Sjö milljarða fjárfesting í strengjum ár hvert

Magnús vill að kerfin standist væntingar og anni orkuskiptum.
Magnús vill að kerfin standist væntingar og anni orkuskiptum. Eggert Jóhannesson

Magnús Þór Ásmundsson, forstjóri RARIK, segir í ítarlegu samtali við ViðskiptaMoggann að fyrirtækið hafi lagt mikla fjármuni í jarðstrengi á síðustu árum. „Við erum að breyta öllu okkar kerfi úr loftlínum í jarðstrengi. 75% af raforkukerfi RARIK hafa verið strengvædd. Við ætlum okkur að vera búin að strengvæða öll byggð ból fyrir 2030 og allt kerfið fyrir 2035. Það mun auka áreiðanleika þess. Strengvæðingin er líka ákveðið svar við loftslagsvá. Veður verða ófyrirsjáanlegri í framtíðinni og hafa þannig áhrif á raforkukerfin. Þegar allar línur eru komnar í jörðu verðum við búin að útrýma ákveðinni áhættu. Það er ánægjulegt hve vel það hefur gengið, en það þarf að halda vel á spöðunum áfram.“

Fjárfesting RARIK í dreifikerfinu nemur um sjö milljörðum króna á þessu ári. „Ég sé fyrir mér að næstu ár verði svipuðum fjármunum varið árlega í fjárfestingar. Við byggjum kerfin upp þannig að þau standist væntingar og anni orkuskiptum til framtíðar,“ segir Magnús.

Jafn kynjahlutfall í fyrsta skipti

Í samtalinu ræðir Magnús einnig skipulagsbreytingar hjá fyrirtækinu en til dæmis er kynjahlutfall nú jafnt í framkvæmdastjórn RARIK, fjórar konur og fjórir karlar. Þá segir hann að endurskipulagningin sé hluti af því að búa félagið undir breytingar á hlutverki dreifiveitnanna. Hann segir það enn fremur alveg ljóst að viðskiptavinurinn verði þátttakandi í verkefninu. „Við viljum eiga í gagnvirku sambandi við hann.“

Lestu meira í ViðskiptaMogganum í dag.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: