Segir mannréttindi unga mannsins brotin

Páll Winkel fangelsismálastjóri.
Páll Winkel fangelsismálastjóri. mbl.is/Árni Sæberg

Fang­els­is­mála­stjóri seg­ir fanga­verði hjá stofn­un­inni ekki nægi­lega marga til að hægt sé að reka kerfi þeirra hjá öðrum stofn­un­um. Hann gagn­rýn­ir að ekki sé hægt að veita fögn­um geðheil­brigðisþjón­ustu nema fanga­verðir séu ávallt viðstadd­ir og seg­ir þá kröfu ekki gerða hjá öðrum þeim stofn­un­um sem fang­ar eru vistaðir á hverju sinni, utan fang­elsa. 

Guðmund­ur Ingi Þórodds­son, formaður Af­stöðu - fé­lags fanga, vakti at­hygli á máli ungs manns í gær, sem sit­ur nú í gæslu­v­arðhaldi á Litla-Hrauni. Guðmund­ur seg­ir geðheil­brigðis­kerfið hafa brugðist mann­in­um sem er í al­var­legu geðrofi en fær ekki að leggj­ast inn á bráðadeild Land­spít­al­ans. 

Mál sem þessi koma reglu­lega upp 

Páll Win­kel fang­els­is­mála­stjóri seg­ir mál sem þessi reglu­lega koma upp í fang­els­un­um. Mál þar sem fang­ar fá ekki aðgang að geðheil­brigðisþjón­ustu nema með til­tekn­um skil­yrðum. Skil­yrðin eru að það séu ávallt viðstadd­ir fanga­verðir seg­ir Páll, all­an þann tíma sem viðkom­andi er á sjúkra­stofn­un.

„Það er eitt­hvað sem fang­els­is­mála­stofn­un get­ur ekki. Við höf­um ekki mannafla til að reka okk­ar kerfi hjá öðrum stofn­un­um.“

Auk held­ur seg­ir Páll það ekki verk­efni fang­els­is­mála­stofn­un­ar að halda uppi ör­ygg­is­gæslu í öðrum stofn­un­um. Hann nefn­ir sem dæmi að eng­um hafi dottið í hug að láta fanga­verði sitja yfir ein­stak­ling­um sem eru vistaðir á Stuðlum, eða á öðrum þeim stofn­un­um þar sem fang­ar eru vistaðir hverju sinni utan fang­elsa. 

Geðdeild­ir þurfa að vera í stakk bún­ar til að tryggja ör­yggi

Páll seg­ir nauðsyn­legt að leysa málið til lengri tíma, enda þurfi geðdeild­ir að vera í stakk bún­ar til þess að geta tryggt ör­yggi sjúk­linga hvort sem þeir eru frjáls­ir menn, hand­tekn­ir menn, fang­ar í gæslu­v­arðhaldi eða afplán­un. 

Hann seg­ir það þannig skjóta skökku við að stofn­un, eða deild, sem gef­ur sig út fyr­ir að vista hættu­lega ein­stak­linga, sem eru hættu­leg­ir um­hverf­inu, sjálf­um sér og/​eða öðrum, geti tryggt ör­yggi fyr­ir al­menna borg­ara sem eru í þannig aðstöðu, en ekki fyr­ir fanga sem eru í þörf fyr­ir bráða geðheil­brigðisþjón­ustu.  

Víða pott­ur brot­inn

Spurður hvort ekki sé verið að brjóta mann­rétt­indi þessa unga manns, með því að veita hon­um ekki þá heil­brigðisþjón­ustu sem hann þarf á að halda, svar­ar Páll því ját­andi. Hann seg­ir jafn­framt að eft­ir­litsaðilar hafi þegar bent á það og að umboðsmaður Alþing­is hafði meðal ann­ars minnst á vanda­málið í árs­skýrslu sinni fyr­ir síðasta ár. 

„Þannig að jú það er víða pott­ur brot­inn, það verður að koma þessu í ásætt­an­leg­an far­veg.“

Setja hags­muni sjúk­linga í for­grunn

Er ein­hver aðstoð sem þið getið veitt inn­an fang­els­anna?

„Við rek­um ekki sjúkra­stofn­an­ir og svona þjón­ustu er ekki hægt að veita ann­ars staðar en á sjúkra­stofn­un­um. Það er ekki heil­brigðisþjón­usta á sóla­hrings­grund­velli í fang­els­um lands­ins. Þetta er átak­an­legt fyr­ir alla sem að að þessu koma,“ seg­ir hann. 

Páll seg­ir Fang­els­is­mála­stofn­un þó setja hags­muni sjúk­linga í for­grunn og að stofn­un­in hafi reynt að safna sam­an starfs­fólki af skrif­stofu Fang­els­is­mála­stofn­un­ar til að kanna hvort að hægt yrði að sinna mönn­un með þeim hætti, í ljósi þess að fanga­verðirn­ir eru ekki nógu marg­ir. 

„En þrátt fyr­ir það þá mun­um við ekki geta út­vegað mann­skap til að vera fyr­ir utan geðdeild í marga sól­ar­hringa.“

mbl.is