Launin, hamingjan og allt hitt

Maður kastar mæðinni eftir að hafa úðað skordýraeitri á heitum …
Maður kastar mæðinni eftir að hafa úðað skordýraeitri á heitum ágústdegi í Hong Kong. Umræðan um launa- og vinnumarkaðsmál kynjanna verður m.a. að taka það með í reikninginn að karlmenn sækja oft í að vinna skítverkin AFP

Það er viss­ara að byrja þenn­an pist­il með stuttri yf­ir­lýs­ingu: Það að benda á hvernig karl­menn eiga und­ir högg að sækja fel­ur ekki í sér til­raun til að smætta þær áskor­an­ir sem kon­ur glíma við.

Er líka viss­ara að taka þetta fram fremst í text­an­um því umræðan um jafn­rétt­is­mál og vanda­mál kynj­anna tek­ur stund­um á sig þá mynd að annað kynið hafi það gott á kostnað hins. Það er einkum marxí­sk­ur femín­ismi sem sér jafn­rétt­is­mál­in í þessu ljósi: sem átök tveggja hópa þar sem ann­ar kúg­ar og hinn er kúgaður. Það fell­ur illa að marxí­sk­um femín­isma að reyna að líta á jafn­rétt­is­mál­in sem sam­starfs­verk­efni frek­ar en glímu, og frá sjón­ar­hóli marxísks femín­isma gæti það litið út eins og árás á kvenþjóðina að benda á að hlut­skipti karla sé ekk­ert endi­lega svo frá­bært.

Til að reyna að koma í veg fyr­ir mis­skiln­ing er líka rétt að ég und­ir­striki að ég lít á femín­isma ann­ars veg­ar og marxí­sk­an femín­isma hins veg­ar sem skyld en mjög ólík fyr­ir­bæri. Ég er þess nokkuð viss að margt jafn­rétt­issinnað fólk sem hik­ar við að kalla sig femín­ista geri ein­mitt ekki þenn­an grein­ar­mun.

Grace og karla­klúbbur­inn

Von­andi er ég ekki einn um að dagd­reyma stund­um um hvaða stór­stjörnu mér þætti gam­an að eiga fyr­ir vin. Efst á lista hjá mér væri Grace Jo­nes og ég sé það í hill­ing­um að ferðast með þess­ari hálf­átt­ræðu dívu um heima­land henn­ar Jamaíku.

Á leið okk­ar hring­inn í kring­um eyj­una mynd­um við Grace hreiðra um okk­ur á Gold­enEye-hót­el­inu, og gista í hús­inu þar sem Ian Flem­ing bjó um langt skeið og skrifaði sög­ur sín­ar um njósn­ara henn­ar há­tign­ar. Flem­ing hafði mikið dá­læti á land­inu og því ekki að furða að Jamaíka skuli koma við sögu í þrem­ur Bond-mynd­um, fyrst í Dr. No, síðan í Live and Let Die og loks í No Time to Die.

(Fyr­ir áhuga­sama þá kost­ar nótt­in hjá Gold­enEye frá 42 þús. kr. fyr­ir róm­an­tísk­an lít­inn kofa við strönd­ina, og upp í 1,5 millj­ón­ir fyr­ir að gista í húsi Flem­ings sem er með þrem­ur svefn­her­bergj­um og fylg­ir með einkaþjónn, kokk­ur og her­berg­isþerna.)

Kannski finnst les­end­um það hlægi­legt, en í dagdraum­un­um opna ég kampa­víns­flösku (Grace vill helst kampa­vín í öll mál), skenki henni í glas og hlusta á hana tjá sig um menn og mál­efni. Því­líkt lífs­hlaup sem þessi kona hef­ur átt, og því­lík mann­eskja sem hún er: langt á und­an sinni samtíð þegar kom að því að bregða á leik með kyn­vit­und og hefðbund­in kynja­hlut­verk. Kröft­ug, þokka­full, frökk, frum­leg og hisp­urs­laus. Talsmaður frjáls­lynd­is og ein­stak­lings­frels­is út í eitt.

