Ljósin slokkna í Suður-Afríku

Sönghópur undirbýr sig fyrir keppni í Dúrban. Samfélagið er ekki …
Sönghópur undirbýr sig fyrir keppni í Dúrban. Samfélagið er ekki lamað þótt það sé lemstrað, en það er ekki auðvelt að þrauka þegar rafmagnið vantar. Það gæti þurft lítið til að steypa Suður-Afríku úr öskunni í eldinn. AFP/Marco Longari

Eftir að aðskilnaðarstefnunni lauk þótti Suður-Afríka í hópi efnilegustu hagkerfa heims. Landið er ágætlega staðsett, ríkt að náttúruauðlindum, og þjóðin bæði ung og nokkuð vel menntuð. Þá var aðdáunarvert að sjá hversu vel Suður-Afríkumönnum tókst að græða þau sár sem aðskilnaðarstefnan hafði skilið eftir sig. Heimsbyggðin öll, og ekki síst löndin sunnan Sahara, fylgdust spennt með, því ef Suður-Afríka gæti blómstrað þá gætu önnur hagkerfi álfunnar vafalaust blómstrað líka.

Mark fyrir Afríku

Í fyrra sendi rithöfundurinn Dipo Faloyin frá sér hrífandi bók, Africa Is Not a Country, þar sem hann greinir sérstöðu og vandamál Afríku frá ýmsum hliðum. Lýsingar Faloyins fá mig til að vilja stökkva upp í næstu vél til Lagos, á heimaslóðir höfundarins, og helst skoða þessa fallegu heimsálfu eins og hún leggur sig.

Í bókinni undirstrikar Faloyin að það ætti alls ekki að líta á Afríku sem einsleita heild, og að sýn margra Vesturlandabúa á álfunni sé allt í senn: bjöguð, ofureinfölduð og kjánaleg. Hann segir þó frá eftirminnilegu augnabliki árið 2010 þegar Afríka, öll sem ein heild, sat límd við sjónvarpsskjáinn með öndina í hálsinum:

Það hafði fallið í hlut Suður-Afríku að hýsa HM í knattspyrnu, fyrst allra Afríkuríkja, og vöknuðu strax efasemdir um ákvörðun FIFA: Hælbítarnir fullyrtu að Suður-Afríka gæti varla ráðið ráðið við heimsviðburð af þessari stærðargráðu og hefði jafnvel ekki burði til að byggja knattspyrnuleikvanga sem þættu boðlegir. Svo myndu knattspyrnuaðdáendur seint nenna að ferðast alla leið suður á syðsta odda Afríku, til lands sem er plagað af glæpum, þar sem hreisahverfin breiða úr sér yfir holt og hæðir, og fimmti hver maður er sýktur af HIV. Sú tilhugsun fór að læðast að fólki um gervalla Afríku að ef HM 2010 misheppnaðist, þá myndu líða nokkrir mannsaldrar þangað til önnur eins keppni yrði aftur haldin í álfunni.

Ég hef sama og engan áhuga á hópíþróttum, en mér þykir aftur á móti afar spennandi hvernig einstök augnablik í íþróttasögunni ná stundum að móta sjálfsmynd heilu þjóðfélaganna. Fyrsti leikur HM 2010 gerði gott betur og mótaði sjálfsmynd heillar heimsálfu:

Blásið var til leiks kl. 16.00 hinn 11. júní og mættu gestgjafarnir landsliði Mexíkó. Ómurinn í vúvúsela-lúðrunum var hávær og viðstöðulaus og liðin sóttu fram á víxl, en hvorugu þeirra tókst að skora svo að spennan var næstum yfirþyrmandi. Á 55. mínútu opnaðist loksins gat í vörn mexíkóska liðsins, og eftir fumlausa stoðsendingu þeysti Siphiwe Tshabalala upp vinstri vallarhelminginn og dúndraði boltanum fram hjá Óscari Pérez, efst í hægra hornið.

Kynnirinn áttaði sig á mikilvægi þessa atburðar. Með fyrsta marki mótsins hafði Tshabalala endanlega kveðið hælbítana í kútinn.

