Mesta loðnuráðgjöf frá 2018

Norðmenn hafa hlutdeild í loðnu Íslendinga en nú stefnir í …
Norðmenn hafa hlutdeild í loðnu Íslendinga en nú stefnir í loðnubrest við Íslandsstrendur. Aðra sögu er að segja af loðnunni í Barentshafi. Ljósmynd/Eðvarð Þór Grétarsson

Á meðan Íslend­ing­ar horfa upp á mögu­leg­an loðnu­brest gefa norsk­ir vís­inda­menn út mestu ráðgjöf um há­marks­afla loðnu­veiða í Bar­ents­hafi frá ár­inu 2018. Legg­ur norska haf­rann­sókna­stofn­un­in (Hav­forskn­ings­instituttet) til að ekki verði veitt meira en 196 þúsund tonn af loðnu árið 2024.

Um er að ræða þreföld­un á ráðgjöf fyr­ir vertíðina 2023 er hún var 62 þúsund tonn.

Fram kem­ur á vef norsku stofn­un­ar­inn­ar að mælst hafi mikið af loðnu í vist­kerf­is­mæl­inga­leiðangri stofn­un­ar­inn­ar í Bar­ents­hafi og að norsk­ir og rúss­nesk­ir vís­inda­menn séu sam­mála um ráðgjöf­ina.

„Niður­stöður leiðang­urs­ins sýna að þriggja ára loðna, ár­gang­ur 2020, er stærsti hluti kynþroska loðnu sem stend­ur til að veiða. Á sama tíma er meira um fjög­urra ára loðnu en mælst hef­ur frá ár­inu 1980, sem stuðlar einnig að stærð þess hluta stofns­ins sem er kynþroska,“ seg­ir Georg Ska­ret sjáv­ar­líf­fræðing­ur í færslu á vef norsku haf­rann­sókna­stofn­un­ar­inn­ar.

Georg Skaret sinnir loðnurannsóknum hjá norsku hafrannsóknastofnuninni.
Georg Ska­ret sinn­ir loðnu­rann­sókn­um hjá norsku haf­rann­sókna­stofn­un­inni. Ljós­mynd/​Hav­forskn­ings­instituttet

Stefn­ir í ágætt verð

Á síðasta fisk­veiðiári (2022/​2023) lönduðu ís­lensku skip­in 330 þúsund tonn­um af loðnu, fisk­veiðiárið 2021/​2022 náðu þau 522 þúsund tonn­um og fisk­veiðiárið þar á und­an 71,5 þúsund tonn­um. Þar á und­an var tveggja ára loðnu­brest­ur, en það hafði ekki gerts frá því að loðnu­veiðar Íslend­inga hóf­ust á sjö­unda ára­tug síðustu ald­ar að loðnu­brest­ur ætti sér stað tvö ár í röð.

Fari svo að ís­lensku upp­sjáv­ar­út­gerðirn­ar fá ekki að veiða loðnu í vet­ur gæti hæg­lega farið svo að norsk­ar og rúss­nesk­ar út­gerðir sjá fram á mjög hag­stæð verð fyr­ir loðnu­af­urðir sín­ar. Þó bend­ir fátt til að fást jafn há verð og Íslend­ing­ar eiga að venj­ast þar sem kaup­end­ur loðnu­hrogna í Asíu setja hrogn­in úr Bar­ents­hafi ekki í sama gæðaflokk.

mbl.is