Þá eru þrjár vikur liðnar frá óvæntum árásum Hamas-liða á borgara og börn í Ísrael. Flestir af þeim talsmönnum heimsins, sem Ísraelsmenn taka helst mark á, lýstu því yfir strax eftir að ófögnuðurinn blasti við þeim að sjálfsagt væri og reyndar hafið yfir allan vafa að sú þjóð sem slíkt mætti þola hefði allan rétt til að bregðast við, grípa til allra hugsanlegra varna og eftir atvikum eðlilegra hefnda, til þess að leitast við að tryggja að slík aðför yrði aldrei reynd gegn henni á ný.
Afstaðan að breytast
En jafnvel þeir sem gáfu slíkar yfirlýsingar, afdráttarlausar og án allra fyrirvara, hafa upp á síðkastið dregið nokkuð í land. Fyrrnefndur ótvíræður réttur sé að sjálfsögðu enn fyrir hendi segja þeir og studdur án nokkurs fyrirvara. En þar sem Hamas-hryðjuverkasveitirnar, þær sömu og skáru ísraelsk börn á háls og birtu af gjörðunum myndir, tóku einnig fanga í gíslingu, á þriðja hundrað slíkra, og hafa þegar skilað aðeins fjórum, þá sé kannski rétt og skynsamlegt og í þágu allra að skoða nánar það sem hefur verið gefið í skyn um að Hamas hafi ekki með öllu útilokað að þeir kunni að skila einhverjum gíslum til viðbótar!
Ísraelsmenn virðast hafa talið rétt að þeir láti undan þeim þrýstingi. Í sjálfu sér er hik eða einhver frestur á næstu stríðsaðgerðum á Gasasvæðinu ekkert hættuspil. Það er öllum ljóst að þær aðgerðir hljóta að byggjast að nokkru eða verulegu leyti á persónulegu návígi hermannanna og í mörgum tilvikum við aðstæður, þar sem getur brugðið til beggja vona. Slíkum aðgerðum mun fylgja óhjákvæmilegt og ömurlegt mannfall.
Ísraelsher hefur fram til þessa sveigt til og mildað aðstæður á norðursvæði Gasa í sína þágu með afgerandi loftárásum og getur stuðst við slíkar aðgerðir einar eitthvað lengur, án þess að Hamas-sveitirnar hafi neitt eða að minnsta kosti aðeins næsta lítið upp úr þeim töfum. Og þær sveitir geta fátt farið á meðan, því að þrengt er að hersveitum Hamas, bæði á sjó og landi. Og þó að markmiðið sé að uppræta hermdarverkasveitirnar og ríkisstjórn Ísraels hafi gefið fyrirheit um slíkt, strax daginn eftir árásirnar 7. október, þarf enginn að óttast að þau heit verði ekki efnd.
Mun sæta rannsókn
Forsætisráðherra Ísraels væntir rannsókna á því, hvers vegna Hamas-sveitunum tókst að undirbúa árásir sínar á Ísrael og fela þær fyrir þeim sem áttu að standa vaktina og gera aðvart. Hann hefur sjálfur tekið undir að slík rannsókn sé algjörlega óhjákvæmileg. En þótt hann beri sig vel í þeim efnum mun hann eiga fullt í fangi með að komast bærilega frá þeirri rannsókn. Fordæmi Goldu Meir forsætisráðherra er sláandi dæmi þótt ekki hafi það verið sanngjarnt. Hann mundi ekki geta hugsað sér að bæta við þá niðurlægingu að hafa ekki heldur staðið við marggefin fyrirheit um að Hamas-sveitirnar muni ekki sleppa lifandi frá hermdarverkum sínum í þetta sinn. Punktur verður ekki settur aftan við aðgerðir hersins fyrr en þau loforð hafa verið að fullu efnd.
Nú er stutt í aðgerðir
Og sprengjudunurnar sem síðdegis á föstudag bárust frá landamærum Ísraels og Gasa benda nú eindregið til þess að undirbúningi aðgerða þar sé loksins að ljúka. Og komið sé að skuldadögunum. Líklegt er að það hafi áhrif á að ekki skuli bíða mikið lengur að kröfurnar um vopnahlé í þágu þess aðilans sem árásirnar hóf halda áfram og ekki síst á Vesturlöndum. Hætt er við að þeir stjórnmálamenn á þeim slóðum, sem veikastir eru fyrir, grípi þann málstað á lofti, þótt ósanngjarn sé. Því fyrr sem Ísraelsmenn hefjast handa því betra og líklegra er það einnig til árangurs.
