Gyðingahatur vellur fram á Vesturlöndum

Undanfarnar nætur hafa sum heimili gyðinga í Þýskalandi verið merkt …
Undanfarnar nætur hafa sum heimili gyðinga í Þýskalandi verið merkt með Davíðsstjörnu, í senn ógeðsleg áminning og hótun um helför.

Viðurstyggileg hryðjuverkaárás Hamas á saklausa borgara í Ísrael, þar sem meira en 1.300 féllu, kom ekki aðeins Ísraelsmönnum í opna skjöldu, heldur heimsbyggðinni allri. Athyglin hafði enda ekki verið á Miðausturlöndum um nokkra hríð og sennilega var sú staðreynd ein rót árásarinnar.

Það hreif, annað verður ekki sagt um ómennsk ódæðin þar sem árásir á vöggustofur og leikskóla voru vandlega skipulagðar og engu eirt.

Markmiðið var ljóslega að valda sem mestum dauða og skelfingu, sem gekk betur eftir en Hamas átti von á, en um leið hefur leiðtogunum verið fullljóst að Ísrael myndi svara af fullri hörku. Von þeirra og vina þeirra í Íran sjálfsagt sú að til frekari ófriðar kæmi við landamæri Líbanons og á Vesturbakkanum.

Ekki má gleyma að Hamas er ekki þjóðfrelsishreyfing nema í aðra röndina. Helsta markmiðið er útrýming gyðinga og Hamas hefur aldrei farið dult með það, þó málsvarar Palestínuaraba á Vesturlöndum hafi látið vera að tala um það.

Samúð verður hatur

Það er hins vegar ástæða til þess að staldra við viðbrögð við hryðjuverkaárásunum á Vesturlöndum. Fyrst í stað stigu leiðtogar vestrænna ríkja fram, ítrekuðu samstöðu með Ísrael og rétt þess til þess að verja sig.

Það þurfti hins vegar ekki að bíða lengi eftir því að andstæð sjónarmið væru látin í ljósi og það með beittari hætti en flestir – jafnvel Hamas – hefðu átt von á.

Á Vesturlöndum náði enginn að efna til kertafleytinga um fórnarlömb Hamas áður en múslimar af ýmsu bergi brotnir hömpuðu óhæfuverkunum, líkt og Íslendingar urðu vitni að í Kastljósi Ríkisútvarpsins liðinn þriðjudag þegar Falasteen Abu Libdeh kvaðst fagna árásunum.

Undanfarna daga hefur borið á margvíslegum fagnaðarlátum með árásirnar í ýmsum borgum Evrópu, en síðustu daga hafa ágerst mótmælaaðgerðir gegn fyrirhuguðum viðbrögðum Ísraelsmanna og þar fram eftir götum.

Þar hafa náð saman þrjár ærið ólíkar fylkingar. Þar ber sennilega mest á innflytjendum frá hinum íslamska heimi, en sömuleiðis hafa nýnasistar af ýmsu tagi látið til sín taka á ný. Einna mestu kann þó að muna um fjölmarga vinstrimenn, sem löngum hafa haft samúð með Palestínuaröbum og ræktað með sér óbeit á Ísrael, svo mjög að það er fyrir löngu orðinn snar þáttur í sjálfsímynd margra vinstrimanna í bland við andúð á vestrænum gildum almennt.

Jafnvel þannig að gyðingahatur hefur grafið um sig, eins og sannaðist á breska Verkamannaflokkinn undir stjórn Jeremy Corbyn, en endurómar í vaðli um að Hamas eigi í heilögu stríði við nýlendustefnuna.

Frasar um að hryðjuverkamaður eins sé frelsishermaður annars hafa verið þeim svo lengi tamir, að þeir leiða einhver svívirðilegustu hryðjuverk í manna minnum hjá sér og telja réttara að grafast fyrir um grunnorsakir þeirra, helst aftur í gráa forneskju. Og segir kannski sína sögu að á á Twitter þótti sumum þeirra sér sæma að þvertaka fyrir að Hamas-liðar hefðu afhöfðað ungbörn, þeir hefðu bara skotið þau í vöggunum.

Gröftur gamals haturs

Í næsta mánuði verða liðin 85 ár frá Kristallsnóttinni svokölluðu í Þýskalandi 1938, þegar segja má að gyðingaofsóknir þar í landi hafi orðið opinberar, híbýli og vinnustaðir gyðinga merktir, á þá ráðist og eignir skemmdar. En ætli nokkur hafi átt von á því að árið 2023 myndi það aftur gerast í Berlín að hús þar sem gyðingar búa yrðu merkt með Davíðsstjörnunni? Og er þá nema von þótt gyðingar spyrji hvað komi næst og hvort þeir geti treyst því að stjórnvöld geti eða vilji verja þá?

Það eru raunar ekki margir gyðingar í Þýskalandi, um 118.000 að talið er, langflestir innflytjendur frá Rússlandi. Það hefur ekki heldur farið hátt (stjórnvöldum þykir það óþægilegt umræðuefni), en árásir á gyðinga hafa færst mjög í aukana frá aldamótum.

Það á við í ýmsum Evrópulöndum öðrum og raunar einnig vestanhafs, þó í minni mæli sé. Þar koma innflytjendur frá Arabaheiminum oft við sögu, nýnasistar einnig, en sú breyting hefur orðið að æ fleiri eru opinskáir um andúð á gyðingum, ekki aðeins gagnvart Ísraelsríki. Þess hefur bæði gætt í mótmælum undanfarinna daga og á straumum á félagsmiðlum.

Þess sést víðar stað, eins og því að breska fótboltasambandið (FA) hafnaði óskum um að baða Wembley-bogann í ísraelsku fánalitunum og bannaði raunar ísraelska fána á pöllunum líka. Sem er eitthvað annað en vant er eftir meiriháttar hryðjuverk, innrásir eða ódæði og von þó að gyðingum þyki að um sig gildi enn sérreglur.

mbl.is