„Ég byrjaði að skrifa af alvöru árið 2015. Þá var ár síðan ég útskrifaðist úr menntaskóla og ákvað að verða rithöfundur. Ég var samt ekkert byrjaður að skrifa, var að vinna og eitthvað upptekinn í lífinu en sumarið 2015 byrjaði ég að skrifa. Ég hafði eitthvað fiktað fyrir það en vissi ekkert almennilega hvað ég var að gera,“ segir rithöfundurinn Ísak Regal. Fyrsta bók hans í fullri lengd, smásagnasafnið Sara og Dagný og ég, kom út nýverið. Hann hefur fram að þessu birt bæði ljóð og smásögur í ýmsum tímaritum, til dæmis Són og Tímariti Máls og menningar.
Hvað er það við smásöguna sem heillar?
„Það hvað það er hægt að segja mikið í fáum orðum. Smásagan er í rauninni skyld ljóðinu en það eru fleiri möguleikar. Maður er með plott og narratívu. Ég vil líka alltaf koma mér beint að efninu, ekki eyða tíma í uppfyllingarefni. Ég er mjög hrifinn af þannig sögum, eins og eftir ýmsa rússneska og bandaríska höfunda,“ segir hann og nefnir sem dæmi Ísaak Babel, Dostojevskí, Tolstoj, Flannery O'Connor, Raymond Carver og J.D. Salinger.
Hvaðan spretta sögurnar?
„Það getur verið eitthvað sem ég er að lesa sem mér finnst áhugavert. Það er til dæmis ein saga þarna þar sem fljúgandi furðuhlutir koma fyrir. Það er eitthvað sem mér hefur þótt áhugavert, hvað fólk getur verið upptekið af yfirskilvitlegum atburðum. Svo er oft eitthvað í mínu nærumhverfi, eitthvað sem ég heyri. Vinir mínir segja mér frá einhverju sem kom fyrir þá og svo verður saga til úr því. Hún getur verið mjög byggð á sönnum atburðum eða getur verið eitthvað sem ég ímynda mér að hefði getað gerst. Þannig þetta er oft blanda af raunsæi og ímyndunaraflinu,“ segir Ísak.
Þurfa að yfirstíga ótta
„Fólkið í sögunum er allt tengt tilfinningalega, er að glíma við svipaðar tilfinningar; missi, kvíða, oft fíkn og leit að einhverjum samastað. Það eru tilfinningaleg þemu og persónurnar eiga oft margt sameiginlegt. Þetta eru ekki sögur um fólk sem þekkist beint en það hefur kannski verið á svipuðum stað. Það eru til dæmis nokkrir þarna sem hafa verið í AA-samtökunum.“
Persónurnar glíma margar við innri togstreitu og í sumum tilfellum yfirvofandi hættu, eins og segir í káputexta. „Það er einhver ótti sem manneskjan þarf að yfirstíga. Stundum getur hún það og stundum ekki. Stundum flýr hún í hina áttina en stundum sættir hún sig við að hún verði að takast á við þetta. Það getur farið illa og það getur farið vel.“
Titilsagan „Sara og Dagný og ég“ birtist í Tímariti Máls og menningar. Spurður hvers vegna sá titill varð fyrir valinu fyrir safnið í heild segir Ísak: „Það voru ekki allir jafn hrifnir og ég af að kalla bókina eftir þessari sögu. En mér fannst þetta söluvænsti titillinn. Ef þú sérð bókina úti í búð þá hugsarðu kannski: „Hver er þessi Sara og hver er þessi Dagný og hver er þessi ég?“ Ég var að hugsa um titlana á sögunum „Tengingar“ og „Bylgjulengdir“ á tímabili. Það eru kannski alveg flottir titlar en þeir vekja ef til vill ekki sömu forvitni.“
Bróðir Ísaks, Lúkas Stefán Regal, teiknaði kápumyndina. „Þetta er staður sem byggir á stað sem var á Snorrabrautinni. Ein sagan, „Tengingar“, gerist þar. Ég var dálítið mikið þarna á tímabili og mig langaði að fanga stemninguna þarna inni. Ég gaf honum annars frjálsar hendur.“
Ísak stendur sjálfur fyrir útgáfu bókarinnar og segir það hafa gengið nokkuð vel. „Ég er með gott fólk í kringum mig og ég var búinn að safna mér fyrir prentkostnaðinum. Þetta er einfaldara en það kannski virðist utan frá. Eina sem þú þarft að gera er að hafa samband við prentsmiðjuna og segja hvað þú vilt. En markaðssetningin er snúin. Við búum í landi þar sem bókmenntir eru örmarkaður en ég held að maður sé ekkert endilega verr í stakk búinn til að gefa út svona bók heldur en einhverjir sem reka lítið forlag.“
Ísak hvetur að lokum ungt fólk sem hefur áhuga á að skrifa, en veit ekki hvar það á að byrja eða finnst það ekki hafa lesið nógu mikið, til þess að vera óhrætt við að taka fyrstu skrefin.