Til eru ótal sög­ur af því hvernig Grace leyfði ekki nokkr­um manni að vaða yfir sig og hún fór ekki í fel­ur með þá skoðun sína að í tísku-, tón­list­ar- og kvik­mynda­heim­in­um væri til staðar karla­klúbb­ur sem héldi aft­ur af kon­um. Samt má lesa það út úr viðtöl­um að Grace leit aldrei á vand­ann sem bar­áttu allra kvenna á móti öll­um körl­um. Í einu viðtal­inu sem hún veitti fyr­ir sex árum, skömmu fyr­ir sjö­tugsaf­mælið, kjarnaði hún þá sýn sína að femín­ismi snú­ist ekki um tog­streitu milli karla og kvenna, held­ur um að vita hvers maður er megn­ug­ur; „own­ing your own power“ eins og hún orðaði það.

Þroska­saga njósn­ara

Und­an­farn­ar vik­ur hef ég dundað mér við að horfa á gaml­ar Bond-mynd­ir og er næst­um bú­inn með þær all­ar. Grace er ógleym­an­leg í hlut­verki hinn­ar vægðarlausu May Day í A View to a Kill, þar sem hún leik­ur á móti frjáls­hyggju- og skatta­flótta­mann­in­um Roger Moore. Hef­ur eng­in Bond-pía – hvorki fyrr né síðar – kom­ist með tærn­ar þar sem Grace hafði hæl­ana en til upp­rifj­un­ar fyr­ir les­end­ur byrj­ar mynd­in með frægu atriði sem tekið var upp á Jök­uls­ár­lóni og end­ar í Kali­forn­íu þar sem May Day fórn­ar lífi sínu til að bjarga millj­ón­um manna.

Grace hef­ur ef­laust áhuga­verðar skoðanir á því hvernig Bond-mynd­irn­ar, í gegn­um tíðina, end­ur­spegla hvernig bar­átta femín­ista hef­ur smám sam­an stuðlað að heil­brigðari viðhorf­um um hlut­verk og sam­skipti kynj­anna. Ég finn mun­inn hjá sjálf­um mér: þegar ég horfi á Bond í dag virk­ar hann upp­full­ur af komp­l­ex­um og hrein­lega dóna­leg­ur í elstu mynd­un­um og hlægi­legt hvað sum kven­hlut­verk­in ein­kenn­ast af miklu bjarg­ar­leysi. May Day markaði kafla­skil að þessu leyti, því þar mætti til leiks kona sem fór létt með að standa jafn­fæt­is Bond og rændi hann meira að segja tæki­fær­inu til að deyja hetju­dauða.

Vott­ur af hallæris­legri karlrembu hélt áfram að loða við Bond eft­ir að Moore rétti Timot­hy Dalt­on keflið og Pierce Brosn­an á eft­ir hon­um, og það er hrein­lega pín­legt að hlýða á slepju­leg sam­töl­in sem Brosn­an var lát­inn eiga við sum­ar mót­leik­kon­ur sín­ar. Loks tóku við mynd­irn­ar fimm með Daniel Craig, sem verðskulda sál­fræðilega og kynja­fræðilega grein­ingu: Þar tek­ur Bond loks­ins út heil­mik­inn and­leg­an og fé­lags­leg­an þroska, byrj­ar að vinna úr göml­um og djúp­stæðum sál­ræn­um áföll­um og fer að um­gang­ast hitt kynið á heil­brigðari máta. Þroska­sög­unni lýk­ur þegar Bond upp­götv­ar föður­hlut­verkið, og eins og flest­ir feður hik­ar hann ekki við að fórna sjálf­um sér fyr­ir vel­ferð fjöl­skyld­unn­ar.

Mikið er það merki­legt að James Bond skuli vera tákn­mynd karl­mennsk­unn­ar. Myndi nokk­ur maður halda því fram að sögu­hetja Flem­ings sé maður í jafn­vægi, ham­ingju­sam­ur og á góðum stað í líf­inu? Hann hef­ur vissu­lega til­gang, og býr yfir mik­illi getu, en karlhróið slít­ur sér út og skort­ir all­an innri frið. Bond er alltaf í vinn­unni og reyn­ir af veik­um mætti að lífga upp á hvers­dag­inn með því að fá sér kokteil af og til og stunda skyndikynni. Hann á enga vini utan vinn­unn­ar, læt­ur sig hafa bar­smíðar, pynt­ing­ar og ít­rekuð bana­til­ræði, og þá sjald­an sem hon­um er leyft að slaka á ger­ist það aðeins eft­ir að hann hef­ur drýgt ein­hverja meiri hátt­ar hetju­dáð til að bjarga öll­um heim­in­um.

