Á einhver svar við Jokic?

Serbneski miðherjinn Nikola Jokic fór fyrir meistaraliði Denver Nuggets á …
Serbneski miðherjinn Nikola Jokic fór fyrir meistaraliði Denver Nuggets á síðasta tímabili og er áfram líklegur til afreka. AFP

Bandaríkjamenn hafa oft á orði að því meir sem hlutir breytist, haldist þeir óbreyttir.

Það var ekki laust við að maður hugsaði til þess þegar kom að því að skrifa yfirlit um liðin í NBA-deildinni í fertugasta sinn á þessum síðum, en fyrstu leikirnir á keppnistímabilinu fara fram í nótt.

Fyrir utan árangur Chicago Bulls og barning liðsins við sterk lið Vesturdeildarinnar á tíunda áratugnum hefur deildakeppnin í NBA undanfarna fjóra áratugi einkennst af fleiri sterkari liðum í Vesturdeildinni en austanmegin.

Jú, bæði Boston Celtics og Milwaukee Bucks virðast vera sterk meistaraefni, en þegar litið er vestur á bóginn virðast allavega fjögur lið geta farið alla leið þegar í úrslitakeppnina kemur næsta vor. Denver Nuggets, Los Angeles Lakers, Phoenix Suns og Golden State Warriors eru allt lið sem gætu blandað sér í toppbaráttuna í Vesturdeildinni.

Breytingar á hverju sumri

Vegna breytinga undanfarna áratugi varðandi möguleika leikmanna á að gera samninga við liðin sem gera þeim kleift að vera með lausa samninga („free agent“) nokkuð reglulega á ferlinum, og aukin völd stjörnuleikmanna til að geta valið áfangastað sinn ef þeir hafa krafist þess að verða seldir, hafa sumrin undanfarna tvo áratugi oft einkennst af töluverðum sviptingum í leikmannahópum nokkurra liða. Fyrir fjölmiðla og NBA-„eðjóta“ sem sitja við tölvur sínar allt sumarið í pælingum á samfélagsmiðlum, er þetta víst allt af hinu góða. Möguleikar, möguleikar, möguleikar. Pælingar, pælingar, pælingar.

Þessi staða gerir forráðamönnum margra liðanna oft erfitt fyrir að byggja upp hóp til langframa. Þetta hafa forráðamenn Brooklyn Nets, Philadelphia 76ers, Phoenix Suns, Golden State Warriors, og Houston Rockets allir reynt undanfarin ár.

Þessi staða skapar jú vissa nýbreytni í byrjun hvers tímabils, en margir áhangendur liðanna eru þó skildir eftir með sárt ennið þegar þeir sjá uppáhaldsleikmanninn sinn rífa samninginn við liðið, henda honum í ruslið og fara á ný mið í leit sinni að meistaraliði.

Þetta sáum við í sumar þegar stjörnuleikmaðurinn Damian Lillard hjá Portland fékk að skipta til Milwaukee. Golden State skipti Jordan Poole fyrir Chris Paul frá Phoenix. Boston fékk Kristaps Prozingis frá Washington Wizards og Jrue Holiday frá Milwaukee, en losaði sig við Marcus Smart til Memphis.

Í mörgum tilvikum eru framkvæmdastjórar liðanna að breyta hópum sínum til að komast undir launaþakið svokallaða, sem öll lið þurfa að eiga við, eða þeir eru að finna leið til að setja saman nægilega sterkan hóp til að geta blandað sér í toppbaráttuna.

Milwaukee og Boston

Þegar litið er á Austurdeildina virðist ljóst að fyrir utan Boston og Milwaukee, er erfitt að sjá önnur lið ógna þessum liðum á toppnum.

Milwaukee stokkaði heldur betur upp í sumar. Liðið skipti strax um aðalþjálfara. Fékk Adrian Griffin frá Toronto Raptors, en hann hafði verið aðstoðarþjálfari í fimmtán ár. „Ég sé eftir að hafa talað við nokkra af leikmönnunum að þeir eru staðráðnir í að vinna annan titil, og það er viðhorf sem ég tek með þökkum sem þjálfari,“ sagði Griffin.

Liðið mun einnig reiða sig á stærstu leikmannaskiptin í deildinni í sumar, en forráðamenn Bucks náðu að semja við þrjú mismunandi félög til að fá Damian Lillard frá Portland. Hann mun eflaust styrkja liðið, en stjörnuleikmaðurinn Giannis Antetokounmpo virðist ánægður með nýja samherjann. Eftir fyrsta æfingaleik liðsins með Lillard gaf Antetokounmpo í skyn að koma hans myndi gera hlutina þægilegri fyrir báða. „Ég hef aldrei verið eins opinn í sókninni og í þessum leik.“

Það verður áhugavert að sjá hvernig að þessar tvær stórstjörnur tengja á vellinum.

