Hleypur til styrktar heftum ungum konum

Halldóra Gyða Matthíasdóttir Proppé að loknu Berlínarmaraþoninu í fyrra.
Halldóra Gyða Matthíasdóttir Proppé að loknu Berlínarmaraþoninu í fyrra.

Hlaupa- og skíðakonan Halldóra Gyða Matthíasdóttir Proppé hefur lengi haft það að leiðarljósi að láta gott af sér leiða í tengslum við hreyfinguna. Hún er sendiherra styrktarsamtakanna Frelsis til að hlaupa (e. Free to Run) á Íslandi og um aðra helgi, sunnudaginn 5. nóvember, hleypur hún New York-maraþonið til styrktar samtökunum. Markmið hennar er að safna 3.500 dollurum, um 500 þúsund krónum.

Lögfræðingurinn Stephanie Case stofnaði Free to Run 2014 með það að markmiði að þrýsta á samfélagslegar breytingar á kynjareglum, þar sem þess er þörf, með því að styðja ungar konur í stríðshrjáðum löndum til að fá tækifæri til að taka þátt í útihreyfingu og efla þannig sjálfsímynd þeirra og forystu. „Konur í Afganistan mega til dæmis ekki fara út úr húsi til þess að hreyfa sig, þær mega ekki fara í skóla og mega bara ekki gera neitt,“ bendir Halldóra á.

mbl.is