Morgunblaðið fagnaði 110 ára afmæli sínu á fimmtudag með gleðibrag og gerði sér dagamun eins og tilefni var til. Blaðið kynnti þá, að afmælisárið allt yrði nýtt til þess að halda sögubrotum og minningunni lifandi, en eins og gefur að skilja er úr miklu efni að moða á svo löngum ferli dagblaðs, sem hefur á seinni árum komið út alla vikudaga ársins, nema þegar helgidagar standa til annars. Fyrsta atriði á þessari dagskrá afmælisársins, var samkoma starfsmanna í morgunsárið með viðeigandi veitingum, söngskrá og fróðlegri umræðu þeirra Haraldar Johannessen ritstjóra og framkvæmdastjóra og Magnúsar Kristjánssonar framkvæmdastjóra sölu- og markaðsmála, sem Stefán Einar Stefánsson blaðamaður stýrði, þar sem spáð var um þróun afmælisbarnsins, blaðsins, og fjölmargra þátta sem því tengjast nú orðið. Hefðu sumir þeirra verið fjarlægir og framandi stjórnendum blaðsins á fyrstu áratugum þess, og heyra reyndar sumir þættir þeirrar umræðu til nýjabrums augnabliksins og næstu áratuga.
Það er hluti af veruleikanum, sem allir lúta, að flestu er markaður tími, og gildir það ekki síst um manneskjuna, sem þó ræður meira en flest annað sem lífsanda dregur og er bundið jörðinni. Við höfum fyrir löngu sætt okkur við að „herra jarðarinnar“, maðurinn, kemur og fer. Og þótt herra jarðarinnar sé þarna hafður í eintölu, þá er meiningin ekki önnur en að gefa honum veglegastan sess allra hinna í dýraríkinu.
Völtu vísindin
En öðru hvoru koma til „vísindamenn“, sem þó ákveða sín vísindi með atkvæðum á fundum, þar sem helst þeir einir eru velkomnir, sem greiða atkvæði eins, og þeir aðrir sem eru með fyrirsvar fyrir meinloku hvers tíma. Þannig hefðu 100 vísindagrallarar getað slátrað afstæðiskenningunni, ef þeir hefðu allir verið á móti og Einstein einn með. Það er svo sem harla lítið vísindalegt við fyrrnefndar samkomur og því síður niðurstöðurnar, enda eru þær ekki til raunverulegrar umræðu á þessum fundum, heldur eingöngu til staðfestingar, og heimild til þátttöku í veisluhöldum með þeim sem hafa flogið með þúsundum annarra langan veg.
Minnir þetta dálítið á pólitíska landsfundi, en munurinn er þó sá, að þá fundi er hægt að taka alvarlega, því að þar dettur engum í hug að efnið, sem þar er samþykkt í fundarlok, sé hinn eini og endanlegi sannleikur. Þó eru þeir, sem mæta til slíkra funda, bærilega sáttir um niðurstöðuna og leiðsögnina til næstu tveggja ára og óháð því, hvort hún er samþykkt samhljóða eða í „ágreiningi“, eins og kallað er, og gildir einu. En munurinn á því sem þarna er samþykkt og hinu, sem hræsnararnir úr einkaþotunum hampa, gegn betri vitund, er að fyrra tilvikið lýtur pólitískum lögmálum, sem eru breytileg og teygjanleg og gilda iðulega aðeins um augnablikið og hvað fundarmenn tiltekins flokks eða félags ætla sér að hafa til leiðsagnar fram til næsta fundar, og er því fjarri því ljóst að þá verði markmiðum ekki breytt eða kollvarpað í samræmi við nýja hlið á veruleikanum eða þarfir og vilja fólks. Flokkur getur haft meginlínur og leiðbeinandi reglur sem flokksmenn hans á hverjum tíma mynda meirihluta um, og færst geta til, og þær eru forystunni aðeins veganesti til næstu missera. Svokallaðir loftslagsvísindamenn, sem mætt hafa annað hvert ár í veisluna, í rúm 30 ár, eru hins vegar ætíð á sama róli, og engu nær. Svo forstokkaðar leikreglur væru sjaldgæfar í trúarhreyfingu, enda myndu þær tryggja, að þar fækkaði óðum þeim sem áður áttu samleið. En kosturinn er þá sá, að þar er þó eftir kjarni sem haggast ekki í trúnni, frekar en „vísindamennirnir“, sem tóku sína trú fyrir löngu, þótt fæst eða ekkert af því sem spáð var, hafi komið á daginn. Við hvern hefðbundinn atburð sem verður, hafa orðið í þúsundir ára, er gripið til hans sem sannindamerkis um tal síðustu ráðstefnu!
Skafl og ísbjörn
Í nokkur ár var það helsti óhugnaðurinn, sem náttúran sjálf átti að hafa staðfest, að ísbjörnum á norðurhöfum hefði skyndilega fækkað og ísbangsi væri kominn í bullandi útrýmingarhættu. Og ekkert gæti bjargað bjössa, nema jú gamla góða ráðið að auka framlög til stofnana hrópenda. En svo gerði ísbjössi þann óleik að birtast á ný í fleiri eintökum og gaf grátandi langt nef. Kannski verður næst kannað hvort það gæti hjálpað ísbjörnunum að fjölga einkaþotum ríkisbubba um 20-30 prósent á næstu ráðstefnum, enda fælist í því sterk traustsyfirlýsing kæmu þeir fljúgandi með peningabúntin, og fengju skattafrádrátt þegar heim kæmi.
