Öxin mætir loks stokknum

Þá eru þrjár vik­ur liðnar frá óvænt­um árás­um Ham­as-liða á borg­ara og börn í Ísra­el. Flest­ir af þeim tals­mönn­um heims­ins, sem Ísra­els­menn taka helst mark á, lýstu því yfir strax eft­ir að ófögnuður­inn blasti við þeim að sjálfsagt væri og reynd­ar hafið yfir all­an vafa að sú þjóð sem slíkt mætti þola hefði all­an rétt til að bregðast við, grípa til allra hugs­an­legra varna og eft­ir at­vik­um eðli­legra hefnda, til þess að leit­ast við að tryggja að slík aðför yrði aldrei reynd gegn henni á ný.

Afstaðan að breyt­ast

En jafn­vel þeir sem gáfu slík­ar yf­ir­lýs­ing­ar, af­drátt­ar­laus­ar og án allra fyr­ir­vara, hafa upp á síðkastið dregið nokkuð í land. Fyrr­nefnd­ur ótví­ræður rétt­ur sé að sjálf­sögðu enn fyr­ir hendi segja þeir og studd­ur án nokk­urs fyr­ir­vara. En þar sem Ham­as-hryðju­verka­sveit­irn­ar, þær sömu og skáru ísra­elsk börn á háls og birtu af gjörðunum mynd­ir, tóku einnig fanga í gísl­ingu, á þriðja hundrað slíkra, og hafa þegar skilað aðeins fjór­um, þá sé kannski rétt og skyn­sam­legt og í þágu allra að skoða nán­ar það sem hef­ur verið gefið í skyn um að Ham­as hafi ekki með öllu úti­lokað að þeir kunni að skila ein­hverj­um gísl­um til viðbót­ar!

Ísra­els­menn virðast hafa talið rétt að þeir láti und­an þeim þrýst­ingi. Í sjálfu sér er hik eða ein­hver frest­ur á næstu stríðsaðgerðum á Gasa­svæðinu ekk­ert hættu­spil. Það er öll­um ljóst að þær aðgerðir hljóta að byggj­ast að nokkru eða veru­legu leyti á per­sónu­legu ná­vígi her­mann­anna og í mörg­um til­vik­um við aðstæður, þar sem get­ur brugðið til beggja vona. Slík­um aðgerðum mun fylgja óhjá­kvæmi­legt og öm­ur­legt mann­fall.

Ísra­els­her hef­ur fram til þessa sveigt til og mildað aðstæður á norður­svæði Gasa í sína þágu með af­ger­andi loft­árás­um og get­ur stuðst við slík­ar aðgerðir ein­ar eitt­hvað leng­ur, án þess að Ham­as-sveit­irn­ar hafi neitt eða að minnsta kosti aðeins næsta lítið upp úr þeim töf­um. Og þær sveit­ir geta fátt farið á meðan, því að þrengt er að her­sveit­um Ham­as, bæði á sjó og landi. Og þó að mark­miðið sé að upp­ræta hermd­ar­verka­sveit­irn­ar og rík­is­stjórn Ísra­els hafi gefið fyr­ir­heit um slíkt, strax dag­inn eft­ir árás­irn­ar 7. októ­ber, þarf eng­inn að ótt­ast að þau heit verði ekki efnd.

Mun sæta rann­sókn

For­sæt­is­ráðherra Ísra­els vænt­ir rann­sókna á því, hvers vegna Ham­as-sveit­un­um tókst að und­ir­búa árás­ir sín­ar á Ísra­el og fela þær fyr­ir þeim sem áttu að standa vakt­ina og gera aðvart. Hann hef­ur sjálf­ur tekið und­ir að slík rann­sókn sé al­gjör­lega óhjá­kvæmi­leg. En þótt hann beri sig vel í þeim efn­um mun hann eiga fullt í fangi með að kom­ast bæri­lega frá þeirri rann­sókn. For­dæmi Goldu Meir for­sæt­is­ráðherra er slá­andi dæmi þótt ekki hafi það verið sann­gjarnt. Hann mundi ekki geta hugsað sér að bæta við þá niður­læg­ingu að hafa ekki held­ur staðið við marg­gef­in fyr­ir­heit um að Ham­as-sveit­irn­ar muni ekki sleppa lif­andi frá hermd­ar­verk­um sín­um í þetta sinn. Punkt­ur verður ekki sett­ur aft­an við aðgerðir hers­ins fyrr en þau lof­orð hafa verið að fullu efnd.

Nú er stutt í aðgerðir

Og sprengjudun­urn­ar sem síðdeg­is á föstu­dag bár­ust frá landa­mær­um Ísra­els og Gasa benda nú ein­dregið til þess að und­ir­bún­ingi aðgerða þar sé loks­ins að ljúka. Og komið sé að skulda­dög­un­um. Lík­legt er að það hafi áhrif á að ekki skuli bíða mikið leng­ur að kröf­urn­ar um vopna­hlé í þágu þess aðilans sem árás­irn­ar hóf halda áfram og ekki síst á Vest­ur­lönd­um. Hætt er við að þeir stjórn­mála­menn á þeim slóðum, sem veik­ast­ir eru fyr­ir, grípi þann málstað á lofti, þótt ósann­gjarn sé. Því fyrr sem Ísra­els­menn hefjast handa því betra og lík­legra er það einnig til ár­ang­urs.

