Morðtíðni er á uppleið í Rússlandi í fyrsta skipti í 20 ár. Og segja má að eins konar sprenging hafi átt sér stað í sakamálum þar sem fyrrverandi hermenn eru ákærðir fyrir manndráp. Þykir ýmislegt benda til að reynt sé að draga fjöður yfir vandann, að því er fram kemur í umfjöllun The Moscow Times.
Þegar ljóst var að Kremlverjar þurftu nauðsynlega að fjölga í innrásarliði sínu í Úkraínu í kjölfar slæms gengis Rússlands strax frá fyrstu stigum hernaðaraðgerða ákvað Jevgení heitinn Prigósjín, stofnandi Wagner-málaliðahópsins, að halda inn í fangelsin í leit að nýliðum. Þar fengu dæmdir morðingjar, ofbeldis- og kynferðisglæpamenn að gera samning við Wagner um herþjónustu í hálft ár, en að þjónustu lokinni fá þessir sömu hrottar að snúa aftur heim til Rússlands. Og það sem frjálsir menn. Samhliða heimkomu þessara manna fór nær samstundis að bera á vandamálum og ofbeldisverkum.
Tímabilið janúar til september 2023 voru minnst 147 fyrrverandi hermenn ákærðir fyrir morð í Rússlandi. Eru það næstum tíu sinnum fleiri tilfelli en allt árið í fyrra. Fram kemur í gögnum dómstóla að flest morðin hafi verið framin í ölæði. Eins segir þar að morðvopnin hafi í flestum tilvikum verið hnífur, exi, skammbyssa eða fjölskotariffill. Nákvæmar upplýsingar um herþjónustu þessara manna liggja ekki fyrir, þ.e.a.s. ekki er vitað hvort um yfir- eða undirmenn sé að ræða né heldur í hvaða sveitum hersins þeir þjónuðu. Einungis sé skráð að um fyrrverandi hermann sé að ræða.
Ofbeldi og vandamál
Undanfarna tvo áratugi hefur morðtíðni í Rússlandi verið á hægri niðurleið. Hið sama á við um sakamál þar sem ákært er fyrir tilraun til manndráps. Í fyrra varð hins vegar skyndilega 4% fjölgun á málum þar sem ákært var fyrir morð eða tilraun til manndráps. Mörg þessara alvarlegu mála komu upp á svipuðum tíma og rússneskir hermenn hófu að snúa aftur heim frá átakasvæðum í Úkraínu og voru sum þeirra framin nærri úkraínsku landamærunum.
Þá þykir einnig ýmislegt benda til þess að félagslegum vandamálum fari einnig fjölgandi í Rússlandi. Er þá átt við heimilisofbeldi, aukna áfengisneyslu og ómeðhöndlaða áfallastreituröskun, eða PTSD, en vitað er að fyrrverandi hermenn sem upplifað hafa hörð átök þjást margir af þess háttar vanlíðan.
Tugir þúsunda fanga
Ekki er vitað með vissu hversu margir fangar voru teknir úr tukthúsum Rússlands og sendir til átaka í Úkraínu. Wagner-samtökin sjálf hafa þó nefnt töluna 50 þúsund.
Einn þessara manna er Denis Stepanov sem í nóvember 2022 gekk til liðs við Wagner. Hann hefur nú verið handtekinn, grunaður um að hafa myrt 68 ára gamla konu og 35 ára dóttur hennar í þorpi í Síberíu. Í von um að fela slóð sína kveikti Stepanov í húsi þeirra mæðgna. Þegar Wagner-liðar gerðu samning við Stepanov sat hann inni fyrir stórfellda líkamsárás.
Annar fyrrverandi Wagner-liði sem nú bíður dóms fyrir morð er Tsjíren-Dorjí Tsjírenzhapov, en hann var að afplána 14 ára fangelsisdóm fyrir morð þegar fulltrúar Wagner gerðu við hann samning. Skömmu eftir heimkomu frá Úkraínu myrti Tsjírenzhapov á nýjan leik. Bæði fórnarlömb hans voru ungar konur, 18 og 22 ára.
Rússlandsforseti þakkaði nýverið þeim föngum sem sinnt hafa herþjónustu í Úkraínu. Sagði m.a. þá sem fallið hafa vera nú búna að skila aftur sínu til föðurlandsins.
Lagabreyting í Bretlandi
Málaliðasamtökin Wagner eru þekkt fyrir mikla hörku, pyntingar og miskunnarlaus dráp á fólki. Hugtakið „stríðsglæpur“ hefur ósjaldan verið nefnt þegar fjallað er um voðaverk þessara samtaka. Af þeim sökum hefur forsætisráðherra Bretlands sagt tímabært að kalla Wagner-hópinn sínu rétta nafni – hryðjuverkasamtök.
Með því að bendla hópinn við hryðjuverk er í Bretlandi nú orðið ólöglegt að styðja Wagner eða ganga til liðs við samtökin. Þeir sem það gera geta fengið allt að 14 ára fangelsi.
Fáðu þér áskrift til að lesa áfram
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu,
rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki
á mbl.is.