Á einhver svar við Jokic?

Serbneski miðherjinn Nikola Jokic fór fyrir meistaraliði Denver Nuggets á …
Serbneski miðherjinn Nikola Jokic fór fyrir meistaraliði Denver Nuggets á síðasta tímabili og er áfram líklegur til afreka. AFP

Banda­ríkja­menn hafa oft á orði að því meir sem hlut­ir breyt­ist, hald­ist þeir óbreytt­ir.

Það var ekki laust við að maður hugsaði til þess þegar kom að því að skrifa yf­ir­lit um liðin í NBA-deild­inni í fer­tug­asta sinn á þess­um síðum, en fyrstu leik­irn­ir á keppn­is­tíma­bil­inu fara fram í nótt.

Fyr­ir utan ár­ang­ur Chicago Bulls og barn­ing liðsins við sterk lið Vest­ur­deild­ar­inn­ar á tí­unda ára­tugn­um hef­ur deilda­keppn­in í NBA und­an­farna fjóra ára­tugi ein­kennst af fleiri sterk­ari liðum í Vest­ur­deild­inni en aust­an­meg­in.

Jú, bæði Bost­on Celtics og Milwaukee Bucks virðast vera sterk meist­ara­efni, en þegar litið er vest­ur á bóg­inn virðast alla­vega fjög­ur lið geta farið alla leið þegar í úr­slita­keppn­ina kem­ur næsta vor. Den­ver Nug­gets, Los Ang­eles Lakers, Phoen­ix Suns og Gold­en State Warri­ors eru allt lið sem gætu blandað sér í topp­bar­átt­una í Vest­ur­deild­inni.

Breyt­ing­ar á hverju sumri

Vegna breyt­inga und­an­farna ára­tugi varðandi mögu­leika leik­manna á að gera samn­inga við liðin sem gera þeim kleift að vera með lausa samn­inga („free ag­ent“) nokkuð reglu­lega á ferl­in­um, og auk­in völd stjörnu­leik­manna til að geta valið áfangastað sinn ef þeir hafa kraf­ist þess að verða seld­ir, hafa sumr­in und­an­farna tvo ára­tugi oft ein­kennst af tölu­verðum svipt­ing­um í leik­manna­hóp­um nokk­urra liða. Fyr­ir fjöl­miðla og NBA-„eðjóta“ sem sitja við tölv­ur sín­ar allt sum­arið í pæl­ing­um á sam­fé­lags­miðlum, er þetta víst allt af hinu góða. Mögu­leik­ar, mögu­leik­ar, mögu­leik­ar. Pæl­ing­ar, pæl­ing­ar, pæl­ing­ar.

Þessi staða ger­ir for­ráðamönn­um margra liðanna oft erfitt fyr­ir að byggja upp hóp til lang­frama. Þetta hafa for­ráðamenn Brook­lyn Nets, Phila­delp­hia 76ers, Phoen­ix Suns, Gold­en State Warri­ors, og Hou­st­on Rockets all­ir reynt und­an­far­in ár.

Þessi staða skap­ar jú vissa nýbreytni í byrj­un hvers tíma­bils, en marg­ir áhang­end­ur liðanna eru þó skild­ir eft­ir með sárt ennið þegar þeir sjá upp­á­halds­leik­mann­inn sinn rífa samn­ing­inn við liðið, henda hon­um í ruslið og fara á ný mið í leit sinni að meist­araliði.

Þetta sáum við í sum­ar þegar stjörnu­leikmaður­inn Dami­an Lill­ard hjá Port­land fékk að skipta til Milwaukee. Gold­en State skipti Jor­d­an Poole fyr­ir Chris Paul frá Phoen­ix. Bost­on fékk Kristaps Proz­ing­is frá Washingt­on Wiz­ards og Jrue Holi­day frá Milwaukee, en losaði sig við Marcus Smart til Memp­his.

Í mörg­um til­vik­um eru fram­kvæmda­stjór­ar liðanna að breyta hóp­um sín­um til að kom­ast und­ir launaþakið svo­kallaða, sem öll lið þurfa að eiga við, eða þeir eru að finna leið til að setja sam­an nægi­lega sterk­an hóp til að geta blandað sér í topp­bar­átt­una.

Milwaukee og Bost­on

Þegar litið er á Aust­ur­deild­ina virðist ljóst að fyr­ir utan Bost­on og Milwaukee, er erfitt að sjá önn­ur lið ógna þess­um liðum á toppn­um.

Milwaukee stokkaði held­ur bet­ur upp í sum­ar. Liðið skipti strax um aðalþjálf­ara. Fékk Adri­an Griff­in frá Toronto Raptors, en hann hafði verið aðstoðarþjálf­ari í fimmtán ár. „Ég sé eft­ir að hafa talað við nokkra af leik­mönn­un­um að þeir eru staðráðnir í að vinna ann­an titil, og það er viðhorf sem ég tek með þökk­um sem þjálf­ari,“ sagði Griff­in.

Liðið mun einnig reiða sig á stærstu leik­manna­skipt­in í deild­inni í sum­ar, en for­ráðamenn Bucks náðu að semja við þrjú mis­mun­andi fé­lög til að fá Dami­an Lill­ard frá Port­land. Hann mun ef­laust styrkja liðið, en stjörnu­leikmaður­inn Gi­ann­is An­tet­okoun­mpo virðist ánægður með nýja sam­herj­ann. Eft­ir fyrsta æf­inga­leik liðsins með Lill­ard gaf An­tet­okoun­mpo í skyn að koma hans myndi gera hlut­ina þægi­legri fyr­ir báða. „Ég hef aldrei verið eins op­inn í sókn­inni og í þess­um leik.“

Það verður áhuga­vert að sjá hvernig að þess­ar tvær stór­stjörn­ur tengja á vell­in­um.

