Atburðirnir í Ísrael sem urðu 7. október síðastliðinn eru enn þá efst á baugi tilverunnar austur þar, þegar þetta er skrifað. Og sjálfsagt eru nokkrar vikur enn í lokapunktinn, enda sér enginn hann enn þá fyrir. Flestir höfðu þó gefið sér, eftir harðar og afdráttarlausar yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar í Jersúsalem, að herinn þar myndi þá og þegar brjótast inn á Gasasvæðið og þar með fylgja ákvörðun sinni, herkvaðningu og orðum sínum eftir og tryggja að verstu árásir sem landið hefði orðið fyrir í 75 ára sögu sinni yrðu aldrei endurteknar.
Ísraelsmenn standa nú þétt saman og nokkrir leiðtogar stjórnarandstöðunnar hafa þegið boð forsætisráðherrans og tekið sæti í ríkisstjórninni, en mánuðina þar á undan höfðu linnulaus pólitísk átök tætt þetta litla land illa með pólitískum útifundum, mótmælum og heitingum á báða bóga í stærri stíl en menn eiga að venjast, og kalla ísraelskir gyðingar þó ekki allt ömmu sína í þeim efnum. Það er skiljanlegt að ríkisstjórn landsins hafi alla sína athygli á þeim ógnaratburðum sem þjóðin stendur frammi fyrir og reyni samhent að finna leiðir til að komast „lifandi“ frá þeim. Ríkisstjórnin hefur nauman meirihluta og er veik í þeim skilningi og ekki er hægt að ganga að því vísu að samsteypustjórn sundurþykkra flokka geti staðið af sér slíkan storm.
Ísraelska ríkisstjórnin, með eina frægustu leyniþjónustu veraldar sem sinn helsta öryggisventil, var beinlínis tekin í rúminu hinn 7. október. Þannig fór fyrir fleiri slíkum, með ekki síður stór nöfn og þekkta sögu, eins og hinar miklu leyniþjónustur Bandaríkjamanna og Breta. Í því sambandi má nefna eina pínlegustu yfirlýsinguna í aðdraganda 7. október, en hana átti Jake Sullivan, persónulegur öryggisráðgjafi Bidens (National Security Advisor), en þann mikla póst gerði Henry Kissinger hvað frægastan. Það heyrist reyndar sjaldan frá Jake Sullivan öryggisráðgjafa forsetans, en hann lýsti því þó yfir um mánaðamótin síðustu að það væri m.a. til marks um sterka stöðu stjórnar forsetans að ekki hefði um mjög langt skeið verið jafn friðvænlegt í löndunum fyrir botni Miðjarðarhafs og væri nú og hefði verið lungann af forsetatíð Bidens.
En stutt er í ólund og andstöðu
Þrátt fyrir að í Jerúsalem sé vitað og viðurkennt að nú gildi það ofar öllu að standa saman innanlands og hafa hemil á sundurlyndisfjandanum, þá geta andstæðingar núverandi forsætisráðherra, og á meðal þeirra menn sem áður vermdu þann sess, ekki stillt sig um að minna á það opinberlega að eftir hin miklu mistök í aðdraganda 7. október, þá sé aðeins tímaspursmál hvenær Netanjahú forsætisráðherra þurfi að hverfa úr sínum stóli. Þó er öllum ljóst, og ekki síst fyrrverandi forsætisráðherrum í Ísrael, að þar er viðtekin regla, sem að mestu hefur reynst vel, að treysta mati Mossad á stöðu öryggismála á hverjum tíma. Mossad var þarna á sama róli og hinn seinheppni aðal-öryggisráðgjafi forseta Bandaríkjanna. Og honum til afsökunar má gefa sér að hann hefur treyst á hinar 19 leyniþjónustur Bandaríkjanna, sem eru með fleiri starfsmenn á sínum snærum en eru í íslensku þjóðskránni. Og hitt vita einnig allir að ráðherrarnir sem slíkir, þrátt fyrir sína pólitísku ábyrgð, eru ekki á vaktinni og hringja aðvörunarbjöllum gefi hermdarverkamenn tilefni til.
