„Nei Sara Jasmín, í alvörunni? Ertu að grínast?“

Í sumar tók Sara Jasmín Sigurðardóttir skyndiákvörðun að fá sér gat í naflann og leyfði fylgjendum sínum á TikTok að fylgjast með ferlinu. Myndbandið vakti mikla athygli á miðlinum, ekki síst fyrir viðbrögð móður og ömmu Söru við nýja gatinu.

„Jæja, ég var að ákveða fyrir svona klukkutíma að ég var að pæla að fá mér gat í naflann, þannig ég ákvað að kýla á það,“ segir Sara í byrjun myndbandsins, en vinkona hennar kom með og veitti henni andlegan stuðning í götuninni.

Eftir að hafa fengið gatið í naflann hringdi Sara myndbandssímtal í móður sína, Drífu Björk Linnett Kristjánsdóttur, og sýndi henni nýja gatið. Bráðfyndin viðbrögð móður hennar hafa slegið rækilega í gegn á TikTok.

„Þú ert bara eins og einhver bresk skinka“

„Ertu ólétt?“ byrjar hún að spyrja Söru á léttu nótunum, en þegar hún áttar sig á því hvað dóttir hennar er að sýna henni verður röddin alvarlegri og hún segir: „Nei Sara Jasmín, í alvörunni? Ertu að grínast? Ætlarðu að fara að vera bara einhver helvítis bresk skinka?“

Sara hlær að viðbrögðum móður sinnar og spyr hvort henni finnist þetta ekki flott. „Mér finnst þetta hræðilegt. Þú ert bara eins og einhver bresk skinka,“ svarar móðir hennar og segist ætla að sýna ömmu Söru nýja gatið. „Hún verður brjáluð!“

Þegar amma Söru hefur séð naflagatið spyr Sara hvað henni finnist. „Ég segi nú bara sama eins og ég sagði við mömmu þína þegar hún gerði þetta,“ svarar amma hennar.

Fylgjendur Söru virðast yfir sig hrifnir af myndskeiðinu og af viðbrögðum móður Söru ef marka má ummæli þeirra, en mörgum þótti fyndið að móðir hennar hafi kallað hana breska skinku og skemmtu sér konunglega yfir samskiptum mæðgnanna. 

mbl.is