Bendir á rangfærslur þingmanna um hlutverk hvala

Staðreyndavillur eru um hlutverk hvala í vistkerfinu í greinargerð frumvaps …
Staðreyndavillur eru um hlutverk hvala í vistkerfinu í greinargerð frumvaps um hvalveiðibann, að mati Hafrannsóknastofnunar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Haf­rann­sókn­ar­stofn­un tel­ur full­yrðing­ar um hlut­verk hvala í vist­kerf­inu sem fram koma í grein­ar­gerð frum­varps fimmtán þing­manna um bann við hval­veiðum bein­lín­is rang­ar eða skorta vís­inda­leg­ar stoðir.

Er meðal ann­ars í grein­ar­gerðinni full­yrt að hval­ir fram­leiða súr­efni. Bend­ir Haf­rann­sókna­stofn­un í um­sögn sinni vegna frum­varps­ins á að hval­ir fram­leiða ekki súr­efni.

„Í kafl­an­um „Hval­ir eru mik­il­væg­ir í vist­kerfi sjáv­ar" koma fram ýms­ar staðhæf­ing­ar sem eru ekki í sam­ræmi við nú­ver­andi stöðu þekk­ing­ar á vist­fræðileg­um áhrif­um hvala. Haf­rann­sókna­stofn­un tek­ur und­ir það að hval­ir og önn­ur spen­dýr geta gengt mik­il­vægu hlut­verki í vist­kerf­um sjáv­ar en áhrif stærri hvala­teg­unda á vist­kerfi eru al­mennt illa þekkt og rann­sóknaþörf þar að lút­andi mik­il,“ seg­ir í um­sögn­inni.

Óljóst hvernig hval­ir styrkja fiski­stofna

„Erfitt er að átta sig á hvað höf­und­ar eiga við,“ skrif­ar Haf­rann­sókna­stofn­un um full­yrðingu höf­unda frum­varps­ins um að „fjölg­un hvala styrk­ir fisk­stofna, stóra og smáa, og loks hval­ina sjálfa.“

Bent er í um­sögn­inni á að hval­ir sem og önn­ur sjáv­ar­spen­dýr éta mikið af fiski á ári hverju. „Í ný­legri rann­sókn byggðri á stofn­stærðum og orkuþörf dýr­anna var metið að sjáv­ar­spen­dýr við Ísland og aust­ur Græn­land éti 13.4 (95% ör­ygg­is­mörk 5.6-25.0) millj­ón­ir tonna af bráð á ári hverju. Þó að ýms­ar átu­teg­und­ir séu þarna stór hluti, er ljóst að mikið af þessu magni eru smá­vaxn­ar fisk­teg­und­ir eins og síld, loðna, og sandsíli, auk þess sem fleiri teg­und­ir eru étn­ar í minna mæli.“

Þá seg­ir að það sé óljóst með hvaða hætti fiski­stofn­ar geti stækkað vegna áhrifa hvala um­fram það sem þeir éta á ári hverju.

Veiga­lítið hlut­verk við kol­efn­is­bind­ingu

Full­yrt er í grein­ar­gerðinni að „hval­ir gegna mik­il­vægu hlut­verki í bar­áttu gegn lofts­lags­vá sem er ein helsta ógn­in við sam­fé­lag okk­ar.”

Haf­rann­sókna­stofn­un seg­ir mik­il­vægt að byggja aðgerðir sem ætlað er að draga úr los­un gróður­húsaloft­teg­unda á þekk­ingu sem feng­ist hef­ur með vís­inda­legri aðferðafræði. „Ef vist­kerfi sjáv­ar eru skoðuð í heild og þar með þau fjöl­mörgu ferli sem hafa áhrif á flutn­ing og bind­ingu kol­efn­is til lengri og skemmri tíma, þá er fátt sem bend­ir til ann­ars en að hval­ir hafi þar hlut­falls­lega veiga­litlu hlut­verki að gegna. Mik­il óvissa er um flutn­ing og ör­lög kol­efn­is frá hvöl­um.“

Höf­und­ar frum­varps­ins benda á að hag­fræðing­ur­inn Ralph Chami, fyrr­ver­andi stjórn­andi hjá Alþjóðagjald­eyr­is­sjóðnum, hafi reiknað úr að efna­hags­legt virði kol­efn­is­bind­ing­ar langreyðar á lífstíð sinni og nem­ur það um 3,3 millj­ón­ir banda­ríkja­dala.