„Mark fyrir Suður-Afríku!“ hrópaði kynnirinn í hljóðnemann og bætti við: „… og mark fyrir alla Afríku!“

Hvert höggið á fætur öðru

Eflaust muna lesendur vel þá gleði og bjartsýni sem einkenndi HM 2010. Smellurinn hennar Shakiru, „Waka Waka“, sló í gegn og gott ef það má ekki enn heyra hvininn í vúvúsela-lúðrunum.

Í dag hefur gleðin og bjartsýnin vikið fyrir gremju og heift. Suður-Afríka glímir við langvarandi og djúpstæðan efnahagsvanda og stoðir samfélagsins eru við það að bresta. Árið 2010 var hápunktur í sögu landsins og síðan þá er eins og allt hafi legið niður á við.

Gott er að byrja söguna skömmu eftir alþjóðlegu fjármálakreppuna 2007 og 2008. Áhrifa kreppunnar gætti í Suður-Afríku eins og annars staðar en verðbréfamarkaðurinn þar er sá stærsti í álfunni. Nokkrum árum síðar tók verðið á mikilvægum hrávörum að lækka, en námustarfsemi af ýmsum toga myndar mikilvæga undirstöðu í hagkerfinu og er Suður-Afríka t.d. meiri háttar framleiðandi platínu, gulls og demanta.

Það má ekki sleppa að minnast á hlut sósíalistans Jacobs Zuma sem komst til valda árið 2009 en stefnumál hans gerðu lítið til að auka tiltrú fjárfesta á suðurafrísku atvinnulífi, og tók hann t.d. upp á því að þrengja að námageira landsins með það yfirlýsta og undarlega markmið að svartir þyrftu að eiga að lágmarki fjórðungshlut í öllum námufyrirtækjum. Þá fékk spilling að grassera í landinu í forsetatíð Zuma og var hann sjálfur dreginn fyrir dómstóla sakaður um peningaþvætti, fjárkúgun, spillingu og mútuþægni.

Undanfarinn áratug var eins og ástandið versnaði ár frá ári; erlent fjármagn leitaði á aðrar slóðir og greina mátti merki um vaxandi fjármagns- og atgervisflótta. Hefur landsframleiðsla nokkurn veginn staðið í stað síðan 2010, skuldir landsins tvöfaldast, og allar helstu hagtölur versnað.

Svo kom kórónuveirufaraldurinn, en smitvarnirnar urðu til þess að það sauð á endanum upp úr og óeirðir brutust út um allt land. Hækkun matvælaverðs vegna átakanna í Úkraínu jók síðan enn frekar á raunir almennings.

Land án rafmagns

Verst af öllu er samt ástandið á raforkumarkaði, þar sem ríkisfyrirtækið Eskom hefur bæði tögl og hagldir. Eskom getur hreinlega ekki skaffað nægt rafmagn og er það núna orðið hluti af daglegu lífi íbúa Suður-Afríku að rafmagnið er tekið af heilu borgunum stóran hluta dagsins.

Eskom er aldargamalt orkufyrirtæki og þótti nokkuð vel rekið á árum áður, en þjónaði samt aðallega þörfum hvíta minnihlutans á meðan aðskilnaðarstefnan var við lýði, og voru heimili svartra Suður-Afríkubúa yfirleitt ekki tengd við rafdreifikerfið. Það varð eitt af fyrstu umbótaverkefnum stjórnvalda, þegar aðskilnaðarstefnunni var kastað á haugana, að koma rafmagni í öll hús og var bætt aðgengi að raforku einn af mikilvægustu drifkröftum hagvaxtar í landinu. Kolaorkuver landsins framleiddu meira en nóg af rafmagni, og ekki skortir heldur kolin.

Aukinn hagvöxtur þýddi að orkuþörfin jókst, og vissu stjórnvöld það með löngum fyrirvara að auka þyrfti raforkuframleiðslu til að halda kerfinu í jafnvægi. Því miður var ekki nóg að gert og árið 2007 var kerfið sprungið, en ástandið samt viðráðanlegt og lausn í sjónmáli: tvö ný kolaorkuver af stærstu gerð.

Nema hvað: spilling og fúsk plöguðu byggingu nýju orkuveranna: þeir sem að framkvæmdinni komu soguðu til sín fjármagn, og þegar loksins var hægt að gangsetja orkuverin reyndust þau svo gölluð að annað þeirra getur ekki keyrt nema á 70% afköstum og hitt á aðeins 37% afköstum.

