Stríð eru flókin fyrirbæri og við, hér norður í ballarhafi, höfum ekki síðustu 1000 árin eða svo verið innanbúðarmenn í slíku, og þótt einstaka sálir hafi flækst eins og óviljandi á vettvang fjarri ströndum landsins, ná þær ekki endilega máli sem stríðsmenn. Fjöldi þátttakenda og búnaður slíkra skiptir þar nokkru og til eru tölur fróðra í þeirri grein um hversu hátt hlutfall látinna og særðra megi una við af hálfu skrifstofumanna sem skrá sínar skýrslur oftast fjarri ógnum vígvallanna.
Sem betur fer leiddum við Íslendingar heimsstyrjöldina fyrri, sem reis þó varla undir því nafni, að mestu hjá okkur og enginn sýndi neinn verulegan áhuga á að véla okkur til þátttöku þar vegna fámennis og búnaðarskorts, enda hefði það verið mikil fyrirhöfn að koma okkur í raunverulegt skotfæri, eins og þessi heimsstyrjöld þróaðist. Þótt varla megi segja það, þá lá okkur um margt frekar gott orð til þessarar heimsstyrjaldar, að því leyti til að við höfðum eitthvað dálítið upp úr því krafsi viðskiptalega, en höfðum verið prýðilega einangraðir fram að því. En hliðarþættir, sem tengjast lokapunktum þessarar frægu styrjaldar, höfðu þó fremur vont orð á sér hér heima, eins og frostaveturinn mikli og spánska veikin illræmda sem lagðist illa á fólk, ekki síst ungt, og í köldum híbýlum þess tíma varð fátt um varnir. En þótt ástæðulaust sé að segja nokkuð gott um veikina, þá stoppaði hún þó tiltölulega stutt við, en mörg fjölskyldan sat illa særð eftir.
Einn gleðiríkasti atburður sem féll til okkar, sem þjóðar, hefði við aðrar aðstæður stýrt fagnaði af margvíslegu tagi, árum og öldum síðar, en Fullveldið fór fremur hljótt hjá við þessar aðstæður og hefur verið fremur losaralega fagnað á tyllidögum síðar. Þannig var fyrsta aldarafmæli „Fullveldis Íslands“ annálað fyrir hversu lítilfjörleg öll umgjörð þess var og gleymdu pótintátar að bjóða þjóðinni í það afmæli af einhverjum skringilegheitum, verður varla sagt að þjóðin hafi orðið nokkurs vör og hefur það sjálfsagt verið ásetningurinn. Fjölmiðlar vissu auðvitað sitthvað um seinni heimsstyrjöldina og Hitler málara. En heimurinn var satt best að segja næsta lengi að láta Þjóðverja vita af því, hvert álit hann hefði á þeim óaldarskríl sem hafði lagt það merka land undir sig, þannig að ekki varð betur séð, utan frá sem innan, en að það lið væri dýrkað sem hefðarmenni og bjargvættir. Þannig sáu menn ekkert að því að dansa með þegar herra Hitler fékk að baða sig í ljóma Ólympíuleika árið 1936. Þótt ekki hafi öll stórkarlaleg hermdarverk hans þá verið komin á hástig illskunnar, svo séð yrði, þá sást nóg. Og þótt reynt væri að breiða yfir eitthvað til hátíðarbrigða, þá gat ekki hafa farið fram hjá mörgum hvernig þessi merka þjóð var smám saman að breytast í skrímsli.
