Fjöldadráp á íbúum Ísraels var markmiðið

Þetta fólk er í hópi þeirra sem myrtir voru af …
Þetta fólk er í hópi þeirra sem myrtir voru af vígamönnum Hamas í ísraelska bænum Sderot. Engum var hlíft, ekki einu sinni ungbörnum. AFP/Oren Ziv

Meg­in­mark­mið árás­ar víga­sam­taka Ham­as var að myrða eins marga íbúa Ísra­els og kost­ur var og valda út­breidd­um ótta í sam­fé­lag­inu. Þau mann­rán á sak­lausu fólki sem fylgdu í kjöl­far ódæðanna miklu voru skipu­lögð og eiga að flækja aðgerðir Ísra­els­hers (IDF) og styrkja samn­ings­stöðu Ham­as í hugs­an­leg­um viðræðum. Vilji Ísra­els­menn nú taka yfir fulla stjórn á Gaza-svæðinu, verj­ast ógn­um frá Vest­ur­bakk­an­um, Líb­anon og Sýr­landi blas­ir við langt og erfitt stríð. Átök­in munu ekki ein­ung­is snerta sveit­ir IDF held­ur mun efna­hag­ur Ísra­els skaðast líka.

Er þetta á meðal þess sem fram kem­ur í nýrri skýrslu Alþjóðaher­mála­stofn­un­ar­inn­ar í Lund­ún­um (In­ternati­onal Institu­te for Stra­tegic Studies, IISS). Stofn­un­in er í hópi þeirra virt­ustu á heimsvísu.

Land­hernaður IDF á Gaza-svæðinu get­ur leitt af sér tvenns kon­ar niður­stöður, að sögn sér­fræðinga IISS. Í báðum til­fell­um væri um að ræða harða inn­rás þar sem her­menn IDF elta uppi, hand­sama eða drepa liðsmenn Ham­as og sprengja upp bygg­ing­ar og aðra innviði tengda hryðju­verka­sam­tök­un­um. Í kjöl­far aðgerða get­ur Ísra­els­stjórn svo annaðhvort dregið herlið sitt til baka frá Gaza-svæðinu og sett það í herkví á ný eða tekið yfir fulla stjórn. Verði hið síðar­nefnda fyr­ir val­inu þá yrðu her­sveit­ir IDF staðsett­ar á Gaza.

And­spyrnu­vilji mun lifa áfram

Sér­fræðing­ar IISS segja enga góða niður­stöðu að fá í kjöl­far land­hernaðar IDF á Gaza-svæðinu. Engu skipt­ir hversu ár­ang­urs­rík hernaðaraðgerð Ísra­els­manna kann að verða og hversu mörg­um víga­mönn­um verður komið fyr­ir katt­ar­nef. Stjórn­mála­arm­ur Ham­as mun lifa þrátt fyr­ir dauða víga­manna sam­tak­anna og hið sama á við um and­spyrnu­vilja fólks­ins á Gaza.

Sjálf­ur land­hernaður­inn mun án efa reyn­ast IDF afar sein­unn­inn og flók­inn í fram­kvæmd. Víga­menn munu seint leyfa Ísra­els­stjórn að taka með hervaldi yfir Gaza-svæðið og mis­kunn­ar­laust verja sig með mennsk­um skjöld­um, þ.e.a.s. fólk­inu, bæði kon­um og börn­um, sem rænt var frá Ísra­el um síðustu helgi. Her­menn IDF munu með öðrum orðum þurfa að finna leiðir til þess að yf­ir­buga víga­menn með aðferðum sem lág­marka mannskaða á gísl­um á sama tíma og þeir fram­kvæma inn­rás á svæði sem er þeim afar óvin­veitt. Og þetta verður, segja sér­fræðing­ar IISS, hæg­ara sagt en gert.

Myrtu fólk á heim­il­um sín­um

Allt bend­ir til að Ham­as hafi náð að kort­leggja landa­mæra­varn­ir Ísra­els með ná­kvæm­um hætti. Tókst þeim þannig að finna veik­leika og var meg­inþunga inn­rás­ar beint í átt að þeim svæðum. Eft­ir að landa­mærag­irðing­ar brustu streymdi á skömm­um tíma mik­ill fjöldi vopnaðra víga­manna yfir til Ísra­els og í átt að landa­mæra­bæj­um. Yfir landa­mær­in svifu einnig þung­vopnaðir Ham­as-liðar á svif­vængj­um. Sam­hliða stóð svo yfir linnu­laus eld­flauga­árás.

Sér­fræðing­ar IISS slá því föstu að þessi mikla eld­flauga­árás Ham­as, sem meðal ann­ars reynd­ist gríðarsterk­um loft­vörn­um Ísra­els ofviða um stund, hafi átt sinn þátt í seinu viðbragði IDF við inn­rás­inni. Taf­ir sem kostuðu varn­ar­laust fólk lífið og vöktu reiði al­menn­ings.

Ódæðis­menn Ham­as héldu inn í ísra­elska sveita­bæi, þorp og aðra þétt­býliskjarna. Réðust þar á varn­ar­laust fólk í fel­um, myrtu heilu fjöl­skyld­urn­ar, börn og gam­al­menni. Marg­ar af þess­um árás­um voru tekn­ar upp á farsíma og þeim svo dreift á sam­fé­lags­miðlum. Til­gang­ur­inn aug­ljós; að valda út­breidd­um ótta og skelf­ingu. Eng­um var hlíft, ekki einu sinni ung­börn­um.

IISS bend­ir á að Ham­as-liðar hafi marg­ir verið íklædd­ir borg­ara­leg­um klæðnaði við árás­ina, rænt öku­tækj­um fórn­ar­lamba sinna og sótt hratt inn í ísra­elskt landsvæði. Þetta kom þeim fáu her- og lög­reglu­mönn­um sem voru á svæðinu á óvart og voru þeir því lít­il fyr­ir­staða. Dæmi er um að al­menn­ing­ur hafi vopn­ast til að veita ör­ygg­is­sveit­um aðstoð sína.

Þá eru eng­in dæmi þess að IDF hafi nýtt flugsveit­ir, s.s. orr­ustuþotur eða árás­arþyrl­ur, til að hrinda sókn víga­manna. Notk­un slíkra vopna­kerfa hefði að lík­ind­um stór­aukið mann­tjón meðal al­menn­ings.

Tug­ir þúsunda eld­flauga

Þær eld­flaug­ar sem víga­menn Ham­as nota gegn fólki í Ísra­el hafa flest­ar 10 til 250 kíló­metra drægni og eru án sér­staks stjórn­búnaðar. Ekki er vitað til þess að Ham­as búi yfir stýrðum eld­flaug­um, þó ekki sé hægt að úti­loka það held­ur.

Árið 2021 var það mat leyniþjón­ustu Ísra­els að á Gaza-svæðinu væri að finna um 30 þúsund eld­flaug­ar og kem­ur stór hluti þess­ara vopna frá Íran og Sýr­landi. Und­an­far­in ár, jafn­vel allt frá ár­inu 2014, hef­ur Ham­as í sam­starfi við Íran lagt áherslu á heima­smíðaðar eld­flaug­ar til árása í Ísra­el.

mbl.is