Hin gömlu orkuver Eskom eru úr sér gengin og úrelt. Mörg þeirra spúa eitruðum reyk yfir nágrennið, og bila þess á milli. Eins og það sé ekki nógu slæmt þá er fyrirtækið að sligast undan spillingu á öllum stigum. Spillingin nær meira að segja því stigi að starfsfólk þiggur mútur fyrir að skemma vélbúnað, svo kaupa þurfi viðgerð og varahluti dýrum dómum.

Nýr forstjóri, André de Ryuter, var ráðinn til að taka til í félaginu árið 2019, en það fór ekki betur en svo að eitrað var fyrir Ryuter með blásýru. Hann lifði tilræðið af, sagði af sér mánuði síðar, og hefur gantast með að það sé ekki ráðlegt fyrir umdeilda stjórnendur að merkja kaffibollana sína.

50.000 kafnaðir kjúklingar

Hvað gerist svo þegar rafmagnið fer af? Innbrotsþjófar og annar rumpulýður sæta færis, og er ekki eins og glæpatíðnin hafi verið lág fyrir. Örvæntingin ýtir síðan enn frekar undir glæpina en hér um bil þriðjungur fólks á vinnualdri er án atvinnu, og hjá aldurshópnum 15 til 24 ára mælist atvinnuleysið yfir 60%. Helmingur landsmanna býr við sára fátækt og hjá engri annarri þjóð mælist meiri ójöfnuður í skiptingu tekna.

Litla vinnu er að hafa enda eru fyrirtækin lömuð á meðan rafmagnið vantar. Sum þeirra þurfa að loka þar til rafmagnið kemur aftur á, og mörg þeirra sitja uppi með tjón vegna skemmda á kælivöru. Draga þarf úr afköstum, og þurftu t.d. kjúklingabændur að slátra 10 milljón fuglum fyrr á árinu því ekki er nóg raforka í boði til að loftræsta býlin – í janúar fór rafmagnið af á einum stað og 50.000 fuglar köfnuðu.

Svo fer rafmagnið líka af vatnshreinsistöðvunum sem landsmenn reiða sig á, og fyrir vikið er sums staðar farið að bera á vatnsskorti, og í sumar braust út kólerufaraldur.

Fréttaskýrendur óttast að raforkukerfið kunni á endanum að sligast. Ef það skyldi gerast að rafmagnið fari af svo vikum skiptir þarf ekki að spyrja að leikslokum.

Marxistar fá hljómgrunn

Lýsingin hér að framan er fjarri því tæmandi, og samt virðist vandinn svo risavaxinn að hann virkar næstum óleysanlegur; hvert vandamál magnar upp það næsta.

Í sumar bárust þær fréttir að Kína ætlaði að reyna að koma til bjargar, og gerðu stjórnvöld samning á BRICS-ráðstefnunni í Jóhannesarborg í ágúst síðastliðnum, um endurbætur á sumum raforkuverum landsins og styrkingu dreifikerfisins. Það væri a.m.k. skref í rétta átt, en gera þarf svo miklu meira. Á meðan er bullandi halli á ríkissjóði og vaxtabyrði hins opinbera í hæstu hæðum.

Kosningar eru í vændum og benda kannanir til að í fyrsta skiptið síðan 1994 muni Afríska þjóðarráðið (ANC), flokkur Zuma (og Mandela), missa hreinan meirihluta á þingi. Miðjuflokkur demókrata, sem er tiltölulega jarðbundinn og eðlilegur flokkur, sækir hins vegar í sig veðrið og mælist með 31% fylgi en fékk nærri 21% í kosningunum 2019. Er það verulegt áhyggjuefni að flokkur Marxista, EFF, nýtur einnig vaxandi fylgis. Marxistarnir, sem stýrt er af hreinræktuðum rugludalli, fengu tæp 11% atkvæða í síðustu kosningum en hafa náð allt að 18% fylgi í skoðanakönnunum og varla hægt að hugsa þá hugsun til enda ef ANC og EFF ákvæðu að snúa saman bökum til að mynda meirihluta.

Enn eina ferðina fylgist Afríka með – með öndina í hálsinum.

mbl.is