Sýndi styrkleika með því að mæta

Bjarni Benediktsson á Alþingi.
Bjarni Benediktsson á Alþingi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, sagði Bjarna Benediktsson, fráfarandi fjármála- og efnahagsráðherra, hafa sýnt styrkleika með því að mæta í þingsal í morgun.

Umræðan um hann væri ótrúleg. Hann væri enn fjármálaráðherra og því ósköp eðlilegt að hann væri í þingsalnum. Kannski væri stjórnarandstaðan bara svekkt yfir því hversu ríkisstjórnin standi styrkum fótum.

Ingibjörg Ólöf Isaksen.
Ingibjörg Ólöf Isaksen.

Munaðarlaust fjárlagafrumvarp

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, sagði fjárlagafrumvarpið liggja munaðarlaust á Alþingi og að áframhaldandi sala á Íslandsbanka væri í fullkominni óvissu.

Sigmar Guðmundsson, samflokksmaður hennar, tók undir og sagði ekkert traust ríkja úti í samfélaginu til að halda áfram sölunni á Íslandsbanka. „Við vitum ekkert hvort þessir tugir milljarða skili sér inn eins og gert er ráð fyrir á næsta og þarnæsta ári,” sagði hann.

Sigmar Guðmundsson.
Sigmar Guðmundsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jóhann Friðrik Friðriksson, þingmaður Framsóknarflokksins, steig einnig í pontu og sagði fjárlagafrumvarpið ekki munaðarlaust heldur í ferli. „Mér finnst þetta vera orðið ansi mikið leikrit,” sagði hann um umræðuna undir liðnum fundarstjórn forseta.

Ætti að fara út í hléi

Síðastur í pontu var Indriði Ingi Stefánsson, varaþingmaður Pírata, sem sagði leikrit vera misgóð. Stundum færu menn út í hléi og það ætti Bjarni einmitt að gera. Það væri skrítið ef Bjarni ætli að fara beint í miðasöluna og kaupa sér aðgöngumiða að seinni helmingi leikritsins.

mbl.is