Leggja til engar veiðar á rækju í Djúpinu

Heimildir til veiða á rækju í Ísafjarðardjúpi hafa sveiflast mikið …
Heimildir til veiða á rækju í Ísafjarðardjúpi hafa sveiflast mikið undanfarinn áratug. mbl.is/Halldór Sveinbjörnsson

Haf­rann­sókna­stofn­un legg­ur til, í sam­ræmi við varúðarsjón­ar­mið, að afli rækju í Ísa­fjarðar­djúpi verði eng­inn fisk­veiðiárið 2023/​2024, að því er fram kem­ur í til­kynn­ingu á vef stofn­un­ar­inn­ar.

Síðasta var núll­ráðgjöf fyr­ir teg­und­ina var fisk­veiðiárið 2021/​2022 og þar áður 2010/​2011.

Sam­kvæmt skrán­ingu fiski­stofu var 529 tonn­um af rækju úr Djúp­inu landað á síðasta fisk­veiðiári en sög­ur fóru af mokveiði síðasta vet­ur. Mikl­ar sveifl­ur hafa verið í ráðgjöf­inni und­an­far­in ára­tug og mátti 2013/​2014 veiða 1.100 tonn.

Þá er lagt til eð ekki verði veitt meira af rækju í Arnar­f­irði 2023/​2024 en 166 tonn. Alls var landað 243,3 tonn­um af rækju í Arnar­f­irði á síðasta fisk­veiðiári. Ráðgjöf­in fyr­ir arn­ar­fjarðarrækju var síðast lægri 2021/​2022 þegar hún nam 149 tonn­um en núll­ráðgjöf var árið 2017/​2018.

Hugs­an­leg af­leiðing afráns

Í til­kynn­ingu haf­rann­sókna­stofn­un­ar seg­ir að stofn­vísi­tala rækju í Ísa­fjarðar­djúpi hafi mælst mjög lág og að vísi­töl­ur ýsu hafa verið háar frá ár­inu 2004, mjög háar frá 2020. Útbreiðslu­svæði ýsu hef­ur stækkað og haustið 2023 fannst ýsa inn eft­ir öllu Ísa­fjarðar­djúpi.

Jafn­framt seg­ir að stofn­vísi­tala rækju í Arnar­f­irði lækkaði árið 2023 og var svipuð og á ár­un­um 2018-2021. Mikið var af ýsu á svæðinu en árin 2020-2023 voru vísi­töl­ur ýsu þær hæstu frá ár­inu 2011. Nán­ari upp­lýs­ing­ar um niður­stöður stofn­mæl­ing­ar­inn­ar í Arnar­f­irði, má finna í tækniskjali.

Sagt var frá minni rækjuráðgjöf og auk­inni ýsu­gengd einnig við Snæ­fells­nes í maí síðastliðnum er lögð var fram ráðgjöf um 375 tonna há­marks­veiði á rækju á svæðinu á næsta ári.

mbl.is