Þjóðin sem gat ekki hætt að þykjast

Pjakkur skemmtir sér á hrekkjavökudaginn í Hong Kong. Það getur …
Pjakkur skemmtir sér á hrekkjavökudaginn í Hong Kong. Það getur verið agalega gaman að þykjast vera einhver annar en maður er, einn dag á ári. Það er verra þegar heilt stjórnkerfi hagræðir sannleikanum árið um kring. AFP

Ég stelst stund­um til að lesa slúður­frétt­ir af Íslend­ing­um sem finna sig knúna til að reyna að sýn­ast merki­legri en þeir eru, yf­ir­leitt með því að búa til glans­mynd af sjálf­um sér á sam­fé­lags­miðlum. Brell­an er alls ekki svo flók­in, og þeir sem hafa náð góðu valdi á þessu list­formi rata stund­um í blöðin fyr­ir það eitt að eyða um efni fram í lúxusjeppa, eða hleypa jafn­vel blaðamanni og ljós­mynd­ara inn í fata­skáp­inn sinn til að skrá­setja alla merkja­vör­una.

Ekki veit ég hvað þetta fólk hef­ur upp úr því að sýn­ast, nema því þyki það svona óbæri­leg til­hugs­un að hverfa í fjöld­ann.

Fólk sem býr í millj­óna­sam­fé­lög­um get­ur hins veg­ar notað sýnd­ar­mennsk­una til að koma ár sinni vel fyr­ir borð – eða það hélt Cal­vin Lo að minnsta kosti. Íslensk­ir áhrifa­vald­ar og sam­fé­lags­miðla­stjörn­ur eru al­gjör­ir viðvan­ing­ar í sam­an­b­urði við þenn­an und­ar­lega at­hafna­mann frá Hong Kong.

Upp­gerðin upp­máluð

Þegar blaðamönn­um For­bes tóku að ber­ast ábend­ing­ar, héðan og þaðan, um að Lo ætti heima á millj­arðamær­ingalista út­gáf­unn­ar þá fannst þeim strax skíta­lykt af mál­inu: Það gæti vel verið að Lo, sem stýr­ir nokkuð stönd­ugri líf­trygg­inga­miðlun, væri sterk­efnaður en af rekstri hans og um­svif­um að dæma væri hæpið að hann væri millj­arðamær­ing­ur.

Þegar Lo boðaði full­trúa For­bes á sinn fund, til að ræða hvort hann ætti heima á list­an­um, setti hann út­hugsað leik­rit á svið. Hann þótt­ist vera ósköp hóg­vær og hlé­dræg­ur og af­huga því að láta of mikið á sér bera og þess vegna tví­stíg­andi um að út­vega blaðinu gögn til að færa sönn­ur á auðæfi sín – nema kannski ef blaðamaður­inn héldi að það gæti hjálpað hon­um að eiga auðveld­ara með að ávinna sér traust annarra millj­arðamær­inga, svo hann gæti selt þeim trygg­ing­ar.

Lo hafði þá í tvö ár lagt á ráðin, með teymi al­manna­tengla og lög­fræðinga sem sam­verka­menn. Hon­um hafði meira að segja tek­ist að fá blaðamenn frá BBC, CNBC, Fin­ancial Times, Reu­ters og fjölda annarra virtra fjöl­miðla til að kalla hann millj­arðamær­ing í grein­um sín­um. Svo hafði Lo líka af­skap­lega gam­an af að baða sig í sviðsljós­inu og tjá sig við fjöl­miðla um allt og ekk­ert: fyrr en varði höfðu alls kon­ar sög­ur spunn­ist í kring­um hann og átti kauði t.d. að eiga hlut í keppn­isliði í Formúlu 1, vera eig­andi lúx­us­hót­els í Taípeí, með íbúðir um all­an heim og gráðu frá Har­vard.

Eft­ir að hafa velt við hverj­um steini gátu blaðamenn For­bes að lok­um full­yrt að eng­in inni­stæða væri fyr­ir sög­un­um, og í besta falli næmi auður Lo 60 millj­ón­um dala – sem er svo sem ekk­ert slor, en langt frá því að duga til að kom­ast á millj­arðamær­ingalist­ann. Í sum­ar áætlaði For­bes að auðæfi Lo og for­eldra hans væru sam­an­lagt minna en 200 millj­óna dala virði.

Lo á ekki lúx­us­hót­el í Taípeí, á ekki hlut í Formúlu 1-liði og eng­inn kann­ast við hann hjá Har­vard.