Komin í alfaraleið
Við þurftum ekki lengur að bíða í vikur eða mánuði eftir að hingað bærust stórfréttir sem enginn annar hafði áhuga fyrir og heimurinn gaf sig ekki að, eins og þær að Jón Sigurðsson forseti og frú Ingibjörg væru látin í Kaupmannahöfn. Þótt framan af öldinni nýju væru engir ljósvakamiðlar, með kostum sínum og göllum, þá bárust fréttaskeytin reglulega og drógu smám saman úr fréttalegri einangrun. En þótt útvarp hefði verið hér í rúman áratug, þá vissum við ekki hverjir hefðu hernumið okkur fyrr en flotinn sigldi inn ytri höfnina. Þeir voru sjálfsagt til í landinu sem vonuðu að þar færu Hitler liðþjálfi og hans nótar, en það fækkaði þó fljótlega í þeim fagnaðarhópi þegar ljóst varð að sennilega væru Churchill og hans menn þar á ferð, þótt hann kæmi sjálfur nokkru síðar á svæðið. Og eftir það má segja að hlutirnir hafi gerst hratt. Aðeins átta árum síðar voru Íslendingar orðnir hluti þess úrvalshóps sem stofnaði til mesta hernaðarbandalags veraldarinnar, og vorum við áratugum á undan þeim þjóðum sem drattast hafa í Nató síðar. Það þekktu ekki allir sinn vitjunartíma þá og er svo sem óþarfi að velta löndum sínum, vinum og kunningjum upp úr slíku núna. Bréfritari var rúmlega eins árs þegar þetta gerðist og verður seint trúað að hann hafi verið einn af áhrifavöldum þessarar tíðar, eins og það heitir núna. En mörgum árum síðar þótti ritaranum til um það að það var fulltrúi Íslands, Thor Thors, sem bar upp tillöguna í SÞ um stofnun Ísraelsríkis. En það vill gleymast að Ísrael stofnaði ekki sitt ríki eitt og sér. Heimurinn var illa brenndur eftir tvær heimsstyrjaldir og vildi standa öðruvísi og betur að málum en áður, og þar með formbinda mikilvægar ákvarðanir með stimpli hinnar nýju alþjóðastofnunar.
Fórum lengi hægt
En fyrstu aldirnar eftir landnám bjuggum við varla við framkvæmdavald, sem nokkru næmi, enda hafði það, í okkar nafni, verið skráð á dýrmæt skinn að við, sem þá vorum uppi, vildum ekki búa við kóngsyfirvald af neinu tagi, enda var andúðin á slíkum silkihúfum meginástæða þess að stefnan var tekin hingað norðvestureftir í upphafi. En svo fór að kóngar töldu okkur samt vera hluta af sínu innbúi í átta hundruð ár eða lengur. Þá höfðum við kóngslausir og ritfærir fundið Grænland og svo Ameríku, sem sumir hafa gengið út frá að hafi sennilega verið Manhattan, en sá skagi fékk ekki á sig nokkurt nafn fyrr en mörgum öldum síðar. Indíánarnir sem voru inn á við í þessari miklu álfu sem Leifur var svo heppinn að finna, með sín hrossastóð og fjaðraskrúð, höfðu ekki hugmynd um að þessi risavaxni hestabústaður sem Leifur fann væri týndur.
Oskar Wilde hinn orðheppni sagði það forfeðrum okkar og -mæðrum á Íslandi til hróss, að þau hefðu fundið Ameríku, skrifað það hjá sér í handritin, en svo haft vit á að týna henni af ásettu ráði aftur, aðeins örfáum árum síðar, sem verið hefði snilldar leikur. Menn létu Grænland duga á meðan góðærið Global Warming, sem enginn nefndi þó á nafn fyrstu 300 árin, hélt svo vel utan um okkur uns kuldinn, sem hefur verið eina veðurfyrirbærið sem nokkru sinni hefur reynst mannkyninu illa, þótt gervivísindamenn hafi ekki komið auga á það, gangandi um með þykk glerin, sandblásin og svartglerjuð, fyrir augum síðustu 30 árin, en slíkur tími er ekki talinn með í milljónaárum jarðsögunnar nema af idjótum. Það góða leynimakk forfeðranna um Manhattan hefði dugað mannkyninu í ein 500 ár, þar til að Kólumbus þekkti ekki sinn vitjunartíma og hljóp á sig.
Glæpur að grípa ekki inn í
Þótt stríð séu oftast nær að minnsta kosti ógeðsleg þá er þátttaka réttra aðila, sem víkja sér ekki undan ábyrgð og hafa til þess afl, til þess fallin að færð sé í jákvæða og þakkarverða dálkinn, og megi jafnvel teljast guðsblessun sem mannkynið mátti ekki vera án.