Þá vakti það óneit­an­lega at­hygli í þess­ari viku að Pútín for­seti Rúss­lands kaus að eiga fund með full­trú­um Ham­as-liða og stjórn­valda í Íran og bera á þá lof fyr­ir þeirra fram­tak upp á síðkastið. En lengi vel hafði Pútín á und­an­förn­um árum ýtt tölu­vert und­ir já­kvæð tengsl sín við Net­anja­hú for­sæt­is­ráðherra Ísra­els. En nú eiga menn í innstu röð Pútíns og í sum­um til­vik­um hann sjálf­ur fundi með hátt­sett­um Ham­as-liðum og reynd­ar einnig með aðstoðar­ut­an­rík­is­ráðherra Írans.

Kúvend­ing­ar Pútíns

Stjórn Ísra­els tók þess­ar kúvend­ing­ar for­seta Rúss­lands óst­innt upp, eins og lesa mátti um í vest­ræn­um blöðum, og sagði að með þess­ari fram­komu væru Rúss­ar að reyna að rétt­læta hermd­ar­verk hryðju­verka­manna Ham­as. Aðrir gengu enn lengra og sögðu Rússa með sinni nýju af­stöðu vera að mynda nýj­an „öxul ógn­ar“ með Ham­as og það sem enn verra væri fyr­ir milli­göngu Írana. Og ein megin­á­stæða þess væri sú að Rúss­ar væru orðnir mjög háðir stjórn­inni í Tehran um vopn, ekki síst flaug­ar af öll­um gerðum og dróna til þess að geta haldið stríði sínu við Úkraínu gang­andi. Það var af sömu ástæðum sem Pútín þurfti að sækja á náðir Kims Jong-un um skot­færi og gróf­ari vopn, eins og gert var op­in­bert fyr­ir aðeins fá­ein­um mánuðum.

Írans­stjórn hef­ur ekki farið dult með það að Ham­as lúti fjár­hags­stuðningi þeirra og þar með óbeinni yf­ir­stjórn þeirra, þótt Hes­bollah, með sína 150 þúsund bar­daga­menn í Líb­anon, séu mun öfl­ugri arm­ur og út­send­ari Írans­stjórn­ar.

Morg­un­blaðið 110 ára

Tím­inn líður hratt. Morg­un­blaðið, blaðið okk­ar, á stóraf­mæli 2. nóv­em­ber næst­kom­andi. Það verður 110 ára og það mun sjálfsagt ekki fara fram hjá mörg­um á af­mælis­ár­inu.

Fyr­ir 50 árum sinnti bréf­rit­ari þing­frétt­um fyr­ir Morg­un­blaðið í ein tvö ár. Þar var Svavar Gests­son fyr­ir Þjóðvilj­ann, Ein­ar Karl Har­alds­son fyr­ir Tím­ann og fjórði maður var öðru hvoru fyr­ir Alþýðublaðið. Og auðvitað þarf ekki að neita því að þess­ir öt­ulu þingskrif­ar­ar lögðu sig einna mest eft­ir því sem „þeirra menn“ höfðu fram að færa og voru svo sem ekki að fara í nein­ar fel­ur með það. Það kom fyr­ir ef Svavar Gests­son þurfti að bregða sér frá, vegna jarðarfar­ar eða annarra nauðsyn­legra þátta, að bréf­rit­ari skráði niður það helsta sem flokks­bróðir hans sagði úr ræðustól, svo hann kæmi því í blað sitt dag­inn eft­ir. Svipaða greiða gerði hann svo koll­eg­an­um.

Þrjú af þess­um blöðum eru fyr­ir löngu horf­in á braut og er um margt eft­ir­sjá að þeim. Þessi blöð voru auðvitað með mis­mun­andi efnis­tök, ólíka fram­setn­ingu og áhuga­mál­in voru ólík. Það er langt síðan Morg­un­blaðið hafði fast­an þing­frétta­rit­ara eða lét blaðamenn sína fylgj­ast að jafnaði með slík­um frétt­um, enda eru öll tök á því nú að fylgj­ast með í þeim til­vik­um sem það telst nauðsyn­legt.

Sein­ustu árin er mjög al­gengt að menn hafi á orði hver við ann­an að þeir viti ekk­ert leng­ur hverj­ir þess­ir þing­menn séu. Þó má segja að aðgengi sé með viss­um hætti meira en áður var, þar sem al­menn­ing­ur er ekki bund­inn ein­stök­um fjöl­miðlum um aðgang að umræðum af þing­inu. En það er eins og hann sæk­ist jafn­vel enn minna eft­ir því efni en þegar blaðamenn leiðbeindu um hvað væri eft­ir­tekt­ar­verðasta efnið frá þing­inu þá stund­ina að þeirra mati.

mbl.is