Þegar Lo áttaði sig á að For­bes hafði séð í gegn­um blekk­inga­leik­inn kom annað hljóð í strokk­inn og barst út­gáf­unni harðort bréf ritað fyr­ir hans hönd þar sem Lo fór fram á að vera ekki fyr­ir nokkra muni sett­ur á millj­arðamær­ingalist­ann, og hann kærði sig hreint ekk­ert um að vera til um­fjöll­un­ar í For­bes.

Lo komst ekki á list­ann, en blaðamenn For­bes gátu ekki stillt sig um að segja les­end­um sín­um alla sög­una. Hafa marg­ir reynt að láta út­gáf­una halda að þeir væru millj­arðamær­ing­ar, með alls kyns brell­um og brögðum, en eng­inn fléttað jafn flók­inn blekk­inga­vef og Lo.

Eng­um sög­um fer af því hvernig trygg­ing­a­rekstri Lo hef­ur reitt af eft­ir að uppá­tæki hans rataði í frétt­irn­ar, en varla hef­ur það hjálpað hon­um að ger­ast upp­vís að öðru eins.

Belti og braut eng­in töfra­lausn

Xi Jin­ping hélt mikla veislu í októ­ber og bauð þangað leiðtog­um helstu vinaþjóða Kína. Til­efnið var að tíu ár voru liðin frá því að kín­versk stjórn­völd hleyptu af stokk­un­um innviða- og fjár­fest­inga­verk­efn­inu Belti og braut. Xi á sjálf­ur heiður­inn af verk­efn­inu og hef­ur það verið burðarstólp­inn í ut­an­rík­is­stefnu Kína alla hans for­setatíð.

Hug­mynd­in er í grunn­inn af­skap­lega sniðug: Und­an­far­inn ára­tug hef­ur Kína varið um það bil 1.000 millj­örðum dala í að fjár­magna inn-
viðaverk­efni víða um heim og þannig styrkt tengsl­in við þjóðir í öll­um heims­álf­um. Sam­starfs­rík­in fá fyr­ir sinn snúð nýj­ar hraðbraut­ir, hafn­ir, lest­ar­kerfi og raf­orku­ver sem ættu að virka eins og víta­mínsprauta fyr­ir
at­vinnu­lífið og bæta vöru- og fólks­flutn­inga jafnt inn­an­lands og til um-
heims­ins. Um leið verður til auk­in þörf fyr­ir alls kyns vör­ur og þjón­ustu frá Kína og auðveld­ara að koma kín­versk­um varn­ingi í hend­ur kaup­enda, en í ofanálag hef­ur Kína oft séð sjálft um fram­kvæmd­ina. Í kaup­bæti fær Kína heil­mik­il póli­tísk ítök enda gef­ur Kína vinaþjóðum sín­um ekki pen­ing­inn held­ur lán­ar hann.

Fyr­ir sum fá­tæk­ustu ríki ver­ald­ar
hef­ur Belti og braut verið himna­send­ing, en þó tókst mörg­um þeirra
að fara illa með fjár­mun­ina: Sum innviðaverk­efn­in hafa ekki reynst neitt sér­stak­lega arðbær og kostnaðar-
og fjár­mögn­un­ar­áætlan­ir hafa ekki staðist. Svo hafa auðvitað spillt­ir emb­ætt­is­menn og verk­tak­ar skarað eld að eig­in köku, og deilt er um hversu vand­lega var hugað að mögu­leg­um um­hverf­isáhrif­um risa­fram­kvæmda á viðkvæðum svæðum. Sem dæmi um hvernig Belti og braut hef­ur gengið þá hef­ur fimmta hvert verk­efni sem ræst var Pak­ist­an núna verið lagt niður eða verið frestað um óákveðinn tíma vegna alls kyns örðug­leika, og vand­ræðin verið því meiri eft­ir því sem verk­efn­in hafa verið stærri.

Mörg þeirra landa sem tekið hafa þátt í þessu hafa síðan átt í mesta basli með að end­ur­greiða Kína lán­in og í seinni tíð hef­ur Belti og braut breyst í nokk­urs kon­ar neyðarlána­verk­efni og talið að frá 2016 til 2021 hafi Kína af­skrifað lán sam­starfsþjóða sinna eða gefið út ný lán fyr­ir jafn­v­irði hátt í 200 millj­arða dala.

Belti og braut hef­ur því ekki gengið eins og í sögu, né valdið meiri hátt­ar umbreyt­ingu á hag­kerf­um þeirra þjóða sem hafa nýtt sér stuðning­inn. Í veisl­unni í Pek­ing var samt al­menn ánægja með fram­takið og það seg­ir sína sögu að Evr­ópu­sam­bandið ákvað árið 2021 að hleypa svipuðu verk­efni af stokk­un­um, sem þau kalla Global Gateway, og verða sett­ir 300 millj­arðar evra í pott­inn. Þá sam­mælt­ust G7-rík­in um það í fyrra að beina 600 millj­örðum dala í innviðafram­kvæmd­ir hjá þró­un­ar­lönd­um, með þann yf­ir­lýsta til­gang að skapa mót­vægi við Belti og braut.

