Án þess að ég fari of mikið út í smáatriðin (það gengur jú á ýmsu í Bangkok) þá neyddist ég um daginn til að horfa á gamla upptöku af keppni um titilinn Ungfrú alheimur. Steve Harvey fer á kostum sem kynnir en ég á enn erfitt með að átta mig á nákvæmlega hvernig keppnin fer fram eða hvað það er sem dómnefndin leggur til grundvallar við val á sigurvegara. Skrítnast af öllu þykir mér þegar glæsilegu ungu konurnar eru spurðar hvernig þær hyggjast bjarga heiminum.
Ég ætla ekki að gera grín að þeim lausnum sem fegurðardrottningarnar hafa á öllum þeim vandamálum sem steðja að mannkyninu því sjálfur hefði ég ekki getað veitt mikið betri svör þegar ég var hálfþrítugur. Svörin eru heldur ekkert betri hjá kjörnum fulltrúum, sem eru þó yfirleitt komnir vel yfir miðjan aldur og eiga að vera hoknir af visku og reynslu: loftslagsmálin eru svo alvarlegt vandamál, og óréttlæti í heiminum svo afskaplega mikið að við verðum einfaldlega að taka höndum saman, axla ábyrgð og sýna samhygð í verki – og muna að allir eru fallegir hver á sinn hátt. Skilningurinn og hugmyndaflugið rista ekki dýpra en það, og rétt eins og flest annað í keppninni eru lausnirnar yfirborðskenndar og innihaldsrýrar, þrátt fyrir afskaplega góðan ásetning.
Brask og brall í regnskóginum
Nú hriktir í stoðum kolefnisjöfnunarmarkaðarins og beinast spjótin einkum að félaginu Verra sem rekur heimsins stærsta sjálfstæða markað fyrir kolefnisjöfnunarvottorð. Seint í sumar sviptu Guardian og Die Zeit hulunni af viðskiptaháttum Verra og skoðuðu einkum sölu vottorða sem ganga út á minnkun kolefnislosunar með verndun regnskóga í Amazón. Vönduð rannsóknarblaðamennska leiddi í ljós að um 94% af regnskógarvottorðum Verra voru með öllu gagnslaus, og voru jafnvel að gera jörðinni meira ógagn en gagn.
Regnskógarvottorð mynda um 40% af kolefnisjöfnunarhagkerfi Verra og hafa heimsþekkt risafyrirtæki á borð við Gucci, Salesforce og Shell fjárfest í verndun regnskógarins til að geta núllað út eigin kolefnislosun eða til að geta selt almenningi vörur sínar með loforði um að þær hafi verið kolefnisjafnaðar.
Í stuttu máli fólst brellan í því að selja spildur í regnskóginum, sem þar með yrðu ekki ruddar til að rýma fyrir landbúnaði. Með smá heilabrotum má líta svo á að það að forða regnskógi frá eyðingu sé faktískt kolefnisminnkandi aðgerð, og þannig hægt að selja spildur djúpt inni í skóginum til að jafna kolefnislosun iðnfyrirtækis annars staðar á jarðkringlunni.
Við nánari skoðun reyndust flest þau verkefni sem Verra bauð kaupendum sínum staðsett á svæðum þar sem lítil sem engin hætta var á að skógur yrði ruddur til að skapa ræktarland, s.s. hátt upp í afskekktum fjallshlíðum óravegu frá mannabyggð. Vottorðin sem fyrirtæki höfðu keypt dýrum dómum voru til skrauts frekar en til gagns.
Eins og það væri ekki nóg þá fundust dæmi um að frumbyggjum hefði verið bolað í burtu af nýjum skógarverndarsvæðum í Perú, svo gefa mætti út vottorð.
Í september bárust svipaðar fréttir af öðru verkefni sem einnig var selt í Verra-kauphöllinni, í þetta skiptið hinum megin á hnettinum í Kambódíu. Þau félög sem keyptu kambódísk vottorð hafa ekki fengist til að svara því hversu mörg tonn af koltvísýringi þarf að jafna til að bæta upp fyrir þau mannréttindabrot sem fólkið á svæðinu virðist hafa þurft að þola.
Í Pará-fylki nyrst í Brasilíu hafa saksóknarar byrjað málarekstur gegn þremur kolefnisvottorðafélögum á svæðinu, sem eru sökuð um að hafa eignað sér regnskógarbreiður í ríkiseigu til að gefa út jöfnunarvottorð. Öll þrjú félögin fengu gæðastimpil Verra og seldu vottorð m.a. til Air France, Boeing og meira að segja til knattspyrnuliðs Liverpool. FT greinir frá að nýleg rannsókn, þar sem notast var við gervihnattamyndir, hafi leitt í ljós að af 56 vottorðaverkefnum í Amazón-frumskóginum hafi það gerst í 33 tilvikum að það land sem notað var til að gefa út vottorðin var að hluta eða að öllu leyti í eigu ríkisins, en ekki í eigu seljanda vottorðanna.
Regnskógurinn er hentugur fyrir grænþvott
Markaðurinn fyrir kolefnisheimildir og -vottorð er tvískiptur. Annars vegar eru þau kaup- og sölukerfi sem stjórnvöld stýra og skipuleggja, líkt og ETS-kerfið í Evrópu. Hins vegar er hliðstæður og sjálfsprottinn markaður einkaaðila sem Verra er hluti af. Höfðu gagnrýnendur varað við að án aðhalds og eftirlits stjórnvalda myndu skapast mjög sterkir hvatar á sjálfsprottna markaðinum fyrir bæði seljendur og kaupendur að stunda vafasöm viðskipti.
