Fiskeldisfyrirtæki skulu tryggja að lax verði ekki kynþroska á eldistíma í sjókvíum, samkvæmt drögum að breytingum á reglugerð um fiskeldi sem Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra hefur lagt fram í samráðsgátt stjórnvalda. Breytingartillögurnar voru unnar í samráði við Matvælastofnun og Hafrannsóknastofnun og er gert ráð fyrir að Matvælastofnun fái auknar heimildir til eftirlits með kynþroska í eldiskvíum og sláturhúsum.
Eftirlit verður aukið með víðtækari hætti og rekstrarleyfishöfum gert skylt að viðhafa neðansjávareftirlit, köfun eða neðansjávarmyndavél, með ástandi netpoka á alla vega 30 daga fresti og stundum sjö daga fresti.
Til stendur að auka lúsatalningu til muna og verði það gert í öllum kvíum. Lagt er til að lúsatalning verði framkvæmd á tveggja vikna fresti þegar sjávarhiti mælist hærri en 4°C en vikulega þegar hann fer yfir 8°C.