Þegar ómennið Hitler tók að láta til sín taka var hann tiltölulega fljótur að ná alræðisvaldi í landinu. En lýðræðisríkin allt um kring létu ekki til sín taka. Og þá ekki alræðisríkin. Stalín hafði látið myrða tugi þúsunda ungra liðsforingja, til að tryggja stöðu sína, og þegar þýska hernum óx fiskur um hrygg varð Jósef verulega hræddur, því hann átti ekkert í Hitler, hvorki með búnaði né fólki. Hann knúði því á um friðarsamning við Hitler sem fipaði sósíalista og kommúnista í Vestur-Evrópu verulega. Sá samningur var enn í gildi þegar Hitler gaf her sínum fyrirmæli um að ráðast inn í Sovétríkin. Sama daginn og her Hitlers fór yfir landamærin gaf Stalín fyrirmæli um að afhenda þýska hernum olíu í samræmi við „friðarsamninginn“ til að auka ekki reiði hans.
Vesturlöndin tóku seint við sér líka. Þau tóku fullan þátt í Ólympíuleikunum 1936 sem var einn allsherjar sýningargluggi fyrir Hitler, afl hans og getu. Og sú afsökun sem sumir notuðu furðu lengi var bersýnilega röng og eins eftir á skýringin um að á þeim tíma hafi Hitler ekki verið búinn að sýna á spilin sín. Aðeins þeir sem vildu ekki sjá gátu haldið því fram.
Breskir fjölmiðlar kölluðu Churchill stríðsæsingamann þegar hann varaði ítrekað við og meira að segja mikill meirihluti flokksbræðra hans í Íhaldsflokknum vildi ekkert af honum vita. Chamberlain var fjarri því að vera einstæðingur í þeim flokki þá.
Íbúatalning
Íbúar á Gasasvæðinu eru margir og búa við þröngan kost. Hamas-fylkingin, sem er hermdarverkaflokkur og ekki hægt að horfa fram hjá því, náði þar völdum í skjóli fjár og herstuðnings frá Íransstjórn. Í 17 ár hafa ekki farið fram kosningar á Gasasvæðinu. Hvorki Hamas né húsbændur þeirra í Teheran eru fylgjandi „tveggja ríkja lausn“ í Ísrael.
Eftir að stjórnin í Íran taldi sig hafa tryggt sér 6,4 milljarða dollara(!) lausnargjald fyrir fimm fanga sína gaf hún grænt ljós á hina ofsafengnu innrás í Ísrael. Hin öfluga leyniþjónusta Ísraels, Mossad, og aðrar leyniþjónustur, sem talið er vitað að vinni með henni að málum sem eru sameiginleg, virðast ekki hafa séð aðvörunarljósið um það sem var að vænta. Það varð dýrkeypt. Leyniklíkan sem stýrir Hamas ræðir ekki við einn né neinn nema æðstaklerkinn í Teheran og hans allra næstu menn. Á Gasa er almenningur einskis spurður. Skólum, barnaheimilum og sjúkrahúsum og -skýlum er viljandi blandað nærri byggingum sem hýsa yfirstjórnarþátt Hamas.
Það er réttilega sagt að Gasa sé þéttbýlt. Þar búi tvær milljónir manna mjög þröngt, sem er einnig rétt. En það er ekki einstætt. Singapúr er aðeins fáein prósent af stærð Íslands, en íbúar þar eru 16 sinnum fleiri en á Íslandi! Þar er snyrtimennska í hávegum höfð og lífskjör öflug. Holland er um 40% af stærð Íslands og íbúar þess eru 47 sinnum fleiri en Íslendingar! Þar eru mikil efni og glæsileiki. Ísrael er aðeins 20% af stærð Íslands! Íbúar þar eru 24 sinnum fleiri en Íslendingar! Þar er einnig þröngbýlt. Og um þá er setið. Þar var fátæklegt um að litast þegar Sameinuðu þjóðirnar samþykktu 1948 stofnun Ísraels. Um það hefur verið deilt síðan.
Engin ein söguskoðun er sjálfsagt hin eina og sanna. Líklegt er að gyðingar hafi verið um þriðjungur íbúa við stofnun landsins og þeir hófu landakaup. Auðvitað hleypti ákvörðun SÞ verulegum krafti í þjóðaruppbyggingu í landinu helga, eins og það hefur stundum verið kallað. Helförin og framganga nasista og ótrúlega lítill og lélegur stuðningur vestrænna ríkja lengi framan af olli gyðingum vonbrigðum. Þeir urðu endanlega sannfærðir um að þeir verði að eiga nægilegt afl sjálfir til að aðrir veiti þeim extrastyrkinn sem þarf til að tryggja öryggi þjóðarinnar.