Förgun fisks vegna ágengni laxalúsar í Tálknafirði mun valda því að Arnarlax verður af fimm til sex milljónum evra, jafnvirði 770 til 925 milljónum íslenskra króna, á fjórða ársfjórðungi. Þetta má lesa úr nýlegri tilkynningu móðurfélagsins Icelandic Salmon AS til kauphallarinnar vegna uppgjörs á þriðja ársfjórðungi.
„Í október 2023, eftir lok þriðja ársfjórðungs, þurfti samstæðan að bregðast við óheppilegri líffræðilegri áskorun á Tálknafirði. Atvikið var fljótlega talið stefna heilsu og vellíðan fisksins í hættu og var ákveðið að taka umtalsvert magn úr umferð,“ segir í tilkynningunni.
Félagið áætlar engu að síður að framleiða 17 þúsund tonn af laxi á árinu, sem er aukning frá 16 þúsund tonnum á síðasta ári.
„Til lengri tíma litið höldum við áfram að sjá möguleika til vaxtar, allt að 26.000 tonnum á núverandi leyfum. Þetta er stutt af mikilli eftirspurn eftir sjálfbærum eldislaxi,“ er haft eftir Birni Hembre, forstjóra Icelandic Salmon.
Á þriðja ársfjórðungi framleiddi samstæða Icelandic Salmon 4.040 tonn sem er 236 tonna aukning frá sama ársfjórðungi á síðasta ári.
Velta samstæðunnar nam 42 milljónum evra á ársfjórðungnum, um 6.475 milljónir íslenskra króna, sem er 25% aukning frá sama tímabili 2022 þegar veltan nam 32 milljónum evra. Þá skilaði reksturinn þriggja milljóna evra hagnaði fyrir skatta og fjármagnsliði, sem gerir um 0,73 evrur á framleitt kíló en á sama tímabili á síðasta ári var þetta 0,99 evrur. Lækkun rekstrarafkomu á hvert framleitt kíló er sagt mega rekja til hækkun kostnaðarliða.
Seiðaframleiðslan er sögð hafa náð miklum árangri og er meðalvigt seiða nú 236 grömm sem er 36% aukning frá 2022.
Icelandic Salmon AS var skráð á Nasdaq First North vaxtarmarkaðinn á Íslandi í september og varð þar með 20. félagið sem tekið er til viðskipta á mörkuðum Nasdaq Nordic í ár.