Haf­rann­sókna­stofn­un bend­ir hins veg­ar á að fyrri orð sín um að fátt bendi til ann­ars en að hval­ir gegna veiga­litlu hlut­verki þegar kem­ur að kol­efn­is­bind­ingu auk þess sem stofn­un­in ef­ast um vís­inda­legt gildi grein­ar Chami. „Við telj­um sú heim­ild sem vísað er til sýni ekki fram á kol­efn­is­bind­ingu lan­greiða til lengri tíma og hugs­an­legt efna­hags­legt virði henn­ar við Ísland. Grein Ralph Chami er álits­grein og ekki ritrýnd af sér­fræðing­um.“

Skort­ur á rann­sókn­um

„Með því að kafa niður á sjáv­ar­botn og ferðast um höf­in fram­leiða hval­ir nær­ing­arrÍk úr­gangs­ský sem styrkja svif og önn­ur smá­dýr. [...] Saur­lát hvala eru af­skap­lega mik­il­væg fyr­ir vist­kerfi sjáv­ar því að með þeim dreifast nær­ing­ar­efni milli ólíkra laga sjáv­ar­ins á hátt sem ger­ist ekki með haf­straum­um. Nær­ing­ar­efn­in eru mik­il­væg líf­ver­um líkt og grænþör­ung­um og bakt­erí­um sem þurfa þessi nær­ing­ar­efni til að geta ljóstil­lífað. Einna mik­il­væg­ast þessu ljóstil­líf­andi líf­ver­um er nit­ur, fos­fór og járn. Við ljóstil­líf­un fram­leiða þess­ar líf­ver­ur sykr­ur sem nýt­ast þeim sjálf­um og styrkja alla fæðukeðjuna með því að gagn­ast þeim líf­ver­um sem nær­ast á þeim sem neðar eru. Við þetta ferli verður til súr­efni sem er nauðsyn­legt líf­ver­um sjáv­ar. Þannig styðja hval­ir við fram­leiðslu á líf­ræn­um nær­ing­ar­efn­um og súr­efni í vist­kerfi sjáv­ar,” seg­ir í grein­ar­gerð frum­varps­ins.

Haf­rann­sókna­stofn­un seg­ir enn mikla óvissu um hlut­deild sjáv­ar­spen­dýra í nær­ing­ar­efna­bú­skapi sjáv­ar og þau ferli sem þar eru að baki eins og í til­felli kol­efn­is­bú­skaps. Þá megi bú­ast við mikl­um breyti­leika í þess­um efn­um milli hafsvæða og þeim mis­mun­andi aðstæðum sem þar er að finna.

Hafrannsóknastofnun telur óljóst hvernig hvalir og sjávarspendýrum er ætlað að …
Haf­rann­sókna­stofn­un tel­ur óljóst hvernig hval­ir og sjáv­ar­spen­dýr­um er ætlað að stækka fiski­stofn­um. mbl.is/​Sig­urður Ægis­son

„Enn meiri óvissa er um hlut­deild hvala í fram­leiðslu súr­efn­is í sjó. Ekki er vitað til þess að rann­sókn­ir hafi verið fram­kvæmd­ar við vist­fræðileg­ar aðstæður sam­bæri­leg­ar þeim sem eru við Ísland,“ seg­ir í um­sögn stofn­un­ar­inn­ar.

„Óljóst er hvaða ferli er vísað í í fyrstu setn­ingu máls­grein­ar­inn­ar. Benda má á að bakt­erí­ur, að und­an­skild­um blágræn­um bakt­erí­um, eru al­mennt ekki frum­fram­leiðend­ur og nýta því ekki nær­ing­ar­efni á þann hátt sem frum­fram­leiðend­ur gera. Þá mætti breyta orðinu „grænþör­ung­um" í orðið „plöntu­svifi" til þess að setn­ing­in nái til allra svif­lægra þör­unga. Þá er bent á að orðið „svif" get­ur átt við ýms­ar svif­læg­ar líf­ver­ur, bæði frum­fram­leiðend­ur og neyt­end­ur (líf­ver­ur sem fá orku með afráni á öðrum líf­ver­um).“

Fimmtán þing­menn

Þá legg­ur Haf­rann­sókna­stofn­un til að um­rædd­um kafla í grein­ar­gerðinni verði al­farið sleppr eða hann end­ur­skrifaður í „sam­ræmi við stöðu vís­inda­legr­ar þekk­ing­ar“.

Flutn­ings­menn frum­varps­ins eru Andrés Ingi Jóns­son, Arn­dís Anna Krist­ín­ar­dótt­ir Gunn­ars­dótt­ir, Ásthild­ur Lóa Þórs­dótt­ir, Björn Leví Gunn­ars­son, Dag­björt Há­kon­ar­dótt­ir, Gísli Rafn Ólafs­son, Guðmund­ur Ingi Krist­ins­son, Hall­dóra Mo­gensen, Inga Sæ­land, Odd­ný G. Harðardótt­ir, Sig­mar Guðmunds­son, Tóm­as A. Tóm­as­son, Þor­gerður Katrín Gunn­ars­dótt­ir, Þór­hild­ur Sunna Ævars­dótt­ir og Þór­unn Svein­bjarn­ar­dótt­ir.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina