Inga Tinna Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Dineout, og Logi Geirsson handboltastjarna skelltu sér í frí saman en Logi átti afmæli í síðustu viku. Kærustuparið er eitt það glæsilegasta á landinu og voru auðvitað staðir sem hæfa stórstjörnum fyrir valinu.
Parið birti myndir úr fríinu þar sem þau sjást gera vel við sig í góðu veðri og snæða á glæsilegum veitingastöðum. Fóru þau til Saint Tropez í Frakklandi og smáríkisins Mónakó. Þau fóru einnig til Ítalíu og nutu lífsins við Como-vatn og í Mílanó.
Inga Tinna er þekkt fyrir mikinn ferðaáhuga og gott vit á veitingastöðum. Como-vatn er meðal staða sem eru í uppáhaldi hjá henni en hún byrjaði að fara þangað löngu áður en það komst í tísku hjá Íslendingum.
„Það sem er heillandi við Como er þetta undurfagra umhverfi. Maturinn er dásamlegur og fólkið yndislegt. Ég leigi alltaf bát og sigli milli staða á vatninu. Hver bær býr yfir sinni sérstöðu, sumir eru þekktir fyrir vandaða skó, aðrir fyrir vandaða hönnunarvöru fyrir heimili, aðrir fyrir olíur, ólívur, vín og svo framvegis. Það er fátt meira heillandi en að sigla bátnum upp að sjarmerandi bæ, leggja þar við bryggju og hoppa á fallegan veitingastað í hádegismat með útsýni yfir dýrðina,“ sagði Inga Tinna meðal annars í viðtali við ferðavef mbl.is.