For­ráðamenn Bost­on áttu einnig ann­ríkt í sum­ar. Þeir gerðu stærsta samn­ing í sögu NBA við Jay­len Brown til að tryggja að hann og Jay­son Tatum haldi áfram að vera besta fram­herjap­ar deild­ar­inn­ar. Bost­on mun hins veg­ar ef­laust sakna bakv­arðar­ins Marcus Smart, en hann hef­ur al­mennt verið tal­inn „límið“ sem haldið hef­ur hópn­um sam­an und­an­far­in ár. Í stað Smart fékk Bost­on Jrue Holi­day frá Milwaukee, en hann er al­mennt tal­inn einn af bestu varn­ar­mönn­um deild­ar­inn­ar – ef ekki sá besti.

Þessi tvö lið eru langsterk­ust í Aust­ur­deild­inni og ekki er út­lit fyr­ir að önn­ur lið muni ógna þeim á toppn­um í vet­ur.

Mörg kölluð í Vest­ur­deild­inni

Að venju er slatti af liðum í Vest­ur­deild­inni sem gætu kom­ist í loka­úr­slit deild­ar­inn­ar næsta sum­ar.

Meist­ar­ar Den­ver Nug­gets verða að telj­ast sig­ur­strang­leg­ir. Það er ávallt erfitt að veðja gegn nú­ver­andi meist­ur­um sem breyta litlu. Ni­kola Jokic og fé­lag­ar mæta með óbreytt­an hóp, en Nug­gets er sjálfsagt með besta byrj­un­arliðið í deild­inni. Eina spurn­ing­ar­merkið er hvort liðið sé með nægi­lega sterk­an vara­manna­bekk, en Jeff Green og Bruce Brown, báðir lyk­il­menn á bekkn­um á síðasta tíma­bili, sömdu við önn­ur lið.

Flest­ir sér­fræðing­ar hér vestra telja að það muni verða Phoen­ix Suns sem á end­an­um kom­ist í loka­úr­slit­in úr Vest­ur­deild­inni, en þegar tekið er til­lit til þess að Den­ver átti í litl­um erfiðleik­um með að slá út Phoen­ix í ann­arri um­ferðinni í vor verða hlut­irn­ir að breyt­ast aðeins hjá Phoen­ix.

Það gæti vel gerst þar sem liðið fékk enn einn stiga­skor­ara þegar Suns samdi við Bra­dley Beal. Devin Booker og Kevin Durant voru þegar til staðar, þannig að bú­ast má við að Phoen­ix skori mikið í vet­ur, en liðið skort­ir enn al­vöru leik­stjórn­anda og losaði sig við vand­ræðabarnið De­andre Ayt­on í miðherja­stöðunni. Það eru því mögu­lega veik­leik­ar í þessu liði.

Bjart­sýni í Los Ang­eles

Hér í bæ er stuðnings­fólk Los Ang­eles Lakers vongott um að Le­Bron James og fé­lag­ar muni í al­vöru blanda sér í meist­ara­bar­átt­una, en for­ráðamenn Lakers héldu í lyk­il­leik­menn frá síðasta keppn­is­tíma­bili og styrktu sig með nýj­um leik­mönn­um. Vanda­málið er hins veg­ar hvort James, sem verður 39 ára í des­em­ber, hald­ist heill út tíma­bilið, en án hans sem lyk­il­manns í úr­slita­keppn­inni myndu bæði Phoen­ix og Den­ver gera liðinu lífið leitt.

„Ég tek engu sem gefnu á þess­um tíma­punkti á ferl­in­um,“ sagði James á blaðamanna­fundi í síðustu viku. „Við gæt­um orðið nokkuð góðir og ég finn fyr­ir því að lík­am­inn er í betra ásig­komu­lagi en í fyrra, og það er frá­bær til­finn­ing þegar mótor­inn hjá mér virðist í lagi.“

Gold­en State Warri­ors er enn á ný talið lík­legt í topp­bar­átt­una í Vest­ur­deild­inni, en þar á bæ er tím­aramm­inn hjá þríeyk­inu Stephen Curry, Klay Thomp­son, og Draymond Green til að vinna fimmta meist­ara­titil­inn að þrengj­ast. Þeir sem fylgst hafa með æf­inga­leikj­um hafa tekið eft­ir því að Chris Paul virðist falla nokkuð vel inn í leik liðsins sem leik­stjórn­andi, en við það höfðu marg­ir sér­fræðing­ar sett stórt spurn­ing­ar­merki þegar liðið fékk hann í sum­ar.

Það er margt óljóst hjá þessu liði – sér­stak­lega hvort þeir Curry, Thomp­son, og Green geti borið það á sín­um herðum eitt leiktíma­bilið í viðbót – og hvort Chris Paul muni geta tekið við stjórn­artaum­un­um í sókn­inni út tíma­bilið. Þess­um kjarna Warri­ors tókst það fyr­ir tveim­ur árum, þannig að von­in lif­ir enn hjá stuðnings­fólki liðsins.

Á end­an­um þurfa öll þessi lið að eiga svar við sókn­ar­leik Ni­kola Jokic hjá meist­ur­um Den­ver í næstu úr­slita­keppni, því það tókst eng­um í þeirri síðustu í vor og sum­ar.

mbl.is