Erfiður seinni hálfleik­ur

Af­mæli Belt­is og braut­ar er líka upp­lagt tæki­færi til að gera upp fyrstu tíu árin af valdatíð Xi Jin­ping. Framtíð Kína virt­ist svo af­skap­lega björt þegar hann sett­ist í for­seta­stól­inn, en und­an­farið er eins og allt verði ógæfu Kína að vopni.

Koma Don­alds Trumps markaði greini­leg kafla­skil en hann sýndi Kína meiri hörku en áður hafði sést og blés til meiri hátt­ar tolla­stríðs. Í kjöl­farið var eins og viðhorfið til Kína hefði breyst og sam­starfs­vilj­inn minnkað í Washingt­on og á Vest­ur­lönd­um – og breytti kjör Joe Bidens þar engu um. Svo kom kór­ónu­veir­an, svo fast­eigna­ból­an, og loks rann það upp fyr­ir fólki að mann­fjöldaþró­un­in í Kína hef­ur verið svo slæm und­an­farna ára­tugi að það stefn­ir í að íbú­um lands­ins muni fækka um helm­ing áður en öld­in er hálfnuð. Meðal­ald­ur­inn í Kína hækk­ar hraðar en hjá nokk­urri ann­arri þjóð og ald­urs­sam­setn­ing íbú­anna stefn­ir í að verða þannig að hag­kerfið mun hrein­lega ekki vera starf­hæft.

Nú síðast ber­ast þær frétt­ir að er­lend­ir fjár­fest­ar sýni Kína tak­markaðan áhuga og mæld­ist er­lend fjár­fest­ing um þriðjungi minni í sept­em­ber síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra. Fjár­fest­un­um hugn­ast ekki vax­andi spenna á milli Kína og Taívans og það hjálp­ar held­ur ekki að kín­versk stjórn­völd virðast orðin ósköp uppi­vöðslu­söm í seinni tíð, með alls kon­ar leiðindi í garð er­lendra fyr­ir­tækja.

Er­lend­ir fjár­fest­ar og fyr­ir­tæki í leit að hag­kvæm­um rekstr­ar­skil­yrðum, póli­tísk­um stöðug­leika, sterk­um hag­vexti og litlu veseni sjá hag sín­um mun bet­ur borgið í lönd­um á borð við Víet­nam, Ind­land, Taí­land eða hrein­lega í Mexí­kó þar sem launa­kostnaður er í dag orðinn lægri en í Kína.

En það hlýt­ur þó að vera til ein­hver lausn, eða hvað? Ekki skort­ir kín­versku þjóðina hug­vit­semi og dugnað, og með sam­stilltu átaki ætti í það minnsta að vera hægt að milda höggið. En þá kom­um við að öðrum vanda: hæfni stjórn­sýsl­unn­ar og vilja Xi til að horf­ast í augu við þær áskor­an­ir sem landið stend­ur frammi fyr­ir.

Frétta­skýrend­ur vilja sum­ir full­yrða að Xi lifi í eig­in heimi, því hann hafi hreinsað svo ræki­lega til í sínu fylgd­arliði – og í stjórn­sýsl­unni eins og hún legg­ur sig – að eng­inn þori að færa hon­um annað en góðar frétt­ir. Menn­ing­ar­leg­ir þætt­ir, og eðli hins komm­ún­íska stjórn­kerf­is, skýra það hvers vegna kín­versk stjórn­sýsla hef­ur ít­rekað og á öll­um stig­um gerst upp­vís að því að ým­ist fegra sann­leik­ann eða stinga höfðinu í sand­inn: eng­inn þorir að gagn­rýna og þaðan af síður segja sann­leik­ann ef hann er óþægi­leg­ur. Er vand­inn svo djúp­stæður að það er al­kunna að þeim töl­um sem hið op­in­bera safn­ar og birt­ir er ekki treyst­andi. Er það meira að segja van­inn að ef ein­hverj­ar mælistærðir í hag­kerf­inu taka að þró­ast í óæski­lega átt þá ein­fald­lega hætta kín­versk stjórn­völd að mæla.

Ef það á að tak­ast að forða kín­verska hag­kerf­inu frá því að fara á bólakaf myndi kín­verska stjórn­kerfið þurfa að byrja á því að læra af mis­tök­um Cal­vins Lo, og hætta að þykj­ast.

mbl.is