Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í suðvesturkjördæmi, hvetur hverfin í Reykjavík til að íhuga úrsögn úr höfuðborginni og til að sameinast öðrum sveitarfélögum.
Hún hafi heyrt frá Grafarvogsbúum sem vilji sameinast Mosfellsbæ og rætt við Seltirninga sem segi Vesturbæinga vilja sameinast Seltjarnarnesi um „að bæta samgöngur“.
Greint var frá því í gær að Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna, ætlaði að leggja til að Reykjavíkurborg byði Mosfellsbæ og Seltjarnarnesbæ til viðræðna um sameiningu sveitarfélaganna.
Bæjarstjórar Mosfellsbæjar og Seltjarnarnesbæjar sögðu báðir í viðtali við mbl.is að þeir hefðu ekki áhuga á slíkum sameiningarviðræðum. „Gleymdu hugmyndinni,“ sagði bæjarstjóri Seltjarnarness.
„Ég held að við ættum frekar að huga að því að það kunna að vera hverfi innan Reykjavíkur sem myndu vilja sameinast öðrum sveitarfélögum,“ sagði Bryndís á Alþingi í dag en hún tók til máls í umræðu um störf þingsins.
Bryndís kvaðst hafa heyrt reglulega frá Grafarvogsbúum „sem kvarta sáran yfir því að vera hluti af Reykjavík og því kerfi sem þar er boðið upp á“ og myndu frekar vilja heyra undir bæjarstjórn Mosfellsbæjar.
Sagðist Bryndís einnig hafa átt í samtali við íbúa og bæjarfulltrúa á Seltjarnarnesi sem hafi sagt sér að „það sé kannski möguleiki að fólk í Vesturbænum myndi vilja sameinast íbúum Seltjarnarness um það að bæta samgöngur“.
Að sögn þeirra Seltirninga sem þingkonan ræddi við, séu bæði íbúar í Vesturbænum og á Seltjarnarnesi sem kvarti sáran undan því að það sé „algjörlega lokað á þá“ er varði samgöngumál og ekki við þá mælt þegar gerðar séu stórtækar breytingar sem hafi áhrif á samgöngur þeirra og „öryggismál Seltirninga“.
„Ég vil þá frekar beina því til hverfafélaganna í Reykjavík að huga frekar að því hvort þau geti hreinlega bara sagt sig úr Reykjavík og óskað eftir því að koma inn í sveitarfélögin hér í kring, sem virðast vera mun betur rekin en höfuðborgin okkar,“ sagði Bryndís að lokum.