Leyla Acaroglu, hönnuður og frumkvöðull, segir hagkerfið í núverandi mynd sinni gera út á sóun og það að níðast á náttúrunni, en hún flutti erindi á Nordic Circular Summit í Grósku í dag.
Acaroglu segir of mikil áherslu setta á verga landsframleiðslu, en of litla á umhverfisáhrif. Endurhugsa þurfi gildismat okkar og innleiða hringrásarhagkerfi til að stemma stigu við loftslagsvánni. Auðlindir jarðar séu takmarkaðar og hagkerfið þurfi að taka tillit til þess.
Hún segir að hagkerfið sé nú hugsað út frá því hvernig við getum skapað sem mest verðmæti. Ekki sé nægilegur gaumur gefinn því að bera virðingu fyrir takmörkunum náttúrunnar.
Leyla segir að mannskepnunni hafi tekist að skapa ótrúlega hluti og áorka margt. Þetta hafi þó oft haft óviljandi afleiðingar í för með sér, sem fólk kjósi oftar en ekki að hunsa.
Hún segir að endurhugsa þurfi borgir, menningu, viðskiptalíf og framleiðslu þannig að ekki sé gengið á náttúruna. „Án náttúrunnar værum við ekki til.“
Leyla segir að hægt sé að líta til gildismats sem frumbyggjaþjóðir víðast hvar hafa að leiðarljósi. Mikið landsvæði er verndað af frumbyggjum um heim allan. Meðal þeirra sé neyslumenning ekki í hávegum höfð og samhljómur við náttúruna metinn mikils.
Þjóðir heims þurfi að finna leiðir til að breyta lífstíl sínum svo ekki sé gengið um of á auðlindir jarðar. Hún telur að hægt sé að líta til menningarheima frumbyggja sem góð dæmi um slíkan lífstíl. Fræðimenn, fjölmiðlar og atvinnulífið hafi hingað til ekki borið virðingu fyrir þeim og talið þær frumstæðar.
„Við þurfum að viðurkenna að margar gjörðir okkar valda okkur miklu tjóni,“ segir Leyla.