Forráðamenn Boston áttu einnig annríkt í sumar. Þeir gerðu stærsta samning í sögu NBA við Jaylen Brown til að tryggja að hann og Jayson Tatum haldi áfram að vera besta framherjapar deildarinnar. Boston mun hins vegar eflaust sakna bakvarðarins Marcus Smart, en hann hefur almennt verið talinn „límið“ sem haldið hefur hópnum saman undanfarin ár. Í stað Smart fékk Boston Jrue Holiday frá Milwaukee, en hann er almennt talinn einn af bestu varnarmönnum deildarinnar – ef ekki sá besti.

Þessi tvö lið eru langsterkust í Austurdeildinni og ekki er útlit fyrir að önnur lið muni ógna þeim á toppnum í vetur.

Mörg kölluð í Vesturdeildinni

Að venju er slatti af liðum í Vesturdeildinni sem gætu komist í lokaúrslit deildarinnar næsta sumar.

Meistarar Denver Nuggets verða að teljast sigurstranglegir. Það er ávallt erfitt að veðja gegn núverandi meisturum sem breyta litlu. Nikola Jokic og félagar mæta með óbreyttan hóp, en Nuggets er sjálfsagt með besta byrjunarliðið í deildinni. Eina spurningarmerkið er hvort liðið sé með nægilega sterkan varamannabekk, en Jeff Green og Bruce Brown, báðir lykilmenn á bekknum á síðasta tímabili, sömdu við önnur lið.

Flestir sérfræðingar hér vestra telja að það muni verða Phoenix Suns sem á endanum komist í lokaúrslitin úr Vesturdeildinni, en þegar tekið er tillit til þess að Denver átti í litlum erfiðleikum með að slá út Phoenix í annarri umferðinni í vor verða hlutirnir að breytast aðeins hjá Phoenix.

Það gæti vel gerst þar sem liðið fékk enn einn stigaskorara þegar Suns samdi við Bradley Beal. Devin Booker og Kevin Durant voru þegar til staðar, þannig að búast má við að Phoenix skori mikið í vetur, en liðið skortir enn alvöru leikstjórnanda og losaði sig við vandræðabarnið Deandre Ayton í miðherjastöðunni. Það eru því mögulega veikleikar í þessu liði.

Bjartsýni í Los Angeles

Hér í bæ er stuðningsfólk Los Angeles Lakers vongott um að LeBron James og félagar muni í alvöru blanda sér í meistarabaráttuna, en forráðamenn Lakers héldu í lykilleikmenn frá síðasta keppnistímabili og styrktu sig með nýjum leikmönnum. Vandamálið er hins vegar hvort James, sem verður 39 ára í desember, haldist heill út tímabilið, en án hans sem lykilmanns í úrslitakeppninni myndu bæði Phoenix og Denver gera liðinu lífið leitt.

„Ég tek engu sem gefnu á þessum tímapunkti á ferlinum,“ sagði James á blaðamannafundi í síðustu viku. „Við gætum orðið nokkuð góðir og ég finn fyrir því að líkaminn er í betra ásigkomulagi en í fyrra, og það er frábær tilfinning þegar mótorinn hjá mér virðist í lagi.“

Golden State Warriors er enn á ný talið líklegt í toppbaráttuna í Vesturdeildinni, en þar á bæ er tímaramminn hjá þríeykinu Stephen Curry, Klay Thompson, og Draymond Green til að vinna fimmta meistaratitilinn að þrengjast. Þeir sem fylgst hafa með æfingaleikjum hafa tekið eftir því að Chris Paul virðist falla nokkuð vel inn í leik liðsins sem leikstjórnandi, en við það höfðu margir sérfræðingar sett stórt spurningarmerki þegar liðið fékk hann í sumar.

Það er margt óljóst hjá þessu liði – sérstaklega hvort þeir Curry, Thompson, og Green geti borið það á sínum herðum eitt leiktímabilið í viðbót – og hvort Chris Paul muni geta tekið við stjórnartaumunum í sókninni út tímabilið. Þessum kjarna Warriors tókst það fyrir tveimur árum, þannig að vonin lifir enn hjá stuðningsfólki liðsins.

Á endanum þurfa öll þessi lið að eiga svar við sóknarleik Nikola Jokic hjá meisturum Denver í næstu úrslitakeppni, því það tókst engum í þeirri síðustu í vor og sumar.

mbl.is