Kvennakór Reykjavíkur fagnar 30 ára starfsafmæli í ár og sérstakir afmælistónleikar verða í Hörpu kl. 16.00 á laugardag, 18. nóvember.
„Við höfum alltaf verið með flotta og glæsilega tónleika en það er ekki á hverjum degi sem við syngjum og dönsum í Hörpu,“ segir Ágota Joó, kórstjóri frá ársbyrjun 2010. „Við bjóðum upp á skemmtilega dagskrá fyrir eyru og augu.“
Um 50 til 60 konur eru í kórnum og taka 48 þeirra þátt í tónleikunum, þar sem Bergþór Pálsson verður kynnir. Ágota segir að efnisskráin verði mjög hátíðleg og í hátíðlegum búningi með frábærri hljómsveit undir stjórn Þórðar Magnússonar, og einsöngvara, Hallveigu Rúnarsdóttur sópran. Mikið verði lagt upp úr samspili sviðsetningar, söngs og dansatriða.
Boðið verður upp á fjölbreytta tónlist. „Við syngjum lög sem fólk þekkir og komum öllum í gott stuð,“ segir Ágota. Nefnir í því sambandi meðal annars drykkjulagið Libiamo úr óperunni La Traviata eftir Verdi, Habanera úr óperunni Carmen eftir Bizet, lifandi vínartónlist eftir Johann Strauss, lag úr My Fair Lady og lög úr Bohemian Rhapsody eftir hljómsveitina Queen. „Við dönsum og syngjum hressileg can-can lög og syngjum líka lagið Lalíf eftir Kjartan Ólafsson, en hann á afmæli 18. nóvember, sama dag og tónleikarnir verða.“ Skemmtunin hefst á laginu Afmælisgleði eftir Strauss, en textinn er eftir Álfheiði Ingólfsdóttur, sem er í kórnum. „Lagið er lýsandi fyrir tónleikana og kemur viðstöddum í gang,“ segir Ágota.
Ungversk áhrif
Ágota var samkvæmisdansari í Ungverjalandi. Hún útskrifaðist frá Franz Liszt-tónlistarháskólanum í Szeged sem píanókennari, tónfræðikennari og kórstjóri 1988 og kom þá til Íslands, flutti til Ísafjarðar til að kenna tónlist og dans. Þar kynntist hún manni sínum, Vilberg Viggóssyni, og eftir þrjú ár fyrir vestan færðu þau sig um set til Njarðvíkur, þar sem hún stjórnaði meðal annars Kvennakór Suðurnesja og var undirleikari hjá Karlakór Keflavíkur. Þau stofnuðu tónlistarskólann DoReMi í Reykjavík 1994 og fluttu í bæinn 2000.
Afmælisárið hefur verið viðburðaríkt. Kórinn hélt til dæmis landsmót íslenskra kvennakóra og tók þátt í tónleikum Eric Whitacre í Hörpu í nýliðnum mánuði. Ágota segist ætíð hafa haft ungverska tónlistarmenningu í hávegum og blandað henni við þá íslensku með góðum árangri í kórastarfinu. „Ég reyni alltaf að hafa mjög metnaðarfulla efnisskrá sem er jafnframt skemmtileg fyrir áheyrendur.“ Nú sé krafan að söngur þurfi jafnframt að bjóða upp á sjónræna skemmtun og hún aðlagi sig að breyttu umhverfi. „Það má samt ekkert spilla tónlistarflutningnum.“
Fáðu þér áskrift til að lesa áfram
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu,
rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki
á mbl.is.