Lítið snoturt dæmi sást þegar fjallað var um virtan veðurfræðing, sem fylgst hefur með skaflinum í Gunnlaugsskarði á Esjunni, sem stundum „lifir“ af árið og stundum ekki og á veðurfræðingurinn frækni skýrslur um þróun skaflsins. Þær bentu til að litli skaflinn virtist hreyfast nokkuð til á 35 ára tímabili, en yrði á næsta tímabili svipaður því á undan og tilvera hans lítt snortin af hamfarahlýnun. Í 1000 metra hæð varð breytingin engin, hvað sem ráðstefnum leið.
Það mætti í raun spara heiminum mikið fé, ef „global warming“ tilraunin yrði sett á ís, þar sem auðvitað færi best um hana, og heimurinn kæmi sér saman um að einbeita sér næstu 50 árin að skafli Páls á Esjunni. Ef hann haggaðist ekki meira en þetta, mætti áhyggjulaust hætta bröltinu. Þetta yrði ein sögulegasta sparnaðartillaga á heimsvísu, og það sem meira er, hún er eiginlega sjálfsögð.
Veðurstofan greinir
Í grein á vef Veðurstofunnar í lok ágúst sl. segir: „Það hefur verið fylgst með Esju skaflinum síðan á 19. öld og hann stundum nefndur óformlegur mælikvarði á tíðarfar á suðvesturhorni landsins. Skaflinn hefur ekki horfið síðan 2019 en þá hafði hann ekki horfið í ein sjö ár. Skaflinn sést venjulega vel frá höfuðborginni, en hann er staðsettur við efstu brún Kistufellsmegin í Gunnlaugsskarði. Þegar skaflinn hvarf í fyrsta skipti árið 1929, þá mundu elstu menn ekki eftir að það hafði gerst áður. Það er þó ekki útilokað að hann hafi mögulega horfið 1847 og 1852. Hann hvarf síðan flest ár í kjölfarið til 1947. Hann hélt áfram að hverfa sum ár til 1964, en þá kólnaði skyndilega og talað er um Hafísárin 1965 til 1971, en þá virðist skaflinn hafa fest sig rækilega í sessi. Hægt hlýnaði eftir það þó og tók skaflinn ekki að hverfa aftur fyrr en 1998. Skaflinn hvarf alltaf 10 ár í röð, frá árinu 2001 til 2010, en þá virðist hafa kólnað aðeins og yfirleitt hvarf hann ekki eftir það. Aðeins árin 2012, 2019 og einnig nú 2023. Til eru upplýsingar um að skaflinn hafi í tvö ár horfið mjög snemma, en hann hvarf í júlí 1941 og 2010. Sumir vetur eru óvenju snjóléttir, þegar norðaustlægar vindáttir eru meira og minna ríkjandi og úrkoma lítil af þeim sökum. Þannig var einnig veturinn 2010 þegar skaflinn hvarf í júlí. Síðasta vetur sem leið safnaðist lítill snjór í löngum frostaköflum og lægðabrautin lengst af langt fyrir sunnan landið. Það var ansi vætusamt í júní, en síðan hefur verið óvenju þurrt og sólríkt. Til að skaflinn hverfi þarf helst að fara saman að vetur sé snjóléttur á undan hlýju sumri. Sérfræðingar hér á Veðurstofunni hafa fjallað um skaflinn og tíðarfar tengt honum í gegnum tíðina.“ Skaflinn í Gunnlaugsskarði hefur sem sagt staðið allt af sér síðan dillan um hamfarahlýnun hófst
Blað stofnað tíu árum fyrr
Árið 1903 var blaðið Landvörn stofnað, tíu árum á undan Morgunblaðinu. Þar voru engir aukvisar að verki: Einar Benediktsson, Einar Gunnarsson og Benedikt Sveinsson voru kosnir í ritstjórn af félaginu sem að því stóð. Þetta var myndarlegt blað, miklir textar og frumort ljóð, en engar auglýsingar. Um erindi blaðsins sagði á forsíðu: „Tildrög til þess að rit það, er hér kemur fram, er stofnað nú og á þann hátt, sem lesendur þess sjá, eru þau, að nokkrum mönnum hér í Reykjavík hefir þótt skylda sín að láta koma fram opinber andmæli gegn hneykslisaðgerðum síðasta alþingis í stjórnarskrármálinu og gegn þeim opinberu samtökum, er orðið hafa á meðal blaðamanna og annarra leiðtoga þjóðarinnar um það, að kæfa og bæla niður frjálsar, rökstuddar umræður um þetta málefni, sem þeir þó allir vilja viðurkenna jafnframt, að varði alla þjóðina mest allra mála.
Útgefendum ritsins þykir fullljóst, að samtök leiðtoganna í þessa átt eru ekki svo mjög sprottin af umhyggjusemi fyrir því, að þjóðin láti ekki tíma sinn eyðast milli þinga í óþarfar umræður um málefni, sem þegar sé nú ráðið til lykta, heldur er hin sanna orsök samtakanna sú, að leiðtogarnir vita að hneykslisaðgerðir þeirra í stjórnarmálinu geta ekki staðizt skynsamlega rannsókn hugsandi manna í landinu.“
Af þessu merka blaði komu út tíu fjögurra síðna blöð frá 3. janúar 1903 til 26. maí 1903.
Á bréfritari þau fallega innbundin og þykir til þeirra koma. Þótt vart megi flokka þau sem dagblöð hafa allmörg slík komið og farið, eins og kunnugt er, en eins og er stendur Morgunblaðið eitt eftir.