Fjöldadráp á íbúum Ísraels var markmiðið

Þetta fólk er í hópi þeirra sem myrtir voru af …
Þetta fólk er í hópi þeirra sem myrtir voru af vígamönnum Hamas í ísraelska bænum Sderot. Engum var hlíft, ekki einu sinni ungbörnum. AFP/Oren Ziv

Meginmarkmið árásar vígasamtaka Hamas var að myrða eins marga íbúa Ísraels og kostur var og valda útbreiddum ótta í samfélaginu. Þau mannrán á saklausu fólki sem fylgdu í kjölfar ódæðanna miklu voru skipulögð og eiga að flækja aðgerðir Ísraelshers (IDF) og styrkja samningsstöðu Hamas í hugsanlegum viðræðum. Vilji Ísraelsmenn nú taka yfir fulla stjórn á Gaza-svæðinu, verjast ógnum frá Vesturbakkanum, Líbanon og Sýrlandi blasir við langt og erfitt stríð. Átökin munu ekki einungis snerta sveitir IDF heldur mun efnahagur Ísraels skaðast líka.

Er þetta á meðal þess sem fram kemur í nýrri skýrslu Alþjóðahermálastofnunarinnar í Lundúnum (International Institute for Strategic Studies, IISS). Stofnunin er í hópi þeirra virtustu á heimsvísu.

Landhernaður IDF á Gaza-svæðinu getur leitt af sér tvenns konar niðurstöður, að sögn sérfræðinga IISS. Í báðum tilfellum væri um að ræða harða innrás þar sem hermenn IDF elta uppi, handsama eða drepa liðsmenn Hamas og sprengja upp byggingar og aðra innviði tengda hryðjuverkasamtökunum. Í kjölfar aðgerða getur Ísraelsstjórn svo annaðhvort dregið herlið sitt til baka frá Gaza-svæðinu og sett það í herkví á ný eða tekið yfir fulla stjórn. Verði hið síðarnefnda fyrir valinu þá yrðu hersveitir IDF staðsettar á Gaza.

Andspyrnuvilji mun lifa áfram

Sérfræðingar IISS segja enga góða niðurstöðu að fá í kjölfar landhernaðar IDF á Gaza-svæðinu. Engu skiptir hversu árangursrík hernaðaraðgerð Ísraelsmanna kann að verða og hversu mörgum vígamönnum verður komið fyrir kattarnef. Stjórnmálaarmur Hamas mun lifa þrátt fyrir dauða vígamanna samtakanna og hið sama á við um andspyrnuvilja fólksins á Gaza.

Sjálfur landhernaðurinn mun án efa reynast IDF afar seinunninn og flókinn í framkvæmd. Vígamenn munu seint leyfa Ísraelsstjórn að taka með hervaldi yfir Gaza-svæðið og miskunnarlaust verja sig með mennskum skjöldum, þ.e.a.s. fólkinu, bæði konum og börnum, sem rænt var frá Ísrael um síðustu helgi. Hermenn IDF munu með öðrum orðum þurfa að finna leiðir til þess að yfirbuga vígamenn með aðferðum sem lágmarka mannskaða á gíslum á sama tíma og þeir framkvæma innrás á svæði sem er þeim afar óvinveitt. Og þetta verður, segja sérfræðingar IISS, hægara sagt en gert.

Myrtu fólk á heimilum sínum

Allt bendir til að Hamas hafi náð að kortleggja landamæravarnir Ísraels með nákvæmum hætti. Tókst þeim þannig að finna veikleika og var meginþunga innrásar beint í átt að þeim svæðum. Eftir að landamæragirðingar brustu streymdi á skömmum tíma mikill fjöldi vopnaðra vígamanna yfir til Ísraels og í átt að landamærabæjum. Yfir landamærin svifu einnig þungvopnaðir Hamas-liðar á svifvængjum. Samhliða stóð svo yfir linnulaus eldflaugaárás.

Sérfræðingar IISS slá því föstu að þessi mikla eldflaugaárás Hamas, sem meðal annars reyndist gríðarsterkum loftvörnum Ísraels ofviða um stund, hafi átt sinn þátt í seinu viðbragði IDF við innrásinni. Tafir sem kostuðu varnarlaust fólk lífið og vöktu reiði almennings.

Ódæðismenn Hamas héldu inn í ísraelska sveitabæi, þorp og aðra þéttbýliskjarna. Réðust þar á varnarlaust fólk í felum, myrtu heilu fjölskyldurnar, börn og gamalmenni. Margar af þessum árásum voru teknar upp á farsíma og þeim svo dreift á samfélagsmiðlum. Tilgangurinn augljós; að valda útbreiddum ótta og skelfingu. Engum var hlíft, ekki einu sinni ungbörnum.

IISS bendir á að Hamas-liðar hafi margir verið íklæddir borgaralegum klæðnaði við árásina, rænt ökutækjum fórnarlamba sinna og sótt hratt inn í ísraelskt landsvæði. Þetta kom þeim fáu her- og lögreglumönnum sem voru á svæðinu á óvart og voru þeir því lítil fyrirstaða. Dæmi er um að almenningur hafi vopnast til að veita öryggissveitum aðstoð sína.

Þá eru engin dæmi þess að IDF hafi nýtt flugsveitir, s.s. orrustuþotur eða árásarþyrlur, til að hrinda sókn vígamanna. Notkun slíkra vopnakerfa hefði að líkindum stóraukið manntjón meðal almennings.

Tugir þúsunda eldflauga

Þær eldflaugar sem vígamenn Hamas nota gegn fólki í Ísrael hafa flestar 10 til 250 kílómetra drægni og eru án sérstaks stjórnbúnaðar. Ekki er vitað til þess að Hamas búi yfir stýrðum eldflaugum, þó ekki sé hægt að útiloka það heldur.

Árið 2021 var það mat leyniþjónustu Ísraels að á Gaza-svæðinu væri að finna um 30 þúsund eldflaugar og kemur stór hluti þessara vopna frá Íran og Sýrlandi. Undanfarin ár, jafnvel allt frá árinu 2014, hefur Hamas í samstarfi við Íran lagt áherslu á heimasmíðaðar eldflaugar til árása í Ísrael.

mbl.is