Kormákur Geirharðsson, annar eigandi Herrafataverslunar Kormáks og Skjaldar og Ölstofu Kormáks og Skjaldar, fagnar sextugsafmæli sínu í dag með stæl. Hann er á ferðalagi með eiginkonu sinni, Dýrleif Ýr Örlygsdóttur, og vinum í Egyptalandi.
Kormákur greinir frá ferðalaginu í viðtali í Morgunblaðinu í tilefni tímamótanna. Þar kemur fram að hópurinn hafi siglt niður ánna Níl og muni skoða Dal konunganna í dag og dvelja á fínu hóteli rétt hjá Luxor. Kormákur er án efa í essinu sínu enda segir hann ferðalög og golf sín helstu áhugamál.
Dalur konunganna er einstakt fyrirbæri. Í þessum einangraða og gróðurlausa dal, þar sem hitinn fer iðulega í 50 gráður á Celsius á sumrin voru faraóar Egyptalands hins forna greftraðir um aldir. Talið er að Tutmosis I hafi verið fyrsti faraóinn sem var greftraður þarna, um 1500 fyrir Krist en alls hafa fundist 63 grafir í dalnum. Kunnast er án efa grafhýsi Tuthankamons, sem fannst árið 1922 eftir mikla leit fornleifafræðingsins Howard Carters.