Það er allt önnur ella hefði oddviti ríkisstjórnar eða varnarmálaráðherra landsins neitað að leggja eyrun við aðvörunarorðum yfirmanna Mossad. Engu slíku virðist til að dreifa nú. Enda hefur yfirmaður Mossad þegar axlað meginábygðina á því að svo illa tókst til núna og Mossad „brást“ þar sem yfirstjórn Hamas tókst að halda samsæri sínu innan mjög lítils hóps, allt þar til aðeins tveir dagar eða svo voru frá því að sendiboði æðstaklerks Írans gaf heimild til árása á leynifundi í Beirút og hermdarverkin hófust.
Óskiljanlegar ofurgreiðslur
Hvíta húsið hafði skömmu áður greitt 6,4 milljarða dollara lausnargjald fyrir fimm Bandaríkjamenn, fanga klerkastjórnarinnar, sem hefur bersýnilega komið sér upp einkar arðvænlegum atvinnuvegi. Hvíta húsið hefur síðan reynt eftir á að búa til umgjörð um að þeir þar hafi byggt öryggiskerfi utan um þessar greiðslur og Íran gæti því ekki notað þessar miklu fjárfúlgur nema samþykki Bandaríkjanna komi til í hverju tilviki áður! Allur heimurinn horfði hins vegar á það þegar mönnunum fimm var sleppt og þeir gengu himinlifandi niður landganginn og áleiðis heim til sín, eftir að hafa verið haldið í mörg herrans ár! Á þeim tímamótum var engra slíkra fyrirvara getið. Dettur einhverjum í hug að margra ára þras um skipti á föngum og fjármunum við ógnarstjórnina í Íran endi með því að fangarnir koma glaðbeittir niður landganginn og Bandaríkin segi nokkrum mánuðum síðar að Íranir megi ekki nota þessar fjárfúlgur fyrir fimm menn, sem slaga upp í fjárlög íslenska ríkisins í heilt ár, nema til þess að styrkja stöðu írönsku skátanna og samtök íranskra karlakóra?
Æðstiklerkurinn í Tehran gat þess raunar í framhjáhlaupi að Íransstjórn hefði fullar heimildir og alla stjórn á því hvernig hún myndi höndla með hvern einasta dollara úr þessum fjárfúlgum og þyrfti ekki og myndi ekki spyrja nokkurn utanaðkomandi mann um það. Enn reyna bandarískir embættismenn að halda í hinn vonlausa málstað um að Íranir hafi ekki fengið dollara heldur sætt sig við peninga úr Matador, en það flýtur sífellt undan honum, eins og fyrirsjáanlegt var. Lengi vel reyndu stjórnvöld að halda fast í þá stefnu að ljá aldrei máls á því að greiða lausnargjöld fyrir Bandaríkjamenn sem flækst höfðu til landa sem gripu slíka gagngert til að hafa fjármuni upp úr krafsinu. Hvað þá slíka ofurfjármuni. Nú er orðið ljóst að þarna er komið út yfir öll mörk og að eftir að klerkastjórnin hafði tryggt sér þessar fúlgur var Hamas gefið grænt ljós á hinar fordæmalausu árás á almenna borgara í Ísrael.
