendingur kaupi upp heilu nautabúgarðana í Argentínu eða eignist risavaxna kaffibaunaplantekru í Brasilíu.)

En ef verið er að selja íslenskar jarðir á gjafverði, þá hlýtur markaðurinn að leiðrétta sig. Markaðurinn er ekki fullkominn, og ekki alltaf hægt að selja allt fyrir hæstu mögulegu fjárhæð, en það gildir um jarðir eins og önnur verðmæti að markaðurinn leitar jafnvægis. Rétta verðið er það sem kaupandinn er reiðubúinn að borga og seljandinn reiðubúinn að samþykkja, og kemur faktískt engum öðrum við.

Þá komum við að hinni hliðinni á inngripunum: með því að útiloka þann sem býður hæst, s.s. á forsendum þjóðernis, neyðist seljandinn til að taka lægra tilboði – ef má yfirhöfuð finna einhvern sem er viljugur að kaupa. Ef kaupendurnir eru fleiri er eftirspurnin meiri og verðið hærra, og líflegur markaður gerir allar jarðir á Íslandi verðmætari en ella.

Er einkar brýnt að skilja að það gengur á eignarrétt fólks þegar reglur eru settar um að tiltekna hluti megi ekki selja tilteknum hópum. Frelsi seljandans er skert rétt eins og frelsi kaupandans, svo að báðir tapa.

Að þessu sögðu má vitaskuld alltaf skoða þörfina á að setja almennar reglur til að leysa úr árekstrum, s.s. um góða umgengni við náttúruna (ekki að þess þurfi), um nýtingu auðlinda ofan- og neðanjarðar, um frjálsa för göngufólks fjarri mannabústöðum eða að fullkomið gagnsæi þurfi að ríkja um eignarhald. Slíkar reglur myndu þá gilda um alla, Íslendinga jafnt sem útlendinga.

mbl.is