Ein ástæða þess að regnskógarvottorð nutu mikilla vinsælda var einmitt að þau þóttu mjög ódýr kostur í samanburði við margar aðrar kolefnisjöfnunarvörur. Kaupendurnir höfðu litla ástæðu til að vilja kafa ofan í það hvort einhver innistæða væri fyrir fullyrðingum seljenda – mestu skipti að borga sem lægst verð fyrir að geta sagst vera grænn og góður. Útsmognir seljendur gátu að sama skapi grætt á tá og fingri með smávegis brellum og blekkingum. Engir smávegis hvatar eru í spilinu og segir Guardian að árið 2021 hafi veltan á sjálfsprottna markaðinum með kolefnis-aflátsbréf numið 2 milljörðum dala.
Hafa gagnrýnendur bent á að markaður með heimildir af þessu tagi, og vafasöm verkefni í regnskógum Asíu og Suður-Ameríku, hafi hreinlega skemmt fyrir baráttunni gegn koltvísýrningnum með því að soga fjármagn frá öðrum verkefnum sem kannski hefðu gert alvöru gagn.
Er þá eðlilegt að spyrja hvort lausnin sé að láta stjórnvöld leika stærra hlutverk; fá stórar nefndir sérfræðinga til að setja ítarlega staðla og hafa heilan her af opinberum starfsmönnum á ferðinni um allan heim til að sannreyna og gæðaflokka alls kyns græn verkefni sem bjargað geta plánetunni frá loftslagsbreytingum. (Látum það liggja milli hluta, í þetta skiptið, hvort það sé yfirhöfuð nokkur ástæða til að hafa miklar áhyggjur af losun koltvísýrings.)
Gallinn við slíka lausn er að stjórnvöldum hættir til að hafa of þröngan og stuttan sjóndeildarhring, og þau skortir getuna til að aðlagast nýjum hugmyndum og nýjum lausnum. Það sem einum getur þótt rakin leið til að draga úr losun og hjálpa bæði dýralífi og samfélagi getur öðrum þótt vitagagnslaust. Íslendingar þekkja það t.d. vel hvernig sú aðferð að endurheimta framræst votlendi fellur illa að reiknimódelum evrópska kolefnismarkaðarins þrátt fyrir að vera bæði ódýr og tiltölulega skilvirk lausn. Í pistli sem ég skrifaði vorið 2022 nefndi ég enn frægara dæmi, þegar þrjú matsfyrirtæki voru fengin til að mæla ESG-frammistöðu Tesla, þ.e. ákvarða hvort reksturinn gæti talist jákvæður fyrir umhverfi og samfélag, og hvort stjórnarhættirnir væru til fyrirmyndar. Eitt fyrirtækið gaf Tesla hæstu einkunn, annað gaf falleinkunn og það þriðja staðsetti Tesla n.v. fyrir miðju. Hefur þó ekkert fyrirtæki í heimi gert meira til að hraða orkuskiptum í samgöngum. Mismunurinn í einkunnagjöfinni skýrðist m.a. af því að Elon Musk hefur ekki viljað leyfa stéttarfélögum að skjóta rótum í verksmiðjum sínum né lagt sig fram við að ráða fólk í stjórnunarstöður gagngert á grundvelli kynferðis.
Á sama tíma hefur t.d. olíu-, tóbaks- og vopnaframleiðendum tekist að smygla sér inn á lista yfir ESG-fyrirtæki, og þar með inn í sérstaka kauphallarsjóði sem hafa verið markaðssettir gagngert til fjárfesta sem vilja reyna að gera plánetunni eitthvert gagn með verðbréfakaupum sínum. Þurfti jafnvel ekki meira til fyrir olíu-, tóbaks- og vopnaframleiðendurna en að fegra hjá sér kynjahlutföllin upp á punt og kolefnisjafna sig með vottorðum sem kaupa mátti fyrir slikk af félögum á borð við Verra.
Frelsið og hugvitið
Ég sé sjálfan mig í hillingum á sviðinu með Steve Harvey, stífmálaðan, með túberað hár og í glitrandi pallíettukjól. Hársbreidd frá því að hreppa titilinn Ungfrú alheimur og tilbúinn að svara stóru spurningunni: Hvernig björgum við heiminum?
„Ja veistu, Steve; ef til vill væri það líklegast til árangurs að við treystum á sköpunarkrafta hins frjálsa markaðar. Reynslan virðist sýna að besta leiðin til að stuðla að því að fólk fari vel með takmarkaðar auðlindir jarðar sé að standa vörð um einkaréttinn og gefa öllum sem mest frelsi til að finna eljusemi sinni og hugmyndaauðgi farveg. Hver hefði t.d. séð fyrir nýja ammóníaksmótorinn sem Toyota svipti hulunni af á dögunum? Þar er kominn mótor sem losar 90% minni koltvísýring en sambærilegar bensínvélar og gæti á heildina litið verið langtum umhverfisvænni og ódýrari kostur en rafmagnsbílatæknin sem stjórnvöld um allan heim hafa veðjað á og kostað miklu til. Mætti síðan nota nýjar grænar lausnir, eins og þá sem íslenski tæknisprotinn Atmonia hefur þróað til að búa til ammóníak án þess að losa koltvísýring. Hver ætli hafi gert jörðinni meira gagn: þeir sem keyptu jarðspildur í Amazón af Verra, eða þeir sem fjárfestu í Toyota?“ myndi ég segja og blaka löngum augnhárunum.
„Við finnum ekki lausnirnar á vandamálum mannkyns inni í fundarherbergjum ráðuneyta og alþjóðastofnana – og síst af öllu uppi á sviði í miðri fegurðarsamkeppni – heldur finnum við þær á verksmiðjugólfinu.“