Heiminum bjargað á verksmiðjugólfinu

Starfsmaður í verksmiðju Toyota setur saman Mirai-vetnisbíl. Félagið kynnti á …
Starfsmaður í verksmiðju Toyota setur saman Mirai-vetnisbíl. Félagið kynnti á dögunum nýja ammóníaksvél sem gæti valtað yfir rafbílatæknina. Bestu lausnirnar koma ekki endilega þaðan sem stjórnvöld búast við. AFP

Án þess að ég fari of mikið út í smá­atriðin (það geng­ur jú á ýmsu í Bang­kok) þá neydd­ist ég um dag­inn til að horfa á gamla upp­töku af keppni um titil­inn Ung­frú al­heim­ur. Steve Har­vey fer á kost­um sem kynn­ir en ég á enn erfitt með að átta mig á ná­kvæm­lega hvernig keppn­in fer fram eða hvað það er sem dóm­nefnd­in legg­ur til grund­vall­ar við val á sig­ur­veg­ara. Skrítn­ast af öllu þykir mér þegar glæsi­legu ungu kon­urn­ar eru spurðar hvernig þær hyggj­ast bjarga heim­in­um.

Ég ætla ekki að gera grín að þeim lausn­um sem feg­urðardrottn­ing­arn­ar hafa á öll­um þeim vanda­mál­um sem steðja að mann­kyn­inu því sjálf­ur hefði ég ekki getað veitt mikið betri svör þegar ég var hálfþrítug­ur. Svör­in eru held­ur ekk­ert betri hjá kjörn­um full­trú­um, sem eru þó yf­ir­leitt komn­ir vel yfir miðjan ald­ur og eiga að vera hokn­ir af visku og reynslu: lofts­lags­mál­in eru svo al­var­legt vanda­mál, og órétt­læti í heim­in­um svo af­skap­lega mikið að við verðum ein­fald­lega að taka hönd­um sam­an, axla ábyrgð og sýna sam­hygð í verki – og muna að all­ir eru fal­leg­ir hver á sinn hátt. Skiln­ing­ur­inn og hug­mynda­flugið rista ekki dýpra en það, og rétt eins og flest annað í keppn­inni eru lausn­irn­ar yf­ir­borðskennd­ar og inni­haldsrýr­ar, þrátt fyr­ir af­skap­lega góðan ásetn­ing.

Brask og brall í regn­skóg­in­um

Nú hrikt­ir í stoðum kol­efnis­jöfn­un­ar­markaðar­ins og bein­ast spjót­in einkum að fé­lag­inu Verra sem rek­ur heims­ins stærsta sjálf­stæða markað fyr­ir kol­efnis­jöfn­un­ar­vott­orð. Seint í sum­ar sviptu Guar­di­an og Die Zeit hul­unni af viðskipta­hátt­um Verra og skoðuðu einkum sölu vott­orða sem ganga út á minnk­un kol­efn­is­los­un­ar með vernd­un regn­skóga í Amazón. Vönduð rann­sókn­ar­blaðamennska leiddi í ljós að um 94% af regn­skóg­ar­vott­orðum Verra voru með öllu gagns­laus, og voru jafn­vel að gera jörðinni meira ógagn en gagn.

Regn­skóg­ar­vott­orð mynda um 40% af kol­efnis­jöfn­un­ar­hag­kerfi Verra og hafa heimsþekkt risa­fyr­ir­tæki á borð við Gucci, Sa­les­force og Shell fjár­fest í vernd­un regn­skóg­ar­ins til að geta núllað út eig­in kol­efn­is­los­un eða til að geta selt al­menn­ingi vör­ur sín­ar með lof­orði um að þær hafi verið kol­efnis­jafnaðar.

Í stuttu máli fólst brell­an í því að selja spild­ur í regn­skóg­in­um, sem þar með yrðu ekki rudd­ar til að rýma fyr­ir land­búnaði. Með smá heila­brot­um má líta svo á að það að forða regn­skógi frá eyðingu sé fa­ktískt kol­efn­isminnk­andi aðgerð, og þannig hægt að selja spild­ur djúpt inni í skóg­in­um til að jafna kol­efn­is­los­un iðnfyr­ir­tæk­is ann­ars staðar á jarðkringl­unni.

Við nán­ari skoðun reynd­ust flest þau verk­efni sem Verra bauð kaup­end­um sín­um staðsett á svæðum þar sem lít­il sem eng­in hætta var á að skóg­ur yrði rudd­ur til að skapa rækt­ar­land, s.s. hátt upp í af­skekkt­um fjalls­hlíðum óra­vegu frá manna­byggð. Vott­orðin sem fyr­ir­tæki höfðu keypt dýr­um dóm­um voru til skrauts frek­ar en til gagns.

