Þróun Hvals hf. á veiðiaðferðum og veiðibúnaði á milli vertíðanna 2022 og 2023 skilaði marktækum breytingum til batnaðar og tafarlaus dauðatíðni langreyða jókst upp í tæp 80% á stuttri hvalveiðivertíð í september sl. sem er umtalsvert betra en á sambærilegu tímabili á vertíðinni 2022. Þá var dauðatíðnin á bilinu 59-67%.
Þetta kemur fram í skýrslu sem Hvalur hefur skilað til Matvælastofnunar (MAST) og Fiskistofu um veiðarnar á nýliðinni vertíð.
Í skýrslunni kemur fram að þetta sé afrakstur þróunar og fjárfestingar fyrirtækisins í veiðiaðferðum og veiðibúnaði sem innleiddur hafði verið í hvalbátunum Hval 8 og Hval 9 og var tilbúinn til notkunar er hvalveiðar áttu að hefjast í júní 2023.
Síðan var það ekki fyrr en 15. ágúst 2023 sem starfshópur sem matvælaráðherra skipaði til að leggja mat á leiðir til að fækka frávikum við veiðarnar kom í vettvangsferð um borð í hvalveiðiskip Hvals.
Í skýrslunni bendir Hvalur á að hvað varðar það álit starfshópsins um beitingu rafskutuls að fyrirliggjandi gögn og upplýsingar væru ekki nægileg til að geta metið virkni rafmagns við aflífun hvala, þá hefði farið betur á því að starfshópurinn hefði kallað eftir upplýsingum og gögnum þar um. Það var hins vegar ekki gert og engra frekari skýringa óskað frá Hval hvað þennan þátt varðaði.
„Ég er sannfærður um að notkun rafskutuls hefði aukið enn á skilvirknina. Ég á satt best að segja erfitt með að skilja af hverju tilteknir einstaklingar býsnast yfir hugmyndum um notkun rafskutuls til að auka enn skilvirkni veiðanna, kannski óttast þeir niðurstöðuna,“ segir Kristján Loftsson framkævmdastjóri Hvals í samtali við Morgunblaðið.
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.