Bond fær ef­laust bet­ur borgað en Mo­neypenny – en ætli hon­um þætti það svo ama­legt hlut­skipti að fá að vinna þægi­lega inni­vinnu við skrif­borð? Væri það hrein­lega í boði?

Þeir sem fórna sjálf­um sér

Jafn­rétt­is­frömuður­inn War­ren Far­rell hef­ur fært fyr­ir því sann­fær­andi rök að karlþjóðin sé í al­var­leg­um vanda stödd. Ný­verið renndi ég í gegn­um bók hans The Boy Cris­is og mæli ein­dregið með lesn­ing­unni. Þar fer Far­rell í gegn­um það lið fyr­ir lið hvað staða pilta og karla er slæm á mörg­um sviðum.

Töl­fræðina ættu all­ir að þekkja: skóla­kerfið hef­ur brugðist pilt­un­um okk­ar og kem­ur ekki til móts við þarf­ir þeirra og getu. Útkom­an er sú að á öll­um skóla­stig­um hall­ar veru­lega á karl­kynið. Van­líðan karla er meiri og birt­ist í mun hærri tíðni bæði sjálfs­víga og fíkni­sjúk­dóma. All­ir vita að í skilnaðar- og sifja­mál­um hall­ar á karl­menn. Mest slá­andi af öllu er að sam­fé­lagið virðist hafa eng­ar sér­stak­ar áhyggj­ur af því að menn lifa að jafnaði mun skem­ur en kon­ur. Á Íslandi er mun­ur­inn í kring­um þrjú ár sem er með minnsta móti og mun­ar t.d. fimm árum á kynj­un­um í Suður-Evr­ópu og næst­um tíu árum í Aust­ur-Evr­ópu. Virðist oft látið eins og styttra líf karla sé ein­fald­lega líf­fræðileg staðreynd á meðan raun­in er að það eru sam­fé­lags­leg­ir þætt­ir sem ræna karl­menn dýr­mæt­um árum.

Rót vand­ans, að mati Far­rells, er að við ætl­umst til þess af karl­mönn­um að þeir fórni sér. Líf­fræðileg­ir og menn­ing­ar­leg­ir þætt­ir hafa hagað því þannig að hlut­verk karl­manns­ins er að skaffa vel og vernda kon­ur og börn gegn hvers kyns hætt­um. Mót­un­in byrj­ar strax í barnæsku: smá­strák­um er sagt að þeir þurfi að vera stór­ir, sterk­ir. Þegar þeir kom­ast á kynþroska­skeiðið eru skila­boðin að stelp­urn­ar líti ekki við öðrum en þeim sem eru djarf­ir og hug­rakk­ir. Kyn­líf, ást og um­hyggja er aðeins í boði fyr­ir þá sem eru reiðubún­ir að fórna lífi og lim­um, og leggja allt í söl­urn­ar til að draga björg í bú.

Er stund­um bent á hærri tekj­ur karla sem sönn­un þess að þeir hafi það barasta gott. Virðist þá litlu skipta að launa­bilið verði að engu þegar leiðrétt hef­ur verið fyr­ir vinnu­stund­ir, mennta­kröf­ur og mis­mun­andi eðli starfa; að karl­arn­ir fái meira borgað því þeir slíta sér út og vinna hættu­leg­ustu störf­in. Að hugsa sér að á Íslandi skuli vinnu­vika karl­manna vera að jafnaði sjö tím­um lengri en vinnu­vika kvenna, og nær all­ir sem far­ast í vinnu­slys­um eru karl­menn – og eng­inn sem hvá­ir.

Þá er starfs­ánægja sjald­an nefnd í um­fjöll­un um launa­bilið en rann­sókn­ir hafa sýnt það trekk í trekk að karl­ar virðast fórna ham­ingju í starfi fyr­ir hærri tekj­ur – yf­ir­leitt svo að börn þeirra og maki geti haft það betra. Öll þekkj­um við þannig menn.

Ég árétta að þess­um skrif­um er ekki ætlað að vera árás á nokk­urn hóp eða málstað. Þó mér þyki aga­lega gam­an að stuða og stríða þá er til­gang­ur­inn í þetta skiptið ein­göngu að und­ir­strika að jafn­rétt­is­bar­átt­an á sér marg­ar hliðar, og minna á sjón­ar­mið sem mættu al­veg heyr­ast oft­ar. Svo er það bón­us að hafa tek­ist að finna átyllu til að lauma því inn í grein hvað Grace Jo­nes er frá­bær.

mbl.is