Fordæmið er þekkt
En hinir undarlegu viðskiptahættir eru þó ekki óþekktir. Sumarið 2015 lak út að Bandaríkjastjórn hefði, að fyrirmælum Obama forseta sjálfs, samþykkt að greiða Íransstjórn 1,7 milljarða dollara í peningum og reyndar í seðlum sem þegar hefðu verið í umferð og flogið hafði verið með það fé í næturflugi til Írans! Þessi framganga var hluti af samningum Bandaríkjanna og nokkurra ríkja Evrópu, sem töldu að þau gætu haft tök á að hægja á kjarnorkuframleiðslu Írans með samningsgerð og greiðslum hárra fjárhæða. Á daginn kom að meintir fyrirvarar voru gagnslausir. Og eins fór með hitt, að Bandaríkjastjórn gæti með einhverjum dularfullum hætti haft einhverja stjórn á því hvernig þetta mikla fé yrði brúkað. En allt eftirlit var í hreinu skötulíki, ef ekki byggt á ímyndunum.
Bandarískir embættismenn frá Obama og niður úr fullyrtu að þeir yrðu að greiða klerkaveldinu í Tehran með seðlum og það hefði einmitt þá skýringu að Bandaríkjastjórn hefði af prinsippástæðum haldið svo fast utan um efnahagsþvinganir við Íran að ekki væri lengur hægt að afhenda fjármuni sem bankaávísanir eða síma slíkar greiðslur. Í rauninni væru engin bankaviðskipti við Íran. Engar útskýringar komu hins vegar á því, hvers vegna Íranir krefðust þess að fá notaða dollaraseðla, sem erfitt væri að fylgjast með. Eða hvers vegna þessar peningasendingar færu fram að næturþeli, í miklu pukri og án vitneskju almennings. Þetta minnti mest á gamaldags peningaflutninga á vegum mafíunnar til sinna líka. Obama: „We couldn’t send them a check and we could not wire the money.“ Þessar fullyrðingar stóðust ekki skoðun. Talsmaður bandaríska fjármálaráðuneytisins viðurkenndi að Bandaríkjastjórn hefði sent Íransstjórn nýverið í tvígang fjármuni „via wire transfer“. Og nánari athugun sýndi að slíkar greiðslur og greiðslumáti voru enn tiltölulega algeng.
Klukkan glymur, en í hvers nafni?
Það er styttast í stóra slaginn í Ísrael. Hann verður sár og harður. Sjálfsagt mun glitta í réttlætið þar, en þó aðeins innan um og saman við. En hvað sem líður sanngirni og beinni ábyrgð bendir margt til þess, þegar þetta er skrifað, að Netanjahú forsætisráðherra muni draga svartapétur úr stokknum enda öll spilin eins. Golda Meir forsætisráðherra varð að hverfa úr embætti eftir Yom Kippur-stríðið 1973. Ísrael vann þó stríðið undir hennar forsæti. En sigurinn kostaði mikið, hvernig sem á það var litið. Og forsætisráðherrann var af fjöldanum talinn hafa látið undir höfuð leggjast að tryggja að Ísrael yrði undir bardagann búið og það helst svo að andstæðingarnir myndu ekki telja það svara kostnaði að leggja til atlögu. Efast má um að það hafi verið fyllilega sanngjarn dómur. Nú er stóra stríðið rétt að byrja. Og kannanir í Ísrael virðast sýna að mikill meirihluti landsmanna telur núna að forsætisráðherrann hafi brugðist. Landið hafi ekki verið viðbúið hinu óvænta stríði. Verði þetta lokadómurinn þá hlýtur hann að teljast mjög harður.
Segja má að Bandaríkin hafi verið tekin algjörlega í rúminu 11. september 2001. Það má næstum fullyrða að enginn Bandaríkjamaður, sem þá var uppi, sá þetta fyrir eða gat ímyndað sér önnur eins ósköp og þessi. Það átti við forsetann sjálfan og hann stýrði mesta herveldi í heimi. En það var ekkert herveldi sem gat stöðvað þessa atlögu. Hún var handan við ímyndunaraflið. Forsetanum varð ekki um kennt. Hann var endurkjörinn í næstu kosningum. En atlagan núna var vissulega ekki handan við ímyndunaraflið eða víðs fjarri veruleikanum. Hótanir í þessa veru heyrast ótt og títt. Þær eru nánast daglegt brauð.