Ljósin slokkna í Suður-Afríku

Sönghópur undirbýr sig fyrir keppni í Dúrban. Samfélagið er ekki …
Sönghópur undirbýr sig fyrir keppni í Dúrban. Samfélagið er ekki lamað þótt það sé lemstrað, en það er ekki auðvelt að þrauka þegar rafmagnið vantar. Það gæti þurft lítið til að steypa Suður-Afríku úr öskunni í eldinn. AFP/Marco Longari

Eft­ir að aðskilnaðar­stefn­unni lauk þótti Suður-Afr­íka í hópi efni­leg­ustu hag­kerfa heims. Landið er ágæt­lega staðsett, ríkt að nátt­úru­auðlind­um, og þjóðin bæði ung og nokkuð vel menntuð. Þá var aðdá­un­ar­vert að sjá hversu vel Suður-Afr­íku­mönn­um tókst að græða þau sár sem aðskilnaðar­stefn­an hafði skilið eft­ir sig. Heims­byggðin öll, og ekki síst lönd­in sunn­an Sa­hara, fylgd­ust spennt með, því ef Suður-Afr­íka gæti blómstrað þá gætu önn­ur hag­kerfi álf­unn­ar vafa­laust blómstrað líka.

Mark fyr­ir Afr­íku

Í fyrra sendi rit­höf­und­ur­inn Dipo Faloy­in frá sér hríf­andi bók, Africa Is Not a Coun­try, þar sem hann grein­ir sér­stöðu og vanda­mál Afr­íku frá ýms­um hliðum. Lýs­ing­ar Faloy­ins fá mig til að vilja stökkva upp í næstu vél til Lagos, á heima­slóðir höf­und­ar­ins, og helst skoða þessa fal­legu heims­álfu eins og hún legg­ur sig.

Í bók­inni und­ir­strik­ar Faloy­in að það ætti alls ekki að líta á Afr­íku sem eins­leita heild, og að sýn margra Vest­ur­landa­búa á álf­unni sé allt í senn: bjöguð, of­ur­ein­földuð og kjána­leg. Hann seg­ir þó frá eft­ir­minni­legu augna­bliki árið 2010 þegar Afr­íka, öll sem ein heild, sat límd við sjón­varps­skjá­inn með önd­ina í háls­in­um:

Það hafði fallið í hlut Suður-Afr­íku að hýsa HM í knatt­spyrnu, fyrst allra Afr­íku­ríkja, og vöknuðu strax efa­semd­ir um ákvörðun FIFA: Hæl­bít­arn­ir full­yrtu að Suður-Afr­íka gæti varla ráðið ráðið við heimsviðburð af þess­ari stærðargráðu og hefði jafn­vel ekki burði til að byggja knatt­spyrnu­leik­vanga sem þættu boðleg­ir. Svo myndu knatt­spyrnuaðdá­end­ur seint nenna að ferðast alla leið suður á syðsta odda Afr­íku, til lands sem er plagað af glæp­um, þar sem hreisa­hverf­in breiða úr sér yfir holt og hæðir, og fimmti hver maður er sýkt­ur af HIV. Sú til­hugs­un fór að læðast að fólki um gerv­alla Afr­íku að ef HM 2010 mis­heppnaðist, þá myndu líða nokkr­ir manns­aldr­ar þangað til önn­ur eins keppni yrði aft­ur hald­in í álf­unni.

Ég hef sama og eng­an áhuga á hópíþrótt­um, en mér þykir aft­ur á móti afar spenn­andi hvernig ein­stök augna­blik í íþrótta­sög­unni ná stund­um að móta sjálfs­mynd heilu þjóðfé­lag­anna. Fyrsti leik­ur HM 2010 gerði gott bet­ur og mótaði sjálfs­mynd heill­ar heims­álfu:

Blásið var til leiks kl. 16.00 hinn 11. júní og mættu gest­gjaf­arn­ir landsliði Mexí­kó. Ómur­inn í vú­vú­sela-lúðrun­um var há­vær og viðstöðulaus og liðin sóttu fram á víxl, en hvor­ugu þeirra tókst að skora svo að spenn­an var næst­um yfirþyrm­andi. Á 55. mín­útu opnaðist loks­ins gat í vörn mexí­kóska liðsins, og eft­ir fum­lausa stoðsend­ingu þeysti Sip­hiwe Ts­habalala upp vinstri vall­ar­helm­ing­inn og dúndraði bolt­an­um fram hjá Óscari Pér­ez, efst í hægra hornið.

Kynn­ir­inn áttaði sig á mik­il­vægi þessa at­b­urðar. Með fyrsta marki móts­ins hafði Ts­habalala end­an­lega kveðið hæl­bít­ana í kút­inn.

