Raunsæið og ímyndunaraflið

„Ég vil líka alltaf koma mér beint að efninu, ekki …
„Ég vil líka alltaf koma mér beint að efninu, ekki eyða tíma í uppfyllingarefni,“ segir Ísak. Ljósmynd/Jon Buscall

„Ég byrjaði að skrifa af al­vöru árið 2015. Þá var ár síðan ég út­skrifaðist úr mennta­skóla og ákvað að verða rit­höf­und­ur. Ég var samt ekk­ert byrjaður að skrifa, var að vinna og eitt­hvað upp­tek­inn í líf­inu en sum­arið 2015 byrjaði ég að skrifa. Ég hafði eitt­hvað fiktað fyr­ir það en vissi ekk­ert al­menni­lega hvað ég var að gera,“ seg­ir rit­höf­und­ur­inn Ísak Regal. Fyrsta bók hans í fullri lengd, smá­sagna­safnið Sara og Dagný og ég, kom út ný­verið. Hann hef­ur fram að þessu birt bæði ljóð og smá­sög­ur í ýms­um tíma­rit­um, til dæm­is Són og Tíma­riti Máls og menn­ing­ar.

Hvað er það við smá­sög­una sem heill­ar?

„Það hvað það er hægt að segja mikið í fáum orðum. Smá­sag­an er í raun­inni skyld ljóðinu en það eru fleiri mögu­leik­ar. Maður er með plott og narra­tívu. Ég vil líka alltaf koma mér beint að efn­inu, ekki eyða tíma í upp­fyll­ing­ar­efni. Ég er mjög hrif­inn af þannig sög­um, eins og eft­ir ýmsa rúss­neska og banda­ríska höf­unda,“ seg­ir hann og nefn­ir sem dæmi Ísaak Babel, Dostoj­evskí, Tol­stoj, Flannery O'Conn­or, Raymond Car­ver og J.D. Sal­in­ger.

Hvaðan spretta sög­urn­ar?

„Það get­ur verið eitt­hvað sem ég er að lesa sem mér finnst áhuga­vert. Það er til dæm­is ein saga þarna þar sem fljúg­andi furðuhlut­ir koma fyr­ir. Það er eitt­hvað sem mér hef­ur þótt áhuga­vert, hvað fólk get­ur verið upp­tekið af yf­ir­skil­vit­leg­um at­b­urðum. Svo er oft eitt­hvað í mínu nærum­hverfi, eitt­hvað sem ég heyri. Vin­ir mín­ir segja mér frá ein­hverju sem kom fyr­ir þá og svo verður saga til úr því. Hún get­ur verið mjög byggð á sönn­um at­b­urðum eða get­ur verið eitt­hvað sem ég ímynda mér að hefði getað gerst. Þannig þetta er oft blanda af raun­sæi og ímynd­un­ar­afl­inu,“ seg­ir Ísak.

Þurfa að yf­ir­stíga ótta

„Fólkið í sög­un­um er allt tengt til­finn­inga­lega, er að glíma við svipaðar til­finn­ing­ar; missi, kvíða, oft fíkn og leit að ein­hverj­um sam­astað. Það eru til­finn­inga­leg þemu og per­són­urn­ar eiga oft margt sam­eig­in­legt. Þetta eru ekki sög­ur um fólk sem þekk­ist beint en það hef­ur kannski verið á svipuðum stað. Það eru til dæm­is nokkr­ir þarna sem hafa verið í AA-sam­tök­un­um.“

Per­són­urn­ar glíma marg­ar við innri tog­streitu og í sum­um til­fell­um yf­ir­vof­andi hættu, eins og seg­ir í kápu­texta. „Það er ein­hver ótti sem mann­eskj­an þarf að yf­ir­stíga. Stund­um get­ur hún það og stund­um ekki. Stund­um flýr hún í hina átt­ina en stund­um sætt­ir hún sig við að hún verði að tak­ast á við þetta. Það get­ur farið illa og það get­ur farið vel.“

Titilsag­an „Sara og Dagný og ég“ birt­ist í Tíma­riti Máls og menn­ing­ar. Spurður hvers vegna sá tit­ill varð fyr­ir val­inu fyr­ir safnið í heild seg­ir Ísak: „Það voru ekki all­ir jafn hrifn­ir og ég af að kalla bók­ina eft­ir þess­ari sögu. En mér fannst þetta sölu­vænsti tit­ill­inn. Ef þú sérð bók­ina úti í búð þá hugs­arðu kannski: „Hver er þessi Sara og hver er þessi Dagný og hver er þessi ég?“ Ég var að hugsa um titl­ana á sög­un­um „Teng­ing­ar“ og „Bylgju­lengd­ir“ á tíma­bili. Það eru kannski al­veg flott­ir titl­ar en þeir vekja ef til vill ekki sömu for­vitni.“

Bróðir Ísaks, Lúkas Stefán Regal, teiknaði kápu­mynd­ina. „Þetta er staður sem bygg­ir á stað sem var á Snorra­braut­inni. Ein sag­an, „Teng­ing­ar“, ger­ist þar. Ég var dá­lítið mikið þarna á tíma­bili og mig langaði að fanga stemn­ing­una þarna inni. Ég gaf hon­um ann­ars frjáls­ar hend­ur.“

Ísak stend­ur sjálf­ur fyr­ir út­gáfu bók­ar­inn­ar og seg­ir það hafa gengið nokkuð vel. „Ég er með gott fólk í kring­um mig og ég var bú­inn að safna mér fyr­ir prent­kostnaðinum. Þetta er ein­fald­ara en það kannski virðist utan frá. Eina sem þú þarft að gera er að hafa sam­band við prent­smiðjuna og segja hvað þú vilt. En markaðssetn­ing­in er snú­in. Við búum í landi þar sem bók­mennt­ir eru ör­markaður en ég held að maður sé ekk­ert endi­lega verr í stakk bú­inn til að gefa út svona bók held­ur en ein­hverj­ir sem reka lítið for­lag.“

Ísak hvet­ur að lok­um ungt fólk sem hef­ur áhuga á að skrifa, en veit ekki hvar það á að byrja eða finnst það ekki hafa lesið nógu mikið, til þess að vera óhrætt við að taka fyrstu skref­in.

mbl.is