Launin, hamingjan og allt hitt

Maður kastar mæðinni eftir að hafa úðað skordýraeitri á heitum …
Maður kastar mæðinni eftir að hafa úðað skordýraeitri á heitum ágústdegi í Hong Kong. Umræðan um launa- og vinnumarkaðsmál kynjanna verður m.a. að taka það með í reikninginn að karlmenn sækja oft í að vinna skítverkin AFP

Það er vissara að byrja þennan pistil með stuttri yfirlýsingu: Það að benda á hvernig karlmenn eiga undir högg að sækja felur ekki í sér tilraun til að smætta þær áskoranir sem konur glíma við.

Er líka vissara að taka þetta fram fremst í textanum því umræðan um jafnréttismál og vandamál kynjanna tekur stundum á sig þá mynd að annað kynið hafi það gott á kostnað hins. Það er einkum marxískur femínismi sem sér jafnréttismálin í þessu ljósi: sem átök tveggja hópa þar sem annar kúgar og hinn er kúgaður. Það fellur illa að marxískum femínisma að reyna að líta á jafnréttismálin sem samstarfsverkefni frekar en glímu, og frá sjónarhóli marxísks femínisma gæti það litið út eins og árás á kvenþjóðina að benda á að hlutskipti karla sé ekkert endilega svo frábært.

Til að reyna að koma í veg fyrir misskilning er líka rétt að ég undirstriki að ég lít á femínisma annars vegar og marxískan femínisma hins vegar sem skyld en mjög ólík fyrirbæri. Ég er þess nokkuð viss að margt jafnréttissinnað fólk sem hikar við að kalla sig femínista geri einmitt ekki þennan greinarmun.

Grace og karlaklúbburinn

Vonandi er ég ekki einn um að dagdreyma stundum um hvaða stórstjörnu mér þætti gaman að eiga fyrir vin. Efst á lista hjá mér væri Grace Jones og ég sé það í hillingum að ferðast með þessari hálfáttræðu dívu um heimaland hennar Jamaíku.

Á leið okkar hringinn í kringum eyjuna myndum við Grace hreiðra um okkur á GoldenEye-hótelinu, og gista í húsinu þar sem Ian Fleming bjó um langt skeið og skrifaði sögur sínar um njósnara hennar hátignar. Fleming hafði mikið dálæti á landinu og því ekki að furða að Jamaíka skuli koma við sögu í þremur Bond-myndum, fyrst í Dr. No, síðan í Live and Let Die og loks í No Time to Die.

(Fyrir áhugasama þá kostar nóttin hjá GoldenEye frá 42 þús. kr. fyrir rómantískan lítinn kofa við ströndina, og upp í 1,5 milljónir fyrir að gista í húsi Flemings sem er með þremur svefnherbergjum og fylgir með einkaþjónn, kokkur og herbergisþerna.)

Kannski finnst lesendum það hlægilegt, en í dagdraumunum opna ég kampavínsflösku (Grace vill helst kampavín í öll mál), skenki henni í glas og hlusta á hana tjá sig um menn og málefni. Þvílíkt lífshlaup sem þessi kona hefur átt, og þvílík manneskja sem hún er: langt á undan sinni samtíð þegar kom að því að bregða á leik með kynvitund og hefðbundin kynjahlutverk. Kröftug, þokkafull, frökk, frumleg og hispurslaus. Talsmaður frjálslyndis og einstaklingsfrelsis út í eitt.

Til eru ótal sögur af því hvernig Grace leyfði ekki nokkrum manni að vaða yfir sig og hún fór ekki í felur með þá skoðun sína að í tísku-, tónlistar- og kvikmyndaheiminum væri til staðar karlaklúbbur sem héldi aftur af konum. Samt má lesa það út úr viðtölum að Grace leit aldrei á vandann sem baráttu allra kvenna á móti öllum körlum. Í einu viðtalinu sem hún veitti fyrir sex árum, skömmu fyrir sjötugsafmælið, kjarnaði hún þá sýn sína að femínismi snúist ekki um togstreitu milli karla og kvenna, heldur um að vita hvers maður er megnugur; „owning your own power“ eins og hún orðaði það.

Þroskasaga njósnara

Undanfarnar vikur hef ég dundað mér við að horfa á gamlar Bond-myndir og er næstum búinn með þær allar. Grace er ógleymanleg í hlutverki hinnar vægðarlausu May Day í A View to a Kill, þar sem hún leikur á móti frjálshyggju- og skattaflóttamanninum Roger Moore. Hefur engin Bond-pía – hvorki fyrr né síðar – komist með tærnar þar sem Grace hafði hælana en til upprifjunar fyrir lesendur byrjar myndin með frægu atriði sem tekið var upp á Jökulsárlóni og endar í Kaliforníu þar sem May Day fórnar lífi sínu til að bjarga milljónum manna.

Grace hefur eflaust áhugaverðar skoðanir á því hvernig Bond-myndirnar, í gegnum tíðina, endurspegla hvernig barátta femínista hefur smám saman stuðlað að heilbrigðari viðhorfum um hlutverk og samskipti kynjanna. Ég finn muninn hjá sjálfum mér: þegar ég horfi á Bond í dag virkar hann uppfullur af komplexum og hreinlega dónalegur í elstu myndunum og hlægilegt hvað sum kvenhlutverkin einkennast af miklu bjargarleysi. May Day markaði kaflaskil að þessu leyti, því þar mætti til leiks kona sem fór létt með að standa jafnfætis Bond og rændi hann meira að segja tækifærinu til að deyja hetjudauða.

