Þá hefur hlutfall þeirra sem styðja afglæpavæðingu neysluskammta og lögleiðingu kannabisefna farið hækkandi og má sjá afgerandi mun milli áranna 2019 og 2023.
Þetta sýna niðurstöður þjóðmálakannana Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands. Helgi Gunnlaugsson, prófessor í afbrotafræði við HÍ, er einn af þeim sem stóðu að baki könnununum en hann hefur stundað rannsóknir í þessum málaflokki í meira en þrjá áratugi. Hann mun kynna niðurstöðurnar ásamt Jónasi Orra Jónassyni, sérfræðingi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, á ráðstefnu Þjóðarspegilsins í þessari viku.
„Mikilvægið í mælingum af þessu tagi felst í að átta sig á réttarvitund Íslendinga. Í lýðræðissamfélagi skiptir máli að löggjöfin og framkvæmd löggjafarinnar endurspegli grundvallarviðhorf þjóðarinnar – siðferðisviðhorf og réttarvitund þjóðarinnar,“ segir Helgi. „Þessar kannanir eru tilraun til að koma á þessu samráði, taka púlsinn á þjóðinni.“
60% hlynnt afglæpavæðingu
Helgi segir niðurstöður nýjustu kannana sýna áhugaverðar breytingar á afstöðu Íslendinga síðustu ár. Þannig lýstu um 60% svarenda sig fylgjandi afnámi refsinga fyrir vörslu á fíkniefnum til eigin nota í síðustu tveimur mælingum, árin 2021 og 2023, samanborið við um 35% svarenda árið 2019.
„Íslendingar eru farnir að horfa á fíkniefnavandann meira sem félags- og heilbrigðisvanda en minna sem sakamál og það eigi í raun og veru að taka öðruvísi á þessum vanda. […] Þetta virðist vera orðin útbreidd afstaða meðal þjóðarinnar,“ segir Helgi og bætir við: „Menn eru líka farnir að sjá og uppgötva að við getum ekki komið í veg fyrir að fíkniefni séu í samfélaginu, sem var þessi áhersla lengi vel á 20. öldinni.“
Þá hefur afstaða til lögleiðingar kannabisefna einnig tekið breytingum. Árið 2014 sögðust 16% fylgjandi lögleiðingunni, árið 2019 var hlutfallið komið upp í 26%, árið 2021 var það 37% og í ár hefur það hækkað upp í 41%.
„Á síðustu tíu árum og þá kannski sérstaklega síðustu fjórum árum hafa átt sér stað miklar afstöðubreytingar,“ segir Helgi og tekur fram að bylgja lögleiðinga kannabisefna vestanhafs kunni að hafa áhrif. Þá hafi umræða um notkun kannabisefna í meðferðar- og lækningaskyni einnig verið meira áberandi.
Vörslubrot ekki í forgangi
Helgi vekur athygli á að samhliða því sem stuðningur þjóðarinnar eykst við afglæpavæðingu þá hafi löggjafarvaldið „hálfpartinn“ hafið afglæpavæðingu. Nefnir hann í því samhengi þegar reglum um sakaskrá var breytt árið 2018 með þeim hætti að minniháttar varsla á fíkniefnum fari ekki lengur á sakaskrá einstaklinga. „Ríkissaksóknaraembættið breytti í raun verklagi sínu í átt að afglæpun. Þegar minniháttar vörslumál koma upp þá er bara sekt og málið dautt við greiðslu.“
Þá sé lögreglan ekki með vörslubrot í forgangi hjá sér. Fókusinn sé miklu frekar á skipulagða brotastarfsemi í kringum fíkniefnainnflutning, fíkniefnaframleiðslu og sölu.
Ofbeldi meira áhyggjuefni
Þegar litið er til mælinga sem hafa verið gerðar á áhyggjum Íslendinga af afbrotum hér á landi má einnig sjá ákveðin stakkaskipti síðustu ár, annars vegar í viðhorfi til fíkniefnalagabrota og hins vegar til ofbeldisbrota.
Í könnunum sem framkvæmdar voru árin 1989, 2002, 2012 og 2019, þar sem þátttakendur voru spurðir hvaða afbrot þeir teldu mesta vandamálið hér á landi, svöruðu flestir fíkniefnaneysla og fíkniefnabrot. Aðrir svarmöguleikar voru kynferðisbrot, þjófnaður/innbrot, efnahagsbrot/fjársvik og ofbeldi/líkamsárásir.
Í mælingunni sem framkvæmd var í sumar töldu aftur á móti 20% svarenda fíkniefnaneyslu og fíkniefnalagabrot vera mesta vandamálið. Þá sögðu 4% þjófnað og innbrot vera mesta vandamálið, 22% sögðu efnahagsbrot, 24% sögðu kynferðisbrot og 29% sögðu ofbeldi og líkamsárásir.
Þess má geta að í fyrri könnunum höfðu svarendur mun minni áhyggjur af ofbeldisbrotum í samanburði við önnur afbrot.
Árið 1989 töldu 14% svarenda ofbeldisbrot mesta vandamálið, árið 2002 var hlutfallið 15%, árið 2012 var það 13% og árið 2019 var það komið niður í 6%.
„Það hefur verið áhugavert að fylgjast með þessari þróun. Ef við tökum 20. öldina og framan af 21. öldinni, þá eru það fíkniefni sem eru fyrst og fremst sá vandi sem menn óttast. […] Nú á allra síðustu misserum hefur fókusinn verið að færast yfir á ofbeldisbrotin. Það er endurspeglun á því sem hefur verið að gerast í samfélaginu,“ segir Helgi og tekur sem dæmi alvarleg manndrápsmál á borð við Rauðagerðismálið, aukinn hnífaburð, hópamyndanir og Bankastrætis club-málið.
„Þetta er raunveruleg breyting sem er að eiga sér stað – við höfum áhyggjur af þessari ofbeldisþróun.“