Eins og það væri ekki nóg þá fund­ust dæmi um að frum­byggj­um hefði verið bolað í burtu af nýj­um skóg­ar­vernd­ar­svæðum í Perú, svo gefa mætti út vott­orð.

Í sept­em­ber bár­ust svipaðar frétt­ir af öðru verk­efni sem einnig var selt í Verra-kaup­höll­inni, í þetta skiptið hinum meg­in á hnett­in­um í Kambódíu. Þau fé­lög sem keyptu kambódísk vott­orð hafa ekki feng­ist til að svara því hversu mörg tonn af kolt­ví­sýr­ingi þarf að jafna til að bæta upp fyr­ir þau mann­rétt­inda­brot sem fólkið á svæðinu virðist hafa þurft að þola.

Í Pará-fylki nyrst í Bras­il­íu hafa sak­sókn­ar­ar byrjað mála­rekst­ur gegn þrem­ur kol­efn­is­vott­orðafé­lög­um á svæðinu, sem eru sökuð um að hafa eignað sér regn­skóg­ar­breiður í rík­is­eigu til að gefa út jöfn­un­ar­vott­orð. Öll þrjú fé­lög­in fengu gæðastimp­il Verra og seldu vott­orð m.a. til Air France, Boeing og meira að segja til knatt­spyrnuliðs Li­verpool. FT grein­ir frá að ný­leg rann­sókn, þar sem not­ast var við gervi­hnatta­mynd­ir, hafi leitt í ljós að af 56 vott­orðaverk­efn­um í Amazón-frum­skóg­in­um hafi það gerst í 33 til­vik­um að það land sem notað var til að gefa út vott­orðin var að hluta eða að öllu leyti í eigu rík­is­ins, en ekki í eigu selj­anda vott­orðanna.

Regn­skóg­ur­inn er hent­ug­ur fyr­ir grænþvott

Markaður­inn fyr­ir kol­efn­is­heim­ild­ir og -vott­orð er tví­skipt­ur. Ann­ars veg­ar eru þau kaup- og sölu­kerfi sem stjórn­völd stýra og skipu­leggja, líkt og ETS-kerfið í Evr­ópu. Hins veg­ar er hliðstæður og sjálfsprott­inn markaður einkaaðila sem Verra er hluti af. Höfðu gagn­rýn­end­ur varað við að án aðhalds og eft­ir­lits stjórn­valda myndu skap­ast mjög sterk­ir hvat­ar á sjálfsprottna markaðinum fyr­ir bæði selj­end­ur og kaup­end­ur að stunda vafa­söm viðskipti.

Ein ástæða þess að regn­skóg­ar­vott­orð nutu mik­illa vin­sælda var ein­mitt að þau þóttu mjög ódýr kost­ur í sam­an­b­urði við marg­ar aðrar kol­efnis­jöfn­un­ar­vör­ur. Kaup­end­urn­ir höfðu litla ástæðu til að vilja kafa ofan í það hvort ein­hver inni­stæða væri fyr­ir full­yrðing­um selj­enda – mestu skipti að borga sem lægst verð fyr­ir að geta sagst vera grænn og góður. Útsmogn­ir selj­end­ur gátu að sama skapi grætt á tá og fingri með smá­veg­is brell­um og blekk­ing­um. Eng­ir smá­veg­is hvat­ar eru í spil­inu og seg­ir Guar­di­an að árið 2021 hafi velt­an á sjálfsprottna markaðinum með kol­efn­is-af­láts­bréf numið 2 millj­örðum dala.

Hafa gagn­rýn­end­ur bent á að markaður með heim­ild­ir af þessu tagi, og vafa­söm verk­efni í regn­skóg­um Asíu og Suður-Am­er­íku, hafi hrein­lega skemmt fyr­ir bar­átt­unni gegn kolt­ví­sýrn­ingn­um með því að soga fjár­magn frá öðrum verk­efn­um sem kannski hefðu gert al­vöru gagn.

Er þá eðli­legt að spyrja hvort lausn­in sé að láta stjórn­völd leika stærra hlut­verk; fá stór­ar nefnd­ir sér­fræðinga til að setja ít­ar­lega staðla og hafa heil­an her af op­in­ber­um starfs­mönn­um á ferðinni um all­an heim til að sann­reyna og gæðaflokka alls kyns græn verk­efni sem bjargað geta plán­et­unni frá lofts­lags­breyt­ing­um. (Lát­um það liggja milli hluta, í þetta skiptið, hvort það sé yf­ir­höfuð nokk­ur ástæða til að hafa mikl­ar áhyggj­ur af los­un kolt­ví­sýr­ings.)