Vottur af hallærislegri karlrembu hélt áfram að loða við Bond eftir að Moore rétti Timothy Dalton keflið og Pierce Brosnan á eftir honum, og það er hreinlega pínlegt að hlýða á slepjuleg samtölin sem Brosnan var látinn eiga við sumar mótleikkonur sínar. Loks tóku við myndirnar fimm með Daniel Craig, sem verðskulda sálfræðilega og kynjafræðilega greiningu: Þar tekur Bond loksins út heilmikinn andlegan og félagslegan þroska, byrjar að vinna úr gömlum og djúpstæðum sálrænum áföllum og fer að umgangast hitt kynið á heilbrigðari máta. Þroskasögunni lýkur þegar Bond uppgötvar föðurhlutverkið, og eins og flestir feður hikar hann ekki við að fórna sjálfum sér fyrir velferð fjölskyldunnar.

Mikið er það merkilegt að James Bond skuli vera táknmynd karlmennskunnar. Myndi nokkur maður halda því fram að söguhetja Flemings sé maður í jafnvægi, hamingjusamur og á góðum stað í lífinu? Hann hefur vissulega tilgang, og býr yfir mikilli getu, en karlhróið slítur sér út og skortir allan innri frið. Bond er alltaf í vinnunni og reynir af veikum mætti að lífga upp á hversdaginn með því að fá sér kokteil af og til og stunda skyndikynni. Hann á enga vini utan vinnunnar, lætur sig hafa barsmíðar, pyntingar og ítrekuð banatilræði, og þá sjaldan sem honum er leyft að slaka á gerist það aðeins eftir að hann hefur drýgt einhverja meiri háttar hetjudáð til að bjarga öllum heiminum.

Bond fær eflaust betur borgað en Moneypenny – en ætli honum þætti það svo amalegt hlutskipti að fá að vinna þægilega innivinnu við skrifborð? Væri það hreinlega í boði?

Þeir sem fórna sjálfum sér

Jafnréttisfrömuðurinn Warren Farrell hefur fært fyrir því sannfærandi rök að karlþjóðin sé í alvarlegum vanda stödd. Nýverið renndi ég í gegnum bók hans The Boy Crisis og mæli eindregið með lesningunni. Þar fer Farrell í gegnum það lið fyrir lið hvað staða pilta og karla er slæm á mörgum sviðum.

Tölfræðina ættu allir að þekkja: skólakerfið hefur brugðist piltunum okkar og kemur ekki til móts við þarfir þeirra og getu. Útkoman er sú að á öllum skólastigum hallar verulega á karlkynið. Vanlíðan karla er meiri og birtist í mun hærri tíðni bæði sjálfsvíga og fíknisjúkdóma. Allir vita að í skilnaðar- og sifjamálum hallar á karlmenn. Mest sláandi af öllu er að samfélagið virðist hafa engar sérstakar áhyggjur af því að menn lifa að jafnaði mun skemur en konur. Á Íslandi er munurinn í kringum þrjú ár sem er með minnsta móti og munar t.d. fimm árum á kynjunum í Suður-Evrópu og næstum tíu árum í Austur-Evrópu. Virðist oft látið eins og styttra líf karla sé einfaldlega líffræðileg staðreynd á meðan raunin er að það eru samfélagslegir þættir sem ræna karlmenn dýrmætum árum.

Rót vandans, að mati Farrells, er að við ætlumst til þess af karlmönnum að þeir fórni sér. Líffræðilegir og menningarlegir þættir hafa hagað því þannig að hlutverk karlmannsins er að skaffa vel og vernda konur og börn gegn hvers kyns hættum. Mótunin byrjar strax í barnæsku: smástrákum er sagt að þeir þurfi að vera stórir, sterkir. Þegar þeir komast á kynþroskaskeiðið eru skilaboðin að stelpurnar líti ekki við öðrum en þeim sem eru djarfir og hugrakkir. Kynlíf, ást og umhyggja er aðeins í boði fyrir þá sem eru reiðubúnir að fórna lífi og limum, og leggja allt í sölurnar til að draga björg í bú.

Er stundum bent á hærri tekjur karla sem sönnun þess að þeir hafi það barasta gott. Virðist þá litlu skipta að launabilið verði að engu þegar leiðrétt hefur verið fyrir vinnustundir, menntakröfur og mismunandi eðli starfa; að karlarnir fái meira borgað því þeir slíta sér út og vinna hættulegustu störfin. Að hugsa sér að á Íslandi skuli vinnuvika karlmanna vera að jafnaði sjö tímum lengri en vinnuvika kvenna, og nær allir sem farast í vinnuslysum eru karlmenn – og enginn sem hváir.

Þá er starfsánægja sjaldan nefnd í umfjöllun um launabilið en rannsóknir hafa sýnt það trekk í trekk að karlar virðast fórna hamingju í starfi fyrir hærri tekjur – yfirleitt svo að börn þeirra og maki geti haft það betra. Öll þekkjum við þannig menn.

Ég árétta að þessum skrifum er ekki ætlað að vera árás á nokkurn hóp eða málstað. Þó mér þyki agalega gaman að stuða og stríða þá er tilgangurinn í þetta skiptið eingöngu að undirstrika að jafnréttisbaráttan á sér margar hliðar, og minna á sjónarmið sem mættu alveg heyrast oftar. Svo er það bónus að hafa tekist að finna átyllu til að lauma því inn í grein hvað Grace Jones er frábær.

mbl.is