„Mark fyr­ir Suður-Afr­íku!“ hrópaði kynn­ir­inn í hljóðnem­ann og bætti við: „… og mark fyr­ir alla Afr­íku!“

Hvert höggið á fæt­ur öðru

Ef­laust muna les­end­ur vel þá gleði og bjart­sýni sem ein­kenndi HM 2010. Smell­ur­inn henn­ar Shak­iru, „Waka Waka“, sló í gegn og gott ef það má ekki enn heyra hvin­inn í vú­vú­sela-lúðrun­um.

Í dag hef­ur gleðin og bjart­sýn­in vikið fyr­ir gremju og heift. Suður-Afr­íka glím­ir við langvar­andi og djúp­stæðan efna­hags­vanda og stoðir sam­fé­lags­ins eru við það að bresta. Árið 2010 var hápunkt­ur í sögu lands­ins og síðan þá er eins og allt hafi legið niður á við.

Gott er að byrja sög­una skömmu eft­ir alþjóðlegu fjár­málakrepp­una 2007 og 2008. Áhrifa krepp­unn­ar gætti í Suður-Afr­íku eins og ann­ars staðar en verðbréfa­markaður­inn þar er sá stærsti í álf­unni. Nokkr­um árum síðar tók verðið á mik­il­væg­um hrávör­um að lækka, en nám­u­starf­semi af ýms­um toga mynd­ar mik­il­væga und­ir­stöðu í hag­kerf­inu og er Suður-Afr­íka t.d. meiri hátt­ar fram­leiðandi plat­ínu, gulls og dem­anta.

Það má ekki sleppa að minn­ast á hlut sósí­al­ist­ans Jac­obs Zuma sem komst til valda árið 2009 en stefnu­mál hans gerðu lítið til að auka til­trú fjár­festa á suðurafrísku at­vinnu­lífi, og tók hann t.d. upp á því að þrengja að náma­geira lands­ins með það yf­ir­lýsta og und­ar­lega mark­mið að svart­ir þyrftu að eiga að lág­marki fjórðungs­hlut í öll­um námu­fyr­ir­tækj­um. Þá fékk spill­ing að grass­era í land­inu í for­setatíð Zuma og var hann sjálf­ur dreg­inn fyr­ir dóm­stóla sakaður um pen­ingaþvætti, fjár­kúg­un, spill­ingu og mútuþægni.

Und­an­far­inn ára­tug var eins og ástandið versnaði ár frá ári; er­lent fjár­magn leitaði á aðrar slóðir og greina mátti merki um vax­andi fjár­magns- og at­gervis­flótta. Hef­ur lands­fram­leiðsla nokk­urn veg­inn staðið í stað síðan 2010, skuld­ir lands­ins tvö­fald­ast, og all­ar helstu hag­töl­ur versnað.

Svo kom kór­ónu­veirufar­ald­ur­inn, en smit­varn­irn­ar urðu til þess að það sauð á end­an­um upp úr og óeirðir brut­ust út um allt land. Hækk­un mat­væla­verðs vegna átak­anna í Úkraínu jók síðan enn frek­ar á raun­ir al­menn­ings.

Land án raf­magns

Verst af öllu er samt ástandið á raf­orku­markaði, þar sem rík­is­fyr­ir­tækið Eskom hef­ur bæði tögl og hagld­ir. Eskom get­ur hrein­lega ekki skaffað nægt raf­magn og er það núna orðið hluti af dag­legu lífi íbúa Suður-Afr­íku að raf­magnið er tekið af heilu borg­un­um stór­an hluta dags­ins.

Eskom er ald­argam­alt orku­fyr­ir­tæki og þótti nokkuð vel rekið á árum áður, en þjónaði samt aðallega þörf­um hvíta minni­hlut­ans á meðan aðskilnaðar­stefn­an var við lýði, og voru heim­ili svartra Suður-Afr­íku­búa yf­ir­leitt ekki tengd við raf­dreifi­kerfið. Það varð eitt af fyrstu um­bóta­verk­efn­um stjórn­valda, þegar aðskilnaðar­stefn­unni var kastað á haug­ana, að koma raf­magni í öll hús og var bætt aðgengi að raf­orku einn af mik­il­væg­ustu drif­kröft­um hag­vaxt­ar í land­inu. Kola­orku­ver lands­ins fram­leiddu meira en nóg af raf­magni, og ekki skort­ir held­ur kol­in.

Auk­inn hag­vöxt­ur þýddi að orkuþörf­in jókst, og vissu stjórn­völd það með löng­um fyr­ir­vara að auka þyrfti raf­orku­fram­leiðslu til að halda kerf­inu í jafn­vægi. Því miður var ekki nóg að gert og árið 2007 var kerfið sprungið, en ástandið samt viðráðan­legt og lausn í sjón­máli: tvö ný kola­orku­ver af stærstu gerð.

Nema hvað: spill­ing og fúsk plöguðu bygg­ingu nýju orku­ver­anna: þeir sem að fram­kvæmd­inni komu soguðu til sín fjár­magn, og þegar loks­ins var hægt að gang­setja orku­ver­in reynd­ust þau svo gölluð að annað þeirra get­ur ekki keyrt nema á 70% af­köst­um og hitt á aðeins 37% af­köst­um.