Þá vakti það óneitanlega athygli í þessari viku að Pútín forseti Rússlands kaus að eiga fund með fulltrúum Hamas-liða og stjórnvalda í Íran og bera á þá lof fyrir þeirra framtak upp á síðkastið. En lengi vel hafði Pútín á undanförnum árum ýtt töluvert undir jákvæð tengsl sín við Netanjahú forsætisráðherra Ísraels. En nú eiga menn í innstu röð Pútíns og í sumum tilvikum hann sjálfur fundi með háttsettum Hamas-liðum og reyndar einnig með aðstoðarutanríkisráðherra Írans.
Kúvendingar Pútíns
Stjórn Ísraels tók þessar kúvendingar forseta Rússlands óstinnt upp, eins og lesa mátti um í vestrænum blöðum, og sagði að með þessari framkomu væru Rússar að reyna að réttlæta hermdarverk hryðjuverkamanna Hamas. Aðrir gengu enn lengra og sögðu Rússa með sinni nýju afstöðu vera að mynda nýjan „öxul ógnar“ með Hamas og það sem enn verra væri fyrir milligöngu Írana. Og ein meginástæða þess væri sú að Rússar væru orðnir mjög háðir stjórninni í Tehran um vopn, ekki síst flaugar af öllum gerðum og dróna til þess að geta haldið stríði sínu við Úkraínu gangandi. Það var af sömu ástæðum sem Pútín þurfti að sækja á náðir Kims Jong-un um skotfæri og grófari vopn, eins og gert var opinbert fyrir aðeins fáeinum mánuðum.
Íransstjórn hefur ekki farið dult með það að Hamas lúti fjárhagsstuðningi þeirra og þar með óbeinni yfirstjórn þeirra, þótt Hesbollah, með sína 150 þúsund bardagamenn í Líbanon, séu mun öflugri armur og útsendari Íransstjórnar.
Morgunblaðið 110 ára
Tíminn líður hratt. Morgunblaðið, blaðið okkar, á stórafmæli 2. nóvember næstkomandi. Það verður 110 ára og það mun sjálfsagt ekki fara fram hjá mörgum á afmælisárinu.
Fyrir 50 árum sinnti bréfritari þingfréttum fyrir Morgunblaðið í ein tvö ár. Þar var Svavar Gestsson fyrir Þjóðviljann, Einar Karl Haraldsson fyrir Tímann og fjórði maður var öðru hvoru fyrir Alþýðublaðið. Og auðvitað þarf ekki að neita því að þessir ötulu þingskrifarar lögðu sig einna mest eftir því sem „þeirra menn“ höfðu fram að færa og voru svo sem ekki að fara í neinar felur með það. Það kom fyrir ef Svavar Gestsson þurfti að bregða sér frá, vegna jarðarfarar eða annarra nauðsynlegra þátta, að bréfritari skráði niður það helsta sem flokksbróðir hans sagði úr ræðustól, svo hann kæmi því í blað sitt daginn eftir. Svipaða greiða gerði hann svo kolleganum.
Þrjú af þessum blöðum eru fyrir löngu horfin á braut og er um margt eftirsjá að þeim. Þessi blöð voru auðvitað með mismunandi efnistök, ólíka framsetningu og áhugamálin voru ólík. Það er langt síðan Morgunblaðið hafði fastan þingfréttaritara eða lét blaðamenn sína fylgjast að jafnaði með slíkum fréttum, enda eru öll tök á því nú að fylgjast með í þeim tilvikum sem það telst nauðsynlegt.
Seinustu árin er mjög algengt að menn hafi á orði hver við annan að þeir viti ekkert lengur hverjir þessir þingmenn séu. Þó má segja að aðgengi sé með vissum hætti meira en áður var, þar sem almenningur er ekki bundinn einstökum fjölmiðlum um aðgang að umræðum af þinginu. En það er eins og hann sækist jafnvel enn minna eftir því efni en þegar blaðamenn leiðbeindu um hvað væri eftirtektarverðasta efnið frá þinginu þá stundina að þeirra mati.
Fáðu þér áskrift til að lesa áfram
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu,
rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki
á mbl.is.