Munu reyna til hins ýtrasta að ná samkomulagi

Ekki liggja fyrir samningar um skiptingu heimilda í uppsjávarstofnum milli …
Ekki liggja fyrir samningar um skiptingu heimilda í uppsjávarstofnum milli strandríkjanna. Íslensk yfirvöld hyggjast reyna ná að landa samningum um norsk-íslensku síldina fyrir áramót. Ljósmynd/Síldarvinnslan: Smári Geirsson

Strand­rík­in eru sam­mála um að leggja áherslu á að kom­ast að sam­komu­lagi um skipt­ingu norsk-ís­lensku síld­ar­inn­ar vegna sér­lega slæmr­ar stöðu stofns­ins. Mark­mið ís­lenskra yf­ir­valda er að landa samn­ingi fyr­ir ára­mót. Ísland leiðir viðræðurn­ar.

Í sept­em­ber hóf­ust viðræður Íslands, Græn­lands, Fær­eyja, Evr­ópu­sam­bands­ins, Bret­lands, Nor­egs og Rúss­lands um skipt­ingu mak­ríls, kol­munna og norsk-ís­lenskr­ar síld­ar og lauk funda­hrinu ríkj­anna í síðasta mánuði. Sam­komu­lag náðist um að afla­mark í teg­und­un­um yrði út­hlutað í sam­ræmi við ráðgjöf Alþjóðahaf­rann­sókn­aráðsins (ICES).

Vand­inn er hins veg­ar að ekki ligg­ur fyr­ir sam­komu­lag um skipt­ingu hlut­deilda í heild­arafla­marki milli ríkj­anna og því hafa rík­in sjálf­stætt gefið út kvóta til sinna skipa á grund­velli þess hlut­ar sem þau segj­ast eiga rétt á að veiða. Vegna þessa hafa stofn­arn­ir þrír verið veidd­ir langt um­fram ráðgjöf.

„Sam­hljóm­ur er meðal strand­ríkja að leggja mesta áherslu á viðræður um skipt­ingu norsk-ís­lensku síld­ar­inn­ar í ljósi ráðgjaf­ar­inn­ar en sá stofn stefn­ir und­ir aðgerðamörk á næsta ári. Sem er al­var­legt mál og því stefnt á einn til tvo fundi varðandi þann stofn fyr­ir ára­mót.  Ísland mun því reyna til hins ýtr­asta að ná sam­komu­lagi fyr­ir ára­mót,“ seg­ir í svari Mat­vælaráðuneyt­is­ins við fyr­ir­spurn 200 mílna.

Þar seg­ir jafn­framt að „viðræður um norsk-ís­lenska síld, mak­ríl og kol­munna munu halda áfram í lok janú­ar á næsta ári og stefnt er á nokkra fundi í öll­um þess­um stofn­um fram til loka mars“.

Ísland gegn­ir for­mennsku í viðræðum um mak­ríl og norsk-ís­lenska síld til loka mars, en Bret­land leiðir á sama tíma viðræður um kol­munna.

Kort/​mbl.is

Auk­inn þrýst­ing­ur

Frest­ur sem stór­ir kaup­end­ur upp­sjáv­ar­af­urða hafa sett fyr­ir rík­in til að ná að koma veiðum inn­an marka ráðgjaf­ar vís­inda­manna renn­ur út á næsta ári. Hóta kaup­end­urn­ir því að leita ann­ara afurða tak­ist ekki að landa samn­ing­um.

Ítrekuðu þess­ir kaup­end­ur hót­un sína í opnu bréfi sem sent var sjáv­ar­út­vegs­ráðherr­um ríkj­anna í októ­ber og var bréf­inu ætlað að skapa hvata fyr­ir rík­in að kom­ast að sam­komu­lagi. Sem fyrr seg­ir hef­ur það ekki enn tek­ist.

Við upp­haf viðræðna strand­ríkj­anna í sept­em­ber send­ur sam­tök evr­ópskra út­gerða (Europêche) frá sér yf­ir­lýs­ingu þar sem norsk og fær­eysk yf­ir­völd voru harðlega gagn­rýnt fyr­ir að halda áfram að gefa út óhóf­leg­ar veiðiheim­ild­ir í mak­ríl bæði ein­hliða og á órétt­mæt­um grund­velli sem leiðir til áfram­hald­andi of­veiði á stofn­in­um. Jafn­framt sökuðu sam­tök­in Norðmenn um að „prenta pen­inga“ í þeim skiln­ingi að nýta órétt­mæt­ar veiðiheim­ild­ir sem skipti­mynt í fisk­veiðisamn­ing­um við Breta.

„Þess vegna hvet­ur grein­in inn­an ESB enn og aft­ur ein­dregið fram­kvæmda­stjórn ESB og ráðherr­aráð ESB til að grípa til áþreif­an­legra aðgerða gegn þess­um starfs­hátt­um og nýta þau tæki sem þeir hafa yfir að ráða, svo sem vald­ar viðskiptaaðgerðir,“ sagði í yf­ir­lýs­ingu Europêche.

mbl.is