Gall­inn við slíka lausn er að stjórn­völd­um hætt­ir til að hafa of þröng­an og stutt­an sjón­deild­ar­hring, og þau skort­ir get­una til að aðlag­ast nýj­um hug­mynd­um og nýj­um lausn­um. Það sem ein­um get­ur þótt rak­in leið til að draga úr los­un og hjálpa bæði dýra­lífi og sam­fé­lagi get­ur öðrum þótt vita­gagns­laust. Íslend­ing­ar þekkja það t.d. vel hvernig sú aðferð að end­ur­heimta fram­ræst vot­lendi fell­ur illa að reikni­mód­el­um evr­ópska kol­efn­ismarkaðar­ins þrátt fyr­ir að vera bæði ódýr og til­tölu­lega skil­virk lausn. Í pistli sem ég skrifaði vorið 2022 nefndi ég enn fræg­ara dæmi, þegar þrjú mats­fyr­ir­tæki voru feng­in til að mæla ESG-frammistöðu Tesla, þ.e. ákv­arða hvort rekst­ur­inn gæti tal­ist já­kvæður fyr­ir um­hverfi og sam­fé­lag, og hvort stjórn­ar­hætt­irn­ir væru til fyr­ir­mynd­ar. Eitt fyr­ir­tækið gaf Tesla hæstu ein­kunn, annað gaf fall­ein­kunn og það þriðja staðsetti Tesla n.v. fyr­ir miðju. Hef­ur þó ekk­ert fyr­ir­tæki í heimi gert meira til að hraða orku­skipt­um í sam­göng­um. Mis­mun­ur­inn í ein­kunna­gjöf­inni skýrðist m.a. af því að Elon Musk hef­ur ekki viljað leyfa stétt­ar­fé­lög­um að skjóta rót­um í verk­smiðjum sín­um né lagt sig fram við að ráða fólk í stjórn­un­ar­stöður gagn­gert á grund­velli kyn­ferðis.

Á sama tíma hef­ur t.d. olíu-, tób­aks- og vopna­fram­leiðend­um tek­ist að smygla sér inn á lista yfir ESG-fyr­ir­tæki, og þar með inn í sér­staka kaup­hall­ar­sjóði sem hafa verið markaðssett­ir gagn­gert til fjár­festa sem vilja reyna að gera plán­et­unni eitt­hvert gagn með verðbréfa­kaup­um sín­um. Þurfti jafn­vel ekki meira til fyr­ir olíu-, tób­aks- og vopna­fram­leiðend­urna en að fegra hjá sér kynja­hlut­föll­in upp á punt og kol­efnis­jafna sig með vott­orðum sem kaupa mátti fyr­ir slikk af fé­lög­um á borð við Verra.

Frelsið og hug­vitið

Ég sé sjálf­an mig í hill­ing­um á sviðinu með Steve Har­vey, stíf­málaðan, með tú­berað hár og í glitrandi pallí­ettukjól. Hárs­breidd frá því að hreppa titil­inn Ung­frú al­heim­ur og til­bú­inn að svara stóru spurn­ing­unni: Hvernig björg­um við heim­in­um?

„Ja veistu, Steve; ef til vill væri það lík­leg­ast til ár­ang­urs að við treyst­um á sköp­un­ar­krafta hins frjálsa markaðar. Reynsl­an virðist sýna að besta leiðin til að stuðla að því að fólk fari vel með tak­markaðar auðlind­ir jarðar sé að standa vörð um einka­rétt­inn og gefa öll­um sem mest frelsi til að finna elju­semi sinni og hug­mynda­auðgi far­veg. Hver hefði t.d. séð fyr­ir nýja amm­óní­aks­mótor­inn sem Toyota svipti hul­unni af á dög­un­um? Þar er kom­inn mótor sem los­ar 90% minni kolt­ví­sýr­ing en sam­bæri­leg­ar bens­ín­vél­ar og gæti á heild­ina litið verið langt­um um­hverf­i­s­vænni og ódýr­ari kost­ur en raf­magns­bíla­tækn­in sem stjórn­völd um all­an heim hafa veðjað á og kostað miklu til. Mætti síðan nota nýj­ar græn­ar lausn­ir, eins og þá sem ís­lenski tækn­isprot­inn At­monia hef­ur þróað til að búa til amm­óní­ak án þess að losa kolt­ví­sýr­ing. Hver ætli hafi gert jörðinni meira gagn: þeir sem keyptu jarðspild­ur í Amazón af Verra, eða þeir sem fjár­festu í Toyota?“ myndi ég segja og blaka löng­um augn­hár­un­um.

„Við finn­um ekki lausn­irn­ar á vanda­mál­um mann­kyns inni í fund­ar­her­bergj­um ráðuneyta og alþjóðastofn­ana – og síst af öllu uppi á sviði í miðri feg­urðarsam­keppni – held­ur finn­um við þær á verk­smiðjugólf­inu.“

mbl.is