Hin gömlu orku­ver Eskom eru úr sér geng­in og úr­elt. Mörg þeirra spúa eitruðum reyk yfir ná­grennið, og bila þess á milli. Eins og það sé ekki nógu slæmt þá er fyr­ir­tækið að slig­ast und­an spill­ingu á öll­um stig­um. Spill­ing­in nær meira að segja því stigi að starfs­fólk þigg­ur mút­ur fyr­ir að skemma vél­búnað, svo kaupa þurfi viðgerð og vara­hluti dýr­um dóm­um.

Nýr for­stjóri, André de Ryu­ter, var ráðinn til að taka til í fé­lag­inu árið 2019, en það fór ekki bet­ur en svo að eitrað var fyr­ir Ryu­ter með blá­sýru. Hann lifði til­ræðið af, sagði af sér mánuði síðar, og hef­ur gant­ast með að það sé ekki ráðlegt fyr­ir um­deilda stjórn­end­ur að merkja kaffi­boll­ana sína.

50.000 kafnaðir kjúk­ling­ar

Hvað ger­ist svo þegar raf­magnið fer af? Inn­brotsþjóf­ar og ann­ar rumpu­lýður sæta fær­is, og er ekki eins og glæpatíðnin hafi verið lág fyr­ir. Örvænt­ing­in ýtir síðan enn frek­ar und­ir glæp­ina en hér um bil þriðjung­ur fólks á vinnualdri er án at­vinnu, og hjá ald­urs­hópn­um 15 til 24 ára mæl­ist at­vinnu­leysið yfir 60%. Helm­ing­ur lands­manna býr við sára fá­tækt og hjá engri ann­arri þjóð mæl­ist meiri ójöfnuður í skipt­ingu tekna.

Litla vinnu er að hafa enda eru fyr­ir­tæk­in lömuð á meðan raf­magnið vant­ar. Sum þeirra þurfa að loka þar til raf­magnið kem­ur aft­ur á, og mörg þeirra sitja uppi með tjón vegna skemmda á kæli­vöru. Draga þarf úr af­köst­um, og þurftu t.d. kjúk­linga­bænd­ur að slátra 10 millj­ón fugl­um fyrr á ár­inu því ekki er nóg raf­orka í boði til að loftræsta býl­in – í janú­ar fór raf­magnið af á ein­um stað og 50.000 fugl­ar köfnuðu.

Svo fer raf­magnið líka af vatns­hreins­istöðvun­um sem lands­menn reiða sig á, og fyr­ir vikið er sums staðar farið að bera á vatns­skorti, og í sum­ar braust út kólerufar­ald­ur.

Frétta­skýrend­ur ótt­ast að raf­orku­kerfið kunni á end­an­um að slig­ast. Ef það skyldi ger­ast að raf­magnið fari af svo vik­um skipt­ir þarf ekki að spyrja að leiks­lok­um.

Marx­ist­ar fá hljóm­grunn

Lýs­ing­in hér að fram­an er fjarri því tæm­andi, og samt virðist vand­inn svo risa­vax­inn að hann virk­ar næst­um óleys­an­leg­ur; hvert vanda­mál magn­ar upp það næsta.

Í sum­ar bár­ust þær frétt­ir að Kína ætlaði að reyna að koma til bjarg­ar, og gerðu stjórn­völd samn­ing á BRICS-ráðstefn­unni í Jó­hann­es­ar­borg í ág­úst síðastliðnum, um end­ur­bæt­ur á sum­um raf­orku­ver­um lands­ins og styrk­ingu dreifi­kerf­is­ins. Það væri a.m.k. skref í rétta átt, en gera þarf svo miklu meira. Á meðan er bullandi halli á rík­is­sjóði og vaxta­byrði hins op­in­bera í hæstu hæðum.

Kosn­ing­ar eru í vænd­um og benda kann­an­ir til að í fyrsta skiptið síðan 1994 muni Afr­íska þjóðarráðið (ANC), flokk­ur Zuma (og Mandela), missa hrein­an meiri­hluta á þingi. Miðju­flokk­ur demó­krata, sem er til­tölu­lega jarðbund­inn og eðli­leg­ur flokk­ur, sæk­ir hins veg­ar í sig veðrið og mæl­ist með 31% fylgi en fékk nærri 21% í kosn­ing­un­um 2019. Er það veru­legt áhyggju­efni að flokk­ur Marx­ista, EFF, nýt­ur einnig vax­andi fylg­is. Marx­ist­arn­ir, sem stýrt er af hrein­ræktuðum ruglu­dalli, fengu tæp 11% at­kvæða í síðustu kosn­ing­um en hafa náð allt að 18% fylgi í skoðana­könn­un­um og varla hægt að hugsa þá hugs­un til enda ef ANC og EFF ákvæðu að snúa sam­an bök­um til að mynda meiri­hluta.

Enn eina ferðina fylg­ist Afr­íka með – með önd­ina í háls­in­um.

mbl.is