Konurnar syngja og dansa í Hörpu

Ágota Joó stjórnaði Kvennakór Reykjavíkur á tónleikum í Hörpu í …
Ágota Joó stjórnaði Kvennakór Reykjavíkur á tónleikum í Hörpu í október og gerir það aftur á laugardag. Ljósmynd/Gunnar Jónatansson

Kvennakór Reykja­vík­ur fagn­ar 30 ára starfsaf­mæli í ár og sér­stak­ir af­mælis­tón­leik­ar verða í Hörpu kl. 16.00 á laug­ar­dag, 18. nóv­em­ber.

„Við höf­um alltaf verið með flotta og glæsi­lega tón­leika en það er ekki á hverj­um degi sem við syngj­um og döns­um í Hörpu,“ seg­ir Ágota Joó, kór­stjóri frá árs­byrj­un 2010. „Við bjóðum upp á skemmti­lega dag­skrá fyr­ir eyru og augu.“

Um 50 til 60 kon­ur eru í kórn­um og taka 48 þeirra þátt í tón­leik­un­um, þar sem Bergþór Páls­son verður kynn­ir. Ágota seg­ir að efn­is­skrá­in verði mjög hátíðleg og í hátíðleg­um bún­ingi með frá­bærri hljóm­sveit und­ir stjórn Þórðar Magnús­son­ar, og ein­söngv­ara, Hall­veigu Rún­ars­dótt­ur sópr­an. Mikið verði lagt upp úr sam­spili sviðsetn­ing­ar, söngs og dans­atriða.

Boðið verður upp á fjöl­breytta tónlist. „Við syngj­um lög sem fólk þekk­ir og kom­um öll­um í gott stuð,“ seg­ir Ágota. Nefn­ir í því sam­bandi meðal ann­ars drykkju­lagið Li­biamo úr óper­unni La Tra­viata eft­ir Ver­di, Habanera úr óper­unni Car­men eft­ir Bizet, lif­andi vín­ar­tónlist eft­ir Johann Strauss, lag úr My Fair Lady og lög úr Bohem­ian Rhapso­dy eft­ir hljóm­sveit­ina Qu­een. „Við döns­um og syngj­um hressi­leg can-can lög og syngj­um líka lagið Lalíf eft­ir Kjart­an Ólafs­son, en hann á af­mæli 18. nóv­em­ber, sama dag og tón­leik­arn­ir verða.“ Skemmt­un­in hefst á lag­inu Af­mæl­is­gleði eft­ir Strauss, en text­inn er eft­ir Álf­heiði Ing­ólfs­dótt­ur, sem er í kórn­um. „Lagið er lýs­andi fyr­ir tón­leik­ana og kem­ur viðstödd­um í gang,“ seg­ir Ágota.

Ung­versk áhrif

Ágota var sam­kvæm­is­dans­ari í Ung­verjalandi. Hún út­skrifaðist frá Franz Liszt-tón­list­ar­há­skól­an­um í Sze­ged sem pí­anó­kenn­ari, tón­fræðikenn­ari og kór­stjóri 1988 og kom þá til Íslands, flutti til Ísa­fjarðar til að kenna tónlist og dans. Þar kynnt­ist hún manni sín­um, Vil­berg Viggós­syni, og eft­ir þrjú ár fyr­ir vest­an færðu þau sig um set til Njarðvík­ur, þar sem hún stjórnaði meðal ann­ars Kvennakór Suður­nesja og var und­ir­leik­ari hjá Karla­kór Kefla­vík­ur. Þau stofnuðu tón­list­ar­skól­ann DoR­eMi í Reykja­vík 1994 og fluttu í bæ­inn 2000.

Af­mælis­árið hef­ur verið viðburðaríkt. Kór­inn hélt til dæm­is lands­mót ís­lenskra kvennakóra og tók þátt í tón­leik­um Eric Whitacre í Hörpu í nýliðnum mánuði. Ágota seg­ist ætíð hafa haft ung­verska tón­list­ar­menn­ingu í há­veg­um og blandað henni við þá ís­lensku með góðum ár­angri í kór­a­starf­inu. „Ég reyni alltaf að hafa mjög metnaðarfulla efn­is­skrá sem er jafn­framt skemmti­leg fyr­ir áheyr­end­ur.“ Nú sé kraf­an að söng­ur þurfi jafn­framt að bjóða upp á sjón­ræna skemmt­un og hún aðlagi sig að breyttu um­hverfi. „Það má samt ekk­ert spilla tón­listar­flutn­ingn­um.“

mbl.is